sunnudagur, apríl 10

Skýjaborgarar í frí

HöfundurVegna anna meðlima Skýjaborga verður vefritið ekki uppfært um óákveðinn tíma...
>> Lesa

sunnudagur, apríl 3

Bernskan og fögnuðurinn

HöfundurVilborg Dagbjartsdóttir: Fiskar hafa enga rödd
JPV-útgáfa, 2004


Tólf ár eru liðin frá því að Vilborg Dagbjartsdóttir sendi síðast frá sér ljóðabók. Þar á undan leið tuttugu og eitt ár á milli bóka. Á fjörutíu og fjögurra ára löngum ferli hefur þessi virta skáldkona aðeins skrifað fimm ljóðabækur, auk ljóða í tímaritum. Ævistarf Vilborgar liggur fyrst og fremst á sviði kennslu og barnabókmennta, en hún starfaði sem barnaskólakennari í hálfan fimmta áratug, og þær barnabækur sem hún hefur skrifað og þýtt skipta tugum. Þrátt fyrir það bera ljóð Vilborgar þess engin merki að vera aukabúgrein eða tómstundagaman. Allt frá upphafi hefur Vilborg fylgt þeirri reglu ímagistanna að teikna upp skýrar ljóðmyndir með orðum sem „hitta í mark“, ljóð hennar eru ekki „um það bil“ heldur „akkúrat“, tær og sjaldnast torskilin, þótt margt leynist undir yfirborðinu.

Fiskar hafa enga rödd, nýjasta bók Vilborgar, markar ekki beinlínis þáttaskil á ferli hennar, heldur er hún eðlilegt framhald af fyrri bókum. Yrkisefnin eru kunnugleg; ljóð um hugarheim barnsins eru sérstaklega áberandi. Við kynnumst sveitastelpunni sem fagnar nýju kúnni á bænum, syni flugfreyjunnar sem hefur meiri áhuga á því að teikna flugvélar en gera deilingardæmi í stílabókina sína og leikskólabarninu sem gleðst á haustmorgni yfir því að guð hafi sett glimmer á götuna. Fögnuður og lífsgleði eru helstu einkenni þessara ljóða. Ljóðið „Vor“ (bls. 14) fjallar um stúlku sem vaknar að morgni og uppgötvar að vorið hefur komið um nóttina: „Hún fann návist þess / eins og það væri manneskja / eða guð“. Hér er komið nýtt tilbrigði við gamalt stef, en ljóðið „Undur“, í Laufinu á trjánum, fyrstu ljóðabók Vilborgar, fjallar líka um það þegar vorið kemur að nóttu: „Þetta skeði í nótt / meðan ég svaf,“ segir þar. Upphafsljóðin í þessum tveimur bókum eiga líka margt sameiginlegt, bæði fjalla þau um mörk draums og veruleika. Ljóðmælandinn í „Raunveruleika“ (Fiskar hafa enga rödd, bls. 7) veit ekki hvort sumir dagar eru raunverulegri en aðrir, heldur „man aðeins drauminn / sem bjó í huga mínum“.

Titill bókarinnar er sóttur í ljóðið „Reynsla“ (bls. 12) sem er endurminning konu um atburð sem gerðist þegar hún var átta ára. Hún fangar síli með höndunum og sleppir því í bala þar sem hún ætlar að skoða það, en áttar sig ekki á því að vatnið í balanum er sjóðandi heitt svo að sílið rekur upp skerandi vein og deyr samstundis. Í þessu ljóði eru orðuð sannindi sem margar persónur í ljóðum Vilborgar eiga sameiginleg: „Hvað eru staðreyndir og skynsemi ef reynslan stangast á við hvorutveggja?“ Enginn trúir stúlkunni þegar hún segir að fiskurinn hafi veinað, því fiskar hafa enga rödd. Segja má því að í titli bókarinnar felist visst röklegt mótvægi við þann draumkennda og einlæga heim sem er svo áberandi í henni.

Ljóð um konur hafa lengi fylgt Vilborgu, jafnvel pólitísk kvennaljóð, og svo er einnig hér. Amman í ljóðinu „Klædd og komin á ról“ (bls. 8) sækir sér góðan dag með því að hneigja sig í sólarátt og fara með morgunbæn, íslensk alþýðukona sem er að sínu leyti jafnmikilvæg samfélagsleg stoð og trygga eiginkonan í ljóðinu „Vör“ (bls. 9) sem undirbýr komu eiginmanns síns af sjónum. „Mansöngur útivinnandi húsmóður“ (bls. 18-19) hefur undirtitilinn „Gömul tugga“, og má af því ráða að Vilborg nálgist viðfangsefnið með nokkurri gamansemi, þótt boðskapurinn sé alvarlegur. Ljóðið fjallar um húsmóður sem er svo upptekin einn morguninn að pakka niður fyrir manninn sinn sem er að fara til útlanda og koma börnum sínum í skólann og leikskólann að hún mætir sjálf of seint í vinnuna og fær skammir fyrir: „Verslunarstjórinn hneykslaður: / Þetta kvenfólk / það hefur ekkert tímaskyn“. Kona þessi á sér þjáningarsystur í eldra ljóði eftir Vilborgu, „Óði til mánans“ sem birtist í safnritinu Ljóð árið 1981. Þar talar kona sem ætlar að steyta skrúbbinn sinn framan í mánann, því þangað hefur engin kona verið send.

Vísunarheimar ljóða Vilborgar eru fjölbreyttir í þessari bók, líkt og fyrr. Íslensk myndlist er kveikjan að tveimur ljóðanna: Ljóðið „Landslagsmynd“ (bls. 27) er ort um eitthvert af Heklumálverkum Ásgríms Jónssonar og „Snót“ (bls. 31) er um höggmynd eftir Sigurjón Ólafsson. Í þeim báðum er listinni ljáð líf og raunverulegt yfirbragð, hrísla bærist við Heklurætur og höggmyndastúlka Sigurjóns horfir kankvís á skapara sinn. Ljóðið „Viðbótarsálmur (ónúmeraður)“ er ort út frá lokalínunum í „Passíusálmi nr. 51“ eftir Stein Steinarr, og hjá Vilborgu er það stúlkan með sægrænu augun sem talar. Trúarlegur undirstraumur bókarinnar verður breiðari í seinni hluta bókarinnar. Í ljóðinu „Þrír englar“ (bls. 36-7) heldur Vilborg áfram hugsun sem verður vart í bókinni Klukkan í turninum frá 1992, ellin hefur knúið dyra og dauðinn stiginn inn á athyglissviðið. Hjá Vilborgu er samt engan dauðabeyg að finna, endan kvíða heldur aðeins sátt við lífið og almættið.

Bókinni lýkur á þremur þýddum ljóðum eftir Sylviu Plath sem stinga nokkuð í stúf við heildaryfirbragð verksins. Tónn þeirra er myrkari og örvæntingarfyllri, og orðfarið heldur þæfðara. Þessi ljóð skipa sér ekki í röð bestu ljóðaþýðinga Vilborgar, einkum vegna þess hvað þau eru miklu þyngri í vöfum en frumtextinn, atkvæðin fleiri og línurnar lengri. Sú leikandi en svarta rómantík sem er aðaleinkenni Sylviu Plath skilar sér ekki fullkomlega, og skrifast það kannski á nákvæmnina sem hér verður Vilborgu fjötur um fót – þýðingarnar eru líklega of orðréttar til þess að geta staðið sjálfar.

Kennslukonan Vilborg og skáldkonan Vilborg eiga örugglega margt sameiginlegt. Samt birtist Vilborg Dagbjartsdóttir sjaldan sem kennslukona í ljóðum sínum, hún eftirlætur lesandanum að móta þá sýn sem hún tendrar og fer bil beggja á milli ímyndunar og staðreynda. Fiskar hafa enga rödd er vandvirknisleg og falleg bók, angurvær en full af spennu. Vonandi verður ekki langt að bíða næstu bókar frá Vilborgu Dagbjartsdóttur.
..
>> Lesa

fimmtudagur, mars 31

Kastað í flóanum

HöfundurNýlega var bókin Kastað í Flóanum eftir Ásgeir Jakobsson endurútgefin af Bókafélaginu Uglu. Í bókinni er rakin sagan af upphafi togveiða við Ísland. Lýst er baráttu landsmanna gegn botnvörpunni og tilraunum erlendra auðjöfra til togaraútgerðar á Íslandi. Brugðið er upp lifandi mannlýsingum af þeim sem við sögu koma, til dæmis Einari Benediktssyni, Jóni Vídalín og Indriða Gottsveinssyni, fyrsta íslenska togaraskipstjóranum.

Bókin hlaut góðar viðtökur þegar hún kom fyrst út árið 1966 og bókmenntafræðingurinn Eiríkur H. Finnbogason skrifaði meðal annars eftirfarandi:
Bókin er þannig rituð, að hún ætti að geta orðið nokkur skemmtilestur hverjum sem er, þótt ekki væri fyrir annað en málfarið, sem bæði er myndrænt, mjög svo persónulegt og óvenju hispurslaust.
..
>> Lesa

sunnudagur, mars 27

Á venjulegum sunnudegi

HöfundurDýragarðssagan
Höfundur: Edward Albee
Leikstjóri: Halldór Magnússon
Leikfélag Hafnarfjarðar


Smáborgaralegur maður um fertugt, klæddur í brúnar buxur og ullarjakka, situr á bekk í Central Park á sunnudagseftirmiðdegi og les bók. Hann er truflaður við lesturinn þegar kæruleysislegur og nokkuð óheflaður náungi gengur upp að honum og segist vera að koma úr dýragarðinum. Aðkomumaðurinn byrjar að spyrja manninn á bekknum óþægilegra spurninga um hjónaband hans og börn, hvað hann hafi í tekjur og hvar hann eigi heima. Hann reynir að vera kurteis en er óneitanlega nokkuð brugðið við þessa undarlegu uppákomu.

Svona hefst leikritið Dýragarðssagan, fyrsta leikrit Edwards Albee frá 1959. Verkið er einfalt í sniðum, stuttur einþáttungur fyrir tvo leikara. Leikfélag Hafnarfjarðar setti þetta leikrit upp á dögunum í Lækjarskóla, og var þar um að ræða fimmtu og síðustu sýningu félagsins í seríu klassískra nútímaverka. Áður höfðu verið sýnd verkin Hamskiptin (Kafka), Beisk tár Petru von Kant (Fassbinder), Að sjá til þín maður (Kroetz) og Birdy (Wallace). Þessi verk eiga sameiginlegt að þau henta hinu nýja sviði leikfélagsins býsna vel, að Birdy kannski undanskildu sem er stærra í sniðum, þótt sú aðlögun hafi heppnast vel.

Í Dýragarðssögunni leikur Edward Albee sér að mörkum hversdagsleikans og fáránleikans og virðist komast að þeirri niðurstöðu að þau séu kannski ekki eins skýr og margir telja – stundum er það hversdagsleikinn sem er fáránlegastur af öllu. Leikritið gaf tóninn fyrir síðari verk Albees sem sum hver skarta mjög óvenjulegum persónum og aðstæðum, enda ekki að ósekju sem Albee hefur verið markaður bás undir merki fáránleikaleikhússins, eða „Theater of the Absurd“. Dýragarðssagan er stúdía á viðbrögðum „venjulegs“ borgara við óhugnanlegri röskun hversdagslífsins, hugleiðing um hvað það sé að vera öðruvísi, en umfram allt saga af manneskjum í óskiljanlegum heimi.

Í uppfærslu Leikfélags Hafnarfjarðar kemst þessi kjarni verksins ekki nógu vel til skila, þótt skemmtanagildið hafi verið talsvert. Munaði þar mestu um passívara hlutverkið, Peter, hlédræga bókabéusinn á bekknum sem var túlkaður afar skemmtilega af Gunnari Birni Guðmundssyni. Við að horfa á Gunnar leika kemst maður að því að hlutverk Peters er stærra en það virðist vera þegar leikritið er lesið. Hann skilaði vandræðagangnum og vaxandi hræðslunni þannig að áhorfendur gátu ekki annað en hrifist – oft byrjaði einhver í salnum að flissa af mjög litlu tilefni og það smitaði út frá sér. Það var erfitt annað en að finna til með þessum hrekklausa vesaling, sem lætur þó ekki bjóða sér hvað sem er og ákveður að verja bekkinn sinn áður en sunnudagurinn er úti. Hlutverk aðkomumannsins, Jerrys, er miklu erfiðara, þar er meiri texti og skapgerðarsveiflurnar stór þáttur. Guðmundur Lúðvík Þorvaldsson reyndist ekki nógu burðugur leikari til að túlka brjálæðislegt tal Jerrys – til þess var röddin of eintóna, þagnirnar of fáar og ákafinn ekki nógu mikill. Lokamínúturnar voru þó sterkasti leikræni hluti sýningarinnar, eftir að Peter fær nóg af yfirganginum. Þá fyrst var sem samleikurinn heppnaðist fyrir alvöru. Það er bara ekki öllum leikurum gefið að tala út í tómið svo lengi.

Leikmyndin var flott, þótt kannski hafi hún verið dálítið aðþrengd. Í leikritum Albees er grunntilfinningin oft sú að persónurnar séu lítið fólk í stóru tómi. Með marglitum snúrum umhverfis sviðið skapaðist þó viss þrívíð dýpt fyrir augað, sem getur e.t.v. virkað á líkan hátt. Helsti ókostur sýningarinnar var hins vegar þýðingin, sem var langt í frá nægilega góð. Í frumtextanum er texinn fyrst og fremst talmálskenndur, en í þýðingunni áberandi stirður og þunglamalegur. Heildartilfinningin í íslenska textanum var ekki eins mikil og í frumtextanum, ekki síst vegna þess að endurtekningarnar eða leiðarstefin í texta Albees (sagan af því sem gerðist í dýragarðinum, börn Peters og fjölskyldulíf hans) fletjast einhvern veginn út.

Ekki hefur enn verið gefið upp hvað Leikfélag Hafnarfjarðar tekur sér fyrir hendur næst. Með Dýragarðssögunni er lokað hring sýninga sem voru á heildina litið mjög skemmtilegt innlegg í íslenskt leikhús, þótt þær hafi verið heldur brokkgengar. Við fáum aldrei of mikið af klassísku 20. aldar leikhúsi eins og staðan er núna, og því við hæfi að enda á því að skora á önnur áhugaleikfélög að taka Hafnfirðingana sér til fyrirmyndar í efnisvali.
..
>> Lesa

föstudagur, mars 25

Síðbúin svör við rímnadómi Jónasar

HöfundurÁ þriðja áratug tuttugustu aldar óskaði danski lýðskólakennarinn Holger Kjær eftir upplýsingum frá íslensku alþýðufólki um heimanám og uppeldi á Íslandi á 19. öld. Svörin sem honum bárust við þessum spurningum eru varðveitt á Þjóðminjasafninu og varpa athyglisverðu ljósi á viðhorf nokkurra einstaklinga sem fæddir eru á tímabilinu 1850 til 1900 til rímnakveðskaparins. Koma þar fram önnur viðhorf en þau sem Jónas Hallgrímsson viðraði í Fjölni í frægum dómi sínum um rímur eftir Sigurð Breiðfjörð. Má jafnvel lesa þau sem síðbúin svör við dómi Jónasar

Meðal þeirra sem tjá sig um rímurnar er Einar Jónsson (f. 1853) frá Stóra-Steinsvaði í Hróarstungu. Hann telur víst að ritdómur Jónasar hafi drepið rímnakveðskapinn en bætir við: „Ég hygg nú eigi að síður, að rímnakveðskapurinn hafi átt mikinn og góðan þátt í, að halda við lífsgleði þjóðarinnar og fróðleik hennar í gegnum hina löngu þrautatíma hennar. Það var mikilsverð tilbreyting fyrir hana, að þurfa ekki alltaf að hlusta á endurtekinn lestur sagnanna, en fá efnið sungið eða kveðið annað veifið.“ Jón Helgason (f. 1876) frá Brattahlíð í Svartárdal tekur í svipaðan streng: „Þá má telja rímunum það til gildis að þær hafa hjálpað mjög til að muna sögurnar því það er mikið sem það minnir á, ef vísa er til staðins.“

Lýsingar fleiri heimildarmanna minna jafnframt á að rímurnar voru ekki bara textar heldur líka tónlist sem flutt var við tilteknar aðstæður og skapaði sérstakt andrúmsloft. Ólafur Ólafsson (f. 1886) frá Haukadal í Dýrafirði rifjar upp, með vissri glýju í augum, að fornsagnalestur og rímnaflutningur hafi fléttast saman við handavinnu fólksins á kvöldvökunni. „Gekk þá verkið betur. Kambarnir örguðu, rakkarnir suðuðu, slögin urðu tíðari í skeiðinni hjá vefaranum, skyttan þaut óðfluga, en yfir allt þetta ómaði kvæðalagið eða sögulesturinn af köppunum fornu, hetjunum hugumstóru og guðunum gömlu. Þannig var sveitalíf íslenskt fram á síðasta mannsaldur.“ Jóhannes Guðmundsson (f. 1892) á Þórólfsstöðum í Kelduhverfi tengir rímnaflutninginn hins vegar fátíðu veisluhaldi: „Man ég ekki til að ég heyrði rímur kveðnar nema í brúðkaupsveislum þegar menn voru orðnir hreifir af víni. Söfnuðust gömlu mennirnir þá saman stundum og kváðu rímur eftir Sigurð Breiðfjörð, einkum bardagarímur og létu þá all vígmannlega. Varð stundum að þessu góð skemmtun.“

Viðamesti vitnisburðurinn af þessu tagi er hins vegar í svari Eskfirðingsins Björns Guðmundssonar (f. 1874) til Holgers Kjær. Björn skrifar:

„Þótt rímur væru nær aldrei kveðnar hér á heimilinu heyrði ég þær samt kveðnar annars staðar, en því miður aldrei til bestu „kvæðamannanna“, en svo voru þeir nefndir er best þóttu kveða rímur. Það var og sérstök list, sem fáum var gefin. Best þótti að heyra „kveðið saman“, en þá kváðu fleiri en einn, og þurftu þeir að vera vanir því ef vel átti að fara. – Ég var svo heppinn að heyra kveðið saman tvisvar til þrisvar sinnum, og þótti mikið til þess koma, enda voru þeir sem „kváðu“ vanir því og sæmilegir raddmenn.

