sunnudagur, október 24

Flakk án fyrirheits

H?fundurEf ég segði við þig að allir ættu að stunda flaneurisma, þá gætir þú sagt: „Oj! Perri!”

Og þá myndi ég segja: „Nei, heyrðu... þú ert eitthvað að misskilja.“

Flaneurismi er illþýðanlegt hugtak. Það þýðir eitthvað á þessa leið: Sú iðja að ferðast um borg án stefnu eða tilgangs annars en þess að virða fyrir sér borgina. Ég leyfi mér því að sletta frönsku. Fyrir nokkrum árum birtist grein í Morgunblaðinu, í Fólki í fréttum minnir mig, um þetta háttalag og var stuttlega rakin saga þess þess, upphafið hjá Baudelaire og áhrif á mannlega hugsun. Ég ætla að sleppa öllu þess konar. Í staðinn ætla ég aðeins að benda þér á nokkra staði sem ég hef fundið við eiginn flaneurisma. En fyrst ætla ég að segja þér af hverju þú ættir að sleppa því að lesa þessa grein.

Það er ekki skrítið að flaneurisminn eigi upphaf sitt á nítjándu öld þegar mestu hetjur alþýðunnar voru landkönnuðir. Flaneurinn er í raun að kanna jafn óþekkt svæði og þeir sem fóru til Afríku, Ástralíu, Asíu og fleiri staða sem voru að sjálfsögðu vel kunnir því fólki sem átti þar þegar heima. Flest þekkjum við okkar nánasta umhverfi nokkuð vel. Ég ólst upp í Hlíðunum og Holtahverfi, en bý nú miðbænum og tel mig þekkja það svæði nokkuð vel, eða taldi mig. Ég hóf nýlega starf með námi sem stöðumælavörður, en það er, ásamt póstburði, hið fullkomna starf fyrir flaneur. Eftir þriggja vikna störf hef ég uppgötvað nýja fleti á svæðum sem ég taldi mér þaulkunnug. Þetta hefur verið mér talsverð uppspretta ánægju. Þess vegna mæli ég með því að þú hættir að lesa þessa grein og farir á röltið eða rúntinn í leit að þínum eiginn heimsálfum til að nema í Reykjavík. Eða í öðrum borgum sértu staddur erlendis.

Jæja, ef þú ert enn að lesa þá skal ég nefna nokkra staði sem ég hef mikið dálæti á. Fyrst nefni ég stað sem allir þekkja en ekki kannski allir gera sér grein fyrir að bjóði upp á fleira en sumarsprell. Jamm, tilbúna ströndin í Nauthólsvík. Ég hef aldrei komið þangað á góðviðrisdegi en legg leið mína þangað oft á köldum vetrarnóttum. Hughrifin við að koma þangað eru illhöndlanleg. Seinast þegar ég kom þangað minnti staðurinn mig á strendurnar í Normandí sem Þjóðverjar víggirtu í seinni heimsstyrjöld. Áður hafa þau minnt mig á módernísk hof til dýrðar sjávargoðinu Nirði. Og fyrst á haus á risastóru skordýri með kjálka sem skaga út í víkina.

Í leit minni að þeim anga Reykjavíkur sem lengst er í burtu frá miðbænum (og hér hef ég kosið að líta framhjá Esjuhverfi) fann ég stað sem ég hef kosið að kalla Endapunkt Reykjavíkur. Ef keyrt er alla leið upp að Korpúlfsstöðum og haldið áfram, er komið það langt að ef vegurinn færi lengra myndi maður enda í Mosfellsbæ. Þá er beygt niður að sjó og keyrt þangað til vegurinn endar í litlum hring sem minnir um margt á punkt við enda setningar. Þar hefur maður góða sýn út Eiðsvíkina á stóran hluta borgarinnar sem og náttúruna fyrir norðan hana. Eins og með marga staði sem flaneurinn uppgötvar þarf stundum að deila þessum með pörum í bílum eða fólki að reykja hass, en það hefur sig oftast á brott um leið og það verður vart við mann. Þarna er annars mikil ró. Sá blær liggur yfir að þetta sé ákveðin endastöð fyrir Reykjavík. Að hérna sé hún komin og það sé alveg nóg og nú sé kominn tími til að hvíla sig.

Eins og lesendur hafa líklega áttað sig á, eru þessir tveir staðir betur til þess fallnir að fara þangað á bíl. Þótt það gangi gegn hefðum flaneurismans þá mæli ég með því að flaneurar keyri um í félagi, helst tveir. Það er ekki gott að fylgjast með umhverfinu meðan ekið er án þess að verða sér og öðrum til mikillar hættu. En við rölt er hins vegar nauðsynlegt að vera einn á ferð. Eiginlega má líta á flaneurisma sem úthverfa íhugun. Það er hægt að tvinna þessu saman með því að keyra í einhvern borgarhluta, leggja og síðan fara á smá flakk.

En nú ætla ég að benda á tvo staði miðsvæðis sem ég hef fundið við flanerie. Fyrst er að nefna grafirnar á litla torginu við gamla Landssímahúsið. Þær eru vel þekktar en þetta er svo sérkennilegt að ég verð að minnast á þetta hafi einhver sem er að lesa ekki vitneskju um þær. Í beðunum er nokkrir legsteinar og fólk þar undir. Farið og lítið á. Þarna hlammar sér niður minnisvarði um dauðann beint í alfaraleið. Oft sér maður fólk sitja á þeim og það hefur greinilega ekki hugmynd um hvað þetta er.

Hinn staðurinn er nýleg uppgötvun. Ég taldi mig þekkja svæðið kringum Hlemm eins og lófann á mér, en svo var nú ekki. Næst þegar hvasst er í veðri skalt þú fara á Grettisgötuna vestan Snorrabrautar. Nálægt horninu, rétt austan Tónabúðarinnar er stálgrindverk sem er ásýndar alveg eins og tugir annarra í borginni, nema að lítil göt eru boruð í það efst og neðst á grindunum. Það veldur því að það er eins og eitthvert vindorgel úr vampírumynd. Torkennileg og óraunveruleg hljóð sem valda ákveðnum ónotum, en þó þannig að maður hrífst með. En ekki vildi ég vera myrkfælinn íbúi í nálægu húsi.

Það eru hundruðir staða í Reykjavík sem bíða þess að vera uppgötvaðir. Farðu á flakk og finndu flaneurinn í sjálfum þér.

Viðbót ritstjórnar: Tilvalið er að þýða flanerie sem flandur. Samkvæmt Marðarbók merkir flandur meðal annars flakk eða ráp. Sá sem stundar flandur, flaneur, gæti kallast flandrari (í Marðarbók segir reyndar að flandrari sé flæmingi, en að sjálfsögðu getur orðið einnig haft þá merkinguna sem hér er lögð til). Flandrarar flandra (sem sagt sögnin að flandra). Af þessu leiðir að flaneurismi er flandurhyggja á ástkæra ylhýra.