þriðjudagur, október 5

Gagnrýni Halldórs Kiljans Laxness á séreignarétt og markaðsbúskap í Alþýðubókinni

H?fundurHalldór Kiljan Laxness skrifaði Alþýðubókina sumarið 1928 þegar hann dvaldist vestur í Kaliforníu í Bandaríkjunum. Þar sem heitt var í veðri þetta sumar skrifaði hann bókina á nóttunni en svaf á daginn. Sumir segja að bókin beri þess skýr merki að vera skrifuð á þeim tíma sólarhringsins og sjálfur segir Laxness: „Ef til vill ber bókin þess nokkur merki að hún sé næturvinna. Maður hugsar öðruvísi á nóttunni en á daginn.“ Árin í Bandaríkjunum voru mikið mótunarskeið í lífi Laxness. Áður hafði hann dvalist í kaþólsku klaustri í Lúxemborg og hugðist verða munkur, en eftir þriggja ára dvöl í Bandaríkjunum var hann orðinn sósíalisti. Ég studdist við þriðju útgáfu bókarinnar, í þeirri útgáfu ritskoðaði hann sjálfan sig og sleppti ýmsu, sem honum fannst of herskátt 1949.

Í þessari grein mun ég ræða um harða og óvægna gagnrýni Halldórs Laxness í Alþýðubókinni á lýðræði, séreignarétt, markaðsbúskap og aðra þætti borgaralegs samfélags. Auk þess mun ég ræða um byltingarhugmyndir Halldórs, en hvort sem það er næturvinnu um að kenna eða ekki boðar hann blóðuga byltingu í bókinni – og sú bylting slapp í gegnum alla seinni tíma sjálfsritskoðun.

Lýðræði

Andúð Halldórs Laxness á lýðræðinu er síst minna en andúð hans á séreignarskipulagi og markaðsbúskap. Hann telur að enginn sannleikur sé fólginn í vilja fólksins og vill að ákvarðanir séu teknar af sérfræðingum. „Spurníngin: járnbraut eða bílvegir, er ekki pólitískt mál einsog ýmsir virðast halda, heldur úrskurðarefni fyrir sérfræðinga.“ Hreinræktaðir kapítalistar eru reyndar sammála honum og öðrum sósíalistum um að spurníngin sé ekki pólitísk. Þar skilja hins vegar leiðir því að Halldór vill að sérfræðingar taki ákvörðunina en kapítalistar telja markaðinn best til þess fallinn að komast að skynsamlegri niðurstöðu.

Halldór telur lýðræðið vera skrípaleik og vill að „hætt verði að stunda pólitík eins og kjaftakappleik, en upp verði tekið vísindalegt skipulag“. Hann telur að auðvelt sé að afnema lýðræðið á Íslandi þar sem hér „skortir rótgróna virðingu fyrir rótgrónum auðvaldsstofnunum í líkingu við breskar og bandarískar“.

Halldór sparar ekki stóru orðin, alræðishugsjón hans og megn fyrirlitning á fulltrúalýðræðinu kemur berlega í ljós í eftirfarandi orðum:
Á þessari öld þíngflokkapólitíkur sem nú er að telja út, hefur opinber forsjá verið mest í túlanum á borgarlegum kjaftaskúmum ýmislega litum, sem halda uppboð á flokksloforðum og flokkalygum við hverjar kosningar. Kosningar eru borgarastríð þar sem nef eru talin í stað þess að höggva hálsa. Sá sem mestu lofar og lýgur nær flestum nefjum. Á hinum auvirðilega skrípaleik borgaralegrar skussapólitíkur verður auðvitað einginn endir fyren vísindalegur stjórnmálaflokkur alþýðunnar hefur tekið alræði.

Halldór Laxness telur að sauðaháttur og sveitamannatregða Íslendinga séu „höfuðóvinur“ alræðisins og hins vísindalega skipulags. Halldór er þó bjartsýnn á að hugsjón sín verði að veruleika því að hann er sannfærður um að unga fólkið sé honum sammála, „að undanteknum fáeinum piltum sem stunda atvinnu hjá heildsöluhúsum“.

