fimmtudagur, september 30

„Það sem skiptir mestu máli í mínu starfi er að hafa sjálfstraust“

H?fundurSíðasta vetur tók ég viðtal við Guðjón Friðriksson, sem birtist í styttri útgáfu í Stúdentablaðinu. Viðtalið er mér mjög minnisstætt og birtist hér í fullri lengd

Guðjón Friðriksson, sagnfræðingur og rithöfundur, fæddist í Reykjavík árið 1945 og er kominn af alþýðufólki. Móðir Guðjóns var húsmóðir frá Eyrarbakka, en faðir hans rak rammaverkstæði og fékkst einnig við listmálun. Frá honum fékk Guðjón listræna taug. Foreldrar hans létust með stuttu millibili þegar hann var 19 ára menntskælingur.

Kennslan í Háskólanum afar ófrjó og gamaldags

Guðjón var óráðinn hvað hann ætlaði að leggja fyrir sig eftir stúdentspróf. „Ég var að hugsa um sálfræði, en hefði þurft að fara til útlanda til að læra hana. Það var snúið fyrir fátækan námsmann að fara út í nám á þessum árum ef maður hafði engan bakhjarl. Og ekki var þá sama námsúrval í Háskóla Íslands og nú er. Ég notaði útilokunaraðferðina og líklega hefur það ráðið nokkru að ég hafði dulda náttúru til að skrifa auk þess sem ég fékk ungur áhuga á sögulegum efnum með lestri bóka. Ég valdi sagnfræði og íslensku.

Guðjón er ekki ánægður með kennsluna sem hann fékk. „Ég var alls ekki ánægður með Háskólann. Mér fannst kennslan í sagnfræði vera afar ófrjó og gamaldags. Lítil aðferðarfræði var kennd og umræður um grundvallaratriði voru litlar, en kennararnir lásu aðallega upp staðreyndahrafl eftir sig sjálfa – síðan reyndu nemendur að pára eins og brjálæðingar í stílabækur til að ná einhverju af þessu. Mér fannst þetta hreinlega leiðinlegt og það var ein af ástæðum þess að ég stundaði ekki frekara háskólanám. Aðstæður mínar voru einnig þannig að framhaldsnám var erfiðleikum bundið þó að ég hefði auðvitað geta klofið það ef viljinn hefði verið einbeittur og áhuginn meiri. Námslán voru næstum engin og ég var orðinn fjölskyldumaður með barn. Ég byrjaði því að vinna fyrir mér og minni fjölskyldu í stað þess að halda áfram.“ Guðjón bætir því þó við að auðvitað hefði hann átt að reyna að brjótast til náms erlendis. „Mér hefur löngum fundist það ljóður á mínu ráði hvað ég hef lítið dvalist erlendis um ævina, því að maður öðlast víðsýni með dvöl í öðrum löndum. En ég hef bætt það upp á síðustu árum með því að dveljast erlendis í sambandi við rannsóknir mínar – og þannig bætt úr heimsku minni, í gömlum skilningi þess orðs.

Aðspurður segist Guðjón ekki hafa kreddukennda afstöðu til skólagjalda. „Aðalatriðið er að Háskólinn lokist ekki fyrir neinum vegna fjárskorts. Allir verða að eiga kost á námi sem hafa getu og vilja til að nema. Það er hins vegar ekkert trúaratriði hjá mér að skólagjöld séu ekki innheimt. Að mínu mati er hægt að tryggja jafnrétti til náms þó að þau séu innheimt, til dæmis með lánum og styrkjum.

Ævintýri á Vestfjörðum


Guðjón Friðriksson byrjaði að kenna að krafti eftir að hafa lokið háskólanámi og það virtist ætla að liggja fyrir honum að vera kennari. Guðjón lauk prófi í kennslu- og uppeldisfræðum og kenndi í gagnfræðaskóla í Reykjavík í tvö ár, en fluttist síðan til Ísafjarðar og kenndi við hinn nýstofnaða menntaskóla bæjarins. Hans er getið í bókinni Tilhugalíf þegar Jón Baldvin Hannibalsson segir frá árunum sem skólameistari Menntaskólans á Ísafirði. „Ég kenndi í þrjú ár við skólann og það var ómetanleg lífsreynsla að dveljast á landsbyggðinni og kynnast lífsbaráttunni þar. Það var lærdómsríkt að taka þátt í því að búa til nýjan skóla og kennaralífið var skemmtilegt. Jón Baldvin var góður skólameistari og mér fannst hann vinna sitt starf með miklum stæl.“ Eins og tíðkast oft í litlum byggðalögum tók Guðjón virkan þátt í menningarlífi staðarins og lék í nokkrum skólaleikritum, meðal annars ásamt Bryndísi Schram, konu Jóns. „Mér féll ákaflega vel við þau hjónin.“

Þetta var ekki í fyrsta skiptið sem Guðjón dvaldi á Vestfjörðum því að hann hafði verið í símavinnuflokki á sumrin í menntaskóla, þar sem hann gekk um alla firði. „Það var ævintýralegt. Vestfirðir eru sá landshluti sem ég þekki best, þó að ég sé ekki ættaður þaðan.“ BA-ritgerð Guðjóns fjallaði einmitt um upphaf þorps á Patreksfirði, þar sem systir hans bjó þá og hann gat haft aðstöðu til að dvelja hjá.

