mánudagur, nóvember 8

Hátíðarljóð Alþingishátíðar 1930

HöfundurÁrið 930 skipar stóran sess í stjórnskipunarlegri sögu okkar Íslendinga. Það ár var Alþingi stofnað á Þingvöllum fyrir tilstilli víkinganna sem komið höfðu frá Noregi áratugina á undan. Síðan þá hefur Alþingi gengið í gegnum öldurót áranna, breyst með breyttum aðstæðum mannfólksins og flust frá hinum forna þingstað við mörk jarðflekanna miklu, til höfuðborgarinnar smáu.

Þegar þúsund ár voru liðin frá upphafsdögum Alþingis var tekin ákvörðun um að halda upp á þau tímamót með veglegum hætti, rétt einsog gert hafði verið árið 1874 þegar þúsund ára byggð í landinu var fagnað í Öskuhlíð og á fleiri stöðum. Á Þingvöllum, hinum forna þingstað skyldi haldin vegleg hátíð allrar þjóðarinnar.

Allt frá árinu 1923 höfðu menn vakið máls á því að nauðsynlegt væri að hefja undirbúning að hátíð sem þessari, það krefðist mikils tíma og fjármuna. Talið er að Björn Þóðarson, sem síðar fyllti sæti forsætisráðherra á Þingvöllum við Lýðveldisstofnun 1944, hafi fyrstur vakið máls á þessu í 1. og 2. hefti Eimreiðarinnar árið 1923. Fóru svo hjólin að snúast, hægt í fyrstu, en þegar Alþingi kom að málinu 1926 komst skriður á málin og nefnd í kringum hátíðina var skipuð. Var sú nefnd í raun forveri Þingvallanefndarinnar sem enn starfar. Hennar fyrsta verk var að vinna að undirbúningi þess að Þingvellir yrðu þjóðgarður.

Ekki er það ætlun mín að rekja sögu þessarar hátíðar í smáatriðum, það gerði raunar dr. Magnús Jónsson svo vel í bók sinni Alþingishátíðin 1930 að engu er við bætandi. Eitt er það þó sem strax vakti athygli mína við lestur þessarar miklu heimildar sem bók Magnúsar er; hátíðarljóðin. Hvílíkar gersemar sem þar er að finna, gersemar sem spruttu af vörum snillinga á tímamótum þjóðarinnar árið 1930. Er það ætlun mín í þessum texta að fjalla um þau.

Samkeppnin

Eitt af því fjölmarga sem undirbúningsnefnd Alþingishátíðarinnar stóð fyrir var samkeppni um hátíðarljóð. Var það raunar engin nýlunda að gert væri ráð fyrir bundnu máli í minningu atburðar sem þessa. Hefur það oftar en ekki verið íþrótt íslenskra skálda að semja ljóð í tilefni slíkra viðburða. Er í því sambandi skemmst að minnast Þjóðfundarsöngs 1851 sem Bólu-Hjálmar orti og svo hin ógleymanlegu ljóð skáldkonunnar Huldu og Jóhannesar úr Kötlum sem þau ortu fyrir lýðveldisstofnun 1944.

Raunar var það þannig að dómnefnd samkeppninnar taldi engin þeirra ljóða sem borist höfðu uppfylla þær kröfur sem nefndin hafði gert. Er ólíklegt að skáldskapurinn hafi ekki þótt nægilega vandaður, má heldur telja að ekkert ljóðanna hafi verið vel fallið til söngs, en nefndin hafði einmitt ákveðið að sigurljóðið skyldi flutt í söng á hátíðinni sjálfri. Niðurstaðan varð sú eftir nokkrar bollalegginar að þrír höfundar skyldu hljóta verðlaun hátíðarinnar. Einar Benediktsson og Davíð Stefánsson skyldu hljóta fyrstu verðlaun og ljóð Jóhannesar úr Kötlum hlaut einnig verðlaun. Þegar dr. Páll Ísólfsson, einn af dómendunum, ásamt fleirum, hafði lagt mat á ljóðin þrjú var talið heppilegast að ljóð Davíðs skyldi sungið, voru á því gerðar nokkrar breytingar af hálfu höfundar svo að vel heppnaðist til.

Ljóðin
Ljóðin þrjú eru mikil að vöxtum, skiptast þau í kafla og eru erindi hvers kafla oft á tíðum mörg. Þau eru ort undir mörgum bragarháttum, sumum einföldum en öðrum sem meira lætur yfir.

Ljóð Davíðs skiptist í 13 kafla, Einars í 6 og 44 erindi og ljóð Jóhannesar telur 43 erindi. Einsog búast má við er um ættjarðarljóð að ræða, að mörgu leyti í anda Bjarna Thorarensen og þeirra sem fyrstir ruddu braut rómantíkur í íslenskum kveðskap. Þau segja sögu landsins, segja frá afrekum forfeðranna sem nú endurspeglast í sjálfstæði þjóðar við nyrsta haf.

