fimmtudagur, september 30

Að eyða efanum

H?fundurÞað er ekki von að vel fari fyrir fyrstu kynslóð á mölinni, hún fríkar út á valkostunum og sekkur til botns í kvölinni.
(Megas: „Reykjavíkurnætur“)

Þegar ég byrjaði að læra latínu í menntó kenndi mér maður sem leit út fyrir að vera nógu gamall til að hafa lært latínu sem móðurmál. Alltaf þegar hann sat yfir prófum las hann sömu bókina sér til dægrastyttingar: Latneska lestrarbók Kristins Ármannssonar. Þegar aðrir kennarar nýttu prófayfirsetur í að lesa Mannlíf eða nýjustu skáldsöguna eftir Jude Deveraux hélt Eyjólfur latínukennari uppteknum hætti og þræddi sig í gegnum sömu bókina og hann kenndi fimm daga vikunnar. Sennilega hafði hann haft þennan sið frá upphafi.

Í heimi þar sem jafnaðargeð manna vex í öfugu hlutfalli við nettengingu þeirra er svona staðfesta sjaldséð fyrirbæri. Nútíminn er jú, eins og allir vita, „hið póstmóderníska ástand“. Við lifum í heimi tákna og skilaboða og hvar sem við erum stödd þurfum við að taka afstöðu til þeirra upplýsinga sem við innbyrðum og þeirra valkosta sem standa til boða. Daglega veljum við um að keyra eða taka strætó. Við veljum um Hagkaup, 10-11 eða Nóatún. Vanish eða Always. Pepsí eða Kók. Moggann eða Fréttablaðið. Að gera eða gera ekki.

Ef einhver efast um að þetta sé satt ætti sá hinn sami að kveikja á útvarpinu og kynna sér hvað stendur þar til boða. Landslag íslenskra útvarpsstöðva er ekki bara í sífelldri stækkun; það er í sífelldri breytingu. Útvarpsstöðvar fara jafnskjótt og þær koma. Íslenska stöðin varð að Mix FM. Útvarp Saga varð að Íslensku stöðinni, en um svipað leyti varð til allt önnur stöð með öðrum áherslum sem hét líka Útvarp Saga. Það sem einu sinni var Aðalstöðin varð seinna Gull 909, sem varð seinna BBC World Service, sem breyttist í sólarhringsauglýsingu fyrir Vanilla Coke, þar sem nú er Skonrokk. Exið breyttist í Radíó-X, sem breyttist aftur í Exið. Útvarpshlustandinn er ekki fyrr búinn að velja sér uppáhaldsstöð en sú stöð hættir að vera til og hann þarf að velja aðra. Og alltaf þegar hann er búinn að renna í gegnum allar stöðvarnar og velja einhverja til að hlusta á hefur hann sífelldar áhyggjur af því að það sé verið að spila eitthvað annað á einhverri annarri stöð, sem hann vill frekar hlusta á.

Að vera eða ekki vera. Líkt og á Helsingjaeyri forðum kemur efinn alltaf til sögunnar. Við efumst alltaf um leið og við framkvæmum. Hugsum hvernig hefði farið ef við hefðum ekki valið þennan kost heldur hinn. Auðvitað getum við aldrei vitað neitt um það sem hefði gerst ef við hefðum breytt öðruvísi, og í flestum tilvikum hættum við fljótt að hugsa um það.

En óvissan verður sumum óbærileg. Kannanir sýna að helsta orsökin fyrir alkóhólisma er ekki arfgengi, eins og sumir halda, heldur einfaldlega sú staðreynd að fólk þolir ekki lengur að taka sífellt afstöðu. Það fríkar út og velur flöskuna fremur en kvölina. Að lokum áttar þó flestir sig á því að áfengisvíma er jafnvel enn friðlausara hugarástand en ríkjandi skipulag heimsins. Leiðin til lækningar felst þá í því að finna kjölfestu og friða hugann, sniðganga óreiðuna, hafna öllum skilaboðunum sem manni standa til boða og velja einn texta til þess að fylla upp í tómið. Flestir velja Biblíuna eða AA-bókina.

Fyrir nokkrum vikum datt einhverjum það snjallræði í hug að gera upplestur á AA-bókinni aðgengilegan hverjum sem er, allan sólarhringinn, og það í útvarpinu. Þar með varð til sú þversögn að nú getur fólk kveikt á útvarpinu til þess að finna kjölfestu og reglusemi. Nú er AA-bókin á FM 88,5 orðin jafnörugg staðreynd og síðasta lag fyrir fréttir. Það besta er auðvitað að maður þarf ekki einu sinni að vera alkóhólisti til þess að njóta hennar. Í stað þess að auka líkurnar á taugasjúkdómum með því að stressa sig yfir því hvaða stöð maður eigi að velja getur maður nú stillt á 88,5 og öðlast sömu hugarró og Eyjólfur latínukennari fékk við að lesa Latneska lestrarbók Kristins Ármannssonar. AA-bókin er í upplestri núna. Alltaf, alls staðar. Njótum hennar á meðan við getum.