Árin á Þjóðviljanum

Eftir þrjú ár sem menntaskólakennari tók Guðjón þá ákvörðun að hasla sér völl í blaðamennsku og varð blaðamaður á Þjóðviljanum árið 1976 og gegndi því starfi til ársins 1985. „Fyrst var ég almennur blaðamaður en sá síðan um sunnudagsblað Þjóðviljans. Ég skrifaði lítið um pólitík, en tók meðal annars mannlífsviðtöl og skrifaði pistla um bæjarrölt í Reykjavík svo að nokkuð sé nefnt. Minningarnar frá Þjóðviljaárunum eru góðar; ég naut þess að starfa við blaðið.“ Á þessum árum var Guðjón róttækur vinstrimaður, en aldrei þó aðdáandi Sovétríkjanna. „Blaðið var auðvitað flokksmálgagn, en rétttrúnaðurinn var að mestu liðinn undir lok á þessum tíma og allir löngu hættir að gæla við hugmyndir um Sovét-Ísland.“ Hans fyrstu bækur komu út þegar hann starfaði á Þjóðviljanum, til dæmis bók um Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta.

Þeir sem vinna á fjölmiðli taka tillit til eigenda miðilsins

Auk reynslu sinnar af fjölmiðlum skrifaði Guðjón Friðriksson bók um sögu fjölmiðlunar fyrir nokkrum árum þannig að maður kemur ekki að tómum kofanum hjá honum um það efni. „Þeir sem vinna á fjölmiðlum vita hverjir eigendurnir eru og taka tillit til þeirra ef mál koma upp sem varða þá. Það er mikilvægt að lesendur viti hverjir eigendurnir eru svo að þeir geti haft hliðsjón af því þegar þeir lesa, horfa eða hlusta á miðilinn. Mér finnst Fréttablaðið til dæmis vera að mörgu leyti ágætt blað og það rækir almennt skyldur sínar, en ef það koma upp mál sem varða eigendur blaðsins eru líkur á því að blaðamenn þess fjalli ekki um það á ærlegan hátt. Það hefur alla tíð gilt alla fjölmiðla, hvort sem þeir eru í eigu stjórnmálaflokka, fyrirtækja eða einstaklinga, og ef lesendur hafa það í huga og eðlileg samkeppni ríkir þarf ekki að vera mikil hætta á ferðum. Ég er samt sannfærður um að langflestir blaðamenn á öllum íslenskum fjölmiðlum reyna að rækja skyldu sína sem góðir blaðamenn eins og þeim er framast unnt.“

Morgunblaðið orðið flokkspólitískt aftur

Eins og mátti vænta hefur Guðjón ákveðnar skoðanir á Morgunblaðinu. „Morgunblaðið á hrós skilið fyrir lesbókina og aðra umfjöllun um menningu og listir, en að öðru leyti finnst mér það ekki vera sérlega gott blað. Það vantar í það einhverja lífsgleði og fjör. Blaðið er íhaldsamt og þjónar lesendum sínum á fremur gamaldags hátt.“

Guðjón segir það hafa verið mjög jákvætt þegar flokksblöðin og mjög flokksholl blöð lögðust af, en hefur áhyggjur af flokkshollum uppvakningi í Efstaleitinu. „Mér virðist sem Morgunblaðið hafi aftur fest í nokkuð flokkspólitísku hjólfari, sem það hafði þó rifið sig út úr. Mér finnst það skrýtið því að vegna samkeppninar við Fréttablaðið hélt ég að Mogginn færi einmitt í hina áttina og reyndi að höfða til sem flestra lesenda með því að vera ekki um of flokkspólitískt.

Fyrirhuguð lög um eignarhald á fjölmiðlum eiga sér annarlegan aðdraganda

Guðjón Friðriksson hefur efasemdir um hvort fyrirhuguð lög um eignarhald á fjölmiðlum eigi rétt á sér. „Ég sé engin hættumerki í sambandi við eignarhald á fjölmiðlum umfram það sem hefur verið áður hér á landi. Það er ekki ný staða að stór auglýsandi eigi blöðin. Eigendur Morgunblaðsins voru og eru enn að hluta stór fyrirtæki. Þrír stórir aðilar eru á fjölmiðlamarkaðnum um þessar mundir. Ríkisútvarpið, Morgunblaðið og þessi nýja samsteypa. Íslenskur fjölmiðlamarkaður hefur í raun aldrei borið fleiri aðila. Þegar það voru gefin út allt að sex dagblöð voru þau öll rekin með tapi, nema ef til vill eitt og í mesta lagi tvö. Flokkarnir héldu þessu uppi.

