laugardagur, febrúar 5

Nýju fötin moddarans

Höfundur-um mýtukenndan menningarkima-

Áratugirnir eftir seinna stríð einkenndust af breytingum á mörgum sviðum samfélagsins, hvort sem í Evrópu, Bandaríkjunum eða víðar. Upp spruttu meðal annars nýir menningarkimar – breytt umgjörð og aðstæður stuðluðu að þörf fyrir ný eða breytt lífsviðhorf, annars konar “flokkadrætti” en áður höfðu tíðkast. Menningarkimar hafa lengi fyrirfundist í ýmsum samfélögum, enda sjaldnast allir steyptir í sama mótið; hins vegar virðist ríkja misbrýn þörf hjá fólki á ólíkum tímum til þess að skilgreina sig á einhvern hátt á móti ríkjandi viðhorfum eða hugmyndafræði samfélagsins. Sá menningarkimi sem kallast “mod” eða “modismi” opnaðist í Bretlandi, nánar tiltekið í höfuðborginni Lundúnum, upp úr 1960, náði blómaskeiði (að margra mati) 1964 og fór halloka og lokaðist aftur um 1966 (þótt ýmsir vilji halda fram að moddið lifi góðu lífi í breyttri mynd). Uppruni moddsins er, eðli síns vegna, goðsagnakenndur, en þó er hægt að rekja sköpunarferlið í gegnum nokkra, dæmigerða punkta. Ennfremur hefur verið gert grein fyrir mögulegum ástæðum þess að moddið náði fótfestu og að lokum fjöldaútbreiðslu.

Ástandið í Bretlandi eftir stríð gefur fyrstu vísbendingu um tilurð moddsins, samkvæmt þeim fræðimanni sem einna fyrstur veitti menningarkimabylgju Bretlands gaum. Í bók sinni Subculture – The Meaning of Style rekur Dick Hebdige sögu menningarkima t.d. moddara, pönkara og snoðhausa og leggur til hugmyndafræði til merkingarlesturs á þessum fyrirbærum. Hebdige bendir á að eftir stríð hafi, þrátt fyrir aukna velmegun og kaupmátt, enn sigið á ógæfuhliðina hjá verkamannastétt. Að hörmungum stríðsins loknum virtist stéttaskiftingin ekki lengur svo sjálfsögð samfélagsleg sannindi enda hafði nauðsyn brotið lög: í stríðinu höfðu Bretar sameinast í að leggja stéttaskiftinguna á hilluna um stund í því augnamiði að standa saman til varnar föðurlandinu. Hins vegar virtist allt hafa runnið aftur í sitt fyrra horf og verkamannastéttin mátti una við sitt gamla hlutskifti, að vísu með meira fé milli handanna, en eiginlega alveg jafnlitla möguleika á að brjótast undan formgerðum stéttaskiftingarinnar. Reyndar höfðu breytingar átt sér stað, en þær voru neikvæðar: verkamannastéttin hafði glatað að miklu leyti sérstöðu sinni og sameiginlegum lífsháttum og þær aðferðir sem stéttin hafði beitt til að tjá sameiginlega reynslu sína voru orðnar óvirkar. Með tilkomu fjölmiðla, nýrra fjölskyldugerða og breyttum áherslum í menntakerfi og atvinnulífi hafði verkamannastéttin í raun glatað menningu sinni.