Séreignaréttur og markaðsbúskapur

Að mati Halldórs Laxness er hlutverk ríkisins „að vera miðlari nytja og gæða, sjá öllum fyrir jöfnum kjörum, hverjum og einum fyrir bestu skilyrðum til þroska“. Umfjöllun Halldórs um sósíalisma er eins og hann sé að boða fagnaðarerindið, samanber setninguna: „Þetta er gleðiboðskapur hinnar komandi menníngar“. Hann telur sig handhafa sannleikans og ekki er að finna minnsta efa í orðum hans þegar hann fjallar um að séreignarrétturinn eigi ekki rétt á sér.
Nú þarf að kenna fólki að skilja þær meigingreinar hinna nýju tíma, sem liggja beinast við, einsog þessa: Alþýða á alt. Einginn á neitt, nema fólkið, almenníngur. Einginn hefur rétt til þeirra hluta sem í heiminum eru, nema fólkið, almenníngur.

Á öðrum stað segir Halldór reyndar að „[h]ver og einn [eigi] sinn hlut í gnægtum vorrar auðugu jarðar“. Slík fullyrðing samræmist ekki því að enginn eigi neitt. Þetta er þó að öllum líkindum aðeins ónákvæmni og sögnin að eiga á eflaust að þýða annað en hún þýðir venjulega. Hann minnist ekki á hugsanleg hagkvæmnis- og réttlætisrök fyrir eignarréttinum, enda er kaflinn um búskap á Íslandi í Alþýðubókinni ekki umfjöllun heldur áróður.

Nokkurs tvískinnungs gætir í umfjöllun um Guð í Alþýðubókinni. Hann afneitar í raun Guði í bókinni, en notar nafn hans þó þegar það hentar honum: „Guð skapaði þessa jörð handa öllum mönnum, til þess að allir menn hefðu alt.“ Þessi setning bendir til þess að höfundur Alþýðubókarinnar hafi haldið að eitt af grundvallarhugtökum hagfræðinnar, skorturinn, myndi heyra sögunni til ef skipulag sósíalismans yrði tekið upp. Getur verið að Halldór hafi í raun staðið í þeirri trú? Eftirfarandi orð eyða öllum vafa um það:
Hér vantar ekkert. Þessi jörð er fullkomin og veitir oss alt. Og maðurinn er sömuleiðis fullkominn. Jörðin er hið æðsta tákn allrar fullkomnunar sem vér þekkjum, og maðurinn er kóróna als sem jarðneskt er og fullkomið.

Halldór virðist meira að segja álíta að einföld lagasetning dugi til að útrýma skortinum: „Lög verða sett um að landsmenn skuli búa við hin fullkomnustu hversdagsþægindi siðaðra manna og öllum um leið gert kleift að njóta þeirra, – frá raflýstum íbúðum alt upp í vísindalega uppeldisumsjá.“

Auk þeirra raka að skortur hyrfi og allir hefðu allt til alls, færir Halldór Laxness þau helstu rök fyrir sósíalisma að hann sé réttlátur. Hann líkir markaðsbúskap við rándýrsklær og segir réttlætishugtakið uppreisn mannlegrar siðferðisvitundar gegn rándýrsklónum. Oft er sagt að darwinismi sé fylgifiskur markaðsbúskapar. Þótt Halldór sé á móti darwinisma, það er að segja því frumskógarlögmáli að sá sterkasti lifi af, kemur skýrt fram í bókinni að hann er ekki á móti kynbótastefnu:
Ber þá ekki að slökkva út hið veika? spyrja menn. Jú, vissulega; en ekki að hætti rándýrsins, sem beitir ofbeldi þá er hallir standa, heldur á vísindalegan hátt, með því ýmist að hlynna að þeim sem hallir standa, eða koma í veg fyrir tilorðning undirmálsmanna. Allir menn eru alfullkomnir gagnvart réttlætinu.