Guðjón heldur því fram að Sjálfstæðisflokkurinn hafi unnið að því að leggja undir sig fjölmiðla landsins á undanförnum árum. „Sjálfstæðismenn sögðu að fréttastofurnar væru svo vinstrisinnaðar að þeir unnu markvisst að því að koma inn á þær hægrisinnuðu fólki, Ríkisútvarpið er gott dæmi. Um þessar mundir finnst þeim völdum sínum ógnað vegna nýju fjölmiðlasamsteypunar og þeirrar staðreyndar að Morgunblaðið fer halloka í samkeppninni við Fréttablaðið. Fyrirhuguð lagasetning um eignarhald á fjölmiðlum hljómar ekki sannfærandi og virðist af pólitískum rótum runnin.“

Teningunum kastað

Duttlungar örlaganna réðu því að skrif Guðjóns um Reykjavík í Þjóðviljanum átti eftir að vera stökkpallur í starf sjálfstætt starfandi fræðimanns og rithöfundar. Árið 1985 var nefnilega ákveðið að skrifa sögu Reykjavíkur í tilefni af 200 ára afmæli borgarinnar. „Mitt nafn var nefnt og svo fór að ég var valinn til verksins ásamt tveimur öðrum. Það var reyndar Davíð Oddsson þáverandi borgarstjóri sem réði mig til þess verks. Hlutirnir hafa svo æxlast þannig að ég hef ekki gert annað en að skrifa bækur síðan.“ Eftir að hafa lokið því verki ákvað Guðjón að ganga til útgefanda með þá hugmynd að skrifa um Jónas Jónson frá Hriflu. „Minn hluti í bókinni um sögu Reykjavíkur var um tímabilið 1870-1940. Þegar ég vann að bókinni skoðaði ég auðvitað blöðin sem gefin voru út á þessu tímabili og Hriflu-Jónas vakti athygli mína. Hann var mjög fyrirferðarmikill í þeim öllum; hafinn upp til skýjanna í sumum, en húðskammaður í öðrum. Mér datt í hug að það væri gaman að kanna hvers konar maður Jónas raunverulega hefði verið. Mig langaði að skrifa bók þar sem ég reyndi að brjóta manninn fordómalaust til mergjar og segja óhikað frá kostum hans og löstum. Ég vildi skrifa ævisögu í anda enskrar og bandarískrar ævisagnaritunar, þar sem ekkert væri dregið undan. Þannig ævisögur voru þá varla til á Íslandi. Flestar ævisögur voru skrifaðar að tilhlutan ættingja eða flokka og félaga, sem viðkomandi hafði verið í. Þær voru skrifaðar til lofs og dýrðar mönnum.“ Útgefandinn greip þessa hugmynd á lofti og teningunum var kastað.

Guðjón Friðriksson hefur helgað sig ritstörfum síðan og haft sjálfur frumkvæði að viðfangsefnum sínum. Í kjölfar ævisögu Jónasar fylgdu magnaðar ævisögur Einars Benediktssonar og Jóns Sigurðssonar, sem brennimerktu nafn Guðjóns í íslenska menningarsögu.

Líkist leynilögreglustarfi

Guðjón elskar greinilega starfið sitt og hefur frá mörgu skemmtilegu að segja í sambandi við vinnu sína. „Starf ævisagnaritara líkist oft leynilögreglustarfi. Þegar ég vann að ævisögu Einars Benediktssonar fór ég á slóðir hans í Lundúnum. Mikil hula er yfir árum hans erlendis og til eru þjóðsagnarkenndar sögur af störfum hans á erlendri grundu. Það var eins og að leita að saumnál í heystakk að leita að upplýsingum um Einar í þessari heimsborg eða það hélt ég.“ Guðjóni varð lítið ágengt fyrstu vikurnar en fyrr en varði opnuðust glufur og allt í einu var hann kominn á mjög spennandi slóðir og fékk aðgang að miklum upplýsingum um Einar. „Ég hafði aðeins nokkur nöfn á fólki og nöfn á fyrirtækjum sem hann hafði stofnað. Rawson var eitt nafnið og það er ekki algengt nafn. Ég athugaði hve margir voru undir því nafni í símaskránni í London og 43 manneskjur reyndust bera það eftirnafn. Ég sendi bréf á þær allar og síðan streymdu til mín bréf til baka, en með litlum vísbendinum. Síðan fékk ég eitt bréf frá konu sem taldi þann Rawson sem ég leitaði að vera afa sinn. Ég fór í heimsókn til hennar og hún fann fyrir mig uppá háalofti hjá sér gögn um samskipti Einars og afa hennar. Síðan leiddi eitt af öðru.