Moddarar komu einmitt fyrst og fremst úr verkamannastétt. Eins og áður sagði, þá er uppruni moddsins goðsagnakenndur, en þó er handhægt að rekja byrjunina, sem einhvers staður hlýtur að vera, aftur til fáeinna tískuóðra gyðingastráka úr millistéttaklæðskerafjölskyldum. Þessir einstaklingar tóku klæðaburð sinn alvarlega, skiftu reglulega út sérsniðnum og einstökum flíkum og vöktu athygli á götum úti einfaldlega vegna þess að þeir litu svo miklu betur út en hinn almenni vegfarandi. Það er ekki hægt að segja að eitthvert meðvitað ferli hafi farið af stað, en smám saman myndaðist lítill kjarni karlkyns ungmenna sem gerði hégómagirni að æðstu dyggð og var ofurmeðvituð um klæðaburð sinn. Það að líta svo afburðavel klædda einstaklinga vakti viðbrögð margra sem vildu feta í þeirra fótspor. Þessir forfeður moddsins voru frumlegir og útsjónarsamir og með auknum kaupmætti og frítíma gátu þeir rannsakað tískuna, fundið löngu gleymd snið, keypt vönduðustu efnin og látið klæðskera sauma á sig fötin sem þeir sóttust eftir. Þessi áhugi á tísku og fötum vatt upp á sig og fljótlega urðu fyrstu moddararnir fókuseraðri og tóku að gerast heilsteyptari. Inn í stílinn bættist áhugi á hárgreiðslum, fasi, tónlist og öðru slíku. Eftir því sem stíllinn þróaðist varð hann meira aðlaðandi og fleiri bættust í hópinn, enda eðli moddsins í hnotskurn að líta nógu vel og “kúl” út. “Kúlið” skipaði háan sess í huga moddaranna og þeir leituðu víða fanga í leitinni að hinu algjöra “lúkki” (sem eins og tískunni er von og vísa, tók sífelldum breytingum). Ekkert var hallærislegra en heimaslóðirnar og því leituðu tískuvitringarnir til Bandaríkjanna, og þá sér í lagi til djassheimsins þar (úr hugtakinu “modern jazz” er einmitt “mod” að hluta til fengið) og til svarta mannsins sem var óendanlega kúl. En það var líka leitað til meginlands Evrópu: frá Ítalíu fengu þeir nett og litskrúðug jakkaföt og skó, að ógleymdum moddfararskjótunum, vespum. Frá Frakklandi fengu moddararnir drengjakollinn sem hæfði snyrtilegu heildarútliti; þeir fengu líka þaðan exístentíalískar kenningar Sartre jafnt sem nýja dansa og “pósur” úr annars óskiljanlegum frönskum kvikmyndum. Moddararnir stefndu á sína hugmynd um fullkomnun og ekkert smáatriði mátti verða útundan.

Skiljanlega voru moddarar, eins og aðrir menningarkimar, ekki með öllu einsleitur hópur, enda höfðu fjölmiðlar, né varla almenningur, tekið eftir hvað takmarkaður fjöldi ungmenna hafði fyrir stafni. Moddið var líka fyrst og fremst einstaklingsframtak. Í London einni voru nokkrir hópar sem höfðu sín “andlit” eða stílmótara sem fóru ekki eftir neinu nema eigin nefi þegar kom að stílsköpun. En stíllinn hafði hitt á rétta strengi hjá ungu fólki úr verkamannastétt og hver og einn bætti sínum sérkennum við, reyndi að líta best og frumlegast út af öllum. Það sem einkenndi og skilgreindi þessa einstaklinga öllu fremur sem menningarkima var það að moddið var fyrir þeim nýr lífstíll sem gilti alla daga vikunnar, allan sólarhringinn. Útlitið krafðist ýmissa fórna, sem voru veittar glöðu geði. Hinn “dæmigerði” moddari varð að stunda launaða vinnu, helst í umhverfi þar sem ekki þurfti að óhreinka sig, eins og t.d. við innanhússsendlastörf eða afgreiðslustörf. Stærstur hluti launanna fór í ný föt og annað útlits- og tískutengt, afgangurinn fór í sjaldgæfar djass/R&B/sálartónlistarplötur, ítalskar vespur og svo amfetamín sem var nauðsynlegt til að geta haldið út þennan hektíska lífsstíl. Fyrir ungmenni af verkamannastétt lá atvinnulífið beinast við, flestir hættu í skóla eftir skylduna um fimmtán ára aldur og bjuggu áfram í foreldrahúsum. Alla virka daga var svo unnið til þess að hægt væri að láta sjá sig í því allra nýjasta um helgar á þeim klúbbum sem spiluðu modd/dansvæna tónlist (annars var alltaf hægt að finna aðra staði til þess að sýna sig og sjá aðra).