Ljóð Einars hefst í raun á frásögn af landnáminu og hvað af því leiddi:

Af Austhimni leiftraði stefnandi stjarna
um stranhauðrið mikla, Á Norðurveg.
Og bjart varð af þyrpingum eldaðra arna
er útver settust og knarranna leg.
Svo fæddist vor saga á skildi og skál.
Skeiðarnar mönnuðust vestur um ál.
Og ljóðgöfgað Hávanna helgimál
hrundi af vörum íslenzkra barna.

Davíð minnist svo liðinna daga er þjóðin gekk í gegnum þrengingar og gekk niðurlægð af oki erlendra herra er hann segir:

Fyrr var landið fjötrað hlekkjum,
fátt um vopn og hrausta drengi.
Þjóðhetjur af þingsins bekkjum
þurftu að berjast heitt og lengi.
Dirfsku þurfti að koma og krefja
konunga um lausn og bætur.
Frelsismerkið fyrstir hefja
fullhugar, sem þjóðin grætur.

Mestu flugi nær svo Jóhannes í fjórða erindi verk síns er hann segir:

Ó, Guð! sem skapaðir tign vorra tinda,
svo takmark vort hófst upp úr duftinu blinda!
Ó, Guð! Þú, sem bjóst oss hér norrænu nyrztu,
svo næðum vér sigri – og yrðum þeir fyrstu!
Vér fögnum nú hér
og þökkum þér,
sem þyrmdir, er ægði grand.
Í lifandi óði,
með brennandi blóði,
vér blessum þá stund, er þú gafst oss land!

Faldar perlur
Einsog glöggt má sjá á þeim erindum sem hér að framan birtast úr ljóðunum þremur er um miklar perlur að ræða. Er óhætt að fullyrða að nefndin sem fjallaði um ljóðin á sínum tíma hafi átt úr vöndu að velja. Ljóð Davíðs sker sig úr að einu leiti, nokkur erindi þess eru betur þekkt en ljóð Einars og Jóhannesar. Ræður þar eflaust mestu um að þessi erindi voru valin til flutnings við undirleik tónlistar á hátíðinni 1930. Hafa þau í raun fylgt stórhátíðum þjóðarinnar allar götur síðan og orðið hluti af samhljómi lýðveldisins sem hljómar á tyllidögum landsmanna.

Eftirfarandi kaflar eru hvað best þekktir úr ljóði Davíðs:

Sjá, dagar koma, ár og aldir líða
og enginn stöðvar tímans þunga nið.
Í djúpi andans duldir kraftar bíða.
Hin dýpstu speki boðar líf og frið.
Í þúsund ár bjó þjóð við nyrztu voga.
Mót þrautum sínum gekk hún djörf og sterk.
Í hennar kirkju helgar stjörnur loga,
og hennar líf er eilíft kraftaverk.

og:

Brennið þið, vitar! Hetjur styrkar standa
við stýrisvöl, en nótt til beggja handa.
Brennið þið, vitar! Út við svarta sanda
særótið þylur dauðra manna nöfn.
Brennið þið, vitar! Lýsið hverjum landa,
sem leitar heim – og þráir höfn.

Þessi erindi ættu allir að kannast við. Því er að þakka frábærum kveðskap en ekki síður þeim fallegu lögum sem styðja textann og glæða hann lífi. Má telja víst að ef fleiri erindum í ljóði Davíðs og ákveðnum erindum í ljóðum Einars og Jóhannesar hefðu verið ljáðir tónanna vængir þá hefðu þau lifað með þjóðinni allt til þessa dags. Má t.a.m. ímynda sér að síðustu þrjú erindin í ljóði Einars hefðu getað sómt sér vel í flutningi stórra kóra á hátíðisdögum. Geri ég það hér með að tillögu minni að tónskáld nútímans taki þau upp á sína arma og glæði þau eilífðarlífi, fylgja þau hér á eftir með áskorun til þeirra er vaxnir eru til verksins!

Vér áttum heima í byggð, en ekki borgum,
við býli stjál og fámenn ólst vor þjóð.
Þar hófust ekki turnar yfir torgum,
en tindar bláir mændu að sólar glóð.
Hér risu ekki voldug minnismerki.
Við moldir fjöldans Saga þögul stóð.
Í stein og málm var manni ei lýst né verki.
Vor mikla fold hún stóð í eyði og hljóð.

Vor ríku goðorð áttu þjóðarþegna,
sem þekktu frelsið sjálft, með eigin völd.
Sú aldastofnun stóð. Lát jörðu fregna,
vor stjórn ber þroska fyrir konungsöld.
Vér inntum fórnir vegna þungra víta,
en veröld síðar bauð oss endurgjöld.
Nú taka skal vorn hlut og láta hlíta.
Vér höfum réttinn fyrir sverð og skjöld.

- Vor myndasöfn þau gnæfa í hugar heimi,
svo hátt sem andi býst í jarðnesk orð.
Og hirðmál er vor tunga í guðageimi,
þar greppar sækja eld við konungsborð.
Af öldnum slögum óma vorir salir
við orð, sem tímar haga ei úr skorð.
Af Braga dáðum varðast Íslands valir,
um Vínland góða, Frón og Eiríks storð.