Guðjón Friðriksson segir að Einar Benediktsson hafi verið stórbrotinn og ævintýralegur maður og kvæði hans séu magnþrungin, djúp og falleg. „Uppáhalds kvæði mitt eftir Einar er lítil perla sem heitir Landið helga“, segir Guðjón hlýlega um leið og hann stendur upp og teygir sig í ljóðabókina Hvamma, flettir á rétta síðu og sýnir mér:

Þótt allir knerir berist fram á bárum
Til brots við eina og sömu klettaströnd,
ein minning fylgir mér frá yngstu árum
– þar er sem bliki á höfn, við friðuð lönd.
Ég man. Ein bæn var lesin lágt í tárum
við ljós, sem blakti gegnum vetrarhúmið.
Og svo var strokið lokki af léttri hönd,
Sem litla kertið slökkti og signdi í rúmið.

Gagnrýnendur og lesendur voru á einu máli um að Guðjóni hafi tekist mjög vel að gefa raunsæa mynd af skáldinu, en ættingjar þess voru ekki allir sáttir. „Einar Benediktsson, sendiherra, hefur verið að skjóta á mig í greinum og viðtölum, en hann hefur aldrei talað við mig persónulega um ævisöguna. Ég held að hann sé ósáttur vegna þess sem sagt er um drykkjuskap Benedikts, föður Einars. Honum finnst að það eigi aðeins að fjalla um skáldskap Einars Benediktssonar, en ekki um annað í hans lífi. Að mínu mati eru stjórnmálamenn og listamenn opinberar persónur og geta ekki gert kröfur um að einkalíf þeirra verði látið í friði þegar fram líða stundir. En auðvitað er ýmislegt í einkalífi fólks sem getur verið viðkvæmt og ber auðvitað að hafa fulla gát svo að maður særi ekki að óþörfu tilfinningar fólks. Við þetta bætist að samfélag okkar er lítið, návígi mikið og því oft erfiðara um vik en í stóru löndunum að skrifa opinskátt um nafnkenndar persónur.

Jón Sigurðsson brenndi bréf um persónuleg málefni

Guðjón segist ekkert hafa á móti því að spjalla um einkamál Jóns Sigurðssonar. „En Jón talar reyndar afar sjaldan um einkamál í bréfum sínum. Það er eins og hann hafi af ásettu ráði reynt að hylja slóð sína. Hann er satt að segja mjög dulur og ýmislegt dularfullt í kringum hann. Bréf hans, sem varðveist hafa, eru yfirleitt ekki innhverf heldur fjalla frekar um um praktísk málefni. Ég hefði viljað komast nær manninum; skynja þá persónutöfra sem hann bjó yfir, en koma ekki nægilega vel fram í þeim skrifum hans, sem hafa varðveist. Til dæmis er synd að öll bréf milli Jóns og konu hans hafi farið í eldinn.

Bókmenntaverðlaunin komu mér á óvart

Guðjón Friðriksson hefur fengið Íslensku bókmenntaverðlaunin þrisvar fyrir bækurnar Saga Reyjavíkur (Bærinn vaknar), Einar Benediktsson (Ævisögu I) og Jón Sigurðsson (Ævisögu II). „Þessi verðlaun og aðrar viðurkenningar sem ég hef fengið hafa hjálpað mér á margvíslegan hátt, til dæmis aukið sjálfstraustið. Guðjón er mjög þakklátur og segir það nauðsynlegt fyrir alla að fá einhverja uppörvun og viðurkenningu. „Ég hélt reyndar að þetta samfélag væri þannig að maður fengi ekki svona verðlaun þrisvar. Þau komu mér á óvart, sérstaklega þau þriðju. Ef ég fæ verðlaunin oftar held ég að það verði dálítið vandræðalegt“, segir hann og brosir.

Ekki samboðin virðingu embættanna

Um þessar mundir er Guðjón Friðriksson að skrifa ævisögu Hannesar Hafsteins, skálds og fyrsta ráðherra Íslands. Fyrsta febrúar var haldið upp á 100 ára afmæli íslenskrar heimastjórnar og tók Guðjón opinberan þátt í umræðum um afmælið. Að matri sumra er gert of mikið úr þætti Hannesar Hafsteins. „Það má deila um það. Hann var mikilhæfur maður og rétt að halda minningu hans rækilega á lofti. Auðvitað er eðlilegt að mesta athyglin beinist að honum – hann er glæsilegur fulltrúi þessa tímabils og var valinn til að gegna fyrsta ráðherraembættinu. Á hinn bóginn má ekki einblína á hann. Fleiri menn komu við sögu, sem áttu síst minni þátt í að heimastjónin varð að veruleika.“

Mikið hefur verið rætt um stirð samskipti Davíðs Oddssonar og Ólafs Ragnars Grímssonar vegna afmælisins. „Þessi uppákoma þar sem forsætisráðherra og forseti Íslands fóru að atyrðast er að mínu mati fremur óþægileg fyrir þjóðina og ekki samboðin virðingu þessara æðstu embætta.”

