Kiljan
Kiljan er annað bindi ævisögu Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar um Halldór Kiljan Laxness. Fyrsta bindið var ein umtalaðasta bók síðari ára og spruttu af því mikil átök og dómsmál, en annað bindið hefur ekki fengið nærri því eins mikla athygli þó að um það hafi verið skrifaðar nokkrar fínar greinar. Hannes var gagnrýndur af hópi menntamanna fyrir að hafa ekki vísað nægjanlega í heimildir þegar hann notaði texta annarra. Hannes svaraði fyrir sig, en það skín í gegn að bergmál málsvarnarinnar ómar í öðru bindinu. Málsvörnin felst í því að benda á að Halldór Kiljan hafi mjög oft tekið texta næstum orðrétt frá öðrum og notað í sínum bókum. Þó að oft sé athyglisvert að sjá hve litlu Halldór breytir þegar hann notast við texta annarra er þessi lokahnykkur málsvarnar Hannesar helsti galli bókarinnar.
Fyrsta bindi Hannesar um Laxness var bráðskemmtileg og góð bók þó að frágangur hafi mátt vera aðeins betri. Í því bindi fannst mér Hannes reyna að feta í fótspor Guðjóns Friðrikssonar hvað varðar aðferðir við ævisagnaritun, en í þessu bindi finnst mér hann hverfa aðeins frá því og notast frekar við sinn eigin stíl. Ef til vill er ein af ástæðunum sú að í öðru bindinu er sagt frá mjög pólitísku tímabili í lífi nóbelskáldsins og Hannes er því á heimavelli. Ég er mjög hrifinn af ævisögum Guðjóns og þeim aðferðum sem hann notar, en það hentar ekki öllum að skrifa þannig og Hannesi hentar betur að nota sinn stíl. Að því leyti er annað bindið betra en það fyrsta.
Kiljan er löng bók, 540 blaðsíður. Þjóðbraut bókarinnar, ef svo má að orði komast, er að sjálfsögðu ævi Halldórs Laxness, en frá þeirri braut eru margir afleggjarar. Eflaust er það mat einhverra að þessir afleggjarar séu óþarfa útúrdúrar, en ég hefði ekki viljað að höfundur sleppti þeim. Halldór kynntist mörgu áhugaverðu fólki og var viðstaddur marga sögulega viðburði. Það gefur bókinni skemmtilegan blæ að hún er öðrum þræði mannkyns- og Íslandssaga 20. aldarinnar.
Kiljan er um ævi Halldórs Kiljans Laxness frá þrítugu til 46 ára aldurs. Halldór fyrsta bindisins höfðaði mun meira til mín en Kiljan annars bindisins, en ég ætla ekki frekar út í þá sálma hér. Mér finnst ævi Laxness að hluta til vera sífelld paradísarleit og leit listamanns að öruggum og lífvænlegum stað í óöruggum og ólífvænlegum heimi. Fyrst finnur hann þann stað í kaþólsku klaustri og paradísina á himnum að þessari jarðvist lokinni. Síðan finnur hann þann stað í Sovétríkjunum og paradísina á jörðinni í þessari jarðvist. Hvoru tveggja klaustrið og Sovétríkin voru fyrir honum flótti í annan heim þar sem líf og brauðstrit listamannsins var auðveldara. Þau voru öðrum þræði fjárhagslegt haldreipi fátæks manns. Hugsjónir lífs hans brugðust honum hins vegar og það opnaði huga hans á ný og lokaði á kreddurnar. Eftir að hann komst á listamannslaun og bækur hans seldur betur var ekki eins mikil þörf fyrir haldreipi af fyrrgreindum toga og þá fékk taóismi og önnur austræn speki aukna athygli hjá skáldinu.
Halldór ferðaðist mikið og mér fannst skemmtilegustu kaflar bókarinnar vera um kynni hans af heiminum, til dæmis ferðalög hans til Argentínu og Sovétríkjanna. Í bókinni eru ótal áhugaverðir hlutir; á næstum hverri síðu rakst ég á eitthvað sem ég staldraði við og velti fyrir mér. Lífsgleði og sannleiksleit Hannesar skilar sér vel í bækur hans; frásögnin er lifandi og full af fróðleik.
Frágangur bókarinnar er ágætur og aðeins smáatriði sem hægt er að setja út á. Eitt af því sem mig langar að nefna er þýðingarleysi á setningum úr erlendum tungumálum. Yfirleitt eru slíkar tilvitnanir þýddar og hafðar innan sviga, en þó ekki alltaf. Það er ekki hægt að ætlast til þess að lesendur bókar á íslensku kunni rómönsk mál og í raun er ekki rétt að ætlast til þess að þeir kunni nokkurt erlent tungumál. Í íslenskri bók á allt að vera skiljanlegt á íslensku. Þetta er þó ekki algengt í bókinni og háði mér ekki nema á einum stað.