Eftir því sem ég veit best mun kveðskapur hér í sveit hafa verið í hnignun í æsku minni, því rímnakveðskapur á kvöldvökum var svo sjaldgæfur. En við ýmis tækifæri – og helst ef menn höfðu bragðað áfengi – var kveðið. Man ég einkum eftir því í veislum, á veitingahúsum, í sjóferðum þegar siglt var, og síðast og ekki síst álandlegudögum í fiskiveri. Einnig var kveðið í fjárleitum – göngum – á haustin þar sem menn höfðu náttdvöl. Hefir mig oft furðað á því hve mikið menn kunnu af alls konar vísum, bæði úr rímunum sjálfum, og svo ýmsar lausavísur.

Þegar vel er kveðið get ég vel hugsað mér að fleirum muni fara sem mér. Kvæðalagið og allur blærinn í kveðskapnum hefir undarleg kitlandi áhrif á mann, það er eins og manni hitni stundum um hjartarætur, en hinn sprettinn er sem kalt vatn seitli um mann allan, eða kaldur gustur lengst framan úr öldum leiki um mann. Eða einhver seiðandi, töfrandi kraftur fylgi kveðskapnum, kraftar sem maður verður ósjálfrátt var við, en skilur ekki, veit ekki hvaðan er runninn eða hvert hann stefnir. Maður kann vel við áhrifin, eitthvað kunnlegt og laðandi fylgir þeim, eða eins og gamall kunningi og vinur sé kominn eða maður viti af honum í nálægð. Og í huga manns fæðast ýmsar þrár og eftirlanganir, − fæðast og deyja hver á eftirannari, koma ósjálfrátt og hverfa eins, maður ræður ekki við þetta, en gefur sig á vald áhrifunum og lætur berast viljalaust með straumnum. − Og þegar kveðskapurinn þagnar, vara samt áhrifin, strengir þeir er kveðandin hefir vakið í huga manns, óma enn um stund, misjafnlega lengi eftir atvikum; og hverfa raunar aldrei til fulls, við endurminninguna taka þeir aftur til að hljóma og þá vakna sömu kenndir aftur, en eðlilega daufari, og ef til vill með öðrum litum − en þó svo skýrar að ómögulegt er að villast á þeim.

Rímnakveðskapurinn er æfagamall, og átti á liðnum öldum mjög sterk ítök í íslensku þjóðinni, enda finnst mér ekki ósennilegt, að hún eigi honum meira að þakka en nú er almennt talið eða viðurkennt. Og er nú óhugsandi að áhrif þau er hann hafði á mig og ég hef reynt að lýsa hér að framan eigi meðal annars rót sína að rekja til þess að kveðskapur þessi er arfur „Íslendingsins“ − gjöf frá forfeðrum hans − lengst framan úr tímum.

Um efni rímnanna verð ég fáorður, enda fá menn besta hugmynd um það með því að kynna sér rímurnar sjálfir. En ég get ekki varist því að benda á það að þótt efni þeirra og orðfæri sé að mörgu leyti ábótavant, þá er í mörgum þeirra sterk siðferðileg undiralda, sem óspart lofar allt hið góða og göfuga í fari manna, en lastar hitt; sem málar dygðirnar með björtum litum, en lestina og ódrengskapinn með dökkum. Og aðeins eitt enn. Rímurnar sem ég kynntist hvöttu mig mjög til að ná í sögurnar sem þær voru orktar útaf og urðu þannig til að auka lestrarþrá mína.“

Vart er hægt að hugsa sér skemmtilegra og andríkara svar við gagnrýni Jónasar á rímurnar, nema ef vera skyldi hin glæsilega útgáfa kvæðamannafélagsins Iðunnar og Smekkleysu á Silfurplötum Iðunnar.
..
>> Lesa

þriðjudagur, mars 15

Ultra-la-la

HöfundurÉg var staddur í Mexíkó fyrir nokkrum árum síðan og gerði þar mikla athugun sem ég mun koma að eftir stuttan inngang á þessum pistli. Þó að við sneiðum framhjá kaktusum, tequila, fjórhliðuðum píramídum, og litskrúðugum markvörðum þá er Mexíkó afar áhugavert land sem gaman er að bera saman við okkar eigið. Að sjálfsögðu er rétt að taka það fram að það finnast í raun engar afgerandi forsendur fyrir því að bera samfélagshætti Mexíkó saman við Norðurlandaþjóð eins og Ísland enda eru íbúarnir miklu fleiri og atvinnuvegir aðrir. Þrátt fyrir það hef ég alltaf leyft mér að staldra við ákveðna þætti í mexíkósku samfélagi til að glöggva mig betur á því íslenska.

Mexíkó hefur aldrei haft velferðarkerfi á borð við hið vestur-evrópska. Sterkt miðstýrt ríkisvald hefur þó alltaf verið til staðar, en það hefur frekar verið fólki til bölvunar, valdið spillingu og óreiðu. Fólk er skattlagt en í stað þess að dreifa hinum sameiginlega sjóði í sjúkrahús og menntastofnanir eru keypt vopn eða byggðar glæsilegar forsetahallir til að styrkja virðinguna fyrir ríkinu enn frekar. Þetta er sögð saga og ríkjandi vandamál í meiri hluta lýðvelda heimsins. Það sem okkur finnst sjálfsagt á Íslandi þurfa menn að berjast fyrir annars staðar í heiminum. Öll þjónusta er einkavædd og stríðið er hart. Það kann því engan að undra að frjálshyggjan í Mexíkó hefur ekki yfir sér neinn glamúr-brag. Þar finnast hvergi nýútskrifaðir viðskiptafræðingar í De Fursac jakkafötum sem prísa frjálsan markað enda eru allir of uppteknir við að verða ekki undir og frjálshyggjan löngu búinn að snúast í andhverfu sína. Mexíkóar búa í samfélagi þar sem ekkert er öruggt. Þar sem fólk byrjar að safna fyrir útför sinni fljótlega eftir fermingu og þar sem allir hlutir, hversu sjálfsagðir sem þeir þykja hjá okkur, eru orsakir deilna og stríðs.

Þessi inngangur var nauðsynlegur til að ég geti með einhverju móti útskýrt þá einkennilegu hugsun sem skaust upp í huga mér þegar ég komst að því mér til mikillar furðu að mjólk, hvíti drykkurinn úr beljunum, heitir ekki mjólk eða leche í Mexíkó heldur Ultra-la-la. Einhvern tímann, ég veit ekki hvenær eða hvernig, hefur einhverjum mjólkurframleiðandanum ekki þótt nógu söluvænlegt að selja mjólk undir sínu náttúrulega nafni og byrjað að kalla hana eitthvað annað. Ég veit ekki hvað það var. Kannski var það Leche-Plus eða Super-leche eða eitthvað álíka tilgangslaust. Þessi nýja ofur-mjólk hefur þá byrjað að seljast mun betur heldur en hin venjulega mjólk og það hefur fengið einhvern samkeppnisaðilan til að toppa ofurmjólkina og hann hefur þá kannski hent fram nafninu Super-lech’-plus. Þannig hefur þetta algerlega tilgangslausa stríð haldið áfram og það þarf enginn að segja mér að því sé lokið. Árið 2001 hét mjólk í Mexíkó Ultra-la-la. Afhverju? Jú, útaf því að það vill að sjálfsögðu engin kaupa mjólk ef hann getur keypt hvítan últrasafa á sama verði. Og í hvernig umbúðum skyldi þessi safi svo vera? Glærum ómerktum glerflöskum? Nei, neon-bleikum glans stútum með boogie-nights letri. Að sjálfsögðu.

Á Íslandi hefur mjólkin einnig verið í smá krísu undanfarin ár. Virtir læknar segja að betra sé að þamba ólívuolíu en að húða á sér innyflin með gerilsneyddri kálfafæðu. Slíkt hjal er bara tíska eins og allt annað. Mjólkin breytist ekkert, hún er alltaf jafn hvít og lyktarlaus, hún er sumum holl en öðrum ekki, og óþarfi að koma með öfgafullar allt-eða-ekki yfirlýsingar í því sambandi. Ég sé enga ástæðu til að deila út af mjólk. Ef menn ætla að deila yfir einhverjum vökva ætti það frekar að vera olía eða eitthvað sem meiri peningalykt er af. Samt, útaf okkar heimskulega sjálfmiðaða samkeppnisrúnki, þurfum við að gera mjólk að einhverju rosalegu máli. Svar mjólkurframleiðanda við tískuþvaðri læknanna er að gera mjólk að einhverjum sex-safa. Milljónum hefur verið eytt í að búa til sjónvarpsauglýsingar þar sem einhverjar retro-jazzballet-stíliseraðar thunder-píkur ropa mjólkinni út úr sér undir dunandi pornó-bassa. Og hvert er markmiðið með þessum auglýsingum? Jú, að breyta ímynd mjólkur. Það er alveg ómögulegt að fólk sjái fyrir sér einhverjar uppþornaðar mjaltakerlingar þegar mjólk ber á góma. Besta leiðin er náttúrulega að hætta að nota orðið mjólk enda hljómar það eins og einhver kúaafurð. Ultra-la-la kemur sterklega til greina en það er víst frátekið. Mjólkin skal heita Muu. Og þið þurfið engar áhyggjur að hafa, það er hægt að fá létt- og ný-muu og bráðum verður eflaust hægt að skola kornflexinu niður með Ultra-muu eða LGG-muu-muu-plús. Og já já, ég næ alveg tengingunni, kýrin segir “muu”, en samt köllum við þorskalýsi ekki ekki neitt. Náðuð þið þessum? Tvöföld neitun og mikill hraði. Úpps, aðeins of sleipur.

Eða er ég kannski bara svona gamaldags? Er ég kannski mesti hálfvitinn af öllum? Er ég maðurinn sem rembist eins og rjúpan við staurinn við að predika yfir fólki að hætta að deila um sjálfsagða hluti en geri svo ekki annað en að hella bensíni á bálið? Ég tel mikilvægt að varpa þessu fram. Því þótt ótrúlegt megi virðast þá er ég ekki enn eitt kaldhæðnisfíflið sem tel nauðsynlegt að snúa út úr öllu sem gert er til að kreista fram nokkur ha-ha. Ég hef verulegar áhyggjur af raunveruleikaskyni nútímamannsins og ég vona að enginn lesandi sé svo heimskur að halda að þessi mjólkurpistill sé upphaf og endir málsins. Hér er aðeins um lítið dæmi að ræða. Við lifum í heimi sem er svo brenglaður að það veldur hausverki, ef ekki þunglyndi, að reyna að horfast í augu við hann. Afhverju má mjólk ekki bara vera mjólk? Afhverju þarf að láta fólk fá standpínu til að það kaupi sér tannbursta? Við nútímamennirnir glottum oft yfir heimsku horfinna kynslóða. Við hlæjum að tvöföldu siðgæði viktoríutímans eða stéttaskiptingu miðalda en getum ekki fengist til að horfast í augu við heimsku dagsins í dag. Öll okkar orka fer í gagnkvæmar ögranir og sýndarmennsku. Allt okkar kerfi byggist á frjálsu vali en hvað stoðar það þegar valið stendur á milli muu eða mjólkur? Þegar betur er að gáð veljum við aldrei neitt. Olíufélögin eru bara þrjú mismundandi lógó, símafélögin hafa símanúmer sem byrja á mismunandi tölustöfum og tryggingafélögin eru staðsett á mismunandi stöðum í bænum. Það er kominn tími til að Hamlet fái sér stóran spegil og líti í hann með Harry Klein svip og segi: ,,Check dich Mann”. Eða er það ekki svona sem maður endar póst-módernískar greinar? Hvað segið þið sérfræðingarnir? Of flókið? Ýkt óheppnir.
..
>> Lesa

mánudagur, mars 14

Stórisannleikur Kviksögu

HöfundurMjög góð grein eftir Ingólf Margeirsson, sem ber yfirskriftina Teflt við söguna, birtist á vefritinu Kviksögu 8. mars. Greinin er um póstmódernisma og einsögufræði. Hún fjallar á mjög skynsaman hátt um ýmislegt sem ég hef velt mikið fyrir mér að undanförnu og mér finnst ástæða til að mæla með henni.

Ingólfur hittir að mínu mati naglann á höfuðið í lok greinar sinnar þegar hann segir eftirfarandi:
Það jákvæða við póstmódernismann, líkt og við marxismann er að hann víkkar út sögutúlkun okkar, færir okkur ný verkefni og nýja hugsun. En sem heildarkenning dugar hvorki póstmódernisminn né marxisminn til lengdar. Uppreisnin er því stutt – en skemmtileg. Helsti kostur einsögunnar er að hún er skemmtileg, það er orðið skemmtilegt að lesa sögu, ekki síst vegna þess að einsagan treður ekki slóðir hinnar þungu, byrókratísku hefðar. Hún hafnar miðlægum hugsunarhætti en hampar hugmyndalegri margræðni, rýfur tengsl veruleika og tungumáls. Það er ekki lítið afrek í sjálfu sér. Einsagan er því allt í senn: nýstárleg, fræðandi og upplyftandi. Engu að síður er kjarni málsins: Við verðum alltaf að skoða hlutina í víðu samhengi. Horfa yfir allt taflborðið eins og góðir skákmenn í stað þess að einbeita okkur að fáum leikjum í einu horninu. Þá gætum við tapað skákinni við söguna eða jafnvel fallið á tíma.
Það er hvimleitt og allt of algengt að fólk sem hafnar einhverjum stórasannleik, finnur nýjan stórasannleik, sem það veðjar á. Póstmódernistar og einsögufræðingar ættu að hafa það í huga að þeirra nálganir eru ákveðin sýn á veruleikann, sem er ekki sú eina rétta, heldur aðeins ein af mörgum. Markmið þeirra ætti ekki að vera að fá fólk til að hafna öðrum nálgunum (eins og ég og fleiri hafa óneitanlega á tilfinningunni), heldur að fá fólk til að tileinka sér þeirra nálgun ásamt öðrum nálgunum.
..
>> Lesa

miðvikudagur, mars 9

Fyllt í eyðurnar

HöfundurÞórarinn Eldjárn: Baróninn
Vaka-Helgafell, 2004


Halldór Laxness sagði einhverju sinni í viðtali að ef sér hafi tekist vel upp með Gerplu hafi það verið vegna þess að hún er byggð á bókmenntaverki sem er ákaflega misjafnt í stíl og samsetningu, og átti þar við Fóstbræðra sögu. Þessu grundvallaratriði hafi t.d. Jóhann Sigurjónsson flaskað á þegar hann skrifaði leikritið Mörð Valgarðsson, sem byggt er á Njálu. Njála er einfaldlega of mikið listaverk til þess að hægt sé að bæta neinu við hana, svo það sé ekki nema von að Jóhanni Sigurjónssyni hafi fatast í það skipti.

