mánudagur, október 11

Endalok þjóðveldisins

H?fundurÞegar talað er um íslenska þjóðveldið er mismunandi við hvað er átt. Annars vegar vísar þjóðveldið til þess samfélagsforms sem var við lýði á tímabilinu frá stofnun allsherjarríkis með stofnun Alþingis árið 930 og þar til fólk í íslenskum lögum féllst á yfirráð Noregskonungs með undirritun Gamla sáttmála árið 1262 (þjóðveldisöld, þjóðveldið í rýmri merkingu). Hins vegar vísar það til þeirrar stjórnskipunar sem einkenndist af goðorðum og leið í raun undir lok nokkru áður en Gamli sáttmáli var gerður (goðaveldi, þjóðveldið í þrengri merkingu).

Goðorðin voru mannaforráð svokallaðra goða, en helsta stétt goðaveldisins voru sjálfseignarbændur. Stjórnskipanin byggði á persónulegum tengslum goða við þá bændur sem tilheyrðu goðorði þeirra. Þau voru ekki afmörkuð landfræðilega heldur gat bóndi valið sér goða óháð búsetu og gerst þingmaður hans. Alþingi fór með löggjafarvald og æðsta dómsvald en framkvæmdavald lá í höndum þess er átti sök að sækja og goða hans. Árlega voru haldin héraðsbundin vorþing og leiðarþing fyrir þrjú goðorð sameiginlega.

Í þessari grein verður leitast við að svara þeirri spurningu hvers vegna íslenska þjóðveldið í hvoru tveggja þrengri og rýmri merkingu leið undir lok (á stöku stað er þjóðveldið persónugert). Fyrst verður fjallað um venjurétt þjóðveldisins og áhrif ritmenningar á hann. Því næst verður gerð grein fyrir því hvernig valdajafnvægi raskaðist og um þann ófrið sem fylgdi í kjölfarið. Þá verður útskýrt hvernig Noregskonungur lagði undir sig landið og þau tæki sem hann hafði til þess. Áður en niðurstöður eru teknar saman verður síðan fjallað stuttlega um Gamla sáttmála; efni hans, ástæður og afleiðingar.

Venjuréttur

Hinn sjálfsprottni venjuréttur þjóðveldisins og sá skilningur sem menn lögðu í lagahugtakið var samofin stjórnskipun þjóðveldisins og ein mikilvægasta forsenda þess. Lög landnámsmannanna voru óskráður venjuréttur. Ákvæði lögsögumanns- eða lögréttuþáttar Grágásar, lagaskrár þjóðveldisins, bera „óvéfengjanlega vætti um þá hugmynd að gömul og góð lög séu undirstaða þjóðfélagsins, þau geymast í minni manna, einkum hinna lögfróðu fyrirmanna, séu ópersónuleg sameign allra, þannig að ekki verði skilið á milli þeirra og almennrar réttarvitundar“(1).

Lög myndast við venjurétt þegar dómari sker úr ágreiningi með því að finna almenna reglu, er leysir ágreininginn og sambærilegan ágreining í framtíðinni.
Það, sem dómari í venjuréttarskipulagi gerir til úrlausnar slíks áreksturs, er að leita að og lögfesta venju, sem kveður á um einhvers konar einstaklingsbundinn afnotarétt, skaðabótaskyldu eða eignarrétt. Hann skilgreinir með öðrum orðum réttindi og skyldur einstaklinga þannig, að um frekari árekstra verði (vonandi) ekki að ræða. Þau lög, sem myndast við venjurétt, eru því til, áður en dómarinn finnur þau. Það, sem dómarinn gerir, er að uppgötva, hvernig gagnkvæmri aðlögun manna hefur verið háttað, og festa þá reynslu í letur. Hann skráir lögin og skýrir.(2)
En þegar dómari leysir úr ágreiningi einstaklinga með því að skilgreina réttindi þeirra og skyldur, gerir hann það ekki eftir eigin geðþótta, heldur styðst meðal annars við fastar venjur, dómafordæmi, meginreglur réttarins og eðli málsins.