Þó að hann vilji koma í veg fyrir náttúruval, telur hann að maðurinn eigi að framkvæma „vilja“ náttúrunnar með sínum hætti: „En vísindalegar mannakynbætur virðast því sjálfsagðari sem sýnna er að þær eru meðal höfuðáhugamála náttúrunnar.“

Halldór telur þá kennisetningu Karls Marx sjálfsagða að hver og einn eigi að leggja til eftir getu en fá eftir þörfum: „Gegn starfi framleiðandi einstaklinga er hverjum einum látið í té alt sem hann þarfnast, – frá rafmagni og skólamentun til læknishjálpar og hljóðfærasláttar. Ríkisvaldið er sem sagt miðlarinn.“

Það er óneitanlega „biblíulykt“ af eftirfarandi orðalagi hans:
Það er ekki til önnur fullnæging réttlætis en sú að hinir snauðu og fávísu afli sér þeirra hluta sem mega verða þeim til þroska, – því handa hverjum eru nytjar jarðarinnar? Eru þær ekki handa mönnunum? Er ekki brauð handa þeim brauðlausa, fiskur handa þeim fisklausa? Eru ekki peníngar handa þeim peníngalausa, hús handa þeim húsnæðislausa og mentun handa þeim mentunarlausa?

Gagnrýni Halldórs Laxness á séreignarrétt og markaðsbúskap er margvísleg en kjarni hennar felst í því að þeir sem vinna með höndum sínum fyrir auðnum eigi að njóta hans. Fari auðurinn annað sé það arðrán.
Handa hverjum eru framleiðslulindirnar nema fólkinu? Og hver hefur framleitt nytjar jarðarinnar nema fólkið? Til hvers eru fjársjóðir, forðabúr og auðæfi, ef ekki handa alþýðu? Og hver hefur framleitt nytjar jarðarinnar nema fólkið? Til hvers eru fjársjóðir, forðabúr og auðæfi, ef ekki handa alþýðu? Og til hvers á að nota auðæfi, ef ekki fyrir fólkið, alþýðuna sem hefur skapað auðæfin með höndum sínum?

Halldór fjallar um framkvæmd sósíalismans:
Stórar óræktaðar landspildur verða teknar í hinum byggilegustu sveitum og skipt niður í samyrkjulönd. Verða reist þar býlahverfi og ræktun hafin, hverfi þessi síðan bundin við verslunarmiðstöðvar með sífærum brautum ... Hver félagsyrki geldur þjóðfélaginu leigur af bæ og býli og tekur þurftir sínar hjá útibúi ríkisverslunarinnar á staðnum og geldur með afurðum sínum ... Jafnframt verða sett upp stórvaxin þjóðeignarbú og séu þau hvorttveggja í senn: sífelldur skóli og opinber atvinnufyrirtæki, sem veiti framflot þúsundum manna.

Hann forðast hins vegar að útfæra hugsjónir sínar í smáatriðum og fylgir þannig því fordæmi Karls Marx að skrifa ekki uppskriftir sem notaðar yrðu í eldhúsi framtíðarinnar.

Fjölskylda og barnauppeldi

Umfjöllun Halldórs Laxness um fjölskylduna og barnauppeldi minnir mig á Brave New World eftir Aldous Huxley. Fjölskyldan er Halldóri svo sannarlega ekki heilög og hann gerir lítið úr móðurástinni:
Orðið móðir og faðir fela í sér dýrafræðilegt hugtak, en ekki þjóðfélagslegt. Ríkið er hið beina menníngarsögulega þróunarframhald foreldrisins. Móðurást í hinni þraungu, dýrslegu merkíngu þess orðs liggur allra hugtaka verst við höggi gagnrýninnar. Hin rétta afstaða þjóðfélagsins til barnsins verður með hverjum degi sem líður mikilsverðara atriði í menníngu vorri, – um leið og blóðböndin svokölluðu skipta æ minna máli.

