þriðjudagur, október 26

Tónleikar Kammermúsík-klúbbsins í Bústaðakirkju, 25. október

HöfundurCuvilliés-kvartettinn
Florian Sonnleitner: 1. fiðla
Aldo Volpini: 2. fiðla
Roland Metzger: viola
Peter Wöpke: selló

Þegar ég gekk inn um dyrnar á Bústaðakirkju hálftíma áður en tónleikarnir hófust komu fáeinir karlmenn á móti mér og voru á leið fram á gang. Þetta voru tónlistarmennirnir. Þeir höfðu verið að æfa fram á síðustu stundu. Ég spjallaði við einn af stjórnarmeðlimum Kammermúsíkklúbbsins fyrir tónleikana og hann tjáði mér að síðustu þrjá daga hefðu þeir félagarnir æft sleitulaust í kirkjunni.

Strax og tónleikarnir hófust sá ég í hendi mér að þessar sleitulausu æfingar höfðu ekki verið haldnar í kvíðakasti og til að berja í brestina. Hér voru greinilega fyrsta flokks spilarar á ferðinni. Hver stroka var framkvæmd af slíku öryggi og þekkingu að annað eins er sjaldgæf sjón á tónleikum hér á landi. Þegar maður horfir á íslenska tónlistarmenn spila er aldrei langt í þá hugsun að þetta sé fólk sem maður gæti rekist á í sundi eða úti í búð. Cuvilliés-félagar eru hins vegar menn sem ómögulegt er að ímynda sér öðru vísi en í kjölfötum og með hljóðfærin sín í höndunum.

Á efnisskránni voru verk eftir tvo tékkneska höfunda og einn þýskan: Dvořak, Janáček og Beethoven. Fyrsta verkið var Ameríski strengjakvartettinn (F-dúr, B179 op. 96) eftir Dvořak, saminn 1893. Kvartettinum svipar nokkuð til 9. sinfóníunnar, enda var hún samin sama ár. Í báðum verkunum eru ríkjandi stef sem sniðin eru að fyrirmynd indíánatónlistar, auk þess sem áhrif frá tónlist Bandaríkjamanna af afrískum uppruna koma víða fyrir. Þau má þó með sönnu kalla tveggja heima verk, enda er tékkneska elementið ekki langt undan. Flutningur kvartettsins var leikandi og hrífandi, alveg eins og hann á að vera.

Flutningurinn á verki Janáčeks er trúlega meira krefjandi og hlýtur að standa eða falla með túlkun flytjenda á nokkrum krítískum köflum, ekki síst þar sem hermikontrapunktur og eltingaleikur tveggja hljóðfæra hvort við annað kemur oft fyrir. Sagt er að Janáček hafi stundum stefnt að því að líkja eftir mannlegu tungumáli í hljómfallinu í tónlist sinni, og maður fær helst á tilfinninguna að í verkinu sem Cuvilliés-kvartettinn flutti sé rifrildi í gangi. Hér er um að ræða Kreutzer-sónötuna frá 1923 sem innblásin er af samnefndri sögu Tolstojs, en hún er aftur innblásin af samnefndri fiðlusónötu eftir Beethoven. Þekktasta ópera Janáčeks, Káta Kabanová, mun einnig vera byggð á þessari sömu sögu Tolstojs. Að mínu mati voru mestu tilþrif kvöldsins í þessum kvartett, enda samhæfingin sýnilega enginn barnaleikur.

Eftir hlé kom svo lengsta verkið: Strengjakvartett í B-dúr, op. 130 frá 1825 eftir Beethoven. Það er auðvitað ótrúlegt að snargalinn og heyrnarlaus oflátungur skuli hafa samið aðra eins fegurð. Kvartett þessi á sér óvenjulega sögu. Hann var saminn að beiðni Nikolaj Galizins, fursta. Strax eftir frumflutning var það samdóma álit flestra sem heyrt höfðu að lokakaflinn, svonefnd Grosse fuge, væri algjörlega úr samhengi við fyrri hlutann, stórskorinn og tyrfinn í samanburði við þá ljúfu tóna sem á undan fóru. Beethoven lét segjast og samdi nýjan lokakafla, en Cuvilliés-kvartettinn flutti verkið í upprunalegri mynd. Þeir voru svo sannarlega trúir anda Beethovens og komu hrikalegum hljómunum til skila.

Allt í einu voru horfnir tveir klukkutímar sem höfðu liðið jafnhratt og tvær mínútur. Að tónleikunum loknum var bros á hverju andliti og allir voru upprifnir, menn féllust jafnvel í faðma á göngum Bústaðakirkju. Þetta var sannkölluð fagmennska og enginn var svikinn af. Mikil skemmtun, mikil list.