Þessi skilningur á eðli laganna hefur verið talinn merkasta framlag germanskra þjóða til stjórnspeki Vesturlanda og ein helsta stoð réttarríkisins, sem enskumælandi þjóðir lýsa best með orðunum the rule of law (veldi laganna). Orðið lög merkir þá reglur sem hafa orðið til með framangreindum hætti.

Að rétta lögin og gera nýmæli

Landnámsmenn komu frá mörgum ólíkum svæðum og los komst á réttarvenjur þeirra. Eftir stofnun Alþingis var ágreiningur um hvaða lög giltu, leystur með því að leggja mál fyrir lögréttu sem rétti lögin. Hugsunin bak við orðin að rétta lög var sú að leiða í ljós efni og innihald hinna fornu laga. Lögréttumenn voru þannig kvaddir til vitnisburðar um gildandi lög. Í reynd voru þeir þó oft og tíðum að setja nýjar reglur, en hugarfar löggjafans þegar hann nálgaðist viðfangsefnið og sú hugsun sem lá á bak við lögin setti lagasetningunni ákveðin takmörk.
Þeir sem réttu lögin gátu ekki sett reglu að vild – hvað þá geðþótta – heldur hlutu þeir að taka mið af viðurkenndum hagsmunum, hefðbundnum réttindum og rótgrónum hugsunarhætti þjóðfélagsþegnanna. Þetta merkir að lögin sjálf – hin gömlu góðu lög – bundu hendur löggjafans áþekkt sáttmála og voru þannig hemill valdbeitingar.(3)
Í þessu liggja rætur hugmynda miðaldamanna um lögbundna stjórn sem meðal annars er lýst í orðatiltækinu með lögum skal land byggja. Sú aðferð að rétta lögin leysti þó ekki allan vanda. Á sumum sviðum þurfti að setja nýjar réttarreglur. Þess vegna var einnig sá kostur fyrir hendi að gera svokölluð nýmæli, en gengið að því gefnu hvað þau varðar að enginn væri bundinn af öðru en hann samþykkti sjálfur. Ef ekki náðist samstaða þurfti að miðla málum.
Í samræmi við þetta urðu nýmæli bindandi fyrir sammæli manna fremur en valdboð. Sú afstaða hefur stuðlað að því að einn valdahópur hefur temprað annan og reglur mótast af nokkurri málamiðlan. Þótt þetta væru einkum leikreglur hinna máttarmeiri hafa þær styrkt þá almennu lífsskoðun að vald væri takmarkað og hún væri almúga nokkur vörn gegn ofríki.(4)
Ef ekki tókst að miðla málum neyddust menn til að segja sig úr lögum hver við annan. Menn reyndu að forðast það eins og heitan eldinn því að það var eins og gefur að skilja álitið mjög slæmt, samanber eftifarandi orð sem Ari fróði hefur eftir Þorgeiri Ljósvetningargoða: „Það mun verða satt, er vér slítum í sundur lögin, að vér munum slíta og friðinn.“