Halldór telur að ríkið sé heppilegast til barnauppeldis. Hann segir að „[m]eð sálfræðilegri vissu [megi] rekja flesta örlagaþrúngna bresti í skapgerð manna og flestar misfarir manna í lífinu til ólags í uppeldi þeirra“. Síðan fullyrðir hann að eina ráðið sé hið vísindalega uppeldi samvinnuríkisins.

Seifur hjálpi þeim stjórnmálamanni um þessar mundir sem leyfði sér að segja eftirfarandi:
Hvert bygðarlag hafi vandað uppeldisheimili þar sem kappkostað sé að ala hvern einstakling upp í samræmi við kröfur fullkomins menningarlífs. Uppeldisheimilið hefur þann kost í för með sér að gera börnin óháð heimilisbrag og heimilisástæðum foreldranna og bjarga þeim þannig úr þeirri hættu sem heimauppeldi skapar alment, en þó einkum þar sem foreldrarnir eru illa siðaðar manneskjur og litlir sálfræðingar, eða eigingjarnir um of til að geta skapað hinn hamíngjusama aga og innilegu eindrægni sem grundvallað fái verndara og skjólstæðings göfugt þroskasamband.

Þegar öllu er á botninn hvolft eru vestræn samfélög þó að þróast í þá átt að ríkið er að taka við af foreldrum sem uppalandi í æ ríkara mæli.

„Biblíulyktin“ er aldrei langt undan hjá Halldóri í Alþýðubókinni: „Fyrst skapaði guð bönd blóðskyldunnar; síðan skapaði hann ríkið; það er þróun ríkishugtaksins sem nú er að gerast.“

Maðurinn í öndvegi og kirkjan gagnrýnd

Halldór er upplýsingarmaður, vill að maðurinn sé í öndvegi. Hann trúir á mátt vísindanna og vísindatrú hans er samtvinnuð stjórnmálaskoðunum hans, því að hann telur sósíalismann vera hið vísindalega skipulag. Hann telur sósíalismann vera ávísun á framfarir eins og önnur vísindi og lítur á sig sem „vakníngarmann“ sem hefur það hlutverk að „blása mönnum í brjóst sameignarvitundinni og samvinnuhugmyndinni, en uppræta séreignartrúarvilluna og samkeppnisóvissuna ásamt öðrum skaðsemdum sem eiga rót sína að rekja til tímanna áður en maðurinn sem félagshugtak var orðinn miðþýngdarstaður þjóðmegunarhugsjóna“.

Halldór telur réttilega að þessi áhersla á manninn brjóti í bága við „hugsjónir hinnar kristnu mennníngar, sem skipaði guð í öndvegi og stofnaði á þeirri grein hið kaþólska páfadæmi, þar sem kirkjan, fulltrúi guðs, kom á undan öllu öðru“.

Alvaran í gagnrýni Halldórs Laxness á Guð og kirkjuna kemur berlega í ljós í eftirfarandi málsgrein: „Um er að ræða gagngerða og skilyrðislausa uppreisn gegn drotni vorum Don Quijote, þessari líkamningu hins arabisk-júðska anda, sem forðum var gróðursettur í Vesturevrópu undir nafninu kristindómur.“

Blóðug bylting

Halldór Laxness telur heiminn alltaf vera að leitast við að taka á sig hið besta form. Hann er sannfærður um að sósíalisminn sé ákjósanlegasta þjóðskipulagið og því sé hann í raun óumflýjanlegur.
Tölum ekki eins og ævisögur mennínganna væru hindurvitni ein, því svo er rás viðburða háð föstum sögulegum lögmálum að menn geta nú orðið með furðulegri öryggi ritað „náttúrufræði sögunnar“. Það lögmál er staðfest að eingin hrörnuð stofnun né úrelt kenníng á sér endurreisnar von né endurfæðíngar. Skaparinn hefur nú einu sinni meira ímyndunarafl en svo, að hann þurfi að éta eftir sér. Trúin á endurreisn og endurfæðingu hnignaðs forms er ekki aðeins ósönnuð, heldur afsönnuð íhaldsvillutrú. Þegar reynt er að réttlæta íhald með því að það sé söguleg lögmálsfyrirbrigði, þá er sama og sagt sé að sögulegur misskilningur sé lögmálsbundið fyrirbrigði, en alt íhald í úrelt form er bygt á sögulegum misskilningi. Framsókn er hið eðlilega starfslag lifandi mennínga.

