Kvartett Kára Árnasonar á Borginni, 7. október
Sigurður Flosason: saxófónn
Ómar Guðjónsson: gítar
Agnar Már Magnússon: orgel
Kári Árnason: trommur
Jazzklúbburinn Múlinn er underground og engum háður – og veit af því. Heimasíða Múlans lítur út eins og byrjendaverkefni í Frontpage og lógóið er eins og léleg eftirherma af Planet Pulse-merkinu sáluga. Fáir vita yfirhöfuð að Jazzklúbburinn Múlinn sé til. Kynningu hans og markaðssetningu á viðburðum er ekki ætlað að keppa við aðra afþreyingu sem höfuðborgarbúum stendur til boða í öllum þeirra lífsins Smáralindum.
En djassinn ratar til sinna. Í gærkvöldi sveif andi John Coltrane-kvartettsins yfir vötnunum á Borginni og gladdi hjörtu þeirra sem á hlýddu. Það væru ýkjur að segja að fullt hafi verið út úr dyrum á tónleikunum, en fjöldinn hæfði salnum ágætlega. Á efnisskránni voru mestmegnis lög af plötunum Crescent og A Love Supreme. Þessar plötur voru báðar gerðar 1964. Þá stóð yfir mesta blómaskeið Coltranes sem listamanns. Hann var leitandi listamaður og ekki einhamur í sköpun sinni; þrátt fyrir mikla velgengni kvartettsins hélt hann sífellt áfram að breyta um stíl og áherslur, og tók gjarnan óvænt skref. Snemma fékk hann það orð á sig að vera aggressífur og erfiður viðfangs í hlustun, en það er þó nokkur einföldun því tónlist hans einkennist bæði af miklum ákafa og lýriskri mýkt. Undirstaðan í flutningi kvartettsins var ekki síst goðsagnakenndur trommuleikur Elvin Jones, en hann lést fyrr á þessu ári.
Það þarf ekki minni saxófónleikara en Sigurð Flosason til þess að fara í fötin hans Coltranes. Sigurður ræður vel við sveiflurnar og klifrið sem einkenndi flutning Coltranes, átökin voru allmikil enda ekki um neina lyftutónlist að ræða. Hann var trúr þeirri einlægni og tilfinningasemi sem er aðalsmerki Coltranes. Kári Árnason trommuleikari hefur sótt margt til Elvins, forvera síns, og lifði sig rækilega inn í það sem hann var að gera. Dýnamíkin var svo raunveruleg að hann var búinn að missa kjuðann sex sinnum þegar ég hætti að telja. Því miður er salurinn á Borginni ekki sérhannaður fyrir svo öflugan trommuleik þannig að tilburðir Kára áttu það til að yfirgnæfa það sem var að gerast hjá félögum hans. Agnar Már Magnússon spilaði á rafmagnsorgel og uppfærði verk McCoy Tyners þannig í anda Jimmy Smiths með skemmtilegum árangri. Innlifun hans var líka mikil og hann lét sig ekki muna um að taka sólóið með því að spila á orgelið með vinstri og á flygil með hægri. Ómar Guðjónsson var samt langflottastur, eins og oft áður. Það er alltaf stíll yfir Ómari og gítarleikur hans er hófstilltari en hjá mörgum kollega hans. Þannig eftirlætur hann hlustandanum alltaf rými til að vinna með það sem hann gerir og er aldrei yfirþyrmandi.
Næstu tónleikar Jazzklúbbsins Múlans verða haldnir fimmtudagskvöldið 21. október á Borginni. Það verða útgáfutónleikar B3 Tríós á öðrum diski þeirra félaga. Fyrir þá sem hafa áhuga á að læðast bakdyramegin inn í undraheim djassins væri það fín hugmynd að láta sjá sig á tónleikum hjá Múlanum.
Ómar Guðjónsson: gítar
Agnar Már Magnússon: orgel
Kári Árnason: trommur
Jazzklúbburinn Múlinn er underground og engum háður – og veit af því. Heimasíða Múlans lítur út eins og byrjendaverkefni í Frontpage og lógóið er eins og léleg eftirherma af Planet Pulse-merkinu sáluga. Fáir vita yfirhöfuð að Jazzklúbburinn Múlinn sé til. Kynningu hans og markaðssetningu á viðburðum er ekki ætlað að keppa við aðra afþreyingu sem höfuðborgarbúum stendur til boða í öllum þeirra lífsins Smáralindum.
En djassinn ratar til sinna. Í gærkvöldi sveif andi John Coltrane-kvartettsins yfir vötnunum á Borginni og gladdi hjörtu þeirra sem á hlýddu. Það væru ýkjur að segja að fullt hafi verið út úr dyrum á tónleikunum, en fjöldinn hæfði salnum ágætlega. Á efnisskránni voru mestmegnis lög af plötunum Crescent og A Love Supreme. Þessar plötur voru báðar gerðar 1964. Þá stóð yfir mesta blómaskeið Coltranes sem listamanns. Hann var leitandi listamaður og ekki einhamur í sköpun sinni; þrátt fyrir mikla velgengni kvartettsins hélt hann sífellt áfram að breyta um stíl og áherslur, og tók gjarnan óvænt skref. Snemma fékk hann það orð á sig að vera aggressífur og erfiður viðfangs í hlustun, en það er þó nokkur einföldun því tónlist hans einkennist bæði af miklum ákafa og lýriskri mýkt. Undirstaðan í flutningi kvartettsins var ekki síst goðsagnakenndur trommuleikur Elvin Jones, en hann lést fyrr á þessu ári.
Það þarf ekki minni saxófónleikara en Sigurð Flosason til þess að fara í fötin hans Coltranes. Sigurður ræður vel við sveiflurnar og klifrið sem einkenndi flutning Coltranes, átökin voru allmikil enda ekki um neina lyftutónlist að ræða. Hann var trúr þeirri einlægni og tilfinningasemi sem er aðalsmerki Coltranes. Kári Árnason trommuleikari hefur sótt margt til Elvins, forvera síns, og lifði sig rækilega inn í það sem hann var að gera. Dýnamíkin var svo raunveruleg að hann var búinn að missa kjuðann sex sinnum þegar ég hætti að telja. Því miður er salurinn á Borginni ekki sérhannaður fyrir svo öflugan trommuleik þannig að tilburðir Kára áttu það til að yfirgnæfa það sem var að gerast hjá félögum hans. Agnar Már Magnússon spilaði á rafmagnsorgel og uppfærði verk McCoy Tyners þannig í anda Jimmy Smiths með skemmtilegum árangri. Innlifun hans var líka mikil og hann lét sig ekki muna um að taka sólóið með því að spila á orgelið með vinstri og á flygil með hægri. Ómar Guðjónsson var samt langflottastur, eins og oft áður. Það er alltaf stíll yfir Ómari og gítarleikur hans er hófstilltari en hjá mörgum kollega hans. Þannig eftirlætur hann hlustandanum alltaf rými til að vinna með það sem hann gerir og er aldrei yfirþyrmandi.
Næstu tónleikar Jazzklúbbsins Múlans verða haldnir fimmtudagskvöldið 21. október á Borginni. Það verða útgáfutónleikar B3 Tríós á öðrum diski þeirra félaga. Fyrir þá sem hafa áhuga á að læðast bakdyramegin inn í undraheim djassins væri það fín hugmynd að láta sjá sig á tónleikum hjá Múlanum.
<< Til baka | Senda athugasemd til ritstjórnar