Áhrif ritlistarinnar

Þau rök hafa verið færð gegn venjurétti að hann feli ekki í sér ráð til að leiðrétta eða lagfæra óskynsamlegar reglur sjálfkrafa, en margir fræðimenn sem rannsakað hafa venjuréttinn hafa komið með skynsamleg mótrök:
Þeir benda á, að heildarkostnaðurinn af óhagkvæmri reglu, sem venjuréttardómari setur með úrskurði í máli, er meiri en heildarávinningur. (Það er skilgreiningaratriði um óhagkvæma reglu.) Reglan kostar fólk í sömu aðstöðu og sá, sem tapar málinu, því meira er nemur ávinningnum fyrir fólk í sömu aðstöðu og sá, sem vinnur málið. Þetta merkir, að þeir, sem tapa á reglunni, hljóta að finna hjá sér hvöt til að fá henni breytt. Óhagkvæm regla verður því vefengd oftar, skotið oftar til dómstóla, en hagkvæm. Bandaríski hagfræðingurinn Harold Demetz ritar: „Eftirspurnin eftir því að vefengja úrskurð eykst, ef fyrri úrskurðir hafa haft í för með sér minni farsæld neytenda.“ Því er um að ræða neikvætt afturkast (e. negative feedback) á óhakvæma úrskurði. Þetta má orða svo, að hagkvæmar lagareglur séu líklegri til þess en óhagkvæmar að standast það próf, sem felst í málarekstri fyrir dómstólum.(5)
Áður en ritlistin barst til Íslands og menn fóru að skrá lögin niður hafði venjuréttur þjóðveldisins einmitt þá eiginleika að hagkvæmar reglur gátu leyst óhagkvæmar af hólmi. Þegar lögin voru óskráð var nefnilega hægt að hafa stjórn á varðveislu laganna með lagauppsögu lögsögumanns.

Eftir að ritlistin barst til landsins og menn tóku að skrá lögin, sem gerðist fyrst árið 1117, tóku menn þá ákvörðun að það skyldu vera gildandi lög sem á skrám standi og lagaskrár urðu í reynd æðsta réttarheimildin. Þessi ákvörðun var eins og rýtingsstunga í mikilvægt líffæri í „líkama“ þjóðveldisins, því að lagahugtak þess og venjurétturinn voru mikilvægir þættir þjóðveldisins.

Menn vissu ekki í hvern fótinn þeir áttu að stíga. Venjurétturinn gat ekki dafnað því að lögrétta (dómarar) átti mjög óhægt um vik að breyta því sem á skrám stóð, en um leið voru menn háðir fornum og rótgrónum hugmyndum um lög og voru ekki tilbúnir að viðurkenna virkara og margvíslegra lagasetningarvald, sem hefði þó verið nauðsynlegt fyrst að skráð lög voru æðsta réttarheimildin. Afleiðingin var sú að menn misstu tök á réttarþróuninni og þjóðfélagið gekk úr skorðum.

Þessi þróun mála var ekki óhjákæmileg. Hefðu menn viðurkennt heimild dómara til að þoka skráðum lögum vegna venju, meginreglu eða eðli máls er líklegt að lögin hefðu haldið sveigjanleika sínum og venjuréttur þjóðveldisins hefði þá ekki glatað þeim mikilvæga eiginleika að lagfæra óskynsamlegar reglur.

Valdajafnvægi

Valdajafnvægi milli goða var mikilvæg forsenda þess að goðaveldisskipulagið gengi upp. Menn gerðu sér grein fyrir þessari forsendu og þess vegna lögðu menn áherslu á að viðhalda jafnvæginu. Það tókst vel í tæp 200 ár, en árið 1096 var lögtekinn skattur sem kallaðist tíund og átti eftir að hafa afdrifarík áhrif. Tíundin var 1% eignarskattur og skiptist í fernt. Fjórðungur hennar rann til framfærslu fátækra í hverjum hreppi, fjórðungur til biskupsstaða, fjórðungur til kirkna og fjórðungur til presta. Helmingur tíundarinnar rann því til þeirra goða sem sáu um kirkjur, auk þess sem kirkjugoðar þurftu ekki að greina skattinn, og varð hún þannig „grundvöllur efnahagsójafnaðar“(6). Skatturinn hlaut að eyðileggja þjóðveldið; hann var eitur í „líkama“ þess og aðeins tímaspursmál hvenær það liði undir lok.