Halldór lítur á sósíalismann sem barn sem muni koma í heiminn einhvern tímann, en mikilvægt er að hjálpa í heiminn sem fyrst – og það jafnvel með blóðugum keisaraskurði.

Hann elur á öfund:
Þessi borg er full af auðæfum. Bánkarnir skína í bronsi og marmara einsog fornkirkjur. Fyrir verð hverrar einustu lyga-auglýsíngar á Markaðarstræti mætti fæða her manns. Landið umhverfis er fult af auðæfum. Samt kemur hér þúsund alslausra atvinnuleysingja til uppjafnaðar á hvern miljónamæríng.

Hann hvetur til haturs:
Í þjóðfélagi þar sem einhver er þurfandi, þar sitja þjófar að völdum, ránsmenn og morðíngjar. Hins vegar er einginn réttur til ofar rétti húngraðra og klæðalausra manna. Guð hefur gefið yður þessa jörð, vinir mínir! Hún er yðar frá einum sjóndeildarhríng til annars. Berið yður eftir björginni. Gerið svo vel.

Hann hvetur til rányrkju:
Fyrst einhverjir hafa gerst svo djarfir að „eiga“ með lögum og rétti eignir brauðlausra, húslausra, klæðalausra og mentunarlausra manna, þá verður réttlætinu ekki fullnægt með öðru en ránskap; öreiginn á undir högg að sækja hjá ofbeldismönnum og ræníngjum, og þar fæst einginn sigur með blíðu. Öreigar eiga að fara í flokkum og ræna öllu sem þá vantar, og létta eigi þessum ránum fyr en þeir hafa stofnsett ríki sitt með föstu skipulagi.

Hann hvetur til fórnfýsi:
Og hér liggja húngraðir menn einsog húsbændalausir flökkuhundar, í stað þess að fara saman í flokkum og taka það sem guð hefur gefið þeim, jörðina, eða láta skjóta sig.

Hann hvetur til morða og blóðugrar byltingar:
Þeir sem halda fyrir yður gæðum lífsins og banna yður að vinna nytjar jarðarinnar, það eru fjandmenn guðs og yðar, og yður ber til þess heilög skylda að útmá þá af ásýnd jarðar. Þeir eru átumein í líkama mannfélagsins. Þeirra vegna eru börn yðar blóðlaus og mergsoginn. Þeir hafa hrifsað brauðið frá munnum barna vorra og rænt síðustu skyrtunni af foreldrum vorum örvasa, og nú er þeir að leggja það niður fyrir sér, hvernig þeir eigi að koma af stað stríði svo þeir geti drepið oss.

Halldór Laxness ávarpar síðan íslensku alþýðuna með áhrifaríkri setningu eins og hershöfðingi sem lýsir yfir stríði „Úngi öreigasonur! Únga öreigadóttir! Heimurinn er ykkar með öllu sem í honum er.“ Árás!

Niðurlag

„Vér erum afstæð fyrirbrigði í heimi afstæðra fyrirbrigða þar sem ekkert stendur í stað en alt streymir.“ Þessi orð Halldórs Laxness eru að mati undirritaðs sönn og lýsa honum sjálfum ágætlega. Halldór sá eftir mörgu sem tengdist boðskap hans á hugmyndafræði sósíalismans. Hann gerði upp sögu sína að nokkru leyti í bókinni Skáldatími. En uppgjör hans þar var máttlaust og ófullnægjandi. Eftir andlát Halldórs dró Arnór Hannibalsson, heimspekiprófessor, fram í dagsljósið ýmis verk Halldórs Laxness í bókinni Moskvulínan. Sú bók varð síðan meðal annars til þess að Hallgrímur Helgason, rithöfundur, skrifaði skáldsöguna Höfundur Íslands, sem er uppgjör við nóbelskáldið.