Þegar enn fleiri höfðu tekið hina nýju trú moddsins gat almenningur ekki annað en tekið eftir að eitthvað var að gerast. Sökum fjölbreytileika, dreifingar,eðli stílsins vegna og þess að moddið var hvorki miðstýrt né fullkomlega sjálfmeðvitað afl átti fólk erfitt með að átta sig á því hvað moddið táknaði. Moddararnir sjálfir voru ekki einu sinni með það á hreinu hvaða skilaboð þeir voru að senda. Samt sem áður var þeim orðið ýmislegt ljóst, til dæmis sú staðreynd að þeir voru betur klæddur en nokkur annar hópur í samfélaginu – þeir voru jafnvel fínni í tauinu en menntaði millistéttaryfirmaðurinn í vinnunni þeirra, þótt hann væri með hærri laun og fínni hreim. Það sem hafði byrjað sem viðleitni til að líta vel út var orðið að lífstíl sem innihélt gjörólík gildi en þau sem réðu ríkjum í samfélaginu, moddararnir höfðu komist að því að útlit, klæðaburður var tæki sem gaf svo sterk skilaboð að það hrikti í hinum innri strúktúr samfélagsins. Yfirborðið hafði heilmikið að segja um innihaldið, og moddarinn hafði fundið glænýja leið til að nota hluti eins og t.d. jakkaföt, eins og lesa má af þessum hugrenningum moddara:
“Hefndin var modd. [...] Modd var ósýnilegt þessum örvitum. [...] Jakkaföt mannanna um borð í neðanjarðarlestinni kom honum til að brosa. Hver
var tilgangurinn með því að klæðast jakkafötum ef þau létu mann líta út
eins og kartöflupoka? Þeir störðu á hann og brostu að myrkri höfnun hans
í myrkum glugganum þar sem hann sat, spíttaður í lestinni, og þeir hötuðu
hann vegna þess að hann klæddist jakkafötunum sínum sér til ánægju og
yndisauka, og þau fóru honum vel, en þeir voru íþyngdir sínum líkt og
fangar hlekkjum [...]”
Phil Cohen setur sama dæmi upp á fræðilegri máta þegar hann heldur því fram að moddararnir hafi verið að reyna að skilja tilveru skrifstofumannsins sem gat færst ofar hvað varðaði stöðu innan samfélagsins, en þeir hafi jafnframt haldið fast í form hefðbundinna gilda menningu stéttar sinnar. Til þess notuðu þeir og gerðu tilraunir með ýmsa merkingarhlaðna hluti, n.k. hráefni sem sagan lagði þeim til. Þessir hlutir voru raunverulegir, sýnilegir – moddararnir báru þá utan á sér. En þótt athygli moddsins hafi að vissu leyti beinst að því hvernig uppruni eða menning þess var ólíkt t.d. millistéttarinnar, þá stóðu moddarar einnig í andstöðu við menningu foreldra sinna. Kynslóðabilið varð sýnilegt þar sem moddarinn átti sitt nýja kjörumhverfi, þ.e.a.s. helgina eða klúbbana í vesturhluta Lundúna á meðan hið gamla kjörumhverfi verkamannastéttarinnar var inni á heimilunum, á pöbbnum eða í hverfunum í austurhlutanum – þar hafði menning stéttarinnar fundið leiðir til tjáningar í mótvægi við ríkjandi og viðurkennda menningu millistéttar.

Sú frumlega notkun á merkingarhlöðnum hlutum til sköpunar nýrrar orðræðu er nokkuð sem menningarkimar eru duglegir að nýta sér kallast “bricolage”. Sérhver menningarhópur hefur sitt sérstaka lag á þessu notkunarferli, vissa nálgunaraðferð sem sérkennir hópinn, frekar en hvaða hluti þeir eru að nota. Moddararnir nýttu sér þessa nálgun afar hugvitssamlega og tóku vissa merkingarhlaðna hluti úr sínu upprunalega samhengi, eins og t.d. áðurnefnd jakkaföt, einkennisbúning hins “streit” viðskiftaheims. Þeir virtu að vettugi þau gildi endurspegluðust í fötunum, sem áttu að “fylgja með”. Þegar moddarinn klæddist sérsniðnu jakkafötunum sínum var hann ekki að gefa til kynna þá hefðbundnu merkingu sem í fötunum fólust á borð við skilvirkni, metnað og undirgefni við yfirvald, í meðförum hans var þeim breytt í blæti, hluti sem höfðu aðeins gildi í sjálfum sér og voru nauðsynleg sjálfra sinna vegna. Á svipaðan hátt nálguðust þeir lyfseðilsskyld lyf gegn taugaveiklun, á annan hátt en þeim var ætlað – fyrir moddurum höfðu pillurnar aðeins notagildi í sjálfum sér, sem amfetamín. Alls kyns gildi sem samfélaginu þótti lestir; hégómagirni, yfirborðsmennska og hroki urðu að eftirsóknarverðum dyggðum í moddinu. Við þennan umsnúning á því sem ríkjandi stétt fannst heilagt felst m.a. uppbrot moddsins við hugmyndafræði samfélagsins. Ekki nóg með það að moddarar hafi gert lítið úr gildum millistéttarinnar og fundist þau óeftirsóknarverð, heldur höfðu þeir áðurnefnda lesti í hávegum. Þetta gerðu þeir svo með því að rífa hluti úr helgigripasafni millistéttar og gera kaldhæðnislega að sínum, og til að setja punktinn yfir i-ið þá gerðu þeir það með stíl. Þeir sem ekki skildu modd gramdist þetta en gátu ekki skilgreint fyllilega afhverju, en þeir vissu að það hafði eitthvað að gera með til dæmis það að moddarinn notaði peninga sem hann (jafnt sem aðrir) þurfti að vinna hörðum höndum fyrir í eitthvað sem þótti fánýti, þar með gerandi lítið úr striti vinnandi fólks. Fyrir almenningi var fé eitt af því allra heilagasta, sem skyldi helst nota í “rétta” og “alvarlega” hluti. Hvers virði var vinnan ef afrakstrinum var hugsunarlaust eytt í flík sem varð ónothæf eftir stutta stund fyrir duttlunga tískunnar?

