miðvikudagur, október 6

Niceland

H?fundurKvikmyndafyrirtækið Zik Zak markar hugsanlega ákveðin þáttaskil í íslenskri kvikmyndasögu. Það er kannski fyrsta kvikmyndafyrirtækið sem er ekki stofnað í kringum ákveðinn leikstjóra og verkefnin hans. Zik Zak-menn líta á sig sem kvikmyndaframleiðendur, en leikstjórana fá þeir annars staðar frá. Hingað til hefur íslensk kvikmyndagerð byggst á mönnum sem eru bæði leikstjórar og framleiðendur. Kannski er það þess vegna sem saga íslenskrar kvikmyndagerðar er í aðra röndina saga af mönnum að veðsetja íbúðir. Framleiðsla og leikstjórn er nefnilega ekki sami hluturinn.

Nýjasta kvikmyndin sem Zik Zak framleiðir er hin furðulega Niceland. Leikstjóri hennar enginn nýgræðingur heldur sjálfur Friðrik Þór Friðriksson (dæmi um mann sem hefur sýnt snilldartakta í leikstjórn en er öllu mistækari þegar kemur að framleiðslunni). Niceland er fyrsta mynd Friðriks sem hann framleiðir ekki sjálfur. Handritshöfundur er Huldar Breiðfjörð.

Niceland er kvikmynd sem teflir fram stórum spurningum en áhorfandinn áttar sig fljótt á því að svörin eiga ekki eftir að fást. Sagan segir frá Jed, ungum (þroskaheftum?) pilti sem er yfir sig ástfanginn af (þroskaheftu?) stúlkunni Chloe. Þau ákveða að giftast en Chloe verður afhuga Jed eftir að hann verður óvart valdur að því að kötturinn hennar lendir undir bíl og drepst. Jed ákveður af þessu tilefni að hefja leitina að tilgangi lífsins. Hann flytur burt úr foreldrahúsum og sest að hjá Max, einfara á ruslahaugum, sem á sjálfur í mestu vandræðum með sína fortíð. Saman hjálpa þeir hvor öðrum í leitinni að lífsfyllingu. Hugur Jed er alltaf hjá Chloe og hann trúir að þau geti eignast framtíð saman þótt hún lendi á sjúkrahúsi (af einhverjum óútskýrðum ástæðum) og sé vart hugað líf.

Niceland fjallar um fólk á jaðri samfélagsins og er greinilega gerð með þeim formerkjum að vera ekki „mainstream“. En þótt formúlan hafi virkað í 101 Reykjavík og Nóa Albínóa gerir hún það ekki hér. Ástæðan? Fyrir það fyrsta er handritið ákaflega viðvaningslegt. Samtölin eru ótrúverðug og fléttan óskiljanleg. Allar tilraunir til þess að mynda dulúðlegt andrúmsloft í því dystópíska samfélagi sem myndin gerist í eru tilgerðarlegar í meira lagi. Leikararnir eru sumir hverjir miklir talentar en geta auðvitað ekkert gert með svona handrit (ekki frekar en Louis Armstrong gat spilað á olíutrekt). Íslensku leikararnir sem fá að vera með eru að sama skapi býsna ósannfærandi, þrátt fyrir Bjarkarhreiminn.

Huldar Breiðfjörð skuldsetur sjálfan sig rækilega í Klisjubankanum með sumu af því sem hann teflir fram í þessu handriti. Mentorinn á ruslahaugnum, strætó sem myndhvörf fyrir lífsleiðina, hrekklausi elskhuginn, leitin að svörunum, sjónvarpið sem tákn tómlætis, glataða dóttirin – allt eru þetta kunnugleg stef. Það sem getur talist til nýmæla er of absúrd til að það gangi upp, þar sem sagan reynir að vera raunsæisleg að öðru leyti: Brúðkaupsveisla í Egilshöll? Maður að kaupa allt sem er til í bakaríi? Ég náði þessu bara ekki.

Niceland er ekki góð mynd. Því miður. Þykist vita að Kínamúrinn verði miklu skemmtilegri. Zik Zak kvikmyndafyrirtækið hefur nú framleitt fimm kvikmyndir og þar af fjórar verulega slakar. Samt er þetta fyrirtæki einhver bjartasta von íslenskrar kvikmyndagerðar. Svo undarlegt er það nú.