Fræði og skáldskapur

Mikið hefur verið rætt um samspil fræða og skáldskapar, t.d. í tilefni af gagnrýni Helgu Kress, bókmenntafræðings, á sviðsetningu Hannesar H. Gissurarsonar á göngferð Halldórs Laxness og unnustu hans á Esjuna í bókinni Halldór. Guðjón Friðriksson er þekktur fyrir sviðsetningar. „Sjálfur vil ég að bækur mínar séu lesnar. Ég er að skrifa fyrir almenning og hef aldrei litið á mig sem fræðimann sem skrifaði aðeins þurrar fræðiritgerðir fyrir aðra fræðimenn. Ég færi í stílinn og nota sviðsetningar. Gísli Gunnarsson, sagnfræðingur, notaði orðið spuni um daginn, en ég nota ekki það orð.“

Guðjón setur á svið ýmis hversdagsleg atriði, en fylgir sögunni um allt sem máli skiptir. „Ef ég veit um einhverja ferð sem var farin, þá á ég það til að setja hana á svið til að gefa frásögninni líf og nota þá mína eigin skáldskapargáfu við það. Ég finn að þessi aðferð virkar vel á lesendur og festir þá frekar við efnið og það er af hinu góða að mínu mati. Í raun má segja að hver sá sem skrifi sé að skapa. Það er til dæmis ekki hægt að komast hjá því að velja orð og þau geta verið svo gildishlaðin og haft mismunandi blæ. Í hvert sinn sem orð er valið er verið að skapa. Flestir fræðimenn draga einhverjar ályktanir og þær geta verið alveg jafn rangar og sviðsetningar. Ég er ekki að afvegaleiða lesendur frekar en þeir sem draga ályktanir. Það er hlutverk ævisagnaritara að gefa fólki góða mynd af þeim sem ævisagan er um, en það er þó aldrei hægt að endurskapa líf fólks nákvæmlega. Ævisaga sem er þurr staðreyndaupptalning er í raun uppgjöf. Slík saga gefur litla og oft einnig ranga mynd af fólki. Góðar skáldsögur geta jafnvel lýst horfnum tíma betur en margar fræðibækur,“ segir Guðjón með sannfæringartóni en bætir við að sjálfur skrifi hann ekki skáldsögur þó að hann noti hugarflugið stundum.

Guðjón Friðriksson lét þau ummæli falla í tengslum við bók Hannesar um Halldór að skörp skil væru á milli fræðibóka og skáldsagna. „Hugsun mín var misskilin. Ég átti við það að annaðhvort notar maður heimildir og vísar í þær eins og fræðimaður eða maður gerir það ekki.“ Guðjóni kom ekki á óvart þær hatrömu deilur sem gripu um sig vegna bókar Hannesar. „Bók hans er þannig að hún hlaut að vekja upp þessi viðbrögð og auk þess geldur Hannes þess og nýtur raunar um leið að hann er afar umdeildur maður í samfélaginu. Þegar aðdragandinn að bókinni er skoðaður gat hann sagt sér það sjálfur að verk hans færi undir smásjá. Hann fór að vissu leyti offari og bauð upp á harkaleg viðbrögð. Að öðru vil ég ekki tjá mig um bók hans. Ég veitti Hannesi ýmsar upplýsingar við gerð hennar og mér fannst ómaklegt af honum að draga mig inn í þetta mál í málsvörn sinni, hann gat varið bók sína á eigin forsendum en ekki annarra.“

Bitrir og beiskir sigurvegarar

Guðjón Friðriksson er félagi í Reykjavíkurakademíunni og líkar vel þann félagsskap. „Það er frjótt að vera þarna, mikið af áhugaverðu fólki sem gaman er að spjalla við. Áður starfaði ég heima hjá mér og það getur verið einmanalegt til lengdar.

Guðjón segir aðspurður að vafalaust séu menningarklíkur til staðar hér á landi, en að hann hafi aldrei verið í neinni klíku og að þær snerti sig lítið. „Á sínum tíma var talað um klíku Máls og menningar, en ég tilheyrði henni ekki. Einnig hef ég eiginlega alltaf sem sjálfstætt starfandi fræðimaður verið utangarðsmaður í háskólasamfélaginu.“ Honum finnst skrýtið að meiri biturleiki og beiskja eftir kalda stríðið virðist sitja eftir hjá ákveðnum hópi hægrimanna, þrátt fyrir að þeir séu í rauninni sigurvegarar þess. „Það er eins og þeir geti aldrei vaxið upp úr þessu“, segir Guðjón. Hann jánkar því að vinstrisinnaðir rithöfundar hafi líklega verið mun fjölmennari og öflugri á dögum kalda stríðsins en hinir og það kunni vel að vera að sumir hægrisinnaðir rithöfundar hafi orðið fyrir einelti af þeirra hálfu. „En eineltið var örugglega á báða bóga. Ég veit um vinstrisinnaða rithöfunda sem voru lagðir í slíkt einelti á sínum tíma að þeir nánast misstu kjarkinn og hættu að skrifa. Þeir fengu það óþvegið í pressu valdhafana og umtali fólks. Enginn vafi er á því að hin hatramma orðræða kalda stríðsins hefur farið illa með marga.“ En Guðjón segist ekki vera í neinum skotgröfum. „Ég tel mig umburðarlyndan mann sem getur átt gott skap við alla menn, þó að þeir séu ekki sammála mér í pólitík. Og ég reyni eftir fremsta megni að halda pólitískum skoðunum mínum utan við bækur mínar. Ég blanda ekki saman persónulegum skoðunum mínum í pólitík og fræðimennsku minni.”

