miðvikudagur, október 6

Af pólitískum ævisögum og æviágripum

H?fundurÉg er hvorki sagnfræðingur né bókmenntafræðingur og fell ekki í þann flokk sem sumir kalla bókmenntaelítu landsins. Ég er enginn sérstakur penni og mér er lítt umhugað um strauma og stefnur í bókum sem ég les. Ég geri fáar kröfur og hef einfaldan smekk – ég vil lesa skemmtilegar bækur… hvað mér finnst skemmtilegt er svo annað mál. Ég hef áhuga á stjórnmálum og hef gaman að því að lesa um bæði menn og málefni. Ævisögur og mannlýsingar stjórnmálamanna eru því eitthvað sem ég sæki í. Það er fróðlegt og skemmtilegt að skyggnast bakvið tjöldin og fá að lesa sögurnar á bakvið hina ýmsu stórviðburði í stjórnmálasögu landsins. Hvar brutust út átök? Hverjir stóðu með hverjum og gegn hverjum? Hvernig fóru ákvarðanatökur fram? Af þessu má margt læra.

Hins vegar munu ævisögur stjórnmálamanna þykja heldur þunnur þrettándi þegar kemur að sögulegu gildi, á þetta sérstaklega við um sjálfsævisögur þeirra. Í rannsóknum á sviði stjórnmálafræða er til dæmis leitast við að styðjast sem minnst við slíkar heimildir. Nokkrar ástæður má nefna þessu til útskýringar. Ef langt er liðið síðan atburður sá sem lýst er átti sér stað getur minni söguritara verið farið að bregðast og hann misst sjónar á því hvernig atburði bar að og í hvaða tímaröð hlutir gerðust. Við ritun eigin ævisögu munu stjórnmálamenn ekki standa utan við sögusviðið eins og hlutlaus sögumaður heldur lýsa þeir atburðum frá sínu sjónarhorni og sinni sannfæringu. Sú sannfæring mótast stundum af fjölmiðlaumfjöllun eða umræðum eftir að atburður á sér stað en brigðult minni manna getur leitt þá til að trúa því að þessi sannfæring hafi verið til staðar áður en atburðir áttu sér stað og hafi jafnvel orsakað þá. Þannig getur sannfæring stundum verið afturvirk. Þá geta stjórnmálamenn reynt að fegra sinn hlut í einstökum málum, eignað sér heiður að annarra manna verkum og þá jafnvel reynt að hafa áhrif á dóm sögunnar um þá sjálfa. Menn geta jafnframt reynt að hafa áhrif á dóm sögunnar um pólitíska samferðamenn með mannlýsingum, jákvæðum eða neikvæðum – hvort sem lýsingarnar eru sprottnar af vinfengi, óvild eða einhverju öðru.

Með alla þessa fyrirvara á sannleiksgildi ævisagna stjórnmálamanna verð ég að viðurkenna að ég hef samt gaman að þeim… yfirleitt. Ég hef semsagt gaman að því að lesa um það æviskeið stjórnmálamanna þar sem þeir sinna stjórnmálum. Í mörgun ævisögum er of miklu púðri eytt í uppvaxtarár viðkomandi. Auðvitað er nauðsynlegt að mótunarþættir viðkomandi stjórnmálamanns komi fram í ævisögu hans – en sumir kunna sér einfaldlega ekki hóf í frásagnargleðinni og raupa út í hið óendanlega um barnaskólaárin og berjamóaferðir. Aðrir hafa frá athyglisverðu fólki að segja sem þeir áttu samskipti við á æskuárum, t.d. eru bæði Jón Baldvin (enn er beðið eftir seinna bindinu) og Denni af miklum stjórnmálafrömuðum komnir og er athyglisvert að lesa lýsingar af samskiptum þeirra við feður þeirra.