Áhrif tíundar (7)

Þegar tíundin var tekin upp mynduðu íslenskir kirkjugoðar með biskup í fararbroddi nýjan tekjustofn fyrir sig. Tíundin var nýr tekjustofn og um hann varð harðvítug keppni, en við þá keppni raskaðist jafnvægið milli einstakra goða og vísir myndaðist að raunverulegu ríkisvaldi. Í hagfræðinni kallast keppni af þessu tagi keppni að aðstöðuhagnaði.
Munurinn á henni og frjálsri samkeppni á markaði, er að ekki er keppt að gróða með því að bjóða fram betri eða ódýrari þjónustu en keppinautarnir, heldur er tími, fyrirhöfn og fjármunir notaðir til þess að útvega sér sérréttindi eða aðstöðu á kostnað annarra. Þetta leiðir til þess, að í keppni að aðstöðuhagnaði skapast engin verðmæti, eins og gerist í frjálsri samkeppni á markaði. Öðru nær. Þar er verðmætum beinlínis sóað.(8)
Héraðsríki myndast

Goðorðin urðu mikils virði og mjög hörð barátta hófst um þau. Smám saman söfnuðust þau á fárra manna hendur í byrjun þrettándu aldar voru öll goðorð í landinu komin í eigu örfárra ætta og afmörkuðust landfræðilega. Eins konar héraðsríki mynduðust og goðaveldisfyrirkomulagið var orðið óvirkt.

Yfirmenn héraðsríkjanna höfðu mun meira vald en goðarnir höfðu áður haft og samband þeirra við þingmenn líktist meir sambandi yfirvalds og þegna en sambandi goða og þingmanna, enda voru þeir yfirleitt kallaðir höfðingjar fremur en goðar. Um 1220 skiptist nánast allt landið milli 10 eða 12 héraðsríkja og fram til 1262 var Ísland lauslegt samband þeirra þar sem sameiginleg yfirstjórn var varla til.

Það má segja að þjóðveldið í þrengri merkingu hafi liðið undir lok á þessum tíma eða alla vegana „legið banaleguna“. Í raun er það önnur spurning hvers vegna Íslendingar gerðust þegnar Noregskonungs árið 1262.

Innanlandsófriður

Eftir að héraðsríkin voru orðin allsráðandi leið ekki á löngu þar til þau fóru að berjast sín á milli um forræði yfir landinu öllu. Höfðingjar börðust um völd og hlýddu hvorki lögum né réðu þeim. Með héraðsríkjunum var komið fram mun öflugra valdatæki en verið hafði og höfðingjarnir gátu nú safnað stórum herjum til að koma málum sínum fram með illu ef það tókst ekki með góðu.
Kostum hins upphaflega fámennisveldis var glatað. [. . .] [H]öfðingjar [hættu] að vera forystumenn og verndarar þingmanna sinna, fóru að ráða landsvæðum, svo að rétturinn að kjósa um goða varð að hégóma. Nú var farið að leggja skatta á bændur, þegar það varð um seinan til að varðveita jöfnuð hinna fornu goðorða. Alþýða manna var hrakin og þjáð, er stórbokkarnir áttust illt við. Hún varð leið á höfðingjaskiptum, ófús og ótrygg til fylgis við aðkomumenn, trúnaðarsamband goða og þingmannasveitar var rofið. Valdabraskararnir sjálfir voru venjulega lánlitlir og gengi þeirra skammvinnt.(9)
Í innanlandsófriðnum gekk á ýmsu, þúsundir bænda týndu lífinu eða hlutu örkuml og sú stund kom að bændastéttin missti þolinmæðina og vildi ekki una ástandinu lengur. Þeir voru raunar orðnir svo langþreyttir á átökum innlendra höfðingja að á ráðstefnum sumarið 1255 höfðu þeir við orð, að best væri að hafa enga höfðingja yfir sér.

„Banalega þjóðveldisins“ var sársaukafull fyrir þjóðina og það var ljóst að eitthvað þyrfti að gera. Útilokað var talið að endurvekja hið gamla skipulag og margir töldu lausnina fólgna í að sameina landið undir eitt vald.

Hákon gamli

Hákon gamli var valdamesti konungur Noregs frá upphafi. „Hann hafði eftir 1240 alla landshluta og allan landslýð jafnt á valdi sínu, höfðingjana, sem voru orðnir þjálir viðskiptis, alþýðuna, sem var friðnum fegin, og klerkana, sem nutu skjóls konungsvaldsins“(10). Hákon var metnaðarfullur og vildi innlima Ísland í veldi sitt. Hann vissi „upp á hár hvað hann vildi heimta af Íslendingum, sótti mál sitt með vinmælum og fögrum heitum, vélum, hótunum og harðfylgi“(11).