Að lokum varð það samt aðdráttarafl moddsins sem varð því að falli. Lífsstíllinn var ungu fólki einum of aðlaðandi: þúsundir breskra ungmenna höfðu tekið hann upp eftir því sem á sjöunda áratuginn leið. Moddið þynntist eðlilega út af þessum sökum og missti þar með meginstyrk sinn. Það hafði verið leynileg eign neðanjarðarelítu, leynilegur kóði, í raun hafði það snúist um að búa til nýja yfirstétt, eða einkaklúbb, en á forsendum krakkanna, þar sem fáir útvaldir voru metnir eftir verðleikum klæðnaðar og hversu fast þeir gátu sótt lífsstílinn. Að sjálfsögðu töpuðust þessar forsendur þegar fjöldinn sló eign sinni á moddið – hvað er varið í fjölmennan einkaklúbb sem hver sem er getur sagst vera meðlimur í? Þessi spurning um hver sé raunverulega skilgetinn meðlimur á við um flesta menningarkima en loðaði sérlega við moddið frá byrjun. Hinir allra fyrstu moddarar voru ekki hrifnir af krökkunum sem öpuðu upp stílinn þeirra eða urðu fyrir áhrifum frá honum, því það dró úr sérstæðni hans. Eftir því sem moddarahópurinn stækkaði var hann ætíð strúktúreraður þannig að fáir lögðu línurnar á meðan meirihlutinn reyndi sitt besta í því að fylgja þeim að. Menningarkimar, líkt og modd eða pönk, innihalda alltaf einstaklinga sem eru misstaðfastir og trúir málstaðnum. Þeir sem gefa sig hvað alvarlegast að lífsstílnum álíta allajafna aðra sem gera það ekki (þ.e. meirihlutann) svikahrappa við málsstaðinn, hermikrákur sem sem ekki skilja tilganginn til fullnustu, falsspámenn. Þegar kemur að moddinu sem slíku, þá voru margir sem sem töldu sig vera hinn “eina, sanna moddara”. Því fyrr sem moddarinn hafði gefið sig stílnum því meira “original” og skilgetinn fannst honum hann vera. Því myndast nokkurs konar goggunarröð stækkandi hópa innan moddsins þar sem hverjum fannst þeim sem á eftir komu vera að óhreinka stílinn og ónýta. Í raun og veru skifta hártoganir um það hverjir hafi verið “alvöru” moddarar og hverjir ekki litlu máli fyrir rannsóknir á moddi sem menningarkima, þangað til að þeim tímapunkti kemur að hópurinn var orðinn það stór að hann í fyrsta lagi kom ofanjarðar og í öðru lagi var búinn að glata upprunalegri merkingu orðræðu sinnar um fágun og frumleika útlits (andspænis fjöldaframleiddu útliti).

