sunnudagur, janúar 16

Murder on the Leviathan eftir Boris Akunin

Höfundur
Ef lesendur sögunnar upplifa löngun eftir fleiri sögum um Fandorin. þá er ekki að örvænta, því Árni Bergmann hefur þýtt tvær aðrar bækur um hann; Ríkisráðið og Krýningarhátíðin. Eftir það er víman búin og við tekur löng og ströng bið eftir næsta skammti.
Svohljóðandi voru lokaorðin í umfjöllun minni um Vetrardrottninguna eftir rússneska rithöfundinn Boris Akunin. Augljóslega var Akunin gjörsamlega búinn að heilla mig og fanga sem einhver skemmtilegasti spennusagnameistari dagsins í dag. Löngunin og þráin eftir næsta skammti var hins vegar farin að kvelja mig og hrjá. Ég reyndi að fylla þetta tómarúm með kvikmynda þrillerum og öðrum höfðingjum spennufrásagnarinnar á borð við Dan Brown og Arthuro Peréz-Reverte. Allt kom fyrir ekki, og að lokum var það lágt gengi dollars sem sannfærði mig um að koma höndum yfir enn eina söguna af Erast Petrovitsj Fandorin í gegnum veraldarvefinn. Nú var ekki aftur snúið og eftir eina viku eða svo voru hreyfðust augu mín taktfast í lestri á vímugjafanum.

Sagan ber titilinn Murder on the Leviathan í enskri þýðingu, ekki veit ég hvernig væri best að útfæra þetta yfir á tungu vora, og er því kannski bara best að ég sleppi slíkum tilraunum. Sagan hefst með inngangi i formi lögregluskýrslu þar sem lýst er skelfilegu fjöldamorði í París. Ein af vísbendingunum sem finnst á morðstaðnum leiðir franska lögreglustjórann „Papa“ Gauche í átt til farþegaskipsins Leviathan, gufuknúnu tækniafreki og risavirki á sínum tíma. Gauche ákveður að dulbúa sig sem einn af farþegum skipsins þar sem hann er handviss um að morðinginn sem hann leitar sé um borð. Þegar gufuferlíkið hefur viðkomu við Kalkúttahöfn bætist í farþegahópinn ungur rússneskur diplómat. Erast Fandorin nefnist ungi herramaðurinn sem nýlega hafði þotið upp rússneska titlastigann eftir að hafa flett ofan af kaldrifjuðu glæpakvendi, svokallaðri Vetrardrottningu. Með undraverðri athyglisgáfu sinni er Fandorin ekki lengi að átta sig á hinum franska Gauche og býður honum aðstoð sína. Saman reyna þeir síðan að leysa ráðgátuna um hver hafi framið morðin í París, til þess eins að því virðist að koma höndum yfir ómerkilegan silkiklút.

Þessi saga er ólík öðrum sögum um Fandorin að því leyti að hér skiptist sjónarhornið á milli persóna sem samtímis liggja undir grun hjá þeim Fandorin og Gauche. Þannig fær lesandinn að sjá hverja persónu frá ólíku sjónarhorni. Kaflaskiptingin fer eftir því hver er í aðalhlutverki og er nánast breytt um frásagnaraðferð í hvert einasta sinn, stundum er frásögnin í formi bréfaskrifta, lögregluskýrslna, dagbóka eða í höndum hefðbundna sögumanna í þriðju eða fyrstu persónu. Með slíkri byggingu öðlast lesandinn ákveðna nálægð við persónur sögunnar sem er hrifsuð í burtu strax í næsta kafla. Lesandinn verður einnig vitni að ýmsum atburðum og hugsunum sem persónurnar reyna að dylja hvor fyrir annarri. Hins vegar er aldrei skyggnst inn í hugarheim aðalpersónunnar, Fandorins, heldur er fylgst með honum athafna sig úr fjarlægð í gegnum hina grunuðu. Þessi frásagnarmáti er skemmtilegri en ekkert sérstaklega góður. Ýmsir vankantar fylgja því að segja sögu á þennan hátt en mér finnst Akunin takast ágætlega upp með þetta, og á köflum er eins og maður finni fyrir því hversu vel höfundurinn skemmti sér við uppbyggingu fléttunnar.

Hinir grunuðu eru allir hluti af sama matsalnum og sameinast því við hverja máltíð. Hópurinn er litskrúðugur og þar er meðal annars að finna dularfullan japanskan samúræja, undarleg hjón, sagnfræðiprófessor, ólétta hefðarfrú, og enskan aðalsmann. Akunin er greinilega að þreifa fyrir sér með því að skrifa í anda Agöthu Christie Frásögnin ber ótrúleg líkindi við þessar gömlu spennusögur sem sagðar eru skrifaðar samkvæmt ensku hefðinni. Tveir rannsakendur, annar klár, hinn (of) fljótur að draga ályktanir, margir grunaðir, gjarnan með mismunandi bakgrunn og allir fastir á sama stað. Ágætis formúlan fyrir spennusögu í anda ensku hefðarinnar.

Ég hugsa að hinar sögunnar um Fandorin hafi heillað mig meira en þessi. Ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum með að fá ekki að fylgjast meira með sjálfum Fandorin í sögunni. Niðurstaðan verður því eitthvað á þessa leið: Stórskemmtileg frásögn sem fullnægir öllum þörfum spennusagnafíkilsins, mismunandi sjónarhorn í hverjum kafla myndar óvænta spennufléttu sem leyst er meistarlega úr, frábær persónusköpun fær að njóta sín til hins ítrasta og gaman er að lesa nýja sögu sem skrifuð er í anda elstu spennusagnahefðarinnar. Hefði samt viljað sjá meira af snilldartöktum Fandorins.