miðvikudagur, október 6

Svanur

H?fundurKvæðið Svanur eftir Einar Benediktsson er í bókinni Hrannir, sem kom fyrst út árið 1913:

Í svanalíki lyftist moldin hæst.
Hann ljómar fegurst og hann syngur skærast.
Þá angurljóð hans oss í hjartað skera
vér erum sjálfum vorum himni næst.
Þá oss í draumi banagrunn þau bera
oss birtist lífsins takmark fjærst og æðst.
Því er sem duftið dauða þrái að hrærast
við djarfa sorgarblíða rómsins kvak.
Því er sem loftið bíði þess að bærast
við bjarta himinfleyga vængsins tak.

Svo reisist brjóstsins hvíta hreina mjöll,
hver hreyfing er sem stilltur bogadráttur.
Og hálsinn ljósi liðast mjúkt og réttir
sig langt upp yfir dalaþorpin öll.
Sem bylgjur tóna líða vængir léttir
í loftsins fríðu, víðu söngvahöll.
Hans þögn er eins og hljópur hörpusláttur,
sem hugann dregur með sér fjær og fjær.
Hans flug er eins og hrynji aldýr háttur
af himins opnu bók manns sálu nær.

Manns sál – já, hún á eitthvert undirspil
sem ómar við, þó lífið óminn kæfi.
Vér eigum söngva heyrnarheimi yfir,
sem hjartað kvað, er enginn vissi til.
Það er svo margt án máls, sem eilíft lifir
er múgans óps skal drukkna í gleymsku hyl.
Eitt svanaljóð sem andinn orðlaus slær
af innsta strengnum, jörðu er ei við hæfi;
það getur liðið lengra en málið nær,
og laugað böl og mein af heilli æfi.

– En svaninn sjálfan dreymir lífsins draum,
hans dáð og ósk í brögum saman streyma.
Frá náttúrunnar hjartarót þeir hljóma
með hreim af brimi, stormi og fossaglaum.
Hann dúðar sig í dagsins innsta ljóma,
hann drekkur morgunandans fyrsta straum.
Hann loftsins skáld, á hjá sér sjálfum heima
af heilli sál hann kveður hvern sinn óð
- sem bergmál hjartna og hamra á að geyma,
uns heimar gleyma að elska fögur ljóð.

Ó, svalalind hins hreina, dýra hljóms
sem himins auðlegð ber að snauðum arni.
Þá fellur út af Edens týnda landi
að ósum hels með kvaki svanaróms.
Hjá þér sig sjálfan finnur fallinn andi
í fordyrum síns eigin helgidóms;
þar hjartað verður hreint og skilur fyrst
að heimþrá vor til guðs er lífsins kjarni.
Því glampar eilífð yfir hárri list,
sem engils svipur ljómi yfir barni.

Hve sælt, hve sælt að líða um hvolfin heið
með hreina, sterka tóna – eða enga,
að knýja fjarri öllum stolta strengi,
að stefna hæst og syngja best í deyð,
að hefja rödd, sem á að óma lengi
í annars minni, þó hún deyi um leið.
Er nokkur æðri aðall hér á jörð,
en eiga sjón út yfir hringinn þröngva
og vekja, knýja hópsins blindu hjörð
til hærra lífs – til ódauðlegra söngva