Fjölmiðlar gátu ekki nema tekið við sér páskana 1964 þegar fjölmennum hópi moddara lenti saman við óvini sína, rokkara, í strandbænum Clacton. Um leið og sviðsljósið var komið á menningarhópinn fylgdi það honum eftir og skyndilega voru átök milli hópanna orðið daglegt brauð í útvarpi og blöðum. Gamalgrónir moddarar fylgdust hrylltir með sjónarspilinu, þeim hefði síst dottið í hug að flykkjast í hópa og eiga á hættu að rífa eða óhreinka fötin sín, svo ekki sé talað um þá moddlegu smán að vera gripnir í óflatterandi áflogastellingum. Það var enginn stíll yfir því, ekkert modd við það. En þótt þær þúsundir sem fylkt höfðu liði undir merkjum moddsins væru komnar langt frá upprunulegu hugmyndinni um fágun og flott útlit sama hvað á gæti dunið, þá var sú afskræmda mynd sem birtist almenningi af moddi í fjölmiðlum sú mynd sem skilgreindi það einna mest. Modd varð að þeirri ímynd sem það birtist almenningi, burtséð frá einhverjum upprunalegum meiningum þess. Þessi ímynd leyfði þeim loks sem höfðu séð moddara á stjái en ekki getað skilið orðræðu þeirra né skilgreint þá, til að anda rólegar. Í það fyrsta voru moddhjarðirnar á ströndinni að sýna það sem fólki fannst dæmigerð hegðun verkamannastéttar: slagsmál og skrílslæti. Í þessu samhengi er hægt að skoða það sem Stuart Hall hefur bent á, hvernig menningahópar og stéttir urðu háð fjölmiðlum til skilgreiningar á eigin samsemd og menningu eftir því sem samfélagið varð fjölbreyttara og brotakenndara . Einnig hvernig fjölmiðlar gerðu fólki kleift að fá merkingu út úr menningu sinni jafnframt því sem það gat byggt ímynd hennar og annara menningahópa út frá því sem fjölmiðlar létu þeim í té. Heildarútkoman þessara ímynda var svo merkingarbær samfélagsheild. Menningarkimar eru ekki undanskildir þessari reglu og það útskýrir afdrif moddsins þegar það kom upp á yfirborðið. Vandmeðfarin orðræða þess þoldi ekki sviðsljósið; merking moddaranna skolaðist til enda ekki að undra þar sem þeir höfðu leitt hana af fyrirframákveðinni orðræðu samfélagsins. Þegar moddið var rifið úr viðkvæmu samhengi tiltölulegra nýrrar orðræðu sinnar varð merking þess óljós. Moddarar höfðu valið sér ákveðnar merkingar til að leggja í klæðaburð og hegðun málstaðsins vegna og reynt að loka á allar aðrar merkingar – þeir höfðu kóðað skilaboð sín á sérstakan hátt. Almenningur var hins vegar allt annar viðtökuhópur sem túlkaði það sem birtist þeim á annan hátt.

Náðarhöggið kom svo í kjölfar opinberunar moddsins með innlimun helstu þátta þess (þ.e. eins og þeir birtust í fjölmiðlum og voru túlkaðir af almenningi) inn í ríkjandi hugmyndafræði samfélagsins. Dick Hebdige gerir grein fyrir því hvernig menningarkimar eru almennt gerðir óvígir með tvenns konar innlimun. Í fyrsta lagi notast hann m.a. við módel Stanley Cohens, sem byggði rannsóknir sínar á því hvernig fjölmiðlar fjölluðu um modduppþotin 1964 og síðar, sem dæmi um hugmyndafræðilega innlimun/aðlögun. Dregin var upp mynd af moddurum sem svokölluðum “folk devils” , þ.e. miklu meira gert úr þeirri ógn sem samfélaginu stafaði af þeim sem “óvinum”. Þannig vill Hall meina að óttinn sé gerður áþreifanlegur og því viðráðanlegur jafnframt því sem óvininum sé úthýst úr samfélaginu, ýjað að því að hann eigi í raun ekki rætur sínar að rekja þangað; og um leið er gert lítið úr glæpnum, brotaaðili samfélagsreglnanna varla þess virði að þurfi að aga hann. Moddararnir voru þannig einnig sýndir sem huglausir krakkaormar sem fundu vott af kjark í því að safnast í hjarðir sem fáeinir lögreglumenn fóru létt með að höndla. Hegðun þeirra og útlit voru þannig endurskilgreind og gefin skiljanleg merking í fjölmiðlum, ennfremur sem táknin þeirra, fyrrum leynileg orðræða, þ.e.a.s klæðnaður, tónlist og slíkt var breytt í fjöldaframleidda neysluvöru fyrir áhugasaman markað. Fjölmiðlar notuðu hugtakið modd óspart. Allt varð modd: Carnaby Street jafnt sem Bítlarnir og moddslangur á borð við “fab” og “gear” var notað til að auglýsa sjampó eða hundakex . Moddið, sem byggt hafði á því að vera aðeins fyrir fáa útvalda, var gersamlega orðið svipt merkingu sinni.