Þessi orð koma í hugann þegar litið er til söguefnisins sem Þórarinn Eldjárn hefur valið sér í nýjustu skáldsögu sína, Baróninn. Sagan fjallar um fransk-bandarískan barón, Charles Gauldrée Boilleau, sem fluttist til Íslands 1898 og hóf hér umsvifamikinn atvinnurekstur, reisti stórbýli í Borgarfirði og stærsta fjós landsins í Reykjavík. Hann var tónskáld og sellóleikari og gerði sitt til að kynna Íslendinga fyrir borgaralegri, klassískri tónlist sem þá var alls óþekkt í landinu. Og víst er um það að í sögu barónsins eru margar gloppur, hann var dularfullur maður sem fáir vissu hvaðan kom eða hvað gekk til. Heimildir um lífshlaup hans eru æði slitrukenndar, blaðagreinar, bréf og bókarkaflar á stangli. Rými Þórarins til skrifanna er því mikið, og með bók sinni hefur honum tekist að mynda sterka og sannfærandi heild úr brotunum, listaverk þar sem mætast fjölmargir þræðir úr Íslands- og mannkynssögu 19. aldar. Í síðustu köflum má segja að sagnfræðin nái yfirhöndinni yfir skáldskapnum þar sem raunverulegar blaðafréttir og bréfaskrif eru birt óbrjáluð.

Baróninn byrjar með hvelli – í bókstaflegum skilningi þess orðs – á því að baróninn bindur enda á líf sitt í lest á Englandi. Hann er þá eignalaus og Íslandsævintýrið er að baki. Athygli lesandans er þannig tekin tangarhaldi strax á fjórðu blaðsíðu, forvitnin um orsakir þessarar miklu óhamingju rekur hann áfram við lesturinn. Síðan er sagan rakin jafnt og stígandi frá því að baróninn kemur fyrst til Íslands.

Frásögnin er á þremur sviðum. Meginhluti textans er þriðjupersónufrásögn af veru barónsins hér á landi og er hver kafli dagsettur. Sjónarhornið miðast að miklu leyti við Íslendingana sem eru fullir spurninga um takmark og tilgang þessa óvenjulega heimsmanns. „Kjaftaklöppin“ á Skólavörðuholti, þar sem alþýða manna kemur saman til að slúðra, verður að miðju þessara vangaveltna. Í öðru lagi er sagan sögð í bréfum bræðra barónsins, Bentons og Philips, til bróður síns á Íslandi. Með þessum bréfum er skapað mótvægi við draumkennt vafstur barónsins, þeim fylgir jafnan peningasending frá bræðrunum sem baróninn hefur óskað eftir til að geta haldið áfram að fjármagna ævintýri sín, en tónninn í bréfunum einkennist af miklum efasemdum um þessi umsvif. Í þriðja lagi er um að ræða dagbókarfærslur Philips Boilleau, yngsta bróðurins, skrifaðar rúmum áratug eftir andlát barónsins. Hann skoðar atburðina úr fjarlægð og tilgreinir líka ýmsar upplýsingar um æsku þeirra bræðra, ætt og uppruna. Philip er bitur í garð íslensku þjóðarinnar sem hann telur að hafi gert sér bróður sinn að féþúfu og stuðlað þannig að falli hans. Í dagbókarköflunum kemur í ljós hversu bein tenging baróninn var við mörg stórmenni mannkynssögunnar á 19. öld, t.a.m. Teddy Roosevelt Bandaríkjaforseta, Napóleon þriðja Frakkakeisara og John Charles Frémont, sem var fyrsti ríkisstjóri Kaliforníu.

Stíll sögunnar er laus við öfgar og glæsileiki hennar er að miklu leyti falinn í nokkrum lykilsenum sem eru táknrænar án þess að vera tilgerðarlegar, og varpa ljósi á persónur og aðstæður á afar hugvitssamlegan hátt. Í einu atriðinu er t.a.m. greint frá því þegar baróninn leikur svítu eftir Bach á sellóið á sama augnabliki og barn fæðist á næstu hæð fyrir ofan. Þetta barn er Engel Lund sem síðar varð fræg söngkona. Eins er um fyrstu endurminningu Philips frá því þegar þeir bræðurnir eru eins og tveggja ára. Þeir eru að leika sér saman þegar hestur fælist rétt hjá þeim, hleypur í átt til þeirra og stekkur yfir þá. Philip, sem er eins árs, skríkir af kæti yfir þessu atviki, en Charles, sem er tveggja og hálfs, verður frávita af hræðslu. Philip verður því að passa hann, og þetta atvik gefur tóninn fyrir samskipti þeirra allar götur síðan.

Boilleau barón er maður stórra þversagna, í senn fulltrúi hinnar gömlu Evrópu og hinnar nýju Ameríku, og hefur aldrei fest rætur á neinum stað um ævina. Hann er breyskur en trúir á drauma sína, og skapgerð hans er eins og öldugangur: Stundum geysist hann fram í framkvæmdagleði en öðrum stundum er hann fullur sjálfsvorkunnar. Þótt hann sé afar mistækur kaupsýslumaður er hann einlægur og hæfileikaríkur tónlistarmaður. Í dagbókarskrifum Philips svífur alltaf yfir vötnunum spurningin um hvort Charles hefði ekki farnast betur ef hann hefði aldrei til Íslands komið og einbeitt sér frekar að frama innan tónlistarinnar.

Baróninn er saga um brostnar vonir, hún hefst um vor og lýkur um haust. Þrátt fyrir það leiftrar allt um leið af þeirri fínlegu gamansemi sem er einkenni Þórarins. Hún felst ekki síst í sjálfsvísun frásagnarinnar eins og hún birtist í dagbókarfærslum Philips sem talar um að örlög bróður síns séu skáldlegri en nokkur veruleiki, og hittir þar naglann á höfuðið. Hann harmar ósegjanlega að öll bréf sín til bróður síns skuli hafa endað í dánarbúi hans uppi á Íslandi þar sem þau bíða þess eins að verða „rithöfundum og lygurum“ að bráð. Það er óhætt að fullyrða að fáir verði sviknir af því að lesa Baróninn og upplifa þær tvíbendu tilfinningar sem kvikna við lesturinn. Því þótt sagan sé harmræn kemst maður ekki hjá því að hrífast og gleðjast yfir þessari sagnfræði Þórarins Eldjárns, blandinni dásamlegri lygi.
..
>> Lesa

sunnudagur, mars 6

Kviksaga og kanónan

Höfundur Flestir þekkja orðið „kanóna“. Orðið vísar til einhvers sem er talið æðra en eitthvað annað, en er notað í margvíslegum skilningi. T.d. er hægt að tala um heildarkerfi þeirra bókmennta sem eru viðurkenndar sem „góðar“ af málsmetandi stofnunum samfélagsins sem kanónu. Jaðarhöfundar og „vondir“ höfundar eru þannig ekki flokkaðir sem hluti af kanónunni. Eins og nærri má geta eru ekki allir mjög hrifnir af því að myndað sé svona stigveldi bókmennta þar sem sumir höfundar eða sumar bókmenntagreinar eru flokkuð sem merkilegri en önnur. Öll verk tiltekins höfundar geta líka verið kölluð kanóna. Þannig má t.d. tala um að eintal Hamlets um sjálfsmorð sé einna frægasta ræðan í allri Shakespeare-kanónunni.

Í mörgum tilvikum er þetta kristið orð. „Kanóna“ vísar í kirkjulegu samhengi til safns þeirra rita sem viðurkennt er að eigi heima í helgri ritningu. Hinar svokölluðu apókrýfu bækur eru þær bækur sem komu til greina í Biblíuna en voru ekki samþykktar að lokum. Mér er ekki fullkunnugt um hvaða þættir réðu mestu um það hvaða bækur rötuðu inn í Biblíuna en veit þó að í frumkristni og á miðöldum var mjög algengt að reynt væri að „kanónísera“ texta með því að eigna þá höfundum sem höfðu raunverulegt kennivald. Þannig reyndu minni spámenn stundum að eigna sinn eigin texta höfundum sem voru svo frægir að með því að festa nafn þeirra við textann var framgangur verksins tryggður og líkurnar á því að fólk tæki boðskap textans alvarlega jukust stórlega. Þetta er ekki bundið við kristnina eina, frá Grikklandi hinu forna eru t.a.m. varðveitt kvæði sem kölluð eru hómerískir hymnar. Talið er næstum öruggt að þessi kvæði séu ekki eftir Hómer sjálfan, heldur hafi þau verið eignuð honum síðar, annað hvort til þess að auka vinsældir þeirra eða vegna þess að þau hafi þótt svo góð að útilokað hafi verið að einhver annar en höfuðskáld fornaldarinnar hafi samið þau.

Í dag er fremur sjaldgæft að fólk reyni að kanónísera texta, enda hefur höfundarnafnið verið í nokkuð föstum skorðum síðustu tvær aldirnar. Það er miklu algengara að þessu sé snúið við, þ.e. að fólk taki texta annarra og geri hann að sínum. Í síðustu viku gerðist þó sá fremur óvenjulegi atburður í netheimum að á þeim hluta vefritsins Kistunnar sem nefndur er Kviksaga birtist grein sem eignuð var íslenskum bókmenntafræðingi og rithöfundi, en skömmu síðar kom á daginn að sá sem var titlaður höfundur greinarinnar hafði alls ekki skrifað hana. Greinin hafði bara verið eignuð honum án hans samþykkis eða vitundar, en raunverulegs höfundar greinarinnar hefur enn ekki verið getið neins staðar.

Áður en lengra er haldið er rétt að reyna að geta sér til um ástæður þessa uppátækis. Sú skýring sem virðist líklegust er að hér hafi verið um hefðbundna „kanóníseringu“ að ræða, að ritstjórn Kviksögu hafi vilja gefa greininni aukið vægi með því að ljúga því að lesendum sínum að hún hafi verið eftir þennan tiltekna höfund. Þannig virðast þeir hafa beitt aldagamalli aðferð til að gera boðskap sinn gjaldgengari í umræðunni. Þetta er óneitanlega dálítið þversagnarkennt í ljósi þess að Kviksaga er vefritlingur sem virðist hafa þá meginreglu að birta greinar þar sem barist er gegn kanónum af öllu tagi. Ritstjórnarstefna Kviksögu einkennist umfram allt af menningarlegri útjöfnun, þar sem hinu smáa, hjásetta og hversdagslega er hampað, en grafið er undan allri upphefð („upphefð“ er mikið uppáhaldsorð hjá ritstjórn Kviksögu) og menningarlegri skurðgoðadýrkun. Burtséð frá því hvort Kviksaga er góður eða slæmur vefritlingur verður þó að viðurkennast að efnistökin einkennast ekki af sérlega mikilli breidd. Flestar greinarnar eru skrifaðar út frá sama reiknilíkani, ekki ósvipað og tíðkast á flestum vefritum hinna pólitísku ungliðahreyfinga. Á Kviksögu eru allar gjörðir fólks sem lætur eitthvað til sín taka á sviði menningarinnar metnar út frá sama kvarða, því hvort viðkomandi sýnir tilraun til andófs gegn kanónunni (sem er alltaf gott) eða hvort hann „steypir eigin haus og hugsun“ (hvað sem það nú þýðir) með því að styrkja ríkjandi ástand.

Greinin sem getið var hér að framan bar þann snjalla titil „Hin íslensku bókmenntaverðlaun.is“ og var eignuð Hermanni Stefánssyni. Þar sem hún er nú eilíflega horfin lesendum Kviksögu (og ekkert situr eftir nema þessi nafnlausa afsökunarbeiðni) er við hæfi að glugga í greinina hér og reyna að draga af henni einhvern lærdóm.

Tilefni greinarinnar er stutt innslag í útvarpsþættinum Víðsjá föstudaginn 25. febrúar sl. þar sem umsjónarmaður þáttarins, Eiríkur Guðmundsson, brá á leik með skáldunum Braga Ólafssyni og Sjón. Um var að ræða „ljóðaeinvígi“ á léttum nótum þar sem skáldin vörpuðu fram tilvitnun í eigin ljóðabækur sem hinn aðilinn skyldi síðan svara með tilvitnun í eitthvert af sínum verkum, e.k. uppfærð útgáfa af þeirri list að kveðast á. Hinn ímyndaði Hermann Stefánsson talar í háðskum tón um þetta uppátæki í grein sinni, líkir skáldunum við framsóknarmenn á þorrablóti úti á landi og segist „vona að þeir komist á listamannalaun sem fyrst“. Sú staðreynd að báðir þessir höfundar hafa nýlega fengið verðlaunaútnefningu er margítrekuð í máli greinarhöfundar. Gagnrýni greinarhöfundarins beinist þó einkum að stjórnanda Víðsjár, Eiríki Guðmundssyni, og er hann sakaður um að hafa verið ósáttur við tilnefningarnar til hinna íslensku bókmenntaverðlauna af þeirri ástæðu einni að vinir hans hafi ekki verið tilnefndir.

Höfundur greinarinnar „Hin íslensku bókmenntaverðlaun.is“ bendir á þá mótsögn í afstöðu Eiríks til verðlaunaafhendinga að hann hafi annars vegar sagt í Víðsjá að bókmenntir og markaður ættu ekki samleið, en hins vegar hafi hann komið að því að skipuleggja ímynduð bókmenntaverðlaun á vegum bókaforlagsins Bjarts fyrir síðustu jól með það að augnamiði að auka bóksöluna. Heimild greinarhöfundar er samtal á forlagsskrifstofunni sem á að hafa farið fram milli Eiríks, Hermanns, „Jóns Karls [Helgasonar] og feðgana [svo] Snæbjarnar [Arngrímssonar] og Magnúsar“. Þar sem höfundur greinarinnar er ímyndaður hlýtur þetta samtal líka að vera ímyndað, og ásakanir um óheilindi Eiríks Guðmundssonar þar af leiðindi byggðar á sandi. Velta má þó fyrir sér hvort aðkoma „Magnúsar“ að þessum ímyndaða fundi gefi vísbendingu um raunverulegan höfund greinarinnar, en einn af ritstjórum Kviksögu heitir Magnús Þór Snæbjörnsson. Snæbjörn Arngrímsson á hins vegar engan son sem heitir Magnús.

Í framhaldinu er Eiríkur sakaður um einfeldni og birtur er fjöldi tilvitnana í víðsjárpistil hans sem fluttur var daginn eftir að tilnefningar til íslensku bókmenntaverðlaunanna voru opinberaðar fyrir síðustu jól. Þegar greinin er lesin með þeirri vitneskju að Hermann er ekki raunverulegur höfundur hennar sést berlega að málið er þó tekið með ákveðnum silkihönskum og fjölmargir varnaglar slegnir. Hinn ímyndaði Hermann kallar Eirík „vin“, „sinn góða félaga“ og fleira í þeim dúr. Þar sem greinin sekkur hvað dýpst dregur höfundur hennar Matthías Viðar Sæmundsson inn í umræðuna og kallar hann „vin okkar heitinn“.