Íslenskt málsvæði sorglega lítið

Guðjón Friðriksson hefur verið á launum hjá launasjóð rithöfunda og þakkar þeim að hann hefur getað helgað sig ritstörfum. „Íslenskt málsvæði er svo sorglega lítið. Sagnfræðingar í nágrannalöndunum verða milljónamæringar ef þeim tekst vel upp og bækurnar seljast vel. Það er hins vegar á mörkum að nokkur rithöfundar hér á landi geti lifað af ritstörfum þó að bækur hans seljist vel. Ég hef verið heppinn hvað bækurnar mínar varðar en samt væri ég líklega fyrir löngu farinn í annað starf ef ég hefði ekki fengið þessi laun frá launasjóði rithöfunda. Hann gerir herslumuninn. Það væru fáar almennilegar bækur skrifaðar hér á landi ef launasjóðurinn væri ekki fyrir hendi.

Vitrir Björgólfsfeðgar og heimskir kvótakóngar

Að mati Guðjóns ættu íslenskir fjármagnseigendur að leggja meira fjármagn í íslenska menningu og þá ekki aðeins til að styrkja lista- og vísindamenn heldur ekki síst sjálfa sig. Hann vitnar í sjónvarpsþætti um Medici ættina í Flórens, sem var að uppruna til ósköp venjuleg bankamannaætt en styrkti listir og vísindi svo rausnarlega að hún hefur orðið ódauðleg fyrir. Á hennar snærum voru menn eins og Leonardo Da Vinci, Michalangelo og Galileo og rekja má upphaf endureisnartímabilsins til hennar. „Ættin gerði sér grein fyrir að stuðningur við listir og vísindi var mikilvægur fyrir ímynd hennar og gerði hana að vissu leyti ósnertanlega. Sannleikurinn er nefnilega sá að auðmenn sem skila hluta af peningunum til samfélagsins með þessum hætti bæta ekki aðeins ímynd sína heldur skapa sér ákveðinn tilvistargrundvöll um leið. Þessi hugsun er mjög sterk hjá bandarískum auðmönnum, sem segja að þeir eigi auð sinn að þakka almenningi og þess vegna beri þeim að skila hluta hans til baka út í samfélagið. Þeir styrkja til að mynda háskóla, listasöfn og óperur.

Guðjón Friðriksson segir að ýmsir íslenskir auðmenn séu farnir að skilja þetta og að nokkur íslensk fyrirtæki séu með myndarlega menningarsjóði. „Fyrir skömmu var einmitt haldið uppá afmæli Ragnars Jónssonar í Smára, sem var frumherji í þessu á Íslandi. Hefði hann aðeins verið í smjörlíkisframleiðslu alla sína tíð væri hann gjörsamlega gleymdur. En núna á 100 ára afmæli hans eru sýningar í Þjóðleikhúsinu, listasöfnum, umfjöllun í blöðum og hátíðir til að heiðra þennan mann. Hann er ódauðlegur hér á Íslandi. Þetta samspil vildi ég sjá í auknum mæli hér á landi.“ Guðjóni finnst Björgólfur Guðmundsson og sonur hans Björgólfi Thor vera til fyrirmyndar. „Þeir eru farnir að styrkja listir svo um munar. Ég held að þeir viti alveg hvað þeir eru að gera; ekki aðeins að gefa peninga í burtu heldur að styrkja sjálfa sig í leiðinni.“ Hins vegar telur Guðjón það ljóð á kvótakóngunum að þeir hafi ekki sama þroska í þessum efnum. „Þeir hafa fengið yfirráð yfir sameiginlegri auðlind þjóðarinnar en skilja samt ekki að til þess að skapa sér velvilja og traust verða þeir að skila hluta af ágóða sínum aftur. Í stað þess fara þeir í versta falli með hann allan úr landi og leggja hann inn á svissneskar bankabækur.“

Arfleifð Sigurðar Nordals

Viðhorf Guðjóns Friðrikssonar til sagnfræðinnar líkist mjög viðhorfi Sigurðar Nordals til fræða og lista. Það viðhorf sitt færir Sigurður eftirminnilega á prent í formála Íslenskrar menningar:

