fimmtudagur, janúar 13

Hæstiréttur Bandaríkjanna

HöfundurFyrir nokkru lét af störfum sem dómari við Hæstarétt Pétur Kr. Hafstein og skráði sig í kjölfarið í sagnfræði í Háskólanum. Hér verður þó ekki fjallað um það hver tók við af honum og hvernig þótt vissulega sé umfjöllunarefnið Hæstiréttur og sagnfræði. Til grundvallar er lagt rit William H. Rehnquist, forseta Hæstaréttar Bandaríkjanna, um sögu réttarins, The Supreme Court.

Bókin á að mínu mati ekki aðeins erindi til þeirra sem auka vilja við skilning sinn á bandarískri lögfræði heldur einnig sagnfræði, stjórnmálafræði, félagsfræði, hagfræði og viðskiptafræði.

Bókin kom upphaflega út árið 1987 en var endurútgefin árið 2001. Rehnquist segir reyndar að nýja útgáfan sé ekki eins lögfræðileg og sú gamla og þakkar hann dóttur sinni, Nancy Spears fyrir það.

Rehnquist byrjar á að lýsa fyrstu kynnum hans sjálfs af Hæstarétti Bandaríkjanna, þegar hann byrjar að vinna 1952, rétt eftir útskrift frá Stanford, sem aðstoðarmaður dómara við réttinn. Lýsing hans, sem ungs manns kemur lesandanum í skilning um hlutverk réttarins og hvernig hann virkar. Mjög ánægjulegt var, sérstaklega fyrir íslending sem aldrei hefur búið í Bandaríkjunum, þegar Rehnquist útskýrir á leikmannamáli hvernig mál rétturinn fæst við og hvernig þau eru unnin.

Bókin er þannig uppbyggð að eftir að hafa lýst í stuttu máli bandarísku réttarkerfi rekur Rehnquist ævi og störf fyrri forseta réttarins og öðrum þeim dómurum sem þar hafa setið. Þá er farið rækilega í saumana á því hvaða menn sátu í réttinum hverju sinni og hvað það var sem réð því að ákveðnir menn völdust í réttinn en ekki aðrir. Þá er rýnt í menntunarlegan bakgrunn helstu dómenda og reynt að varpa ljósi á skoðanir þeirra og hvernig þær endurspeglast beint eða óbeint í einstökum dómum réttarins. Allt þetta er samtvinnað lýsingum á þeim höfuðdómum sem skópu landið, stjórnmálin og bandarísku réttarsöguna og jafnvel rétt annarra ríkja eftir atvikum.

Fyrsta og jafnframt þekktasta málið, sem Rehnquist fjallar um, er Marbury v. Madison frá árinu 1803. En þar er komist að því í fyrsta skipti, í bandarískri réttarframkvæmd, að rétturinn hefði vald til að lýsa tiltekin lög í bága við stjórnarskrána. Það sem vakti hvað mesta athygli undirritaðs við lýsingar í bókinni var hve skilmerkilega sögulegum bakgrunni hvers máls er lýst hverju sinni ásamt því að lögfræðileg álitaefni eru skoðuð ofan í kjölinn. Svipað mætti t.d. rita um þá íslenska dóma sem hvað mest áhrif hafa haft, þ.a.e.s. setja þá ekki aðeins í lögfræðilegt, heldur og, í sagnfræðilegt samhengi og safna saman í einu riti svo aðgengilegt væri sem flestum. Flestar þær lagabókmenntir eru ætlaðar sem kennslurit fyrir laganema og uppflettirit fyrir lengra komna og því nær eingöngu einblínt á hin lögfræðilegu atriði en sögulegum bakgrunni lítið sinnt. Reyndar er hér þó ekki verið að gera lítið úr þeim ritum sem Sigurður Líndal og Páll Sigurðsson hafa sent frá sér um réttarsögulega atburði. En hingað til hefur undirritaður ekki rekist íslenskt rit líkt og það rit sem Rehnquist hefur hér látið frá sér.

Ef reynt væri að líkja eftir þeirri aðferð sem Rehnquist notar mætti byrja á svokölluðum Hrafnkötludómi frá 1943, sem birtur er í dómasafni Hæstaréttar árið 1943 á bls. 237. Hrafnkötludómurinn á það sameiginlegt með Marbury v. Madison dóminum, að hér var í eitt fyrsta skipti á Íslandi kveðið á um það að lög væru andstæð stjórnarskrá. Það skal jafnframt athugast að hér verður aðeins um lauslega úttekt á málinu að ræða og einungis notaðar þær heimildir sem voru undirrituðum næstar.