Af þessari grein kviksögumanna má ráða að þeir svífast einskis í baráttu sinni gegn hinni alræmdu upphefð sem þeir sjá í hverju horni. Í „Hin íslensku bókmenntaverðlaun.is“ er jafnvel vegið að heiðri nafngreindra manna úr skjóli nafnleyndar. Af þessu tilefni má vitna í 2. mgr. 4. gr. höfundalaga nr. 73/1972, þar sem segir: „Óheimilt er að breyta verki höfundar eða birta það með þeim hætti eða í því samhengi, er skert geti höfundarheiður hans eða höfundarsérkenni.“ Mín ráðlegging til ritstjórnar Kviksögu er að glugga í þessi lög næst þegar þeir hugsa sér að ráðast á þá sem fara í taugarnar á þeim. Við hin, lesendur Kviksögu, fylgjumst spennt með framhaldinu, því það er aldrei að vita hverju þessir postular póstmódernismans, þessir riddarar einsögunnar taka upp á næst í baráttunni sinni.
..
>> Lesa

föstudagur, mars 4

Óendanleg og skilyrðislaus samkennd með öllu sem er

HöfundurÁ mínum framahaldsskólaárum skrifaði ég heimskulega grein þar sem ég mærði egóisma. Egóið hefur verið mér hugleikið síðan. Afstaða mín til þess hefur rokkað dálítið síðustu árin, en yfirleitt hef ég þó verið frekar neikvæður gagnvart því. Ég held að það sé alla vegana nauðsynlegt að vera meðvitaður um egóið; hvernig það starfar, hvernig það hefur áhrif á allt.

Egóið þrífst á einhvers konar baráttu. Egóið velur sér einhvern málstað og gerir þann málstað hluta af sér og sinni sjálfsmynd. Egóið og málstaðurinn verður eitt. Síðan vill egóið styrkja þá sjálfsmynd og til þess er píslarvættisaðferðin helst notuð. Egóið vill deila um málstaðinn og verða fyrir árásum vegna hans, því að þá finnur það til sín, það eykur sjálfsvitund og sjálfselsku egósins. Egóið þrífst einnig í tímanum – í fortíð og framtíð. Hin líðandi stund er óvinur egósins og það vill sífellt láta hugan reika um fortíð og framtíð, því að slíkar hugsanir styrkja egóið og láta það finna til sín.

Allt efni í alheiminum á sér sameiginlegan uppruna, sameiginlega rót. Þó að við greinum mismundandi hluti í kringum okkur, lítum á eina manneskju sem einingu, eitt tré sem einingu, einn stein sem einingu og svo framvegis, þá er þetta ekki svo einfalt. Heimurinn er á vissan hátt einn og óskiptur. Flestir líta á sjálfan sig sem mjög afmarkaða einingu, en það er ekki svo. Sjálf fólks er ekki mjög afmarkað, heldur er það mjög tengt umhverfi okkar og öðrum sjálfum (nútíma sálfræði styður þessa fullyrðingu). Í raun má ganga svo langt og segja að okkar sanna sjálf sé heimurinn allur. Hver og einn getur bælt niður egóið og tengst þessu sanna sjálfi. Tilfinningin sem fylgir því er óendanleg og skilyrðislaus samkennd með öllu sem er. Að vera eitt með öllu.

Á hinn bóginn væri það ekki farsælt fyrir mannlíf á jörðinni að bæla egóið alveg niður. Það er mikill drifkraftur fólginn í egóinu. Það yrðu litlar efnislegar framfarir án þess.

Ég held að lausnin sé að vera meðvitaður um hið sanna sjálf, en nota hins vegar egóið til jákvæðra hluta. Láta hið sanna sjálf hafa stjórn og taumhald á egóinu.
..
>> Lesa

sunnudagur, febrúar 20

Á slóðum Jóns Sigurðssonar

Höfundur Ritið Á slóðum Jóns Sigurðssonar eftir Lúðvík Kristjánsson verður að teljast eitt af þeim höfuðverkum sem samin hafa verið um ævi og störf sjálfstæðishetju Íslendinga, Jóns Sigurðssonar, forseta. Bókin skiptist í þrjá meginkafla eða bókarhluta og undir þeim eru fjölmargir undirkaflar. Segja má að bókin sé í raun þrjár aðskildar, en þó eðli málsins samkvæmt nátengdar, frásagnir. Um það segir höfundurinn: „Þetta rit, sem ég hef kosið að nefna „Á slóðum Jóns Sigurðssonar“, er ekki samfelld saga, heldur þættir með auðsæjum tengslum.“

Fyrsti kaflinn fjallar um þjónustu Jóns við Íslendinga og íslenzka hagsmuni, þá yfirleitt meira eða minna launalaust. Kaflinn fjallar í fyrstu einkum um störf Jóns fyrir Bókmenntafélagið, í annan stað um skrif hans og uppfræðslustörf, þá einkum með útgáfu Nýrra félagsrita, og að lokum um fyrirgreiðsluþjónustu Jóns þar sem hann stóð í alls kyns reddingum í Kaupmannahöfn fyrir fólk heima á Íslandi.

Í öðrum kaflanum er fjallað um það hvernig efnahagur Jóns var upp og ofan og hvernig honum gekk að afla sér tekna þrátt fyrir að hann sjálfur liti svo á að hentugast væri fyrir hann að binda ekki hendur sínar of við föst embætti eða störf. Niðurstaða kaflans er sú að þegar tvísýnast hafi verið um tekjuöflun Jóns hafi það verið Danir sem hafi rétt honum hjálparhönd, en Íslendingar hafi að sama skapi brugðizt honum þegar honum reið mest á.

Þriðji kaflinn segir svo frá samskiptum Jóns við Englendinginn George Powell sem fékk Jóni mikið fé fyrir að rita sögu Íslands sem aldrei varð þó af. Þessi síðasti hluti bókarinnar er einna lengstur af þessum þremur þrátt fyrir að minnstar heimildir séu um þau mál en viðfangsefni fyrri kaflanna. Um það segir Lúðvík í eftirmála bókarinnar:
Oft getur það orðið áhorfsmál hverju á að sleppa, þegar heimildir eru svo fyrirferðarmiklar, að þess reynist ekki kostur að nýta þær allar. Nefni ég í þessu sambandi þáttinn „Mörg var bón landans“. Þar er af svo mörgu að taka, að þessi þáttur gat ekki rúmað nema brot af því efni. En ég hygg, að þótt ég hefði valið einhver önnur dæmi, þá hefði þverskurðurinn orðið svipaður og niðurstaðan sú sama. – Nokkru öðru máli gegnir um viðskipti Jóns Sigurðssonar og George Powells. Þar eru heimildir alltakmarkaðar, og að mínu viti gat ekki annað komið til mála en nýta allt úr þeim, er með einhverjum hætti mátti skýra þau viðskipti og gildi þeirra fyrir Jón. En þá varð heldur ekki af sér keypt, að úr yrði alllangt mál.
Um ritun bókarinnar
Bókin er að langmestu leyti byggð upp með þeim hætti að Lúðvík notar bréfaskriftir Jóns og samtíðarmenn hans til að byggja upp eins konar samtal á milli þeirra sem hann tjáir sig sjálfur mismikið um inn á milli. Um það segir hann í upphafi bókarinnar:
Ég hef kosið þann hátt í þessu riti að láta Jón Sigurðsson og samtíðarmenn hans ræðast við, að svo miklu leyti, sem því verður við komið, látið þá ótruflaða af minni hálfu beita sínu tungutaki og koma til dyra í sínum klæðnaði, alveg án tillits til þess, hversu skrautlegur hann er.
Lúðvíki er greinilega talsvert umhugað, bæði í inngangi bókarinnar (fyrsta undirkaflanum) og í eftirmála hennar, að fjalla um hlutleysisskyldu fræðimannsins og meðferð hans á heimildum almennt. Fer mestur hluti þessara beggja bókarhluta í vangaveltur um þá hluti. Þannig segir hann t.a.m. í inngangskaflanum:
Mat sagnfræðingsins á því, hverju á að kasta og hvað á að nýta, getur verið ærið frábrugðið og sama heimildargagn orðið að forskrift að fleiri en einni niðurstöðu í sögulegri túlkun þeirra. Þess vegna er það einstætt, að sá kostur hlýtur jafnan að verða beztur, ef hann er unnt að nýta, að láta heimildirnar sjálfar tala. Engan veginn girðir það fyrir, að sagnritari geti dregið af þeim sínar ályktanir og birt þær í riti sínu, en með þessari aðferð veitir hann öllum, sem verk hans lesa, færi á að mynda sér sína skoðun grundvallaða á málsskjölum heimildanna.
Hliðstæða umfjöllun er að finna í eftirmálanum:
Engan veginn lá beint við, hvernig hagnýta skyldi þessi aðdráttarföng. Ofan á varð að takmarka not þeirra að sinni við þau viðfangsefni, sem birta ókunn sannindi eða leiðrétta það, sem áður kynni að vera missagt.
Það virðist því helzt sem Lúðvík líti svo á að það sé ekki hlutverk sagnfræðingsins að leggja mikla dóma á þær heimildir sem fyrir liggi heldur fyrst og fremst að koma þeim á framfæri við almenning sem síðan sé að mestu eftirlátið að mynda sér skoðun á umfjöllunarefninu.

Afstaða höfundar til viðfangsefnisins
Ljóst verður að telja að afstaða Lúðvíks til Jóns Sigurðssonar sé afar jákvæð þó hann reyni með mjög áberandi hætti að fjalla um málið á fræðilegan hátt og láta ekki tilfinningar eða annað slíkt birgja sér sýn. Þannig segir hann t.a.m.:
Nú er það alkunna, að menn fá svo góðan þokka á einu eða öðru, mönnum og málum, ýmist af persónulegum kynnum eða afspurn, að þeir fá glýju í augun, villast úr götu, missa af stefnumiðum og vilja jafnvel ekki við villuna kannast, þótt þeim sé á hana bent.
Það er því nokkuð ljóst að Lúðvík leggur sig fram við það að skyggnast framhjá þjóðhetjunni Jóni Sigurðssyni og reyna að fjalla eingöngu um hann út frá þeim heimildunm sem fyrir liggja. Hvernig honum tekst til er annað mál. Að mínu mati tekst honum það þó að mörgu leyti vel, ekki sízt með það í huga að bókin er rituð aðeins um 15 árum eftir stofnun lýðveldisins. Hins vegar fer ekki á milli mála, eins og fram kemur hér á undan, að afstaða Lúðvíks til Jóns er afar jákvæð og leggur hann t.a.m. mikla áherzlu á það að þó Jón hafi ekki verið gallalaus maður frekar en aðrir þá hafi kostir hans verið svo miklir að gallarnir hafi algerlega horfið í skuggann af þeim. Þannig segir hann um Jón:
Jón Sigurðsson forgyllti ekki menn, hann var of mikill sagnfræðingur og vísindamaður til þess að láta berast út á þann ís, þótt stundum kynni það að hafa gagnað honum sem stjórnmálamanni. Þess sér og bein deili, að það átti ekki við lund hans, að hann væri forgylltur eða gerður að goðveru. Hann hafði hins vegar ekki á móti því, að hann væri vegsamaður né heldur að honum væri sýnd virðingarmerki svo fremi, að fyrir því lægi sönn og eðlileg ástæða. Jón var ekki breyzkleika- né brestalaus fremur en aðrir dauðlegir menn. Fjarri öllu lagi er að draga fjöður yfir það og hann vafalaust aldrei til þess ætlazt. En í sinni gerð var hann stór, yfirburðir hans svo miklir, maðurinn svo einstakur, að þess, sem miður fór, gætir ekki í þeim samanburði. Ég er ekki að víkja að þessu í því skyni að gefa mönnum undir fótinn með það, að í þessu riti sé leitazt við að sýna snögga bletti á Jóni, heldur eingöngu til ábendingar um, að ég hef ekki fellt þá undan, ef þeir hafa með einhverjum hætti birzt í því efni, sem hér er fjallað um.
Kostir og gallar bókarinnar
Á heildina litið er bókin að ýmsu leyti ágætis rit aflestrar þó hún sé á köflum frekar tyrfin aflestrar. Oft er Lúðvík frekar langorður um hluti sem manni findist að hægt væri að afgreiða á mun styttri og hnitmiðaðri hátt. Samræðustíllinn, sem Lúðvík byggir bókina einkum á, verður að teljast bæði galli og kostur. Kostur að því leyti að þessi stíll færir lesandann nær viðfangsefninu þar sem um frumheimildir er að ræða. Gallinn er hins vegar sá að fyrir vikið verður textinn þyngri og ólíklegra en ella að hann höfði til almennra lesenda.

Það er ótvíræður kostur við bókina að í henni eru tilvísanir settar í neðanmálsgreinar þannig að aðgengilegt er fyrir lesandann að kynna sér þær hafi hann hug á því. Lúðvík rökstyður ennfremur mál sitt vel með tilvísunum í heimildir, einkum bréfaskriftir Jóns og samtíðarmanna hans. Í bókinni er síðan nokkuð af myndum tengdum viðfangsefninu sem verður óneitanlega að teljast kostur.

Gallar bókarinnar eru sem fyrr segir að Lúðvík á það til að verða langorður á köflum og fyrir vikið getur textinn orðið frekar tyrfinn. Hann á það ennfremur til að vera með langar beinar tilvitnanir sem ósjaldan eru allt að því heil blaðsíða eða jafnvel meira. Á heildina litið tel ég þó bókina áhugavert og mikilvægt innlegg í fræðilegar vangaveltur um ævi og störf Jóns Sigurðssonar. Hins vegar er jafnljóst að mínu mati að bókin er ekki til þess fallin að almenningur taki sér hana í hönd og lesi sér til afþreyingar heldur er hér fyrst og fremst um fræðirit að ræða.Heimildaskrá:
Lúðvík Kristjánsson: Á slóðum Jóns Sigurðssonar. Hafnarfjörður. 1961.
..
>> Lesa

laugardagur, febrúar 19

Hundshræ og bækur um dautt fólk: Umskipti Davids Lurie í Vansæmd Coetzees

Höfundur Í Vansæmd (1999) eftir J. M. Coetzee er sögð saga Davids Lurie, háskólaprófessors sem fæst við kennslu en leggur mestan metnað sinn í ritun fræðibóka um rómantísk skáld og rithöfunda. David er hámenntaður í evrópskri menningu og sækir flestar viðmiðanir sínar í sígildar bókmenntir. Hann er maður tungumáls og rökhugsunar, er fluglæs á ítölsku, frönsku og þýsku, og getur fært sannfærandi rök fyrir flestum skoðunum sínum. Í Vansæmd er lýst atburðum sem fá David Lurie til þess að endurskoða hugsunarhætti sína og mat á veruleikanum. Í stuttu máli sagt er Vansæmd sagan um það hvernig David Lurie byrjar að vantreysta eigin dómgreind, menntun og rökhugsun, en umfram allt tungumáli.

Rödd sögumannsins í Vansæmd dregur hvarvetna dám af menntun Luries og allmargar lýsingar bókarinnar eru sóttar óbeint í hugarheim hans. Oft eru fyrirbæri nefnd á fleiri en einu tungumáli, eins og til þess að ganga úr skugga um að merkingin komist til skila en þó ekki síður til að endurspegla djúptæka menntun aðalpersónunnar. Oft eru notaðar viðlíkingar úr klassískri goðafræði, eða spunnar inn vísanir í rómantísk skáld; Goethe, Byron, Flaubert. Snemma í bókinni er lýst þeirri skoðun Luries að tungumál eigi rætur sínar í söng: „…að hans mati er uppruna máls að leita í söng, og uppruna söngs í þörfinni fyrir að fylla hina ofvöxnu og tómlegu mannssál af hljóðum.“ (7) Þessi skoðun rímar vel við atriðið í þriðja kafla þar sem Lurie beitir fagurgala orða sinna og lærdómstali í kennslustundinni í þeirri von að heilla Melanie, eins og fugl sem syngur til að heilla hitt kynið.

En tungumálið er líka aðferð fólks (og þá ekki síst karlmanna) við að ná til síðari kynslóða. David Lurie er með óperu um Byron í bígerð vegna þess að hann „langar til að skilja eitthvað eftir sig.“ (61) Þegar Lurie lýsir verkinu sem afkomanda sínum skín í gegn sú óorðaða skoðun hans að slíkir afkomendur standi honum nær heldur en raunveruleg dóttir hans. Í þessari afstöðu er rökvilla hans fólgin, að mati söguhöfundar. David Lurie treystir um of á tungumál og menningarafurðir. Hann á í erfiðleikum með að horfast í augu við lífið eins og það er í raun og veru. Hann tekur rökhugsun fram yfir tilfinningar og stendur berskjaldaður þegar aðstæður snúast honum í óhag. Samskipti hans við annað fólk eru í ólestri og orðin ein duga skammt til að fást við erfiðleika og mótlæti.

