mánudagur, desember 6

Svar/Andsvar

Höfundur Ágúst Borgþór sendi höfundi greinarinnar Hvað hrjáir Þráin Bertelsson? tölvupóst. Hér er það bréf ásamt svari höfundarins, Kára Tulinius, og svari Ágústs við svari hans.

From: Ágúst Borgþór Sverrisson
To: Kári Tulinius
Subject: Vegna skrifa um ritdeilu við Þráinn

Ég verð að segja að mér er dálítið misboðið yfir pistli þínum um ritdeilu mína og Þráins. Þó að ég sé sammála þér um efnisatriði málsins þá finnst mér stöðugt tal þitt um hvað ég sé lítilsigldur rithöfundur ómaklegt og barnalegt. Ég er vissulega ekki mjög þekktur rithöfundur en hef þó hlaðið á mig alls kyns viðurkenningum, m.a. fimm smásagnaverðlaunum. Flestar bækurnar mínar hafa fengið afbragðsgóða dóma, m.a. í alþjóðlega bókmenntatímaritinu World Literature Today. Þá má þess geta að ég á smásögur í þekktum íslenskum safnritum sem hafa komið út á síðustu misserum.

skyjaborgir.com eiga að heita menningar- eða bókmenntavefur en mér finnst þetta viðhorf þitt vera mjög ómenningarlegt: Nefnilega að rithöfundar sé ómerkilegir ef þeir eru ekki ofboðslega frægir metsöluhöfundar. - Úti um allan heim eru góðir rithöfundar sem eru ekki víðfrægir en njóta virðingar í vissum hópum. Eins og þú veist gildir það líka um aðrar listgreinar.

Þráinn er umfram allt þekktur fyrir kvikmyndagerð en hefur ekki skrifað margar bækur. Þó að hann sé frægur og vel seldur og eigi það bara skilið, þá efast ég um að hann njóti mikið meiri virðingar en ég á meðal þeirra sem helst fylgjast með bókmenntalífinu.

Að meta listamenn eingöngu eftir frægð og sölutölum er vægast sagt lítt bókmenntalegt viðhorf.

Kveðjur
ÁBS

From: Kári Tulinius
To: Ágúst Borgþór Sverrisson
Subject: Re: Vegna skrifa um ritdeilu við Þráinn

Sæll Ágúst,

Takk fyrir að nota tíma þinn í að lesa greinina og svara henni. Þú misskilur það sem ég er að segja, sem er svo sem ekki skrítið, þar sem beina útskýringu vantar í textann. Ég ákvað á seinustu stundu að taka út fyrstu málsgreinina að greininni því mér fannst sú málsgrein sem greinin byrjar á núna best til slíks. En hún var málsgrein númer tvö upprunalega. Í fyrstu málsgreininni minntist ég á Anne Rice (ástæður þess geturðu lesið um hér) og notaði hana sem dæmi um frægan og ríkan höfund sem ekki hefur notið hylli gagnrýnenda. Henni líkti ég síðan við Þráinn Bertelsson.

Allar líkingar mínar á „stærðarmun“ ykkar Þráins eiga ekki við um gæði ritverka ykkar heldur hve plássfrekir þið eruð í íslenskum bókmenntaheimi. Sama á við um kommentið mitt um smásagnahöfunda. Skáldsögur eru plássfrekari en smásögur, ekki bara í lengd, heldur einnig í því hve mikið er fjallað um þær, hve mikið þær eru keyptar og svo framvegis. Ég notaði aldrei orðið lítiðsigldur. Ég líkti þér
annars vegar við smáblóm og hins vegar við ungan dreng sem þarf að ganga við hækju. Þar á ég ekki við að þú sért ómerkilegri en tréið og strákurinn sem hrindir unga drengnum, heldur að þú eigir erfiðara með að láta heyra í þér. Þráinn, fyrir utan að vera metsöluhöfundur og virtur kvikmyndaleikstjóri, er líka einn áhrifamesti dálkahöfundur landsins og getur haft mikil áhrif á „þjóðfélagsumræðuna“. Þótt að blogg þitt sé meðal víðlesnustu blogga á Íslandi, þá er ekki hægt að líkja saman stöðu þinni í samfélaginu við Þráins. Ég var ekki að reyna að gera lítið úr þér, heldur lýsa „stærðarmun“ ykkar tveggja á ljóðrænan hátt.

Ekki halda að ég sé þar með að setja sjálfan mig á stall. Ég viðurkenni fúslega að í hinum íslenska ritjurtagarði er ég arfi :)

með góðum hug og von um góða sölu og hlutlæga gagnrýni á Tvisvar á ævinni,
Kári Tulinius

From: Ágúst Borgþór Sverrisson
To: Kári Tulinius
Subject: Re: Vegna skrifa um ritdeilu við Þráinn

Sæll og þakka svarið. Eins og þú hefur orðið var við og fjallað um eru rithöfundar viðkvæmir og ofsóknaræðið veður uppi í jólabókaflóðinu. Núna erum við komnir með dæmi um ofsóknaræði þar sem þrjár kynslóðir höfunda koma við sögu og sá eldri ásakar þann yngri og munar líklega um tveimur áratugum í hverju tilviki: Frá Þráni til mín til þín.

Bestu kveðjur
ÁBS