mánudagur, október 18

Edith Piaf

H?fundurBrunabjallan fór í gang í hléi þegar ég var á leiksýningunni Edith Piaf í Þjóðleikhúsinu síðastliðið föstudagskvöld. Enginn lét sér bregða, og fólk virtist ekki trúa því að það hefði í raun og veru kviknað í húsinu. Eftir nokkrar mínútur var tilkynnt að eldur hefði komið upp í eldhúsi Þjóðleikhússkjallarans og í kjölfarið var fólki fylgt út á tröppur leikhússins. Skömmu síðar bættust leikarar sýningarinnar í hópinn. Leikhúsgestir þyrptust í kringum þá og Brynhildur Guðjónsdóttir, sem leikur Edith Piaf á ógleymanlegan hátt, tók nokkur lög við undirleik hljómsveitarinnar, þar sem valinn maður er í hverju rúmi. Þetta mæltist vel fyrir; fólk sem átti leið hjá stoppaði og fylgdist með og einnig kom fólk af nærliggjandi skemmtistöðum til að sjá hvað væri í gangi. Í nokkrar mínútur var stemningin töfrandi ljúf eins og í handriti eftir Richard Curtis.

Saga Edith Piaf er átakanleg og er svo sannarlega góður efniviður í leiksýningu. Höfundurinn, Sigurður Pálsson, gerir sögunni góð skil og leikstjórinn, Hilmar Jónsson, kemur henni vel til skila. Tónlistarstjóri sýningarinnar er Jóhann G. Jóhannsson og hljómsveitina skipa auk hans, Birgir Bragason, Hjörleifur Valsson, Tatu Kantomaa og síðast en ekki síst Jóel Pálsson. Þeir standa sig frábærlega, líkt og Brynhildur, sem mér finnst smám saman vera að breytast í Edith Piaf. Aðrir sem komu að sýningunni stóðu sig vel og ekki er yfir neinu að kvarta.

Edith Piaf er klárlega heitasta sýningin á fjölunum um þessar mundir. Hún er skemmtileg, skilur engan eftir ósnortinn og allir ættu að drífa sig að sjá hana.