Hvaða skoðun sem fólk hefur á stjórnmálaafskiptum Halldórs Laxness, geta flestir verið sammála um að hann skrifaði margar góðar bækur. Ég gleymi því seint hvað ég átti erfitt með að slíta mig frá Sölku Völku og kaflarnir um myndlist og trúmál í Alþýðubókinni eru afbragðsgóðir, þarfir og standast vel tímans tönn.

Halldór Kiljan Laxness missti aldrei trúna á paradís. Í stað þess að trúa á paradís á himnum eftir dauðann, trúði hann á paradís á jörðinni í lífinu sjálfu – og sú paradís var að hans mati innan seilingar með sósíalismanum. Ævisaga menningarinnar greinir hins vegar frá því að sósíalisminn var miklu frekar leiðin til helvítis en paradísar.



Heimildir

Halldór Kiljan Laxness: Alþýðubókin, 3. útgáfa (Vaka-Helgafell, Reykjavík 1949), formáli 12. bls.
Halldór Kiljan Laxness: Alþýðubókin, 3. útgáfa, 91. bls.
Halldór Kiljan Laxness: Alþýðubókin, 3. útgáfa, 87. bls.
Halldór Kiljan Laxness: Alþýðubókin, 3. útgáfa, 87. bls.
Halldór Kiljan Laxness: Alþýðubókin, 3. útgáfa, 90. bls.
Halldór Kiljan Laxness: Alþýðubókin, 3. útgáfa, 88. bls.
Halldór Kiljan Laxness: Alþýðubókin, 3. útgáfa, 90. bls.
Halldór Kiljan Laxness: Alþýðubókin, 3. útgáfa, 90. bls.
Halldór Kiljan Laxness: Alþýðubókin, 3. útgáfa, 89. bls.
Halldór Kiljan Laxness: Alþýðubókin, 3. útgáfa, 89. bls.
Halldór Kiljan Laxness: Alþýðubókin, 3. útgáfa, 142. bls.
Halldór Kiljan Laxness: Alþýðubókin, 3. útgáfa, 91. bls.
Halldór Kiljan Laxness: Alþýðubókin, 3. útgáfa, 90. bls.
Halldór Kiljan Laxness: Alþýðubókin, 3. útgáfa, 169. bls.
Halldór Kiljan Laxness: Alþýðubókin, 3. útgáfa, 91. bls.
Halldór Kiljan Laxness: Alþýðubókin, 3. útgáfa, 143. bls.
Halldór Kiljan Laxness: Alþýðubókin, 3. útgáfa, 143. bls.
Halldór Kiljan Laxness: Alþýðubókin, 3. útgáfa, 91. bls.
Halldór Kiljan Laxness: Alþýðubókin, 3. útgáfa, 94. bls.
Halldór Kiljan Laxness: Alþýðubókin, 3. útgáfa, 94. bls.
Halldór Kiljan Laxness: Alþýðubókin, 3. útgáfa, 93. bls.
Halldór Kiljan Laxness: Alþýðubókin, 3. útgáfa, 95. bls.
Halldór Kiljan Laxness: Alþýðubókin, 3. útgáfa, 89. bls.
Halldór Kiljan Laxness: Alþýðubókin, 3. útgáfa, 89. bls.
Halldór Kiljan Laxness: Alþýðubókin, 3. útgáfa, 96. bls.
Halldór Kiljan Laxness: Alþýðubókin, 3. útgáfa, 96. bls.
Halldór Kiljan Laxness: Alþýðubókin, 3. útgáfa, 144. bls.
Halldór Kiljan Laxness: Alþýðubókin, 3. útgáfa, 142. bls.
Halldór Kiljan Laxness: Alþýðubókin, 3. útgáfa, 143. bls.
Halldór Kiljan Laxness: Alþýðubókin, 3. útgáfa, 144. bls.
Halldór Kiljan Laxness: Alþýðubókin, 3. útgáfa, 142-143. bls.
Halldór Kiljan Laxness: Alþýðubókin, 3. útgáfa, 159. bls.