Strax í 6. kafla kemur þessi staðreynd í ljós. Þegar Lurie fer í yfirheyrslu hjá rannsóknarnefndinni reynist ekki nóg fyrir hann að játa sekt sína. Iðrun hans er dregin í efa þar eð hún er „einungis“ sett fram í orðum. Lurie setur þetta í beint samhengi við tíðarandann: „Þau vildu hneyksli: harmagrát, iðrun, helst tár. Sjónvarpsþátt, satt að segja. Ég vildi ekki gera þeim það til geðs.“ (64–5) Vanmáttur tungumálsins er dreginn enn skýrar fram í ellefta kafla, þegar árásin á sér stað. Tungumálakunnátta Luries kemur að engu gagni við slíkar aðstæður. Hann getur aðeins brugðist við með „formlausum öskrum sem byggja ekki á neinum orðum, aðeins ótta.“ (94) Tilburðir hans við að hugga dóttur sína eftir nauðgunina skila engum árangri. Hann er of fastur í tungumálinu til þess að ná til hennar.

Þegar fram í sækir færast efasemdirnar um gildi tungumálsins yfir á gjörvalla siðmenninguna. David Lurie verður æ fráhverfari vissum sviðum siðmenningar og þeim höftum sem hún setur á náttúruna. Sagan um hundinn sem var barinn fyrir að eltast við tíkur er skýrt dæmi um þetta: Lurie samsamar sjálfan sig hundinum. Viðhorf hans til dýra í sögunni er táknrænt fyrir þá breytingu sem á honum verður. Þegar hann sér lömbin hans Petrusar sem bíða slátrunar fyllist hann óhug og getur ekki hugsað sér að mæta í veisluna þar sem kjötið af þeim verður á boðstólnum. Hann stendur þá enn of föstum fótum í borgaralegri blindni gagnvart lögmálum náttúrunnar – hann getur vel hugsað sér að borða kjöt sem hann kaupir í búð en tilhugsunin um líf fórnardýranna og slátrunina sjálfa er honum of þungbær. Eftir að hann byrjar að vinna hjá Bev Shaw byrjar hin stranga rökhugsun að þoka smám saman. Hann fer að leyfa hundunum að sleikja á sér hendurnar áður en þeir eru aflífaðir, en ekki vegna þess að það virðist skynsamlegt. Samkennd hans með hundunum ræður þar mestu. Að nokkrum tíma liðnum fær hann lífsfyllingu sína með því að eyða hundshræjum. Maðurinn sem athafnaði sig áður í fílabeinsturni fræða sinna og skeytti lítið um aðra en sjálfa sig vinnur nú verkin sem eru of ómerkileg til þess að nokkrum öðrum detti í hug að vinna þau.

Þannig lýkur sögunni Vansæmd. David Lurie á sér þá ósk heitasta að geta orðið einfaldari en hann er. Hann er hættur að skrifa „bækur um dautt fólk“ (156) og er m.a.s. orðinn áhugalaus um Byron–óperuna sína. Friðþæging syndarans er fólgin í athvarfi náttúru, málleysis og tilfinninga. „Hinni ofvöxnu og tómlegu mannssál“ er hollara að vera fyllt af annars konar hljóðum en rökréttum orðum og tali.
..
>> Lesa

fimmtudagur, febrúar 10

Barthes: Camera Lucida

HöfundurLjósmyndun er umdeilt listform, og vilja sumir ekki einu sinni kalla hana listform. Hvað skilur að fjölskyldumyndirnar og glamúrmyndir í tímaritum? Ef til vill aðeins tækniatriði. Mörkin þar sem ljósmynd verður listræn eru óljós í besta falli. Hér eru þó ýmsir færir ljósmyndarar að verki og lifir ljósmyndun á Íslandi góðu lífi, eins og sést meðal annars á vefsíðunni ljosmyndakeppni.is sem opnaði síðastliðinn desember. Auk þess er yfirleitt einhver ljósmyndabók í flokki "jólabókanna", þetta árið Íslendingar eftir Sigurgeir Sigurjónsson og Unni Jökulsdóttur sem var tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Þó vill svo til að flestar þessar bækur eru annaðhvort samansafn af ljósmyndum, eða einskonar "manúall" sem inniheldur tæknilegar upplýsingar frekar en raunverulega gagnrýni. Það kitlaði því hugann að komast að því að fræðimaðurinn Roland Barthes hefði skrifað um þetta efni í bók sinni Camera Lucida, enda gaf það mér tækifæri til að sameina tvö mín helstu áhugamál. Ritið stóð svo sannarlega undir væntinum, því ljósmyndun var þar greind á bókmenntafræðilegum forsendum.

Barthes tekur ekki að sér að fjalla um tæknileg atriði, eða gagnrýna einstakar ljósmyndir útfrá viðteknum reglum, heldur fjallar hann frekar um ljósmyndun sem fyrirbæri, hvaða gildi hefur ljósmyndin sjálf og hvaða áhrif hefur hún ein og sér, enda segir hann að við sjáum aldrei ljósmyndina sjálfa, hún er ósýnilegur spegill hlutanna sem hún sýnir. Ljósmyndin, segir hann, er eins og tákn í táknkerfi sem vísar alltaf út fyrir sjálft sig. Ljósmyndin er mynd af einhverju og list hennar felst í því sem hún sýnir, ólíkt til dæmis málverkum þar sem listin felst enga síður í listaverkinu sjálfu sem er sérstakur hlutur óháður myndefninu.

Hvaða hliðstæðu hefur ljósmyndin við upprunalegt málverk? Negatívuna? Ljósmyndin er listform okkar tíma, listform sem má fjöldaframleiða, þar sem erfitt er að merkja sérstakan uppruna (og þó hefur myndast ákveðið listasnobb fyrir "fyrstu prentun" ljósmynda, sem gefur þeim meira gildi en seinni prentunum). Hins vegar hefur lítið verið skrifað um einhverskonar teoríu ljósmyndunnar, þrátt fyrir hin gífurlegu áhrif sem hún hefur á daglegt líf okkar. Ljósmyndir eru alls staðar.

Barthes varpar fram áhugaverðum spurningum, gefur nýja og dýpri sýn á ljósmyndun og gildi hennar, og vil ég því mæla með Camera Lucida við hvern þann sem hefur áhuga á ljósmyndun ljósmyndunar vegna.
..
>> Lesa

miðvikudagur, febrúar 9

Að steypa eigin haus og hugsun: Svar við ádrepu Jóns Þórs Péturssonar

HöfundurHermt er að vinsældir Kistunnar hafi dalað nokkuð síðustu misserin eftir að hlutverk hennar sem rafræn korktafla náði yfirhöndinni yfir nýsköpuninni. Ritstjórn vefritsins brá á það ráð síðasta sumar að endurbirta eldri greinar í stórum stíl til að auka lesturinn, flest gott stöff sem hafði virkað áður og hlaut að gera það aftur. Fljótlega var þó horfið frá þessari stefnu, enda er síðan búin forláta leitarvél sem gerir lesendum kleift að finna allt efni sem birst hefur á henni frá upphafi, og hefur það líklega verið mál manna að endurbirtingar sem þessar væru ekki endilega nauðsynlegar.

Á dögunum bryddaði ritstjórn Kistunnar upp á nýjung sem minnir óneitanlega á fyrrnefnt uppátæki: Að stofna nýja vefsíðu og birta sumar kistugreinarnar þar aftur, væntanlega í von um að ná til fleiri lesenda. Hlaut nýi vefurinn nafnið Kviksaga. Greinilegt er að náin tengsl eru á milli síðanna tveggja, útlit beggja er mjög svipað og á hvor síðan um sig vísan hlekk á hinni. Tengslin eru m.a.s. svo náin að enn hefur engin grein birst á Kviksögu sem ekki er birt samtímis á Kistunni. Því er hæpið að hægt sé að tala um að Kviksaga sé sjálfstætt vefrit enn sem komið er. En þetta er óneitanlega heldur sérstök aðferð við að auka lesturinn, ef það er þá tilgangurinn á annað borð. Næstum eins og að láta blaðburðarbarn bera út tvö eintök af Mogganum í hvert hús í þeirri von að fólk lesi blaðið tvisvar. Ef ritstjórn Kviksögu ætlar að koma fram af gagnkvæmri virðingu við ritstjórn Kistunnar yrði hún að birtar allar umframgreinar Kistunnar líka á sinni síðu. Þar með yrði komnar tvær alveg eins Kistur. Eða tvær alveg eins Kviksögur, eftir því hvernig á það er litið.

En trúlega stendur þetta allt til bóta. Kviksaga hefur aðeins starfað í nokkra daga og vonandi nær hún að öðlast sjálfstæða rödd áður en langt um líður, enda ekki beinlínis offramboð af íslenskum menningar-veftímaritum. Við á Skýjaborgum vitum hvernig það er að hleypa svona síðu af stokkunum, það er ekki auðvelt og gerir mikla kröfu til aðstandenda ef vel á að vera. Hér skal þó tekið fram að undirritaður er ekki að halda því fram að Skýjaborgir sé fullskapað veftímarit, hvað þá gott eða athyglisvert. Um það verður hver og einn að dæma. Vefritið er aðeins nokkurra mánaða gamalt og ritstjórnarstefna þess hefur ekki mótast fullkomlega enn þá. Skýjaborgir eiga sér líklega ekki marga dygga lesendur, efnið á henni birtist með óreglulegu millibili og er mismerkilegt. En barningurinn er ekki alveg til einskis enn sem komið er, enda hefur einn þessara dyggu lesenda nýlega heiðrað ritstjórn Skýjaborga með umfjöllun um vefritið. Þessi lesandi heitir Jón Þór Pétursson. Og svo skemmtilega vill til að hann er einn af ritstjórum Kviksögu (og Kistunnar?).

Í greininni „Baráttan um upphefðina“ (4.2.2005) víkur Jón Þór nokkrum orðum að Skýjaborgum. Okkur er það ljúft og skylt að birta þá umfjöllun hér í heild sinni, til þess að fólk geti lesið hana í þriðja skiptið:

Vefritið skyjaborgir.com er tileinkað skáldinu og athafnamanninum Einari Benediktssyni. Ljóð skáldsins eru birt með reglulegu millibili en oftast er lítil tilraun gerð til að greina skáldskap hans. Ég geri þó engar sérstakar athugasemdir við það heldur tel ég í lagi að ljóð hans standi einsömul og lesendum látið eftir að túlka. Þannig finnst mér verk hans, sem margir hafa upp í hillu hjá sér, skipta mestu máli þegar rætt er um hvernig eigi að minnast Einars Benediktssonar. Ritstjórar Skýjaborga gátu þó ekki látið þar við sitja því að stórfengleg persóna á borð við Einar Benediktsson ætti skilið stórfenglega minningu. Það er því ekki nóg að Einar sé annar tveggja sem hvíla í heiðursgrafreitnum á Þingvöllum og stytta hafi verið reist af honum á Miklatúni. Auk þess hefur sagnfræðingurinn Guðjón Friðriksson ritað þriggja binda ævisögu um skáldið góða. Ritstjórar eru óhressir með að styttan sé "illa staðsett, ómerkt og borginni til skammar" og leggja síðan áherslu á að reist verði veglegt safn um skáldið og vegur hans aukinn í skólakerfi Íslendinga.

Hér vekur athygli að Jón Þór fagnar því að við skulum birta ljóð Einars Benediktssonar og enga nánari umfjöllun eða túlkanir á þeim; ljóðin njóta sín best ein og sér. Ekki er fulljóst hvort Jón Þór vill afgreiða allar bókmenntir með þessum hætti, eða hvort ljóð Einars Benediktssonar njóta þar einhverrar sérstöðu. Sé fyrri skýringin sú rétta virðist Jón Þór trúa á skilyrðislausa „erótík listarinnar“. Hann hlýtur þá að hafa ímugust á allri bókmenntatúlkun eða greiningu (ætli hann lesi Kistuna?). Hitt er þó meira um vert, að mati okkar í ritstjórn Skýjaborga, að Jóni Þór hreinlega ofbýður að einhverjum skuli detta sú vitleysa í hug að stofna vefrit tileinkað Einari Benediktssyni. Rökin gegn þeirri hugmynd eru að mati Jóns Þórs sú að Einar Benediktsson hafi þegar fengið næga athygli, hann er slitin plata, úrsérgengin klisja sem á ekkert erindi við okkar samtíma. Persónu Einars Benediktssonar tengir Jón Þór umræðunni um stórmennasögu, gamaldags sagnfræðilega aðferð sem hann virðist ekki nema mátulega hrifinn af.

Þetta viðhorf Jóns Þórs á auðvitað fullan rétt á sér, og víst er að formælendur hans eru fjölmargir. Skemmst er að minnast látanna sem urðu við útkomu forsætisráðherrabókarinnar sl. haust. En Skýjaborgir hafa ekki enn þegið styrk úr ríkissjóði og því erfitt að fordæma þessa tvo hluti á nákvæmlega sömu forsendum. Í grein sinni setur Jón Þór ritstjórn Skýjaborga undir sama hatt og fyrrum alþingismanninn Kristján Pálsson og sagnfræðinginn Jón Þ. Þór. Með þessu virðist Jón Þór reyna að draga upp mynd af ritstjórn Skýjaborga sem íhaldssömum og jakkaklæddum stuttbuxnastrákum sem fá grænar bólur þegar þeir heyra orð eins og „póstmódernismi“ og „nútímaskáldskapur“. Menn sem tileinka Einari Benediktssyni vefrit hljóta að vera sekir um menningarlegt afturhald eða „menningarlegt rúnk,“ svo notað sé það myndmál sjálfsfróunar sem Jóni Þór virðist einhverra hluta vegna vera mjög hugleikið.

Við þessu er fátt að segja umfram það sem þegar hefur verið birt í greinunum hér á Skýjaborgum. Ásakanir Jóns Þórs mætti íhuga af einhverri alvöru ef þær væru í raunverulegu samræmi við efnistök Skýjaborga, þ.e.a.s. ef allar greinarnar hér á vefritinu væru einn samfelldur lofsöngur um Einar Benediktsson. Sérhver lesandi sem kynnt hefur sér efni Skýjaborga veit þó væntanlega að svo er ekki. Í raun er hálfhlægilegt að greinar um moddara, Boris Akúnin og sjálfsævisögu Bob Dylans skuli vera kenndar við Einar Benediktsson. En Einars Ben-stimpillinn er auðvitað fyrst og fremst virðingarvottur, ekki efnisyfirlýsing vefritsins, rétt eins og bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness eru veitt bókum þótt þær fjalli ekki endilega um Halldór Laxness. Morgunblaðsgreinin sem Jón Þór vitnar til í sinni grein birtist í Morgunblaðinu á 140 ára afmælisdegi Einars Benediktssonar, og þótti síst borið í bakkafullan lækinn með þeim skrifum, enda birtist ekkert annað um Einar Benediktsson í íslenskum fjölmiðlum þann daginn. Þótt höfundar greinarinnar vilji láta merkja styttuna hans Ásmundar Sveinssonar þarf það vonandi ekki að þýða að allt efni sem birtist á Skýjaborgum (eftir þá sjálfa og aðra) sé ekki þess virði að lesa það.