Á stöku stað ryðst Hannes full mikið inn í frásögnina með sínar fílósófísku skoðanir, en það er þó ekki mikið lýti á bókinni.
Í það heila er Kiljan góð bók og höfundur hennar á hrós skilið fyrir þetta framlag sitt til íslenskrar menningarsögu.
Fyrsta bindi Hannesar um Laxness var bráðskemmtileg og góð bók þó að frágangur hafi mátt vera aðeins betri. Í því bindi fannst mér Hannes reyna að feta í fótspor Guðjóns Friðrikssonar hvað varðar aðferðir við ævisagnaritun, en í þessu bindi finnst mér hann hverfa aðeins frá því og notast frekar við sinn eigin stíl. Ef til vill er ein af ástæðunum sú að í öðru bindinu er sagt frá mjög pólitísku tímabili í lífi nóbelskáldsins og Hannes er því á heimavelli. Ég er mjög hrifinn af ævisögum Guðjóns og þeim aðferðum sem hann notar, en það hentar ekki öllum að skrifa þannig og Hannesi hentar betur að nota sinn stíl. Að því leyti er annað bindið betra en það fyrsta.
Kiljan er löng bók, 540 blaðsíður. Þjóðbraut bókarinnar, ef svo má að orði komast, er að sjálfsögðu ævi Halldórs Laxness, en frá þeirri braut eru margir afleggjarar. Eflaust er það mat einhverra að þessir afleggjarar séu óþarfa útúrdúrar, en ég hefði ekki viljað að höfundur sleppti þeim. Halldór kynntist mörgu áhugaverðu fólki og var viðstaddur marga sögulega viðburði. Það gefur bókinni skemmtilegan blæ að hún er öðrum þræði mannkyns- og Íslandssaga 20. aldarinnar.
Kiljan er um ævi Halldórs Kiljans Laxness frá þrítugu til 46 ára aldurs. Halldór fyrsta bindisins höfðaði mun meira til mín en Kiljan annars bindisins, en ég ætla ekki frekar út í þá sálma hér. Mér finnst ævi Laxness að hluta til vera sífelld paradísarleit og leit listamanns að öruggum og lífvænlegum stað í óöruggum og ólífvænlegum heimi. Fyrst finnur hann þann stað í kaþólsku klaustri og paradísina á himnum að þessari jarðvist lokinni. Síðan finnur hann þann stað í Sovétríkjunum og paradísina á jörðinni í þessari jarðvist. Hvoru tveggja klaustrið og Sovétríkin voru fyrir honum flótti í annan heim þar sem líf og brauðstrit listamannsins var auðveldara. Þau voru öðrum þræði fjárhagslegt haldreipi fátæks manns. Hugsjónir lífs hans brugðust honum hins vegar og það opnaði huga hans á ný og lokaði á kreddurnar. Eftir að hann komst á listamannslaun og bækur hans seldur betur var ekki eins mikil þörf fyrir haldreipi af fyrrgreindum toga og þá fékk taóismi og önnur austræn speki aukna athygli hjá skáldinu.
Halldór ferðaðist mikið og mér fannst skemmtilegustu kaflar bókarinnar vera um kynni hans af heiminum, til dæmis ferðalög hans til Argentínu og Sovétríkjanna. Í bókinni eru ótal áhugaverðir hlutir; á næstum hverri síðu rakst ég á eitthvað sem ég staldraði við og velti fyrir mér. Lífsgleði og sannleiksleit Hannesar skilar sér vel í bækur hans; frásögnin er lifandi og full af fróðleik.
Frágangur bókarinnar er ágætur og aðeins smáatriði sem hægt er að setja út á. Eitt af því sem mig langar að nefna er þýðingarleysi á setningum úr erlendum tungumálum. Yfirleitt eru slíkar tilvitnanir þýddar og hafðar innan sviga, en þó ekki alltaf. Það er ekki hægt að ætlast til þess að lesendur bókar á íslensku kunni rómönsk mál og í raun er ekki rétt að ætlast til þess að þeir kunni nokkurt erlent tungumál. Í íslenskri bók á allt að vera skiljanlegt á íslensku. Þetta er þó ekki algengt í bókinni og háði mér ekki nema á einum stað.
Á stöku stað ryðst Hannes full mikið inn í frásögnina með sínar fílósófísku skoðanir, en það er þó ekki mikið lýti á bókinni.
Í það heila er Kiljan góð bók og höfundur hennar á hrós skilið fyrir þetta framlag sitt til íslenskrar menningarsögu.
<< Til baka | Senda athugasemd til ritstjórnar