miðvikudagur, nóvember 17

Taumhald á skepnum

HöfundurTaumhald á skepnum eftir Magnus Mills fjallar um þriggja manna verkflokk sem leggur girðingar í Bretlandi. Með snarklikkaðan fullkomnunarsinna sem yfirmann, og hvern kúnnan öðrum verri hangandi yfir sér, leggja ónafngreindur sögumaður, Tammi og Rikki háþansgirðingar í votviðri og vesöld og neyta þess á milli ógrynnum öllum af bjór og sígarettum.

Hráslagalegt umhverfi sögunnar, leiðingjörn, endurtekningasöm vinnan og einhæft lífernið fellur vel að tilþrifalausri frásögn sögumanns sem virðist tiltölulega sáttur við stöðu sína. Þannig fer sagan af stað og frásagnarmátinn breytist ekkert þegar, fyrir slysni, Tammi drepur fyrsta kúnnan. Þeir einfaldlega grafa hann undir girðingarstólpa, velta aðeins fyrir sér hvort ekki verði í lagi með kýrnar hans og halda svo áfram.

Það er varla að maður taki eftir fáránleikanum, því fyrir verkamönnunum er þetta aðeins enn eitt vinnuslysið, þó sýnu auðleystara en brotin sleggja. Dauði manns er aðeins óþægilegt, en auðgleymanlegt (og grafið), atvik. Þurri, hlutlausi stíllinn og lúmskur svartur húmor eins og hann gerist bestur blanda spennu í þessa annars leiðingjörnu tilveru. Spennan milli leiða og firringar minnir á óumflýjanlega ógn hverdagsleikans í Réttarhöldum Kafka, þar sem einstaklingurinn týnist í kerfinu. Mannslífið er lítils virði, aðeins enn einn plús eða mínus í bókhaldinu. Þannig fara verkamennirnir á milli verkefna, að því virðist án nokkurs vals, og inn á milli verklýsinga er hver kúnninn á fætur öðrum grafinn undir girðingarstaur svo lítið beri á.

Taumhald á skepnum er bráðskemmtileg frásögn, en fleira býr að baki en sniðug hugmyndin. Mills vekur mann til umhugsunar um hversdagsleika og firringu, baráttu einstaklingsins gegn einangrun, doða og leiða í heimi sem verður sífellt ópersónulegri. Aðalpersónunum þremur er “hóað saman” og þeir “reknir af stað” út í haga, svo efast má um hverjar skepnurnar eru sem þarf að hafa taumhald á. Um leið og höfundur dregur upp litríka mynd af þessum sérstöku persónum gefur hann annað sjónarhorn, sjónarhorn fyrirtækisins, ópersónulegu vélarinnar, sem í raun lítur á þá sem hvert annað húsdýr. Mills fer ekki dult með það, enda er yfirmanninum endurtekið lýst sem eins konar vélmenni, hann stendur fyrir gróðabatteríið sem verkamennirnir knýja áfram eins og burðardýr.

Höfundur nær að magna upp spennuna og firringuna eftir því sem á líður, en með því fylgir það vandamál að erfiðara verður að viðhalda hversdagsleikanum og leiðanum. Eftir því sem hryllingurinn eykst fara möguleikarnir á einfaldri lausn að hverfa og verður hver lesandi fyrir sig að ákveða hvort endirinn nái að mynda hámark sögunnar eða hvort mörk veruleika og hryllings hafi verið teygð of langt.