föstudagur, október 8

Vetrardrottningin eftir Boris Akúnin

H?fundurNýlega kom út þýðing Árna Bergmanns á enn einu snilldarverki rússneska glæpasagnameistarans Boris Akúnin. Verkið ber titilinn Vetrardrottningin og er gjörsamlega nauðsynlegt sagnaefni fyrir spennusögufíkla. Um leið og lesturinn byrjaði var ekki aftur snúið, víman myndi endast svo lengi sem blaðsíðurnar þannig að ekki var hægt að losa sig frá Fandorin kammerritara sem vann að fyrsta rannsóknarmáli sínu hjá rússnesku lögreglunni.

Erast Petrovitsj Fandorin er ungur maður sem hefur störf hjá rússnesku lögreglunni í Moskvu árið 1876. Fandorin situr og skrifar upp sömu skýrslur aftur og aftur fyrir yfirmann sinn þegar ættstórt ungmenni í blóma lífsins ákveður að fremja sjálfsmorð á undarlega djarfan og óvenjulegan hátt. Ungi kammerritarinn er fljótur að átta sig á að ekki eru öll kurl komin til grafar en lítið veit hann um stærðargráðuna og ógnir þess svikavefs sem hann er byrjaður að flækjast í.

Sagan er þroskasaga hins unga Fandorins. Sagt er frá því hvernig ungur strákhvolpur verður að manni með magnþrungnum og átakalegum hætti í starfi sínu. Umhverfið er yndislegt, sniðið að þörfum spennusögunnar þar sem yfirvald stjórnast af titlum og ættum, framkvæmdavald lögreglunnar er gagnrýnislaust þar sem einkennisklæddum þjónum hins opinbera eru fáar hömlur settar.

Lesandinn kynnist Rússneskum veruleika rétt fyrir lok keisaraveldisins, stjórnarháttum, ættarveldi og titlatogi. Sem dæmi um titlatog mætti nefna að Fandorin er opinber starfsmaður í fjórtánda flokki, yfirmenn nota skírnarnafn hans, en fólkið á götunni „þérar" hann. Yfirstétt, lágstétt er ofarlega í huga. Nábýli þeirra, virkni, og hvernig sá veggur sem aðskilur stéttirnar er nánast óklúfanlegur. Veggur sem aðeins þeir þrautsegustu og einbeittu geta reynt við. En að lokum eru allir mannlegir, og þunn lína hins mannlega er dregin fram. Sagan er full af skemmtilegum staðreyndum.

Akúnin leggur sig allan fram við að setja inn í skáldsögu sína skemmtilegan og athyglisverðan fróðleik handa hinum almenna lesanda. Til dæmis kemur fram að í Rússlandi var lengi notað annað dagatal en í Evrópu, aðrar lengdarmælingar og að Moskva sé hinn forni höfuðstaður Rússlands. Annað slagið er flett ofan af ranghugmyndum um Rússland, líkt og þegar talað er um „ameríska“ rúllettu, sem er oftast kölluð rússnesk, en tengist Rússlandi ekki á nokkurn hátt, heldur var leikur kúreka og gullgrafara í Bandaríkjunum á rómuðum árum gullæðisins.

Hver sá sem opinberar fyrstu blaðsíður sögunnar fyrir augum sínum verður snögglega háður vöðvabeitingu sjáaldurs sinna frá hægri til vinstri þanngað til síðasti stafurinn hefur verið flettur klæðum. Eftir slíka geðshræringar lesningu tryllist hugurinn og þráir meira, krefst meira. Ef lesendur sögunnar upplifa löngun eftir fleiri sögum um Fandorin. þá er ekki að örvænta, því Árni Bergmann hefur þýtt tvær aðrar bækur um hann; Ríkisráðið og Krýningarhátíðin eftir það er víman búin og við tekur löng og ströng bið eftir næsta skammti.