Tilgangur Skýjaborga er umfram allt að auka fjölbreytni íslensku menningarflórunnar, að fjalla um hvers kyns menningu og listir, en ekki að sífra yfir einhverju ímynduðu, úrkynjuðu menningarástandi. Greinarnar á Skýjaborgum eru skrifaðar til þess að fólk geti lesið þær og notið þeirra. Áhugasömum er bent á það efni sem þegar hefur verið birt hér á síðunni, en ef það vekur ekki áhuga getur fólk auðvitað líka fundið sér eitthvað annað að lesa. Öllum er frjálst að gagnrýna það sem hér er sett fram, en við hljótum að mega gera þá kröfu að sú gagnrýni snúist um efnið sjálft fremur en hugarburð og sýndarmennsku þess sem gagnrýnir.
..
>> Lesa

laugardagur, febrúar 5

Nýju fötin moddarans

Höfundur-um mýtukenndan menningarkima-

Áratugirnir eftir seinna stríð einkenndust af breytingum á mörgum sviðum samfélagsins, hvort sem í Evrópu, Bandaríkjunum eða víðar. Upp spruttu meðal annars nýir menningarkimar – breytt umgjörð og aðstæður stuðluðu að þörf fyrir ný eða breytt lífsviðhorf, annars konar “flokkadrætti” en áður höfðu tíðkast. Menningarkimar hafa lengi fyrirfundist í ýmsum samfélögum, enda sjaldnast allir steyptir í sama mótið; hins vegar virðist ríkja misbrýn þörf hjá fólki á ólíkum tímum til þess að skilgreina sig á einhvern hátt á móti ríkjandi viðhorfum eða hugmyndafræði samfélagsins. Sá menningarkimi sem kallast “mod” eða “modismi” opnaðist í Bretlandi, nánar tiltekið í höfuðborginni Lundúnum, upp úr 1960, náði blómaskeiði (að margra mati) 1964 og fór halloka og lokaðist aftur um 1966 (þótt ýmsir vilji halda fram að moddið lifi góðu lífi í breyttri mynd). Uppruni moddsins er, eðli síns vegna, goðsagnakenndur, en þó er hægt að rekja sköpunarferlið í gegnum nokkra, dæmigerða punkta. Ennfremur hefur verið gert grein fyrir mögulegum ástæðum þess að moddið náði fótfestu og að lokum fjöldaútbreiðslu.

Ástandið í Bretlandi eftir stríð gefur fyrstu vísbendingu um tilurð moddsins, samkvæmt þeim fræðimanni sem einna fyrstur veitti menningarkimabylgju Bretlands gaum. Í bók sinni Subculture – The Meaning of Style rekur Dick Hebdige sögu menningarkima t.d. moddara, pönkara og snoðhausa og leggur til hugmyndafræði til merkingarlesturs á þessum fyrirbærum. Hebdige bendir á að eftir stríð hafi, þrátt fyrir aukna velmegun og kaupmátt, enn sigið á ógæfuhliðina hjá verkamannastétt. Að hörmungum stríðsins loknum virtist stéttaskiftingin ekki lengur svo sjálfsögð samfélagsleg sannindi enda hafði nauðsyn brotið lög: í stríðinu höfðu Bretar sameinast í að leggja stéttaskiftinguna á hilluna um stund í því augnamiði að standa saman til varnar föðurlandinu. Hins vegar virtist allt hafa runnið aftur í sitt fyrra horf og verkamannastéttin mátti una við sitt gamla hlutskifti, að vísu með meira fé milli handanna, en eiginlega alveg jafnlitla möguleika á að brjótast undan formgerðum stéttaskiftingarinnar. Reyndar höfðu breytingar átt sér stað, en þær voru neikvæðar: verkamannastéttin hafði glatað að miklu leyti sérstöðu sinni og sameiginlegum lífsháttum og þær aðferðir sem stéttin hafði beitt til að tjá sameiginlega reynslu sína voru orðnar óvirkar. Með tilkomu fjölmiðla, nýrra fjölskyldugerða og breyttum áherslum í menntakerfi og atvinnulífi hafði verkamannastéttin í raun glatað menningu sinni.

Moddarar komu einmitt fyrst og fremst úr verkamannastétt. Eins og áður sagði, þá er uppruni moddsins goðsagnakenndur, en þó er handhægt að rekja byrjunina, sem einhvers staður hlýtur að vera, aftur til fáeinna tískuóðra gyðingastráka úr millistéttaklæðskerafjölskyldum. Þessir einstaklingar tóku klæðaburð sinn alvarlega, skiftu reglulega út sérsniðnum og einstökum flíkum og vöktu athygli á götum úti einfaldlega vegna þess að þeir litu svo miklu betur út en hinn almenni vegfarandi. Það er ekki hægt að segja að eitthvert meðvitað ferli hafi farið af stað, en smám saman myndaðist lítill kjarni karlkyns ungmenna sem gerði hégómagirni að æðstu dyggð og var ofurmeðvituð um klæðaburð sinn. Það að líta svo afburðavel klædda einstaklinga vakti viðbrögð margra sem vildu feta í þeirra fótspor. Þessir forfeður moddsins voru frumlegir og útsjónarsamir og með auknum kaupmætti og frítíma gátu þeir rannsakað tískuna, fundið löngu gleymd snið, keypt vönduðustu efnin og látið klæðskera sauma á sig fötin sem þeir sóttust eftir. Þessi áhugi á tísku og fötum vatt upp á sig og fljótlega urðu fyrstu moddararnir fókuseraðri og tóku að gerast heilsteyptari. Inn í stílinn bættist áhugi á hárgreiðslum, fasi, tónlist og öðru slíku. Eftir því sem stíllinn þróaðist varð hann meira aðlaðandi og fleiri bættust í hópinn, enda eðli moddsins í hnotskurn að líta nógu vel og “kúl” út. “Kúlið” skipaði háan sess í huga moddaranna og þeir leituðu víða fanga í leitinni að hinu algjöra “lúkki” (sem eins og tískunni er von og vísa, tók sífelldum breytingum). Ekkert var hallærislegra en heimaslóðirnar og því leituðu tískuvitringarnir til Bandaríkjanna, og þá sér í lagi til djassheimsins þar (úr hugtakinu “modern jazz” er einmitt “mod” að hluta til fengið) og til svarta mannsins sem var óendanlega kúl. En það var líka leitað til meginlands Evrópu: frá Ítalíu fengu þeir nett og litskrúðug jakkaföt og skó, að ógleymdum moddfararskjótunum, vespum. Frá Frakklandi fengu moddararnir drengjakollinn sem hæfði snyrtilegu heildarútliti; þeir fengu líka þaðan exístentíalískar kenningar Sartre jafnt sem nýja dansa og “pósur” úr annars óskiljanlegum frönskum kvikmyndum. Moddararnir stefndu á sína hugmynd um fullkomnun og ekkert smáatriði mátti verða útundan.

Skiljanlega voru moddarar, eins og aðrir menningarkimar, ekki með öllu einsleitur hópur, enda höfðu fjölmiðlar, né varla almenningur, tekið eftir hvað takmarkaður fjöldi ungmenna hafði fyrir stafni. Moddið var líka fyrst og fremst einstaklingsframtak. Í London einni voru nokkrir hópar sem höfðu sín “andlit” eða stílmótara sem fóru ekki eftir neinu nema eigin nefi þegar kom að stílsköpun. En stíllinn hafði hitt á rétta strengi hjá ungu fólki úr verkamannastétt og hver og einn bætti sínum sérkennum við, reyndi að líta best og frumlegast út af öllum. Það sem einkenndi og skilgreindi þessa einstaklinga öllu fremur sem menningarkima var það að moddið var fyrir þeim nýr lífstíll sem gilti alla daga vikunnar, allan sólarhringinn. Útlitið krafðist ýmissa fórna, sem voru veittar glöðu geði. Hinn “dæmigerði” moddari varð að stunda launaða vinnu, helst í umhverfi þar sem ekki þurfti að óhreinka sig, eins og t.d. við innanhússsendlastörf eða afgreiðslustörf. Stærstur hluti launanna fór í ný föt og annað útlits- og tískutengt, afgangurinn fór í sjaldgæfar djass/R&B/sálartónlistarplötur, ítalskar vespur og svo amfetamín sem var nauðsynlegt til að geta haldið út þennan hektíska lífsstíl. Fyrir ungmenni af verkamannastétt lá atvinnulífið beinast við, flestir hættu í skóla eftir skylduna um fimmtán ára aldur og bjuggu áfram í foreldrahúsum. Alla virka daga var svo unnið til þess að hægt væri að láta sjá sig í því allra nýjasta um helgar á þeim klúbbum sem spiluðu modd/dansvæna tónlist (annars var alltaf hægt að finna aðra staði til þess að sýna sig og sjá aðra).

Þegar enn fleiri höfðu tekið hina nýju trú moddsins gat almenningur ekki annað en tekið eftir að eitthvað var að gerast. Sökum fjölbreytileika, dreifingar,eðli stílsins vegna og þess að moddið var hvorki miðstýrt né fullkomlega sjálfmeðvitað afl átti fólk erfitt með að átta sig á því hvað moddið táknaði. Moddararnir sjálfir voru ekki einu sinni með það á hreinu hvaða skilaboð þeir voru að senda. Samt sem áður var þeim orðið ýmislegt ljóst, til dæmis sú staðreynd að þeir voru betur klæddur en nokkur annar hópur í samfélaginu – þeir voru jafnvel fínni í tauinu en menntaði millistéttaryfirmaðurinn í vinnunni þeirra, þótt hann væri með hærri laun og fínni hreim. Það sem hafði byrjað sem viðleitni til að líta vel út var orðið að lífstíl sem innihélt gjörólík gildi en þau sem réðu ríkjum í samfélaginu, moddararnir höfðu komist að því að útlit, klæðaburður var tæki sem gaf svo sterk skilaboð að það hrikti í hinum innri strúktúr samfélagsins. Yfirborðið hafði heilmikið að segja um innihaldið, og moddarinn hafði fundið glænýja leið til að nota hluti eins og t.d. jakkaföt, eins og lesa má af þessum hugrenningum moddara:
“Hefndin var modd. [...] Modd var ósýnilegt þessum örvitum. [...] Jakkaföt mannanna um borð í neðanjarðarlestinni kom honum til að brosa. Hver
var tilgangurinn með því að klæðast jakkafötum ef þau létu mann líta út
eins og kartöflupoka? Þeir störðu á hann og brostu að myrkri höfnun hans
í myrkum glugganum þar sem hann sat, spíttaður í lestinni, og þeir hötuðu
hann vegna þess að hann klæddist jakkafötunum sínum sér til ánægju og
yndisauka, og þau fóru honum vel, en þeir voru íþyngdir sínum líkt og
fangar hlekkjum [...]”
Phil Cohen setur sama dæmi upp á fræðilegri máta þegar hann heldur því fram að moddararnir hafi verið að reyna að skilja tilveru skrifstofumannsins sem gat færst ofar hvað varðaði stöðu innan samfélagsins, en þeir hafi jafnframt haldið fast í form hefðbundinna gilda menningu stéttar sinnar. Til þess notuðu þeir og gerðu tilraunir með ýmsa merkingarhlaðna hluti, n.k. hráefni sem sagan lagði þeim til. Þessir hlutir voru raunverulegir, sýnilegir – moddararnir báru þá utan á sér. En þótt athygli moddsins hafi að vissu leyti beinst að því hvernig uppruni eða menning þess var ólíkt t.d. millistéttarinnar, þá stóðu moddarar einnig í andstöðu við menningu foreldra sinna. Kynslóðabilið varð sýnilegt þar sem moddarinn átti sitt nýja kjörumhverfi, þ.e.a.s. helgina eða klúbbana í vesturhluta Lundúna á meðan hið gamla kjörumhverfi verkamannastéttarinnar var inni á heimilunum, á pöbbnum eða í hverfunum í austurhlutanum – þar hafði menning stéttarinnar fundið leiðir til tjáningar í mótvægi við ríkjandi og viðurkennda menningu millistéttar.

Sú frumlega notkun á merkingarhlöðnum hlutum til sköpunar nýrrar orðræðu er nokkuð sem menningarkimar eru duglegir að nýta sér kallast “bricolage”. Sérhver menningarhópur hefur sitt sérstaka lag á þessu notkunarferli, vissa nálgunaraðferð sem sérkennir hópinn, frekar en hvaða hluti þeir eru að nota. Moddararnir nýttu sér þessa nálgun afar hugvitssamlega og tóku vissa merkingarhlaðna hluti úr sínu upprunalega samhengi, eins og t.d. áðurnefnd jakkaföt, einkennisbúning hins “streit” viðskiftaheims. Þeir virtu að vettugi þau gildi endurspegluðust í fötunum, sem áttu að “fylgja með”. Þegar moddarinn klæddist sérsniðnu jakkafötunum sínum var hann ekki að gefa til kynna þá hefðbundnu merkingu sem í fötunum fólust á borð við skilvirkni, metnað og undirgefni við yfirvald, í meðförum hans var þeim breytt í blæti, hluti sem höfðu aðeins gildi í sjálfum sér og voru nauðsynleg sjálfra sinna vegna. Á svipaðan hátt nálguðust þeir lyfseðilsskyld lyf gegn taugaveiklun, á annan hátt en þeim var ætlað – fyrir moddurum höfðu pillurnar aðeins notagildi í sjálfum sér, sem amfetamín. Alls kyns gildi sem samfélaginu þótti lestir; hégómagirni, yfirborðsmennska og hroki urðu að eftirsóknarverðum dyggðum í moddinu. Við þennan umsnúning á því sem ríkjandi stétt fannst heilagt felst m.a. uppbrot moddsins við hugmyndafræði samfélagsins. Ekki nóg með það að moddarar hafi gert lítið úr gildum millistéttarinnar og fundist þau óeftirsóknarverð, heldur höfðu þeir áðurnefnda lesti í hávegum. Þetta gerðu þeir svo með því að rífa hluti úr helgigripasafni millistéttar og gera kaldhæðnislega að sínum, og til að setja punktinn yfir i-ið þá gerðu þeir það með stíl. Þeir sem ekki skildu modd gramdist þetta en gátu ekki skilgreint fyllilega afhverju, en þeir vissu að það hafði eitthvað að gera með til dæmis það að moddarinn notaði peninga sem hann (jafnt sem aðrir) þurfti að vinna hörðum höndum fyrir í eitthvað sem þótti fánýti, þar með gerandi lítið úr striti vinnandi fólks. Fyrir almenningi var fé eitt af því allra heilagasta, sem skyldi helst nota í “rétta” og “alvarlega” hluti. Hvers virði var vinnan ef afrakstrinum var hugsunarlaust eytt í flík sem varð ónothæf eftir stutta stund fyrir duttlunga tískunnar?

Að lokum varð það samt aðdráttarafl moddsins sem varð því að falli. Lífsstíllinn var ungu fólki einum of aðlaðandi: þúsundir breskra ungmenna höfðu tekið hann upp eftir því sem á sjöunda áratuginn leið. Moddið þynntist eðlilega út af þessum sökum og missti þar með meginstyrk sinn. Það hafði verið leynileg eign neðanjarðarelítu, leynilegur kóði, í raun hafði það snúist um að búa til nýja yfirstétt, eða einkaklúbb, en á forsendum krakkanna, þar sem fáir útvaldir voru metnir eftir verðleikum klæðnaðar og hversu fast þeir gátu sótt lífsstílinn. Að sjálfsögðu töpuðust þessar forsendur þegar fjöldinn sló eign sinni á moddið – hvað er varið í fjölmennan einkaklúbb sem hver sem er getur sagst vera meðlimur í? Þessi spurning um hver sé raunverulega skilgetinn meðlimur á við um flesta menningarkima en loðaði sérlega við moddið frá byrjun. Hinir allra fyrstu moddarar voru ekki hrifnir af krökkunum sem öpuðu upp stílinn þeirra eða urðu fyrir áhrifum frá honum, því það dró úr sérstæðni hans. Eftir því sem moddarahópurinn stækkaði var hann ætíð strúktúreraður þannig að fáir lögðu línurnar á meðan meirihlutinn reyndi sitt besta í því að fylgja þeim að. Menningarkimar, líkt og modd eða pönk, innihalda alltaf einstaklinga sem eru misstaðfastir og trúir málstaðnum. Þeir sem gefa sig hvað alvarlegast að lífsstílnum álíta allajafna aðra sem gera það ekki (þ.e. meirihlutann) svikahrappa við málsstaðinn, hermikrákur sem sem ekki skilja tilganginn til fullnustu, falsspámenn. Þegar kemur að moddinu sem slíku, þá voru margir sem sem töldu sig vera hinn “eina, sanna moddara”. Því fyrr sem moddarinn hafði gefið sig stílnum því meira “original” og skilgetinn fannst honum hann vera. Því myndast nokkurs konar goggunarröð stækkandi hópa innan moddsins þar sem hverjum fannst þeim sem á eftir komu vera að óhreinka stílinn og ónýta. Í raun og veru skifta hártoganir um það hverjir hafi verið “alvöru” moddarar og hverjir ekki litlu máli fyrir rannsóknir á moddi sem menningarkima, þangað til að þeim tímapunkti kemur að hópurinn var orðinn það stór að hann í fyrsta lagi kom ofanjarðar og í öðru lagi var búinn að glata upprunalegri merkingu orðræðu sinnar um fágun og frumleika útlits (andspænis fjöldaframleiddu útliti).

