fimmtudagur, nóvember 4

Krossgötur

HöfundurÍ greininni, sem birtist í Morgunblaðinu á 140 ára afmæli Einars Benediktssonar, birtust síðustu tvö erindin í Krossgötum. Kvæðið í heild sinni hljóðar þannig:

Mér virtist áður öll veröldin tóm,
ég var sem trúlaus - í helgum dóm.
Og nóttin mig byrgði og bældi inni -
ég bað svo heitt að dagurinn rynni.

Svo birtist mér sólin við sjónarboga;
þá sá ég minn austurheim tindra og loga
og hratt af mér drungans og dofans hlekk.
Í dægurkappanna lið ég gekk.

Og röðulglampinn oss glóði á kinn;
hans guðabros rann yfir huga minn.
Ég söng um jörðina og himinsins hallir.
„Við heyrðum það áður“ - sögðu þeir allir.

Svo gekk ég þangað sem manna milli
er matist með listum um kvenna hylli.
Að vinna og tapa var gleði og gaman -
ég gegndi lit hjá þeim öllum saman.

Með þrótt í armi með eld í orði,
með auga í auga, mjöð á borði
ég flutti þeim manvísur mjúkar og snjallar.
„Þeir mæltu svo hinir“ - kváðu þær allar.

Þetta eitt hef ég lært – ég stend einn, með vilja,
útlagi, frjáls, þar sem götur skilja;
og tælinn í ástum og tvímáll í svörum
ég tryggðaeið finn mér brenna á vörum.

Ég á mér nú trú og efa til hálfs,
mín ást er án vonar, mitt ljóð er án máls. –
Og þó sver ég ástum og óði án tafar
mína æfi frá þessum degi til grafar.