Aðdragandinn að málinu var að Jónas Jónsson frá Hriflu var í miklu stríði við helstu rithöfunda og skáld þjóðarinnar á þessum tíma. Honum fannst þeir vera of hallir undir kommúnisma og fór að skipta sér að því hvernig styrkjum til listamanna var úthlutað og m.a. lét hann lækka styrk til Halldórs Laxness verulega. Guðjón Friðriksson lýsir aðdraganda Hrafnkötlumálsins mjög ítarlega í þriðja bindi ævisögu Jónasar frá Hriflu, Ljónið Öskrar, sem kom út árið 1993. Í 16. kafla, sem nefnist Skáldastríðið, segir að haustið 1941 hafi Helgafell, sem Ragnar Jónsson í Smára stofnaði, boðað að gefnar yrðu út Íslendingasögur með nútímastafsetningu í útgáfu Halldórs Laxness og gera ætti útgáfuna sem aðgengilegasta almenningi. Jónas frá Hriflu brást harkalega við og skrifaði þegar í stað leiðara í Tímann og sagði að kommúnistar ætluðu, með aðstoð ,,smjörlíkissala” í Reykjavík (Ragnars í Smára) að draga fornbókmenntirnar í svaðið. Einnig hvatti Jónas til þess að Alþingi gerði sitt til að verja fornbókmenntirnar með refsiviðurlögum á hendur þeim sem gefa út fornritin, nema að hafa til þess leyfi Stjórnarráðsins. Þá lét Jónas Þjóðvinafélagið skora á kennslumálaráðherra að flytja frumvarp þess efnis á Alþingi að leggja bann við því að fornbókmenntirnar yrðu prentaðar í afbökuðum útgáfum. Alþingi samþykkti síðan frumvarp um að ekki mætti prenta rit höfundar breytt að efni, málblæ og meðferð þó að meira en 50 ár væru liðin frá dauða hans og lögboðin var samræmd stafsetning á fornritunum. Jónasi frá Hriflu fannst reyndar ekki nóg að gert og vildi að ríkið hefði einokun á fornritunum og var breytingartillaga við frumvarpið samþykkt um að ríkið hefði einkarétt á útgáfu íslenskra rita frá því fyrir 1400.

En áður en frumvarpið var samþykkt unnu Ragnar og félagar hans nótt og dag við að koma Laxdælu út sem og tókst. Halldór Laxness sagðist hafa samið formála að bókinni á tveimur sólarhringum og með Jónas frá Hriflu ,,óðan og ríðandi yfir húsum”. Þá nefndi Halldór frumvarpið ,,geðbilunarfrumvarp” Jónasar og spáði því að næst ætti að lögleiða ,,samræmt göngulag fornt”. Þeir héldu svo ótrauðir áfram og næst réðust svo þeir Ragnar og Halldór í að gefa út Hrafnkötlu, en þá voru þeir í kjölfarið kærðir.


Sigurður Líndal reifar svo Hrafnkötludóminn allítarlega í sinni mjög svo skilmerkilegu bók Um lög og lögfræði frá 2002 á bls. 86-87, og verður byggt á þeirri reifun hér. En þannig var málinu háttað að Ragnar í Smára og Stefán Ögmundsson, prentari, kostuðu útgáfu og sáu um sölu á Hrafnkötlu, Hrafnkels sögu Freysgoða og að hún yrði færð til nútíma stafsetningar. Halldór Laxness bjó bókina undir prentun og ritaði formála. Voru þeir kærðir fyrir brot gegn lögum nr. 127/1941 um viðauka við lög 13/1905 um rithöfunda- og prentrétt, það sem Halldór Laxness kallaði ,,geðbilunarfrumvarp” Jónasar frá Hriflu. Í héraðsdómi voru þeir allir þrír dæmdir til greiðslu 1000 króna sektar til ríkissjóðs fyrir brot gegn lögunum. En í 1. gr. laganna sagði að ekki mætti birta rit höfundar breytt að efni, meðferð né málblæ ef breytingum væri svo háttað að menning eða tunga þjóðarinnar biði tjón af. Ekki taldist Halldór Laxness hafa brotið þetta ákvæði. Í 2. gr. laganna var íslenska ríkinu áskilinn einkaréttur til útgáfu rita sem samin voru fyrir 1400 og öðrum óheimilt nema samkvæmt ráðuneytisleyfi og mátti binda það því skilyrði að fylgt væri samræmdri stafsetningu fornri. Meirihluti Hæstaréttar sagði að samkvæmt 67. gr. stjórnarskrárinnar (nú 73. gr.) skyldi vera prentfrelsi á Íslandi, þó að menn yrðu að bera ábyrgð á prentuðu máli fyrir dómstólum. Ritskoðun og aðrar tálmanir á prentfrelsi mætti því aldrei í lög leiða. Þá sagði meirihlutinn að prentfrelsi takmarkist að vísu af því að áskilja mönnum höfundarétt að ritum og meina öðrum útgáfu þeirra á meðan sá réttur haldist, en sú takmörkun byggist á nánum persónulegum hagsmunum höfundar sem liggi ekki til grundvallar 2. gr. laga 127/1941. Með því að áskilja ríkinu einkarétt til birtingar þessara rita og banna öðrum birtingu nema með fengnu leyfi stjórnvalda hafi verið lögð fyrirfarandi tálmun á útgáfu þeirra sem óheimil verði að teljast samkvæmt 67.gr. (nú 73.gr.) stjórnarskrárinnar. Hér taldi því meirihluti Hæstaréttar að lögin sem sett voru 1941 færu í bága við prentfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar og því væri ekki hægt að sekta þá félaga Ragnar, Stefán og Halldór.