Fjölmiðlar gátu ekki nema tekið við sér páskana 1964 þegar fjölmennum hópi moddara lenti saman við óvini sína, rokkara, í strandbænum Clacton. Um leið og sviðsljósið var komið á menningarhópinn fylgdi það honum eftir og skyndilega voru átök milli hópanna orðið daglegt brauð í útvarpi og blöðum. Gamalgrónir moddarar fylgdust hrylltir með sjónarspilinu, þeim hefði síst dottið í hug að flykkjast í hópa og eiga á hættu að rífa eða óhreinka fötin sín, svo ekki sé talað um þá moddlegu smán að vera gripnir í óflatterandi áflogastellingum. Það var enginn stíll yfir því, ekkert modd við það. En þótt þær þúsundir sem fylkt höfðu liði undir merkjum moddsins væru komnar langt frá upprunulegu hugmyndinni um fágun og flott útlit sama hvað á gæti dunið, þá var sú afskræmda mynd sem birtist almenningi af moddi í fjölmiðlum sú mynd sem skilgreindi það einna mest. Modd varð að þeirri ímynd sem það birtist almenningi, burtséð frá einhverjum upprunalegum meiningum þess. Þessi ímynd leyfði þeim loks sem höfðu séð moddara á stjái en ekki getað skilið orðræðu þeirra né skilgreint þá, til að anda rólegar. Í það fyrsta voru moddhjarðirnar á ströndinni að sýna það sem fólki fannst dæmigerð hegðun verkamannastéttar: slagsmál og skrílslæti. Í þessu samhengi er hægt að skoða það sem Stuart Hall hefur bent á, hvernig menningahópar og stéttir urðu háð fjölmiðlum til skilgreiningar á eigin samsemd og menningu eftir því sem samfélagið varð fjölbreyttara og brotakenndara . Einnig hvernig fjölmiðlar gerðu fólki kleift að fá merkingu út úr menningu sinni jafnframt því sem það gat byggt ímynd hennar og annara menningahópa út frá því sem fjölmiðlar létu þeim í té. Heildarútkoman þessara ímynda var svo merkingarbær samfélagsheild. Menningarkimar eru ekki undanskildir þessari reglu og það útskýrir afdrif moddsins þegar það kom upp á yfirborðið. Vandmeðfarin orðræða þess þoldi ekki sviðsljósið; merking moddaranna skolaðist til enda ekki að undra þar sem þeir höfðu leitt hana af fyrirframákveðinni orðræðu samfélagsins. Þegar moddið var rifið úr viðkvæmu samhengi tiltölulegra nýrrar orðræðu sinnar varð merking þess óljós. Moddarar höfðu valið sér ákveðnar merkingar til að leggja í klæðaburð og hegðun málstaðsins vegna og reynt að loka á allar aðrar merkingar – þeir höfðu kóðað skilaboð sín á sérstakan hátt. Almenningur var hins vegar allt annar viðtökuhópur sem túlkaði það sem birtist þeim á annan hátt.

Náðarhöggið kom svo í kjölfar opinberunar moddsins með innlimun helstu þátta þess (þ.e. eins og þeir birtust í fjölmiðlum og voru túlkaðir af almenningi) inn í ríkjandi hugmyndafræði samfélagsins. Dick Hebdige gerir grein fyrir því hvernig menningarkimar eru almennt gerðir óvígir með tvenns konar innlimun. Í fyrsta lagi notast hann m.a. við módel Stanley Cohens, sem byggði rannsóknir sínar á því hvernig fjölmiðlar fjölluðu um modduppþotin 1964 og síðar, sem dæmi um hugmyndafræðilega innlimun/aðlögun. Dregin var upp mynd af moddurum sem svokölluðum “folk devils” , þ.e. miklu meira gert úr þeirri ógn sem samfélaginu stafaði af þeim sem “óvinum”. Þannig vill Hall meina að óttinn sé gerður áþreifanlegur og því viðráðanlegur jafnframt því sem óvininum sé úthýst úr samfélaginu, ýjað að því að hann eigi í raun ekki rætur sínar að rekja þangað; og um leið er gert lítið úr glæpnum, brotaaðili samfélagsreglnanna varla þess virði að þurfi að aga hann. Moddararnir voru þannig einnig sýndir sem huglausir krakkaormar sem fundu vott af kjark í því að safnast í hjarðir sem fáeinir lögreglumenn fóru létt með að höndla. Hegðun þeirra og útlit voru þannig endurskilgreind og gefin skiljanleg merking í fjölmiðlum, ennfremur sem táknin þeirra, fyrrum leynileg orðræða, þ.e.a.s klæðnaður, tónlist og slíkt var breytt í fjöldaframleidda neysluvöru fyrir áhugasaman markað. Fjölmiðlar notuðu hugtakið modd óspart. Allt varð modd: Carnaby Street jafnt sem Bítlarnir og moddslangur á borð við “fab” og “gear” var notað til að auglýsa sjampó eða hundakex . Moddið, sem byggt hafði á því að vera aðeins fyrir fáa útvalda, var gersamlega orðið svipt merkingu sinni.

Hvað varð þá um moddið? Sem slíkt var það ekki lengur eftirsóknarvert, en á þeim árum sem það hafði blómstrað hafði það getið af sér vissa undirflokka. Snoðhausar voru meðal þeirra sem áttu ættir sínar að rekja til sameiginlegra forfeðra moddsins, svo og hópur sá sem kallaðist “scooter boys”. Áratugina eftir opinber endalok moddsins (miðað er við 1966) lifði það þó í breyttum myndum og barst jafnvel í einhvers konar frosinni mynd víða um heiminn. Litlir hópar gerðu sína útgáfu (eins vel og þeir gátu endurbyggt hana út frá þeim upplýsingum sem þeir höfðu) af moddinu á jafnólíklegum stöðum og í Utah og Kaliforníu . Þótt þessir kimar væru smáir í sniðum voru þeir strúktúreraðir líkt og moddið forðum – hugsuðir sáu frumleika í stíl moddsins og tóku hann upp, svo öpuðu aðrir í kring hann eftir. Það var þó ekki fyrr en um lok áttunda áratugarins sem merkjanleg endurreisn modds átti sér stað. Endurreisnin hafði, líkt og fyrirrennarinn, þónokkrar ólíkar rætur og sú moddmenning sem upp spratt hegðaði sér líka svipað. Það að þessi endurreisn hafi orðið um svipað leyti og pönkið spratt fram gefur til kynna að jarðvegurinn hafi verið keimlíkur og á árunum upp úr 1960 að því leyti að ungt fólk úr verkamannastétt undi sér hvorki né fann sig í menningu foreldra sinna eða millistéttar. Ofan á þetta lagðist að nostalgískir sérvitringar á borð við tónlistarmanninn Paul Weller (sem upprunalegir moddarar hefðu vel að merkja aldrei viðurkennt sem einn af þeim) fundu sig upp á eigin spýtur í gervi moddspámannsins og tileinkuðu sér lífstílinn af öllu hjarta. Um þetta leyti kom svo fram á sjónarsviðið kvikmyndin Quadrophenia, gerð eftir söguþræði konseptplötu hljómsveitarinnar The Who, sem hafði verið modd-hljómsveit á sínum tíma. Ímyndin um moddið var búin að taka miklum breytingum gegnum endalausar endurútgáfur af sjálfri sér: The Who hafð gerst moddhljómsveit á hápunkti moddsins og því af flestum upprunalegum moddurum ekki talin hafa neitt með modd að gera. Hljómsveitin varð þrátt fyrir það nokkurs konar algjör birtingarmynd þess sem var modd. Platan Quadrophenia var svo túlkun hljómsveitarinnar á því hvernig moddið hafði birst þeim og skiljanlega lituð af útgáfu seinni tíma fjölmiðlaumræðu um það. Kvikmyndin var síðan túlkun leikstjóra á þessum hugmyndum og sú túlkun aftur endurtúlkuð af áhorfendum sem flestir voru unglingar og stukku af stað til að tileinka sér hið nýja modd. Modd þetta var komið langt frá upprunanum, margtúlkað, endurbyggt og afbyggt en það hét samt enn modd og var auðþekkjanlegt sem aldrei fyrr. Táknfræði moddsins hafði nefnilega frosið í öllu þessu ferli, táknmyndin var eiginlega orðin laus við hin óljósu og illviðráðanlegu táknmið. Í stað þess að tileinka sér óhlutbundnar hugmyndir um lífsstíl með frumlegri beitingu “bricolage”, þ.e. að sækja sér efni í ríkjandi táknkerfi og gefa því nýja merkingu; þá sóttu endurreisnarmoddarar í innlimaða og tóma táknfræði moddsins. Þeir einkenndu sig með “parka”úlpum sem höfðu eitt sinn haft það notagildi að verja jakkafötin, þeir keyptu sér vespur og settu merki breska flughersins, “the target”, á flíkur sínar því þannig fannst þeim þeir líkjast þeirri ímynd um modd sem höfðu fengið út úr skilaboðum fjölmiðla.

Endurreisnarmoddararnir eru ef til vill sekir um að hafa tekið upp ímynd um menningarhóp frekar en að hafa myndað sérstæðan menningarhóp sjálfir. Engu að síður eru þeim ekki alls varnað og þeir áhugaverðir hvað varðar merkingu menningarhópa. Til dæmis fylgja þeir gamalli moddhefð, að finnast þeir einir vera “original” og aðrir apa upp eftir sér. Það er líka spurning hvort þeir séu ekki líka nokkurs konar iðkendur “bricolage” með því að sækja í ákveðna hugmynda/táknfræði og leggja eigin merkingu í útkomuna. Einnig virðist annar upprunalegur eiginleiki moddsins hafa haldið sér í gegnum þær fjölmörgu endurlífganir – moddið hefur eiginlega aldrei tapað “kúlinu”. Þetta er líklega ástæða þess að moddið hefur reynst svo lífsseigt, það höfðar til rótgróinna hugmynda samfélagsins um fagurfræði. Pönkið, til dæmis, hefur ekki átt jafnmiklum endurtektarvinsældum að fagna, ef til vill vegna þess að það notar “bricolage” í andófi við fagurfræði sem virðist, þegar öllu er á botninn hvolft, seint breytast. Moddarinn lítur einfaldlega vel út; hann er “kúl og hipp” sama hvaða pólítíska merking liggur að baki útliti hans. Þar að auki hefur annar órjúfanlegur eðlisþáttur moddsins haldið því sem einhvers konar merkingarbærum menningarkima: það er ekki heiglum hent að gerast moddari. Þegar modd-sprengingin hjaðnaði og endurreisnartímabil tóku við kom í ljós að eitt modd-lögmál átti enn við: sá sem vildi taka upp ímyndina og líta út eins og hann hefði eytt álitlegri fjárhæð í það, þurfti eiginlega að eyða álitlegri fjárhæð í það, og verða sér úti um fágæta hluti. Klæðskerasniðin föt og vespur fóru aldrei á útsölu, sá liður hafði ekkert breyst þótt moddið hafi um stund verið gert að útsöluvöru. Á meðan pönkið hafði tekið það sem tiltækt var og rifið gat á það, svo að segja, snerist moddið um það að eyða í efnið. Hægt er að renna stoðum undir það að moddið hafi styrkst með tímanum vegna þess að endurreisnarmoddararnir lögðu m.a. áherslu á það að útvega sér “heilaga”, “vintage” hluti úr upprunalega moddinu sem erfitt var að finna og voru ekki gefins. Ljóst er að með þannig áframhaldandi þróun yrðu upprunaleg moddtákn fágætir helgigripir sem bjargað væri úr glatkistu tímans og verðgildi þeirra fælist í sjaldgæfleika þeirra. Þar að auki hefur ímyndin um modd orðið að einstaklega “ensku” fyrirbæri, og þeir sem það nú upp taka eru á einhvern hátt að gefa til kynna hollustu við það sem enskt þykir. Þetta er áhugavert þegar litið er til upprunalegra efnistaka moddsins til Evrópu og Bandaríkjanna, jafnframt sem hugmynd moddaranna var sú að “enskt” jafngilti “hallærislegt” og því þyrftu þeir að leita á nýjar slóðir. Innlimun moddsins hefur því greinilega orðið því til afbyggingar og mýtugerðar.

Það er því umdeilanlegt hvort modd sé enn við lýði sem merkingarbær menningarkimi, það fer kannski eftir því hvað menningarrýnirinn vill staðsetja sig; hvorthann vill taka undir með upprunalegu moddurunum og segja að moddið hafi liðið undir lok um miðjan sjöunda áratuginn eða ganga hugmyndafræðilega til liðs við nýmoddarana og samþykkja að moddið sé eilífur lífstíll sem byggist á því að taka breytingum.Heimildaskrá:

Hebdige, Dick. (1979) Subculture. The Meaning of Style.London: Methuen & Co.

The Sharper Word – A Mod Anthology. (1999). Ed. Paolo Hewit. London: Helter Skelter Books.

Modrevival: http://www.modrevival.net/
..
>> Lesa

þriðjudagur, febrúar 1

The Great Pianists

HöfundurHarold Schonberg heitinn var virtur tónlistargagnrýnandi hjá New York Times og er líklega einn afar fárra sem hafa orðið sérstaklega frægir fyrir þá iðju. Hann skrifaði einnig bækur, þ.á.m. knappa ævisögu píanistans Vladimir Horowitz og 'The Great Conductors.' Hér fjallar hann þó um athygliverðustu stök í mengi þeirra einstaklinga sem hafa leikið á píanó, og ber bókin einmitt heitið 'The Great Pianists.'

Fjallað er um viðfangsefnin í tímaröð allt frá Johann Sebastian Bach. Í umfjöllun sinni styðst Schonberg við tónverk píanóleikaranna, ef til eru, og lýsingar samtíðarmanna á leik þeirra. Og í tilviki þeirra sem lifðu á 20. öldinni er að sjálfsögðu hægt að styðjast við upptökur. Höfundinum tekst út frá þessum upplýsingum að draga fram einkenni viðfangsefna sinna á sérlega ljósan og skemmtilegan hátt. Lesandinn fær líka mjög góða tilfinningu fyrir þróun píanóleiks, hvernig viðhorfin breyttust með tímanum. Þannig þótti undirrituðum sérstaklega skemmtilegt að fræðast um þá menn sem nutu þeirrar ógæfu að vera á hátindi ferilsins þegar hin klassísku áhrif voru að fjara út og hin rómantísku að taka við. Það eru menn eins og Friedrich Kalkbrenner, Carl Czerny, Johan Hummel og fleiri. Með tímanum hafa þeir nokkurn veginn fallið í gleymsku og eru það helst kollegar þeirra, píanóleikarar, sem þekkja þá nú til dags. Talsverður hluti bókarinnar er þó helgaður þeim og, að mínu mati, færð sannfærandi rök fyrir því að tónlist þeirra sé vel hlustunarinnar virði. Hún er e.t.v. ekki eins 'djúp' og mestu meistaraverk tónbókmenntanna en það er eitthvað heillandi við þau.

Af og til er minnst á tónleikaformið sem slíkt, og vakin athygli á að það hafi ekki ætíð verið eins og við þekkjum það í dag. Til dæmis tíðkaðist það mikið að spila einstaka kafla úr sónötum, en slíkt gerist ekki í dag og væri líklega illa séð af flestum. Spuni var mun algengari fyrr á öldum en hefur nánast lagst af meðal klassískra tónlistarmanna nú. Sum verk hafa bæst við tónleikadagskrár og önnur dottið út. H-moll sónatan eftir Franz Liszt þótti allt of þung og tormelt fyrir eyru tónleikagesta áður fyrr en er nú nánast skylduverkefni fyrir alla sem vilja láta taka sig alvarlega sem píanóleikara. Á hinn bóginn spilar svo til enginn f-moll píanókonsertinn eftir Adolf von Henselt en á 19. öld var hann afar vinsæll. Það er e.t.v. ástæða til að benda á það, að berserkurinn Marc-André Hamelin hefur hljóðritað þann konsert fyrir Hyperion Records og ég get staðfest að þessi konsert er bráðskemmtilegur.

