föstudagur, október 1

Lovestar eftir Andra Snæ Magnason

HöfundurLovestar
Árið 2002 kom út önnur skáldsaga Andra Snæs Magnasonar sem bar heitið Lovestar. Andri hefur áður sent frá sér tvær ljóðabækur, smásagnasafn og skáldsöguna Blái Hnötturinn árið 1998 sem braut blað í íslenskum bókmenntum með því að vera fyrsta barnabókin sem hlaut íslensku bókmenntaverðlaunin. Það mætti því að sanni segja að Andri sé búin að koma sér vel fyrir í íslensku bókmenntaflórunni sem eitt athyglisverðasta skáld nútímans.

Í viðtali einu lét Andri Snær hafa eftir sér að með Lovestar væri hann að semja síðustu íslensku skáldsöguna. Þessi yfirlýsing Andra er úthugsuð írónísk ádeila þar sem hann notar vísun í gamalt verk í skemmtilegri tilraun til að ramma inn íslenskan skáldskap. Vísuninn er í Pilt og stúlku eftir Jón Thoroddsen þar sem aðalpersónurnar heita Indriði og Sigríður líkt og í Lovestar. En oft er Piltur og stúlka sögð vera fyrsta íslenska skáldsagan.

Hvernig skáldsaga er Lovestar? Ef ég væri beðinn um að lýsa sögunni í sem fæstum orðum myndi ég segja hana vera rómantíska, vísinda-raunsæisfantasíu með hrottafengri ádeilu sem minnir á ævintýri á skemmtilega kómískan hátt. Lítið um svör þar. Það undarlega er að þrátt fyrir allar þessar þversagnir og þessari undarlegu blöndu sem komið er fyrir í einni sögu, hefur Andra Snæ tekist að gera nokkuð skemmtilegt, athyglisvert, og vel – ef ekki snilldarlega- skrifað verk.

Eftir lestur bókarinnar kom mér mest á óvart hvernig slík vitleysa gat skilið eftir sig svo margar spurningar um lífið og tilveruna í hausnum á mér. Þar kemur til sú sérstaka sýn sem Andri Snær hefur á tækniþróun nútímans, sem hann dregur fram í þessa súrrealísku veröld morgundagsins með frábæru innsæi og meðvitaðri þekkingu.

Ímyndunarafl höfundar nýtur sín til hins ítrasta með ýkjukenndum sögum og írónískum lýsingum. Til dæmis er skemmtileg hugleiðing um þróunina sem bæði virkar aftur á bak í tíma með tófum á stærð við ísbirni þegar víkingarnir numu land. En svo eru vísindamenn að ljúka við erfðaræktaðar mýs sem eiga að líkjast frumherja teiknimyndanna Mikka. Erfitt er að greina hvort þarna sé á ferð virkileg ádeila á nútímann eða ábending um að allt sé í lagi með samanburði erfðartækninnar við eðlilega þróun. Líklegast er um hvorugt að ræða og eina takmark rithöfundarins er að vekja lesendur sína til umhugsunnar. Að lokum er það samt þessi takmarkalausa vísindaþrá mannsins sem býður lægri hlut fyrir ástinni -því allt endar að lokum- og eftir standa þau Indriði og Sigríður sem sigurvegarar í nýjum og betri heim.

Bókin er skemmtileg lesning og vekur hlátur hjá lesanda með frábærum en jafnframt fáránlegum líkindum sínum við veröld nútímans. Hún er vel skrifuð og heldur lesenda sínum ágætlega við efnið. Skilaboðin á milli línanna eru skýr og vekja mann til umhugsunnar um hin ýmsu mál dagsins í dag og sjálf sagan full af skemmtiefni í sögur til að segja yfir kaffibolla eða á góðri stund.