Andspænis þessum konungi, sem vissi hvað hann vildi og stefndi að ákveðnu marki, var sundruð þjóð. Íslendingar gerðu sér ekki fullkomlega grein fyrir hvar þeir voru á vegi staddir með stjórnarfar sitt, en eins og áður sagði töldu margir það affarasælast að sameina landið undir einni stjórn til að binda endi á ófriðinn. Þjóðin sem í fyrndinni yfirgaf sitt gamla land meðal annars vegna þess að hún vildi vera frjáls undan konungsvaldi var nú farin vegna ráðaleysis síns og áróðurs Noregskonungs að líta á hann sem hugsanlegan bjargvætt sinn.
Á meðan hún var bæði sundruð og höfuðlaus, enginn höfðingi gættur viti, vilja og mætti að steypa heild úr brotunum, hafði Hákon konungur tögl og hagldir að etja mönnum saman, gera alltaf út nýja flugumenn, norska og íslenska, lærða og leika, til þess að halda óöldinni við og auka hana. Samtímis klifaði hann og lét klifa á því, að friður kæmist ekki á, fyrr en einn réði mestu – með fulltingi sínu. Þeir Íslendingar, sem skýrasta grein gerðu sér fyrir rökum þess, er að var hafzt um 1262, játuðu skattgjaldinu í von um, að þeir væru að kaupa frið – sér og niðjum sínum.(12)
Siglingar og verslun (13)

Meðal mikilvægra „vopna“ sem Noregskonungur gat notað gegn Íslendingum var stjórn hans á siglingum norskra skipa til landsins og verslun. Íslendingur litu svo á að þeir væru Norðmenn háðir um aðflutninga nauðsynja og töldu Noregskonung geta bannað kaupferðir til landsins ef honum þóknaðist.
Annaðhvort hefðu Íslendingar þurft að taka verzlunina í sínar hendur, svo að við mætti hlíta, eða fá aðrar þjóðir en Norðmenn til þess að hefja hingað siglingar. Fyrri kostinum voru þeir orðnir nær afhuga. Olli því vafalaust mjög timburleysið í landinu. Þeir kunnu ekki að smíða skip, og á tímabilinu 1200-1264 er enginn Íslendingur nefndur, sem færi kaupferðir á eigin skipi. Síðari kosturinn var þeim vankvæðum bundinn á 13. öld að útflutningsvörurnar voru sniðnar eftir markaði í Noregi. Meðal þeirra gætti enn lítt skreiðarinnar, sem beindi síðar athygli Hansakaupmanna og Englendinga að Íslandsverzluninni. Af íslenzkum höfðingjum var ekki að vænta, að þeir hefðu þá verzlunarþekkingu og þau tök á að breyta atvinnuháttum þjóðarinnar, sem þurft hefði til þess að ryðja nýjar brautir í viðskiptum. Og líklegt er, að verzlun Þjóðverja eða Englendinga hefði að lokum leitt af sér undirokun hins varnarlausa lands og hún varla orðið léttbærari en yfirráð Noregskonunga.
Kirkjan (14)

Íslenska kirkjan var hluti hinnar alþjóðlegu kaþólsku kirkju og íslensku biskupsstólarnir lutu erkibiskupnum í Niðarósi frá miðri 12. öld. Hákon gamli beitti kirkjuvaldinu til að hafa áhrif á íslensk stjórnmál, með ljúfu samþykki erkibiskupsins í Niðarósi, enda var gott á milli konungs og biskups á þeim tíma.