Einn dómari Hæstaréttar, Gizur Bergsteinsson, skilaði sératkvæði og taldi að ,,geðbilunarfrumvarp” Jónasar, sem varð að lögum nr. 127/1941, hefði þann tilgang að vernda þjóðleg verðmæti, þ.e. fornritin og að handhafar ríkisvaldsins ættu að vernda þau gegn spjöllum. Taldi Gizur að lögin fyrirskipuðu ekki ritskoðun heldur kvæðu einungis á um viðurlög gegn brotum á þeim og taldi þau vera í samræmi við 67. gr. (nú 73. gr.) stjórnarskrárinnar. Þá sagði hann heldur enga heimild fyrir dómstóla í nefndu stjórnarskrárákvæði til að fella umþrætt lög úr gildi og síðast en ekki síst þá taldi Gizur að dómstólar gætu ekki virt að vettugi þau lög sem hinn almenni löggjafi hefur sett, nema stjórnarskráin sjálf veitti til þess ótvíræða heimild.

Ef fara ætti þá leið, sem Rehnquist notar í bók sinni um Hæstarétt Bandaríkjanna, að finna út stöðu einstakra dómenda m.t.t. til tengsla þeirra eða bakgrunns, mætti jafnvel í svipuðum dúr leiða að því líkum að Gizur hafi verið hliðhollur Jónasi frá Hriflu eftir að hafa byrjað sinn starfsferil hjá honum sem fulltrúi í dómsmálaráðuneytinu. Guðjón Friðriksson segir í öðru bindi ævisögu Jónasar, Dómsmálaráðherrann, sem kom út árið 1992, að árið 1927 hafi Gizur Bergsteinsson, ásamt öðrum, verið skjólstæðingur Jónasar og farið um landið til að koma í veg fyrir smyglun og bruggun áfengis. Það verður þó að koma hér skýrt fram að hér er aðeins verið að varpa ljósi á ákveðin tengsl Gizurar við Jónas frá Hriflu en ekki verið að segja að eitthvað bogið hafi verið við sératkvæði þess fyrrnefnda árið 1943.

Í ævisögu Jónasar frá Hriflu, Ljónið öskrar, kemur að endingu fram að málið hafi svo endað á því að lög um einkarétt ríkisins á að gefa út fornrit og samræmda stafsetningu forna hafi verið gerð að engu með því að dómsmálaráðherra veitti Halldóri Laxness formlegt leyfi til að gefa Njálu út með nútímastafsetningu. Skáldin höfðu því hér sigur gegn Jónasi frá Hriflu, þeir sigrar áttu þó eftir að verða fleiri.

Heimildir:
Guðjón Friðriksson, Dómsmálaráðherrann, Saga Jónasar Jónssonar frá Hriflu, annað bindi, Iðunn, Reykjavík, 1992.
Guðjón Friðriksson, Ljónið öskrar, Saga Jónasar Jónssonar frá Hriflu, þriðja bindi, Iðunn, Reykjavík, 1993.
Sigurður Líndal, Um lög og lögfræði, grundvöllur laga – réttarheimildir, Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík, 2002.