fimmtudagur, nóvember 25

Nafnabókin

HöfundurNafnabókin er verk Amélie Nothomb, höfundar sem nýtur mikilla vinsælda í Frakklandi um þessar mundir. Í bókinni segir hún sögu stúlku sem ætluð er stór og mikil framtíð. Hin kornunga móðir hennar vill að hún hljóti nafn í samræmi við það og því hefur það ófyrirsjáanlegar afleiðingar þegar eiginmaður hennar leggur til nöfn sem bera með sér meðalmennsku og hversdagsleika. Hún skýtur hann til bana og sviptir sig lífi í fangelsi – en ekki fyrr en hún er búin að tryggja að stúlkan hljóti nafnið Plectrude.

Móðursystir Plectrude sér til þess að stúlkan hljóti uppeldi sem hæfir nafni hennar og örlögum. Plectrude er alin upp sem ævintýrabarn. Hún er dubbuð upp í prinsessuföt, hlustar á prinsessutónlist og borðar prinsessumat. Það reynist henni því í fyrstu erfitt að fóta sig í þeim gráma hversdagsleikans sem skólaganga er. Í hennar augum er hversdagurinn fáránlegur. Hún nær þó að fóta sig, verður brátt efnilegur ballettdansari og kemst inn í virtan balletskóla. Þar er lagt afar hart að nemendunum og áður en varir verður Plectrude haldin lystarstoli.

Nafnabókin hefur á sér einhvern töfraljóma og jafnvel fáránleikablæ á köflum. Sem dæmi má nefna það hvernig Nothomb skrifar sjálfa sig inn í endi sögunnar með skemmtilega ósvífnum hætti. Athyglisvert er að það sem almennt myndi þykja eðlilegt þykir Plectrude fáránlegt – og öfugt. Þannig tekur hún uppeldi sínu sem ævintýrabarni sem sjálfsögðum hlut, en skólagangan og hið daglega líf finnst henni fáránleg. Litlu fáránlegri, þrátt fyrir að á annan hátt sé, er meðferðin á nemendum ballettskólann, en Plectrude sér ekkert óeðlilegt við hana. Um leið og þessi skakka sýn hennar á tilveruna vekur upp spurningar um hvað sé eðlilegt og hvað ekki, og ástæðurnar fyrir því, endurspeglar hún hugarheim lystarstolssjúklingsins sem sér sjálfan sig á allt annan hátt en aðrir.

Lystarstolið er ekki eini vandinn sem steðjar að Plectrude. Nothomb skrifar einnig um nokkuð dæmigerð vandamál æsku og unglingsáranna. Plectrude er öðru vísi en aðrir og fyrst um sinn eignast hún ekki vini, hún kynnist ástinni, og jafnframt ástarsorginni, og þegar líður á söguna nær hún ekki að standa undir væntingum móðursystur sinnar. Einnig er áberandi að Plectrude heldur dauðahaldi í æskuna og sættir sig illa við kynþroskann.

Sagan er auðlesin, lipur og vel skrifuð. Þrátt fyrir erfiðleikana sem steðja að Plectrude og dauðann sem er upphaf og endir sögunnar verður hún aldrei þung. Þvert á móti er hún létt og fjaðurmögnuð, rétt eins og söguhetjan. Amélie Nothomb er höfundur sem vert er að fylgjast með í framtíðinni.