Fyrir fólk eins og mig sem vill leggja áherslu á mótunarþátt stjórnmálamanns, þátttöku hans í stjórnmálum og árangur í því starfi er nýja Forsætisráðherrabókin hreinn hvalreki. Þar eru teknir fyrir þeir 24 einstaklingar sem gegnt hafa embætti ráðherra Íslands og Forsætisráðherra Íslands síðustu 100 ár og helstu þáttum gerð skil. Mótunarþættir, hugsjónir og stíll viðkomandi ráðherra og árangur í starfi eru áhersluatriði hvers kafla. Kaflarnir eru frekar stuttir og aðgengilegir en höfundar eru ekki öfundsverðir af því að hafa þurft að takmarka skrif sín við 20 blaðsíður. Hver kafli fjallar um hvern ráðherra og er þeim raðað í tímaröð, byrjað á Hannesi Hafstein og endað á Davíð Oddssyni. Höfundar kaflanna hafa mismunandi bakgrunn en eiga það þó sameiginlegt að hafa mikla þekkingu á viðfangsefninu. Í sumum tilvikum er um samferðamenn að ræða, í öðrum tilvikum hefur verið lagst í þónokkra heimildavinnu. Eins og vera ber þegar um 24 höfunda er að ræða er stíll þeirra frekar ólíkur. Það er þó alls ekki ljóður á þessari bók heldur lífgar upp á bókina og bætir við fjölbreytni í efnistökum. Í sumum köflum er farið nokkuð náið út í sögu og þróun íslenska flokkakerfisins til viðbótar sögu forsætisráðherranna og því má með sanni segja að þessi bók þjóni sem afbragðs yfirlit yfir stjórnmálasögu Íslands. Eins og áður sagði er þetta afar aðgengileg bók og lesendur með áhuga á stjórnmálasögu 20. aldar eru hvattir til að kynna sér hana.

Deilur hafa staðið um bókina síðan áður en hún var gefin út. Einhverjir sagnfræðingar hafa talið að bókin hefði orðið betri hefðu sagnfræðingar skrifað hana alla (meðal kaflahöfunda eru a.m.k. 6 sagnfræðingar). Bókin er sögð ekki standast kröfur því ,,hún er ekki fræðileg, ekki dagblað, ekki tímarit, ekki skáldsaga [. . .] Allt sem var í bókinni hefði fræðilega þjálfaður aðili, ekki síst sagnfræðingur, getað gert. Og sagnfræðingur hefði gert meira en það. ERGO: Bókin hefði orðið betri” (Lára Magnúsdóttir, www.kistan.is, 22.9.2004).

Þessi gagnrýni er móðgandi við kaflahöfundana sem margir hverjir hafa sinnt fræðilegum störfum í áratugi, má þar t.d. benda á fjóra prófessora við Félagsvísindadeild HÍ, dósent við HR, rithöfunda og blaðamenn. Einnig missir gagnrýnin marks þegar haft er í huga hver tilgangur með slíkri bók er: Að setja saman vandað rit með stuttum, aðgengilegum köflum um ráðherrana vegna þess að slík bók yrði áhugaverð og skemmtileg. Í verklýsingu segir að höfundur skuli leitast við að skrifa aðgengilegan texta fremur en fræðilega ritgerð og að fjallað skuli um menn og málefni af hlutlægni, heiðarleika og víðsýni (Ólafur Teitur Guðnason, www.kistan.is, 22.9.2004). Í mínum huga hefur þetta markmið náðst þó mér finnist að kaflarnir hefðu mátt vera lengri. Það er þó ekki við höfundana að sakast enda var þeim úthlutað takmörkuðu plássi. Mismunandi stíll manna eykur fjölbreytni og bætir þannig á líflegt efnið, eins og áður sagði. Það má benda þeim sagnfræðingum sem gagnrýnt hafa bókina á það að þessi bók vekur áhuga á að lesa meira um ævi margra þessara manna sem við sögu koma en ekki eru til ritaðar ævisögur þeirra allra. Í stað þess að rífa þessa bók niður og skammast yfir því að hafa ekki fengið vinnu við ritun hennar mættu viðkomandi sagnfræðingar beina orku sinni í ritun þessara ævisagna.