Hvað varð þá um moddið? Sem slíkt var það ekki lengur eftirsóknarvert, en á þeim árum sem það hafði blómstrað hafði það getið af sér vissa undirflokka. Snoðhausar voru meðal þeirra sem áttu ættir sínar að rekja til sameiginlegra forfeðra moddsins, svo og hópur sá sem kallaðist “scooter boys”. Áratugina eftir opinber endalok moddsins (miðað er við 1966) lifði það þó í breyttum myndum og barst jafnvel í einhvers konar frosinni mynd víða um heiminn. Litlir hópar gerðu sína útgáfu (eins vel og þeir gátu endurbyggt hana út frá þeim upplýsingum sem þeir höfðu) af moddinu á jafnólíklegum stöðum og í Utah og Kaliforníu . Þótt þessir kimar væru smáir í sniðum voru þeir strúktúreraðir líkt og moddið forðum – hugsuðir sáu frumleika í stíl moddsins og tóku hann upp, svo öpuðu aðrir í kring hann eftir. Það var þó ekki fyrr en um lok áttunda áratugarins sem merkjanleg endurreisn modds átti sér stað. Endurreisnin hafði, líkt og fyrirrennarinn, þónokkrar ólíkar rætur og sú moddmenning sem upp spratt hegðaði sér líka svipað. Það að þessi endurreisn hafi orðið um svipað leyti og pönkið spratt fram gefur til kynna að jarðvegurinn hafi verið keimlíkur og á árunum upp úr 1960 að því leyti að ungt fólk úr verkamannastétt undi sér hvorki né fann sig í menningu foreldra sinna eða millistéttar. Ofan á þetta lagðist að nostalgískir sérvitringar á borð við tónlistarmanninn Paul Weller (sem upprunalegir moddarar hefðu vel að merkja aldrei viðurkennt sem einn af þeim) fundu sig upp á eigin spýtur í gervi moddspámannsins og tileinkuðu sér lífstílinn af öllu hjarta. Um þetta leyti kom svo fram á sjónarsviðið kvikmyndin Quadrophenia, gerð eftir söguþræði konseptplötu hljómsveitarinnar The Who, sem hafði verið modd-hljómsveit á sínum tíma. Ímyndin um moddið var búin að taka miklum breytingum gegnum endalausar endurútgáfur af sjálfri sér: The Who hafð gerst moddhljómsveit á hápunkti moddsins og því af flestum upprunalegum moddurum ekki talin hafa neitt með modd að gera. Hljómsveitin varð þrátt fyrir það nokkurs konar algjör birtingarmynd þess sem var modd. Platan Quadrophenia var svo túlkun hljómsveitarinnar á því hvernig moddið hafði birst þeim og skiljanlega lituð af útgáfu seinni tíma fjölmiðlaumræðu um það. Kvikmyndin var síðan túlkun leikstjóra á þessum hugmyndum og sú túlkun aftur endurtúlkuð af áhorfendum sem flestir voru unglingar og stukku af stað til að tileinka sér hið nýja modd. Modd þetta var komið langt frá upprunanum, margtúlkað, endurbyggt og afbyggt en það hét samt enn modd og var auðþekkjanlegt sem aldrei fyrr. Táknfræði moddsins hafði nefnilega frosið í öllu þessu ferli, táknmyndin var eiginlega orðin laus við hin óljósu og illviðráðanlegu táknmið. Í stað þess að tileinka sér óhlutbundnar hugmyndir um lífsstíl með frumlegri beitingu “bricolage”, þ.e. að sækja sér efni í ríkjandi táknkerfi og gefa því nýja merkingu; þá sóttu endurreisnarmoddarar í innlimaða og tóma táknfræði moddsins. Þeir einkenndu sig með “parka”úlpum sem höfðu eitt sinn haft það notagildi að verja jakkafötin, þeir keyptu sér vespur og settu merki breska flughersins, “the target”, á flíkur sínar því þannig fannst þeim þeir líkjast þeirri ímynd um modd sem höfðu fengið út úr skilaboðum fjölmiðla.