Árið 999 eða 1000 var kristni lögtekin á Alþingi að undangengnu um 20 ára kristniboðsstarfi. Fyrstu áratugi eftir kristnitöku dvöldu á Íslandi erlendir farandbiskupar en árið 1056 var fyrsti íslenski biskupinn, Ísleifur Gissurarson, vígður. Árið 1106 var Íslandi síðan skipt í Skálholts- og Hólabiskupsdæmi og varð Jón Ögmundsson fyrsti Hólabiskup. Frá árinu 1238 og fram undir lok þjóðveldis sátu norskir biskupar á báðum íslensku biskupsstólunum. Sumir þeirra stóðu í nánu sambandi við Hákon konung.

Tök kirkjunnar á þjóðinni voru sterk. Í fyrsta lagi gátu biskupar bannfært höfðingja og þá var allt samneyti við þá bannað. Í öðru lagi réð erkibiskup vígslu íslenskra biskupa og þeir réðu síðan vígslu presta og kirkna. Þess vegna gat erkibiskup sett biskupsefnum kosti og biskupar landsmönnum. Bréf sem bannaði að vígja goða til presta gróf undan undirstöðu hinnar þjóðlegu kirkjuskipunar og færði vald út úr landinu til Niðarósar.
Undir eins og erkibiskup gerði sig líklegan til þess að styðja mál konungs og þeir fóru að stefna Íslendingum utan í samráði hvor við annan, áttu landsmenn um tvo kosti að velja til varnar, annaðhvort að fá samþykki páfa til þess að setja erkistól á Íslandi eða til hins, að íslenzka kirkjan mætti hverfa undir annan erkistól. Líklega hefði Ísland þótt of fátækt og fámennt til þess að bera erkistól, því að undir hann var ekki hægt að leggja önnur lönd en Grænland. Og óvíst er, að minni hætta hefði stafað af því, þegar stundir liðu fram, að danskur, þýzkur eða brezkur erkibiskup hefði ráðið íslenzku kirkjunni.(15)
Íslenskir handgengnir menn (16)

Önnur leið Noregskonungs til áhrifa á Íslandi var í gegnum íslenska hirðmenn sína. Frá fornu fari hafði verið algengt að íslenskir menn væru handgengnir Noregskonungi og þegar konungur girntist landið var honum mikil stoð að því að eiga hirðmenn meðal íslenskra höfðingja. Þeir voru bundnir trúnaðareiðum við konung og háðir hirðlögum. Konungur gat stefnt þeim til sín og bannað þeim að fara aftur til Íslands. Einnig lögðu handgengnir menn oft mál sín í dóm konungs, eins og Gissur Þorvaldsson og Þórður kakali gerðu árið 1246, og þá gat konungur hagað dómi sínum þannig að best þjónaði hagsmunum hans sjálfs varðandi Ísland.
Þegar hirðmenn konungs höfðu mannaforráð á Íslandi gat ekki hjá því farið að konungur eignaðist fyrr eða síðar eitthvað af þeim sjálfur. Fyrst mun hann hafa komist yfir mannaforráð Snorra Sturlusonar. Hann lét drepa Snorra fyrir landráð og taldi sér síðan allar eignir hans, meðal annars goðorðin. Smám saman fékk konungur eignarhald á fleiri mannaforráðum hér og fékk þau íslenskum hirðmönnum sínum til stjórnar í umboði sínu. Þannig var konungur orðinn stórveldi í íslenskum stjórnmálum, áður en Íslendingar játuðust undir konungsvald hans.(17)
Norskir hirðmenn

Ennfremur hafði Noregskonungur áhrif hér á landi með því að senda hingað norska hirðmenn sína, en til þess greip konungur þó ekki lengi vel.
Fyrsti Norðmaðurinn sem konungur sendi hingað beinlínis í því skyni að reka erindi sitt var Ívar Englason sem kom hingað árið 1255 og fékk Norðlendinga til að játa konungi skatt árið eftir. Seinna varð það svo norskur hirðmaður, Hallvarður gullskór, sem rak smiðshöggið á innlimun Íslands í norska konungsveldið.(18)
Gamli sáttmáli

Svo fór að árið 1262 gerðu Íslendingar undir forystu Gissurar Þorvaldssonar sáttmála við Noregskonung, þar sem þeir játuðu honum skatt, land og þegna, en í staðinn skyldi konungur láta þá ná friði og íslenskum lögum og sjá um að minnst sex skip gengu frá Noregi til Íslands árlega.