Þegar maður les bókina er augljóst að af þeim píanóleikurum sem hafa skilið eftir sig hljóðritanir er hann hrifnastur af þeim sem voru starfandi á fyrri hluta 20. aldar. Það eru menn eins og Josef Hofmann, Sergei Rachmaninov og Benno Moiseiwitsch. Sá er þetta skrifar getur a.m.k. að einhverju leyti tekið undir það enda voru upptökur þá ekki á hverju strái og ekki eins auðvelt fyrir menn að herma eftir öðrum, þ.e. án þess að sjá þá í eigin persónu. Nú til dags er komin einhvers konar gaussísk dreifing á píanóleikarana þar sem áberandi flestir hljóma nokkurn veginn eins en einhverjir utar í dreifingunni skera sig úr og hafa meiri persónuleika í leik sínum. En Schonberg bendir á að í byrjun 20. aldar voru hin hárómantísku áhrif farin að dala allverulega, svo menn geta þá rétt ímyndað sér hvernig menn hafa leikið um miðja 19. öld. Sennilega myndu margir nútímamenn klóra sér í höfðinu ef þeir fengju að heyra það. Reyndar er mjög gaman að sjá að Schonberg er laus við blinda aðdáun og gagnrýnir menn hiklaust ef hann sér ástæðu til. Sem dæmi má nefna Vladimir de Pachmann sem taldi að besta leiðin til að halda fingrunum í æfingu væri að mjólka kýr.

Ef ég neyddist til að segja eitthvað neikvætt um þessa bók yrði það að hvergi er minnst einu orði á mann sem hét György Cziffra. Hann er að vísu ekki mjög þekktur og sumir sem verða snobbi að bráð líta örlítið niður á hann vegna spilamennsku sem stundum gat orðið örlítið óöguð. En að mínu mati á hann alveg heima í hópi þeirra manna sem hér er fjallað um. Hugsanlegt er að Schonberg hafi lítið þekkt til hans, enda bjó hann lengst af í Frakklandi og spilaði langmest þar og sjadan utan Evrópu.

Hver sem hefur gaman af því að hlusta á píanóleik ætti að lesa þessa bók. Hún er tiltölulega löng, eitthvað um 500 síður minnir mig. En textinn er afar aðgengilegur og skemmtilega skrifaður svo lesandinn verður lítið var við lengdina.
..
>> Lesa

fimmtudagur, janúar 27

Davíð Stefánsson

Höfundur110 ár eru liðin frá fæðingu Davíðs Stefánssonar, skálds frá Fagraskógi í Eyjafirði. Davíð var eitt helsta skáld landsins. Fáum íslenskum skáldum tókst betur að tjá sig frá hjartanu, er þá sama hvort átt er við t.d. gleði, sorg, ástina eða lífskraftinn. Davíð tjáði af stakri snilld sannar tilfinningar og varð eitt ástsælasta skáld okkar á 20. öld. Er rétt að fara örlítið yfir ævi hans og skáldferil í tilefni afmælis hans.

Davíð fæddist að Fagraskógi, 21. janúar 1895. Kenndi hann sig ávallt við æskuheimili sitt og varð það alla tíð fastur hluti af skáldnafni hans. Foreldrar hans voru Stefán Stefánsson bóndi og alþingismaður, og eiginkona hans, Ragnheiður Davíðsdóttir. Davíð var fjórði í röð sjö systkina. Fagriskógur var þá og er enn í dag eitt af helstu býlunum í Arnarneshreppi og mikið fremdarheimili. Ungur fór Davíð til náms í Gagnfræðaskólanum á Akureyri, lauk hann gagnfræðaprófi 16 ára gamall, 1911. Davíð dvaldist í Kaupmannahöfn 1915-1916 og komst á skrið sem skáld. Fyrstu ljóð Davíðs birtust í tímaritum á þessu tímabili. Fór hann í lærdómsdeild Menntaskólans í Reykjavík og lauk þaðan stúdentsprófi vorið 1919.

Sama ár kom fyrsta ljóðabók hans, Svartar fjaðrir út. Með útkomu hennar var braut skáldsins mörkuð. Bókinni var tekið mjög vel og varð ein af helstu ljóðabókum aldarinnar. Setti mikið mark á sögu ljóðanna Eitt af fallegustu ljóðunum í þeirri bók er Stjörnurnar.

Stjörnurnar, sem við sjáum
sindra um himininn,
eru gleðitár Guðs, sem hann felldi,
er hann grét í fyrsta sinn.

Honum fannst ekkert af öllu
yndi sér veita né ró
og allt vera hégómi og heimska
á himni, jörð og sjó.

Svo var það á niðdimmri nóttu,
að niðri á jörð hann sá,
hvar fagnandi hin fyrsta móðir
frumburð sinn horfði á.

Og þá fór Guð að gráta
af gleði; nú fann hann það
við ást hinnar ungu móður,
að allt var fullkomnað.

En gleðitár Guðs, sem hann felldi,
er grét hann í fyrsta sinn,
eru stjörnurnar, sem við sjáum
sindra um himininn.

Haustið 1920 hélt Davíð til útlanda og dvaldi víðsvegar um Evrópu, t.d. á Ítalíu. Samdi hann þar fjölda fallegra ljóða og setti Evrópuferðin mikinn svip á aðra ljóðabók hans, Kvæði, sem kom út árið 1922. Davíð kenndi sögu við Gagnfræðaskólann á Akureyri 1922-1924 en hélt þá til Noregs og var þar í nokkra mánuði. Hann kom heim síðar sama ár og þá kom út þriðja ljóðabókin, Kveðjur. Með henni festi Davíð sig endanlega í sessi sem eitt vinsælasta ljóðskáld landsins. Eitt þekktasta ljóðið í bókinni er Til eru fræ:

Til eru fræ, sem fengu þennan dóm:
Að falla í jörð, en verða aldrei blóm.
Eins eru skip, sem aldrei landi ná,
og iðgræn lönd, er sökkva í djúpin blá,
og von sem hefur vængi sína misst,
og varir, sem að aldrei geta kysst,
og elskendur, sem aldrei geta mæst
og aldrei geta sumir draumar ræst.

Til eru ljóð, sem lifna og deyja í senn,
og lítil börn, sem aldrei verða menn.

Árið 1925 fluttist Davíð til Akureyrar þar sem hann bjó allt til æviloka. Hann varð bókavörður við Amtsbókasafnið á Akureyri sama ár. Ennfremur reyndi hann þá fyrir sér við leikritagerð og hið fyrsta kom til sögunnar ári síðar, Munkarnir á Möðruvöllum. Næsta ljóðabók Davíðs kom út árið 1929 og bar heitið Ný kvæði. Eitt þekktasta ljóðið í þeirri bók er Kveðja:

Eitt orð, eitt ljóð, eitt kvein frá kvaldri sál
er kveðja mín. Ég veit þú fyrirgefur.
En seinna gef ég minningunum mál,
á meðan allt á himni og jörðu sefur.
Þá flýg ég yfir djúpin draumablá,
í dimmum skógum sál mín spor þín rekur,
Þú gafst mér alla gleði sem ég á.
Þú gafst mér sorg, sem enginn frá mér tekur.

Svo kveð ég þig. En er þú minnist mín,
þá mundu, að ég þakka liðna daga.
Við framtíð mína fléttast örlög þín.
Að fótum þínum krýpur öll mín saga.
Og leggðu svo á höfin blá og breið.
Þó blási kalt og dagar verði að árum,
þá veit ég að þú villist rétta leið
og verður mín - í bæn, í söng og tárum.

Árið 1930 vann Davíð til verðlauna í samkeppni um Alþingishátíðarkvæði. Sá hluti kvæðisins sem helsta frægð hlaut er Sjá dagar koma:

Sjá, dagar koma, ár og aldir líða,
og enginn stöðvar tímans þunga nið.
Í djúpi andans duldir kraftar bíða. -
Hin dýpsta speki boðar líf og frið.
Í þúsund ár bjó þjóð við nyrstu voga.
Mót þrautum sínum gekk hún, djörf og sterk,
í hennar kirkjum helgar stjörnur loga,
og hennar líf er eilíft kraftaverk.

Næsta ljóðabók Davíðs kom út árið 1933 og bar heitið, Í byggðum. Þóttu ljóðin í henni bera annan keim en þau sem áður höfðu komið út og vera nokkuð meiri félagsleg ádeila og horfa í aðra átt og sýna Davíð í öðru ljósi sem ljóðskáld. Ein þekktasta ljóðabók Davíðs, Að norðan, kom út árið 1936 og telst enn í dag marka mikil þáttaskil á ferli hans. Á þessum árum hóf hann að safna bókum af miklum áhuga og átti við ævilok sín á sjöunda áratugnum mikið safn bóka sem ættingjar hans ánöfnuðu Amtsbókasafninu. Að norðan markaðist vissulega af því að Davíð fór eigin leiðir í yrkisefnum og leitaði sífellt meir til fortíðar í yrkisefnum og hugsunum í ljóðlist. Vinsældir hans voru mestar á þessu tímabili og má fullyrða að bókin Að norðan hafi átt stóran þátt í hversu vel hann festist í sessi sem eitt helsta ljóðskáld aldarinnar. Eitt þekktasta kvæði bókarinnar er Þú komst í hlaðið.

Þú komst í hlaðið á hvítum hesti,
þú komst með vor í augum þér.
Ég söng og fagnaði góðum gesti
og gaf þér hjartað í brjósti mér.

Ég heyri álengdar hófadyninn,
ég horfi langt á eftir þér.
Og bjart er alltaf um besta vininn
og blítt er nafn hans á vörum mér.

Þó líði dagar og líði nætur,
má lengi rekja gömul spor.
Þó kuldinn næði um daladætur,
þá dreymir allar um sól og vor

Í kjölfarið fór Davíð í auknum mæli að leggja rækt við leikritagerð og skáldsagnaritun og sinnti því fleiru en ljóðunum. Árið 1940 kom út skáldsaga Davíðs í tveim bindum og bar heitið Sólon Íslandus. Fjallar hún um einn þekktasta flæking Íslandssögunnar, Sölva Helgason. Ári síðar gaf Davíð út leikritið Gullna hliðið, byggt á hinni þjóðkunnu sögu, Sálin hans Jóns míns, sem hann hafði áður ort um þekkt kvæði. Leikritið varð strax mjög vinsælt og urðu söngljóðin í leikritinu landsfræg í þekktum búningi Páls Ísólfssonar sem gerði við þau þekkt lög. Eitt hið þekktasta var Ég leiddi þig í lundinn:

Ég beið þín lengi lengi
mín liljan fríð,
stillti mína strengi
gegn stormum og hríð.
Ég beið þín undir björkunum
í Bláskógarhlíð.

Ég leiddi þig í lundinn
mín liljan fríð.
Sól skein á sundin
um sumarlanga tíð.
Og blærinn söng í björkunum
í Bláskógarhlíð.

Davíð hóf aftur að yrkja um miðjan fimmta áratuginn. Árið 1947 kom út ljóðabókin Nýja kvæðabókin. Skömmu síðar veiktist hann alvarlega og varð óvinnufær næstu árin. Í upphafi sjötta áratugarins samdi hann leikritið Landið gleymda. Tæpum 10 ár liðu á milli þess að Davíð gæfi út ljóðabók, árið 1956 kom út ljóðabókin Ljóð frá liðnu sumri. Það síðasta sem birtist eftir Davíð meðan hann lifði voru Háskólaljóð árið 1961. Síðasta ljóðabók Davíðs Stefánssonar kom út árið 1966, að honum látnum. Bókin bar hið einfalda nafn Síðustu ljóð. Í þeirri ljóðabók birtist það síðasta sem skáldið orti fyrir andlát sitt. Eitt þekktasta ljóðið í bókinni var ljóðið Vornótt, þar sem hann yrkir til heiðurs Eyjafirði.

Í nótt er gott að gista Eyjafjörð
og guðafriður yfir strönd og vogum.
Í skini sólar skarta haf og jörð
og skýjabólstrar slegnir rauðum logum.

Það veit hver sál, að sumar fer í hönd,
en samt er þögn og kyrrð um mó og dranga,
og hvorki brotnar bára upp við strönd
né bærist strá í grænum hlíðarvanga.

Svo ljúft er allt í þessum heiða hyl,
svo hátt til lofts og mjúkur barmur jarðar,
að víst er engin veröld fegri til
en vornótt björt í hlíðum Eyjafjarðar.

Davíð Stefánsson fluttist árið 1944 í hús sem hann reisti sér að Bjarkarstíg 6 á Akureyri. Þar bjó hann allt til æviloka. Eftir daga hans var húsið ánafnað Akureyrarbæ og þar er safn til minningar um hann. Húsið er varðveitt eins og það var er hann yfirgaf það síðasta sinni og er engu líkara en þegar gesturinn sem kemur til að líta þar inn og skoða heimili skáldsins en að viðkomandi sé gestur Davíðs en hann hafi í raun brugðið sér frá örskotsstund. Andi skáldsins er ljóslifandi í húsinu þó fjórir áratugir séu liðnir síðan hann yfirgaf það hinsta sinni. Þeir sem eiga leið um Akureyri eru eindregið hvattir til að líta í Bjarkarstíg 6 og kynna sér þetta merka hús, heimili sannkallaðs heimsmanns sem þrátt fyrir að vera sveitastrákur að uppruna varð sannkallaður veraldarmaður að lokum. Bý ég skammt frá Bjarkarstíg og fer ég oft á sumrin í safnið og á veturna er einnig oft gengið þar framhjá. Húsið er lítið en fullt af merkilegum sjarma sem er erfitt að lýsa í orðum. Sjón er svo sannarlega sögu ríkari.

Á sextugsafmæli Davíðs, 21. janúar 1955 var Davíð sýndur sá heiður að hann var gerður að heiðursborgara Akureyrarbæjar. Er líða tók að ævilokum skáldsins varð hann sífellt minna áberandi. Hann sat oft heima við bókalestur og varð æ minna sýnilegur í skemmtanalífinu, en hann var rómaður gleðimaður og var þekktur fyrir að skemmta sér með veraldarbrag, eða ferðaðist sífellt minna um heiminn. Seinustu árin áttu Eyjafjörður og Akureyri hug hans allan, eins og sést af seinustu kvæðum hans og skrifum. Hugurinn leitaði heim að lokum. Fjörðurinn og það sem hann stóð fyrir að mati skáldsins var honum alla tíð mjög kær og jókst það sífellt eftir því sem leið að ævikvöldi hans. Í ljóðabókinni Að norðan, árið 1936 orti Davíð svo til Akureyrar, bæjarins sem hann síðar varð heiðursborgari í.

Bærinn stendur við botn á löngum firði
Bláir álar í sólskininu loga
Þó kann öðrum að þykja meira virði,
að þorskur og koli fylla alla voga.
Hvernig sem blæs, er fjörðurinn alltaf fagur.
Fáir heilluðu lengur gamla vini.
Hann skín, þegar ljómar á lofti heiður dagur
Hann leiftrar í stjarnanna dýrð og mánaskini.
Við borgarans augum blasa fjallatindar
brekkur og hlíðar vaxnar grænu lyngi.

Davíð Stefánsson frá Fagraskógi, lést á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, þann 1. mars 1964, 69 ára að aldri. Seinustu árin hafði Davíð átt við veikindi að stríða og hafði kennt sér hjartameins sem að lokum leiddi hann til dauða. Akureyrarbær lét gera útför hans eins virðulega og mögulegt var og fór hún fram frá Akureyrarkirkju, þann 9. mars 1964. Mikið fjölmenni fylgdi Davíð seinasta spölinn. Hann var jarðsettur í kirkjugarðinum í sveitinni heima, að Möðruvöllum í Hörgárdal. Eins og sagði í upphafi var Davíð skáld tilfinninga, hann orti frá hjartanu og talaði beint til hjarta þess sem las. Þess vegna mun minning hans verða okkur kær og kveðskapur hans festast í sessi um ókomin ár. Hann var sannur í yrkisefnum og sannur í tjáningu um sannar tilfinningar.
..
>> Lesa

Greinasafn

september 2004 október 2004 nóvember 2004 desember 2004 janúar 2005 febrúar 2005 mars 2005 apríl 2005