miðvikudagur, febrúar 9

Að steypa eigin haus og hugsun: Svar við ádrepu Jóns Þórs Péturssonar

HöfundurHermt er að vinsældir Kistunnar hafi dalað nokkuð síðustu misserin eftir að hlutverk hennar sem rafræn korktafla náði yfirhöndinni yfir nýsköpuninni. Ritstjórn vefritsins brá á það ráð síðasta sumar að endurbirta eldri greinar í stórum stíl til að auka lesturinn, flest gott stöff sem hafði virkað áður og hlaut að gera það aftur. Fljótlega var þó horfið frá þessari stefnu, enda er síðan búin forláta leitarvél sem gerir lesendum kleift að finna allt efni sem birst hefur á henni frá upphafi, og hefur það líklega verið mál manna að endurbirtingar sem þessar væru ekki endilega nauðsynlegar.

Á dögunum bryddaði ritstjórn Kistunnar upp á nýjung sem minnir óneitanlega á fyrrnefnt uppátæki: Að stofna nýja vefsíðu og birta sumar kistugreinarnar þar aftur, væntanlega í von um að ná til fleiri lesenda. Hlaut nýi vefurinn nafnið Kviksaga. Greinilegt er að náin tengsl eru á milli síðanna tveggja, útlit beggja er mjög svipað og á hvor síðan um sig vísan hlekk á hinni. Tengslin eru m.a.s. svo náin að enn hefur engin grein birst á Kviksögu sem ekki er birt samtímis á Kistunni. Því er hæpið að hægt sé að tala um að Kviksaga sé sjálfstætt vefrit enn sem komið er. En þetta er óneitanlega heldur sérstök aðferð við að auka lesturinn, ef það er þá tilgangurinn á annað borð. Næstum eins og að láta blaðburðarbarn bera út tvö eintök af Mogganum í hvert hús í þeirri von að fólk lesi blaðið tvisvar. Ef ritstjórn Kviksögu ætlar að koma fram af gagnkvæmri virðingu við ritstjórn Kistunnar yrði hún að birtar allar umframgreinar Kistunnar líka á sinni síðu. Þar með yrði komnar tvær alveg eins Kistur. Eða tvær alveg eins Kviksögur, eftir því hvernig á það er litið.

En trúlega stendur þetta allt til bóta. Kviksaga hefur aðeins starfað í nokkra daga og vonandi nær hún að öðlast sjálfstæða rödd áður en langt um líður, enda ekki beinlínis offramboð af íslenskum menningar-veftímaritum. Við á Skýjaborgum vitum hvernig það er að hleypa svona síðu af stokkunum, það er ekki auðvelt og gerir mikla kröfu til aðstandenda ef vel á að vera. Hér skal þó tekið fram að undirritaður er ekki að halda því fram að Skýjaborgir sé fullskapað veftímarit, hvað þá gott eða athyglisvert. Um það verður hver og einn að dæma. Vefritið er aðeins nokkurra mánaða gamalt og ritstjórnarstefna þess hefur ekki mótast fullkomlega enn þá. Skýjaborgir eiga sér líklega ekki marga dygga lesendur, efnið á henni birtist með óreglulegu millibili og er mismerkilegt. En barningurinn er ekki alveg til einskis enn sem komið er, enda hefur einn þessara dyggu lesenda nýlega heiðrað ritstjórn Skýjaborga með umfjöllun um vefritið. Þessi lesandi heitir Jón Þór Pétursson. Og svo skemmtilega vill til að hann er einn af ritstjórum Kviksögu (og Kistunnar?).

Í greininni „Baráttan um upphefðina“ (4.2.2005) víkur Jón Þór nokkrum orðum að Skýjaborgum. Okkur er það ljúft og skylt að birta þá umfjöllun hér í heild sinni, til þess að fólk geti lesið hana í þriðja skiptið:

Vefritið skyjaborgir.com er tileinkað skáldinu og athafnamanninum Einari Benediktssyni. Ljóð skáldsins eru birt með reglulegu millibili en oftast er lítil tilraun gerð til að greina skáldskap hans. Ég geri þó engar sérstakar athugasemdir við það heldur tel ég í lagi að ljóð hans standi einsömul og lesendum látið eftir að túlka. Þannig finnst mér verk hans, sem margir hafa upp í hillu hjá sér, skipta mestu máli þegar rætt er um hvernig eigi að minnast Einars Benediktssonar. Ritstjórar Skýjaborga gátu þó ekki látið þar við sitja því að stórfengleg persóna á borð við Einar Benediktsson ætti skilið stórfenglega minningu. Það er því ekki nóg að Einar sé annar tveggja sem hvíla í heiðursgrafreitnum á Þingvöllum og stytta hafi verið reist af honum á Miklatúni. Auk þess hefur sagnfræðingurinn Guðjón Friðriksson ritað þriggja binda ævisögu um skáldið góða. Ritstjórar eru óhressir með að styttan sé "illa staðsett, ómerkt og borginni til skammar" og leggja síðan áherslu á að reist verði veglegt safn um skáldið og vegur hans aukinn í skólakerfi Íslendinga.

