föstudagur, október 22

Völundarkviða

H?fundurVölundarkviða er eitt af okkar ástkæru eddukvæðum, sem varðveitt eru í Konungsbók (Codex Regius) frá því um 1265-1280. Sögusviðið er ríki konungs sem nefndur er Níðingur og er það sagt vera það landsvæði sem í dag er þekkt sem Svíþjóð. Söguhetjan er Völundur (sem nafn kvæðisins vísar til), en hann tekur sér valkyrju fyrir konu líkt og tveir bræður hans. En ekki var Völundur lengi í paradís því að valkyrjunar yfirgefa þá bræður af ókunnum ástæðum og hverfa sporlaust út í buskann. Bræður Völundar ákveða að leggja af stað í leit að kvenfólkinu en slík er vosbúð og volæði Völundar að hann verður eftir og tregar harma sína yfir kvenmissinum.

Í vorkunseminni og einmanaleikanum er Völundur orðinn berskjaldaður svo að Níðingur konungur kemur og yfirbugar Völund sem hann settur svo í þrældóm, því að Völundur býr yfir sérstökum hæfileikum til smíðahagleiks glæsilegra og fagurlegra djásna. Við hirð Níðings er Völundi haldið ófrjálsri hendi og hann látinn smíða hvern dýrðargripinn á eftir öðrum handa konungi.

Völundur hefur þó ekki hugsað sér að vera fangi konungs um ókomna tíð og smíðar sér því á laun sérstaka vængi til að geta flogið burt. En áður en hann losar sig úr haldi konungs hefnir hann sín grimmdarlega með því að drepa syni konungs, láta konung drekka úr hauskúpum þeirra, smíðar skartgripi úr augum og tönnum þeirra handa drottningunni og -að því virðist- barnar að lokum dóttur þeirra.

Kviðan er 40 erindi sem ort eru undir órímuðu fornyrðislagi og hefur ekki fasta hrynjandi. Slíkur bragarháttur er gjarnan settur í tengsl við ævintýra- eða dulúðarkennd frásagnarkvæði (samanber til dæmis Völuspá og Þrymskviðu). Frásagnarháttur er með fjarlægum ljóðmælanda í þriðju persónu lengst af, en nokkur kvæðin eru þó í beinni ræðu. Stuðlasetning tengir saman tvær og tvær braglínur, en getur ekki talist vera fullkomlega regluleg þar sem ójafnar línur hafa ýmist einn eða tvo stuðla. Erindaskipting er breytileg og eru braglínur ýmist fjórar, sex eða átta. Þessi breytilega erindaskipting stafar eflaust af gömlum aldri kvæðisins, en á þeim tíma þegar það hefur verið ort hefur bragarhátturinn ekki þróast í þá reglu sem seinna varð föst erindaskipting fornyrðislags við átta braglínur.

Ákveðin dulhyggja er svífandi yfir vötnum í Völundarkviðu. Óljós tengsl eru á milli Völundar og einhverra yfirnáttúrulegra fyrirbæra og er hann kallaður álfa ljóði og vísi álfa, en talið er að þessi uppnefni þýði álfakonungur. Ásatrú kemur fram í kvæðinu með valkyrjunum sem giftast Völundi, bræðrum hans og fornu orðalagi þar sem oft eru vísanir yfir í örnefni og sögur af Ásum. Orðfærið er einstaklega myndrænt og á köflum tilfinningaþrungið, dramatíkin er lifandi og gróteskar lýsingar lyfta kvæðinu upp í efstu hæðir. Kvæðið hreyfir við lesandanum á skemmtilegan hátt ásamt því að hafa seiðmögnuð áhrif sem valda því að lesandi og áheyrendur vilja ólmir endurtaka leikinn og upplifa áhrif kvæðisins á ný. Völundarkviða er undra vel ort og má jafnvel segja að hún sé hrein Völundarsmíð.