Endurreisnarmoddararnir eru ef til vill sekir um að hafa tekið upp ímynd um menningarhóp frekar en að hafa myndað sérstæðan menningarhóp sjálfir. Engu að síður eru þeim ekki alls varnað og þeir áhugaverðir hvað varðar merkingu menningarhópa. Til dæmis fylgja þeir gamalli moddhefð, að finnast þeir einir vera “original” og aðrir apa upp eftir sér. Það er líka spurning hvort þeir séu ekki líka nokkurs konar iðkendur “bricolage” með því að sækja í ákveðna hugmynda/táknfræði og leggja eigin merkingu í útkomuna. Einnig virðist annar upprunalegur eiginleiki moddsins hafa haldið sér í gegnum þær fjölmörgu endurlífganir – moddið hefur eiginlega aldrei tapað “kúlinu”. Þetta er líklega ástæða þess að moddið hefur reynst svo lífsseigt, það höfðar til rótgróinna hugmynda samfélagsins um fagurfræði. Pönkið, til dæmis, hefur ekki átt jafnmiklum endurtektarvinsældum að fagna, ef til vill vegna þess að það notar “bricolage” í andófi við fagurfræði sem virðist, þegar öllu er á botninn hvolft, seint breytast. Moddarinn lítur einfaldlega vel út; hann er “kúl og hipp” sama hvaða pólítíska merking liggur að baki útliti hans. Þar að auki hefur annar órjúfanlegur eðlisþáttur moddsins haldið því sem einhvers konar merkingarbærum menningarkima: það er ekki heiglum hent að gerast moddari. Þegar modd-sprengingin hjaðnaði og endurreisnartímabil tóku við kom í ljós að eitt modd-lögmál átti enn við: sá sem vildi taka upp ímyndina og líta út eins og hann hefði eytt álitlegri fjárhæð í það, þurfti eiginlega að eyða álitlegri fjárhæð í það, og verða sér úti um fágæta hluti. Klæðskerasniðin föt og vespur fóru aldrei á útsölu, sá liður hafði ekkert breyst þótt moddið hafi um stund verið gert að útsöluvöru. Á meðan pönkið hafði tekið það sem tiltækt var og rifið gat á það, svo að segja, snerist moddið um það að eyða í efnið. Hægt er að renna stoðum undir það að moddið hafi styrkst með tímanum vegna þess að endurreisnarmoddararnir lögðu m.a. áherslu á það að útvega sér “heilaga”, “vintage” hluti úr upprunalega moddinu sem erfitt var að finna og voru ekki gefins. Ljóst er að með þannig áframhaldandi þróun yrðu upprunaleg moddtákn fágætir helgigripir sem bjargað væri úr glatkistu tímans og verðgildi þeirra fælist í sjaldgæfleika þeirra. Þar að auki hefur ímyndin um modd orðið að einstaklega “ensku” fyrirbæri, og þeir sem það nú upp taka eru á einhvern hátt að gefa til kynna hollustu við það sem enskt þykir. Þetta er áhugavert þegar litið er til upprunalegra efnistaka moddsins til Evrópu og Bandaríkjanna, jafnframt sem hugmynd moddaranna var sú að “enskt” jafngilti “hallærislegt” og því þyrftu þeir að leita á nýjar slóðir. Innlimun moddsins hefur því greinilega orðið því til afbyggingar og mýtugerðar.

Það er því umdeilanlegt hvort modd sé enn við lýði sem merkingarbær menningarkimi, það fer kannski eftir því hvað menningarrýnirinn vill staðsetja sig; hvorthann vill taka undir með upprunalegu moddurunum og segja að moddið hafi liðið undir lok um miðjan sjöunda áratuginn eða ganga hugmyndafræðilega til liðs við nýmoddarana og samþykkja að moddið sé eilífur lífstíll sem byggist á því að taka breytingum.



Heimildaskrá:

Hebdige, Dick. (1979) Subculture. The Meaning of Style.London: Methuen & Co.

The Sharper Word – A Mod Anthology. (1999). Ed. Paolo Hewit. London: Helter Skelter Books.

Modrevival: http://www.modrevival.net/