Hér vekur athygli að Jón Þór fagnar því að við skulum birta ljóð Einars Benediktssonar og enga nánari umfjöllun eða túlkanir á þeim; ljóðin njóta sín best ein og sér. Ekki er fulljóst hvort Jón Þór vill afgreiða allar bókmenntir með þessum hætti, eða hvort ljóð Einars Benediktssonar njóta þar einhverrar sérstöðu. Sé fyrri skýringin sú rétta virðist Jón Þór trúa á skilyrðislausa „erótík listarinnar“. Hann hlýtur þá að hafa ímugust á allri bókmenntatúlkun eða greiningu (ætli hann lesi Kistuna?). Hitt er þó meira um vert, að mati okkar í ritstjórn Skýjaborga, að Jóni Þór hreinlega ofbýður að einhverjum skuli detta sú vitleysa í hug að stofna vefrit tileinkað Einari Benediktssyni. Rökin gegn þeirri hugmynd eru að mati Jóns Þórs sú að Einar Benediktsson hafi þegar fengið næga athygli, hann er slitin plata, úrsérgengin klisja sem á ekkert erindi við okkar samtíma. Persónu Einars Benediktssonar tengir Jón Þór umræðunni um stórmennasögu, gamaldags sagnfræðilega aðferð sem hann virðist ekki nema mátulega hrifinn af.

Þetta viðhorf Jóns Þórs á auðvitað fullan rétt á sér, og víst er að formælendur hans eru fjölmargir. Skemmst er að minnast látanna sem urðu við útkomu forsætisráðherrabókarinnar sl. haust. En Skýjaborgir hafa ekki enn þegið styrk úr ríkissjóði og því erfitt að fordæma þessa tvo hluti á nákvæmlega sömu forsendum. Í grein sinni setur Jón Þór ritstjórn Skýjaborga undir sama hatt og fyrrum alþingismanninn Kristján Pálsson og sagnfræðinginn Jón Þ. Þór. Með þessu virðist Jón Þór reyna að draga upp mynd af ritstjórn Skýjaborga sem íhaldssömum og jakkaklæddum stuttbuxnastrákum sem fá grænar bólur þegar þeir heyra orð eins og „póstmódernismi“ og „nútímaskáldskapur“. Menn sem tileinka Einari Benediktssyni vefrit hljóta að vera sekir um menningarlegt afturhald eða „menningarlegt rúnk,“ svo notað sé það myndmál sjálfsfróunar sem Jóni Þór virðist einhverra hluta vegna vera mjög hugleikið.

Við þessu er fátt að segja umfram það sem þegar hefur verið birt í greinunum hér á Skýjaborgum. Ásakanir Jóns Þórs mætti íhuga af einhverri alvöru ef þær væru í raunverulegu samræmi við efnistök Skýjaborga, þ.e.a.s. ef allar greinarnar hér á vefritinu væru einn samfelldur lofsöngur um Einar Benediktsson. Sérhver lesandi sem kynnt hefur sér efni Skýjaborga veit þó væntanlega að svo er ekki. Í raun er hálfhlægilegt að greinar um moddara, Boris Akúnin og sjálfsævisögu Bob Dylans skuli vera kenndar við Einar Benediktsson. En Einars Ben-stimpillinn er auðvitað fyrst og fremst virðingarvottur, ekki efnisyfirlýsing vefritsins, rétt eins og bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness eru veitt bókum þótt þær fjalli ekki endilega um Halldór Laxness. Morgunblaðsgreinin sem Jón Þór vitnar til í sinni grein birtist í Morgunblaðinu á 140 ára afmælisdegi Einars Benediktssonar, og þótti síst borið í bakkafullan lækinn með þeim skrifum, enda birtist ekkert annað um Einar Benediktsson í íslenskum fjölmiðlum þann daginn. Þótt höfundar greinarinnar vilji láta merkja styttuna hans Ásmundar Sveinssonar þarf það vonandi ekki að þýða að allt efni sem birtist á Skýjaborgum (eftir þá sjálfa og aðra) sé ekki þess virði að lesa það.

Tilgangur Skýjaborga er umfram allt að auka fjölbreytni íslensku menningarflórunnar, að fjalla um hvers kyns menningu og listir, en ekki að sífra yfir einhverju ímynduðu, úrkynjuðu menningarástandi. Greinarnar á Skýjaborgum eru skrifaðar til þess að fólk geti lesið þær og notið þeirra. Áhugasömum er bent á það efni sem þegar hefur verið birt hér á síðunni, en ef það vekur ekki áhuga getur fólk auðvitað líka fundið sér eitthvað annað að lesa. Öllum er frjálst að gagnrýna það sem hér er sett fram, en við hljótum að mega gera þá kröfu að sú gagnrýni snúist um efnið sjálft fremur en hugarburð og sýndarmennsku þess sem gagnrýnir.