„Einnar lítillar bókar, sem kom út í Höfn og ég marglas á þessum árum, er hér skylt að geta: Historieskrivning eftir Kristian Erslev. Enginn gat frýð Erslev vísindalegrar nákvæmni né strangrar dómgreindrar á sögulegar heimildir, því að í þeim efnum hafði hann rutt braut í Danmörku. En í þessu riti gerði hann bæði grein fyrir öllum þeim tormerkjum, sem á því eru að gera sagnfræðina að vísindum, og skýrði muninn á ýmsum tegundum hennar og áföngum. Hann játaði af mikilli hreinskilni og víðsýni að sig hryllti við, þegar kröfum söguvísindanna til að segja „ekkert nema sannleikann“ væri haldið til fullrar streitu, skráþurrar handbækur og rannsóknir taldar fyrirmyndir í sagnaritum, en stórvirkjum eins og Rómverjasögu Mommsens útskúfuð. Með röngu úrvali einu saman, hvort sem það væri gert af þröngsýni eða hlutdrægni, mætti gefa rammskakka hugmynd um söguleg sannindi, þótt hvert smáatriði um sig væri óyggjandi. Hins vegar gæti sagnfræðin lært talsvert af listamönnum, sem beittu ímyndunarafli sínu til að vekja upp svipi fornra alda, hvort sem væri í skáldsögum eða málverkum. Sönn sagnaritun ætti að vísu að vera reist á þekkingu, sem kostur væri á, væri að því leyti ófrjálsari, en samt alltaf öðrum þræði list, ekki einungis spegill fortíðarinnar heldur þáttur í verðandi samtíðarinnar. Þessi ritgerð Erslevs jók mér kjark að meta rit Snorra og aðrar íslenskar fornsögur eins og mér var skapfelldast og taldi sönnu næst, og skoðanir mínar á gildi og tilgangi sögulegra fræða hafa jafnan síðar borið merki hennar.“

Eftir að hafa minnst á þetta viðhorf Sigurðar Nordals spurði ég Guðjón hvort að hann hefði orðið fyrir áhrifum af Sigurði. Hægt var að skynja glaðværð í svip hans eftir að ég hafði sleppt orðinu og ég fékk ósjálfrátt á tilfinninguna að spurningin hefði hitt í mark. „Þessu skal ég svara, en fyrst ætla ég að gefa þér meira kaffi“, sagði hann góðlega og ég þáði það með þökkum.

„Sigurður Nordal var slíkur menningarpáfi að það var heil kynslóð af fræðimönnum sem var í skugga hans. Hann var yfirburðamaður, sem drottnaði yfir sviðinu. Sigurður var orðinn gamall maður þegar ég var í Háskólanum, en maður skynjaði lotningafullann anda gagnvart Sigurði. Nemendum var innprentuð hún og hans skoðunum þegar ég var í íslenskum fræðum.“

Guðjón Friðriksson ólst upp í anda þjóðernisrómantíkur sem var enn sterk á Íslandi á hans uppvaxtarárum og drakk sem barn og unglingur í sig mikla aðdáun á þjóðskáldunum. „Ég fékk ungur þá hugmynd að skáld væru goðum líkar verur.“
Guðjón segist ungur hafa orðið hrifnastur af þeim fræðimönnum sem einnig voru skáld, til dæmis Sigurði Nordal, Jóni Helgasyni og Kristjáni Eldjárn. Hann var svo heppinn að kynnast þessum þremur mönnum og segir þá hafa haft töluvert mikil áhrif á sig. „Það var eiginlega stór atburður í mínu lífi þegar ég kynntist Sigurði Nordal. Ég var rúmlega tvítugur og þekkti konu sem var heimagangur hjá Sigurði og hún dreif mig tvisvar sinnum með sér heim til hans. Sigurður hafði mjög gaman að því að fá ungt fólk í heimsókn. Ég sat við fótskör meistarans og þessar heimsóknir voru ógleymanlegar og settu mark sitt á mig. Hann jós úr viskubrunni sínum og var afar skemmtilegur og heillandi. Ég held að ungt fólk nú til dags skilji ekki hve mikil virðing var borin fyrir Sigurði Nordal, ekki síst vegna persónutöfra hans. En þetta er nú löngu liðinn tími og á síðari árum hafa margar af hans kenningum verið dregnar í efa.“

Þjóðrækni án verndarmúra

Guðjón Friðriksson vill alls ekki kalla sig þjóðernissinna, en segist þó vera þjóðrækinn í góðri merkingu þess orðs. „Ég vil leggja rækt við íslenska menningu og stuðla að því að hún blómgist.“ Hann er hins vegar á móti öllum verndarmúrum og segir að íslensk menning njóti sín best í samspili við erlend áhrif. „Það er ekki hægt að setja samansemmerki milli þjóðernisstefnu og einangrunarstefnu. Jón Sigurðsson var til dæmis hvoru tveggja þjóðernissini og líberalisti. Hann vildi algerlega óhefta verslun og menningarstrauma yfir landamæri þjóða. Einar Benediktsson var einnig þjóðernissinni og alþjóðahyggjumaður í senn.“ Guðjón segir þjóð í þessum skilningi að vísu vera dálítið loðið hugtak og tekur undir vissa andúð Hannesar Hafsteins á of miklu þjóðernisglamri. „Hannes taldi hugtakið þjóð vera afleidda mynd af einstaklingnum og það væri hæpið að persónugera þjóðina með þeim hætti. Hannes vildi setja einstaklinginn og þarfir hans í öndvegi, en taldi þjóðina síður skipta máli.“

Við lifum á miklum byltingartímum

Guðjón Friðriksson segir að íslenskt samfélag sé á fleygiferð. „Við lifum á miklum byltingartímum. Síðustu 10-20 árin eru einhverjir mestu byltingartímar sem orðið hafa í íslensku samfélagi, þó að við gerum okkur ekki grein fyrir því dagsdaglega. Ótrúlegar breytingar sem hafa orðið síðan um 1985-1990 og þær eru flestar til góðs, þó að maður sjái einnig neikvæð merki. Samfélagið hefur opnast. Mikil gagnvirkni er milli Íslands og útlanda. Það finnst mér jákvætt.“

Yrði ekki góður stjórnmálamaður

Guðjón segist hafa áhuga á stjórnmálum, en segist þekkja takmörk sín og fullyrðir að hann yrði ekki góður stjórnmálamaður. „ Það er kostur minna bóka að ég get sagt frá deilumálum þannig að aðilar þess fái allir skilning af minni hálfu.
Ég á auðvelt með að setja mig í spor annarra og skilja sjónarmið þeirra. Það gerir mig sennilega að góðum sagnfræðingi, en yrði til þess að ég yrði álitinn lélegur stjórnmálamaður. Til þess að ná árangri í stjórnmálum verður maður helst að stefna ótrauður að einu marki og láta ekki ólík sjónarmið trufla sig.

Jafnaðarmaður og kapítalisti


Guðjón Friðriksson er kominn af íhaldssömu fólki og faðir hans var til dæmis mikill Sjálfstæðismaður. „Maður fylgir skoðunum foreldra sinna sem krakki, en þegar ég komst til vits og ára fóru skoðanir mínar að breytast. Um það leyti sem ég tók stúdentspróf var ég orðinn býsna róttækur til vinstri. Tíðarandinn hjá ungu fólki á þessum árum var þannig og maður hreifst með. Ég vildi gera uppreisn gegn ríkjandi kerfi og brjóta upp staðnaða veröld.
Pólitískar skoðanir Guðjóns Friðrikssonar hafa breyst mikið síðan hann byrjaði sem blaðamaður á Þjóðviljanum. „Í grunninn er ég jafnaðarmaður. En þó ég sé furðu ósnortinn af þeim mönnum sem ég hef skrifað bækur um, heillaðist ég af meitlaðri og mergjaðri einstaklingshyggju og kapítalisma Einars Benediktssonar. Einar gekk reyndar í gegnum jafmaðarmannaskeið og taldi jafnaðarstefnuna vera framtíðarmúsik. Ætli ég sé ekki jafnaðarmaður og kapítalisti í senn.“ Að auki er Guðjón húmanisti og að hans mati felst í húmanisma að vera mannúðlegur; setja manninn í öndvegi. Hann er ekki hlynntur óheftum kapítalisma, en telur að markaðurinn eigi að ráða í verslun og í samskiptum milli þjóða. Hins vegar eigi ríkisvaldið að búa til öryggisnet fyrir þá sem höllum fæti standa og tryggja öllum þegnum sínum jafnan aðgang að skólum og heilbrigðisþjónustu. „Manneskjulegustu þjóðfélög sem ég þekki eru velferðarþjóðfélögin skandínavísku þó að sumt hafi komist á villigötur þar.“ Einnig telur hann að ríkið eigi að styðja listir og menningu eins og víðast hvar er gert. „Það er mun meiri nauðsyn á því hér á landi en annars staðar vegna smæðar markaðarins.“

Guðjón telur mikilvægt að menn séu ekki svo forstokkaðir að þeir geti ekki orðið fyrir áhrifum. „Þó að ég sé kominn yfir miðjan aldur þá get ég vonandi enn orðið fyrir áhrifum og innblæstri. Gott fyrir hvern mann að halda þeim hæfileika; það er ömurlegt hlutskipti að geta ekki breytt um skoðanir eða hrifist af nýjum straumum. Ég vona sannarlega að ég sé enn að mótast.“

Að treysta sjálfum sér og eigin hugboðum

„Það sem skiptir mestu máli í mínu starfi er að hafa sjálfstraust; að þora að gera það sem manns eigin hugur býður, en ekki herma alltaf eftir einhverjum öðrum. Þegar maður er yngri hættir manni til að reyna að feta í fótspor þeirra sem hafa gert góða hluti áður, en það er oftar en ekki dæmt til að mistakast. Þegar maður kemst á það stig að maður treystir sjálfum sér og eigin hugboðum er ákveðnum áfanga náð. Sumir fá kornungir þetta sjálfstraust, en ég er seinþroska og hef öðlast þetta hugarfar hægt og rólega með reynslunni.“

Þetta þóttu mér góð lokaorð á löngu og skemmtilegu samtali. Kaffið var búið og tíminn floginn. Ég fékk hugboð um að tímabært væri að kveðja og yfirgefa hlýlegar vistarverur Guðjóns á Nesveginum.