Eins og áður segir beitti Hákon gamli ýmsum brögðum til að ná yfirráðum yfir Íslandi og vafalaust hefur hann verið ánægður þegar hann tryggði sér þau.. Hins vegar eru yfirráð hans bundin ýmsum skilyrðum og sáttmálinn er um margt ásættanlegur fyrir Íslendinga miðað við aðstæður.

Bændur töldu friðvænlegt að sameina landið undir eitt vald og hafa ber í huga að ef til vill vildu bændur frekar sverja fjarlægum konungi hollustu en nálægum höfðingjum, því að „útlendir höfðingjar voru þeim jafnan fjarri og vönduðu lítt um siðu manna“, eins og Snorri Sturluson orðaði það í Ólafs sögu helga. Íslendingar endursömdu sáttmálann síðan í ljósi fenginnar reynslu og skömmtuðu konungi mjög knappan rétt út miðaldir vegna þess að að hann gat ekki efnt fyllilega loforð sín um löggæslu og siglingar fyrr en á 16. öld.

Það sameiginlega yfirvald sem komst á var hið norska konungsvald, en ýmsir höfðingjar virðast hafa stefnt að því að landið yrði sjálfstætt jarlsdæmi í lauslegum tengslum við Noreg. Reynt var að koma til móts við slík sjónarmið með hinu skammlífa jarlsdæmi Gissurar Þorvaldssonar, sem lauk með dauða hans árið 1268.

Gamli sáttmáli markar lok þjóðveldisaldar, en á 19. öld öðlaðist sáttmálinn nýtt gildi þegar hann varð einn af hornsteinunum í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga, sem endaði með fullveldi landsins árið 1918 og sjálfstæði árið 1944.(19)

Þjóðarvitund

Hákon gamli neyddi aldrei Íslendinga beinlínis til að játast undir yfirráð sín. Ástæða þess kann að vera sú að hann hafi ekki haft tök á því og því leitast við að vinna landið með hernaði Íslendinga sjálfra sín í millum. Noregur var ekki ríkt land, heilt úthaf var á milli landanna, Ísland var strjálbýlt og af þessum sökum hefði verið erfitt að halda saman herflokkum til lengdar á Íslandi vegna vistarfanga. Munur á fólksfjölda á milli landanna var einnig mun minni en í dag, Norðmenn voru um það bil 300 þúsund, en Íslendingar 50-70 þúsund.

Sumir sagnfræðingar hafa undrast af hverju óbeinar aðgerðir hans hafi dugað til að fá Íslendinga til að játast undir yfirráð hans án þess að hann hafi þurft beinlínis að grípa til aðgerða sem neyddu Íslendinga til að játast undir yfirráð hans. Þrátt fyrir að síðari tíma menn skilji vel viðleitni manna til að koma á friði hafa sumir hneykslast á því hve lítt Íslendingar virðast hafa metið þjóðfrelsið á 13. öld.

Sigurður Líndal hefur hins vegar bent á það að þegar Íslendingar sömdu við Noregskonung árið 1262 hafi þeir ekki verið að semja sem ein sjálfstæð þjóð, heldur sem margir sjálfstæðir einstaklingar. Þjóðin hafi því ekki verið að afsala sér fullveldi í hendur Noregskonungi, því að hvorugt hafi verið til, þjóðin eða fullveldið.

Andstaða sumra Íslendinga gegn Gamla sáttmála og yfirráðum Noregskonungs stafaði samkvæmt kenningu Sigurðar aðallega af ótta við nýjar álögur. Skattskylda var ekki aðeins óvinsæl vegna fjárútláta, heldur litu germanskar þjóðir á hana sem tákn um ófrelsi einstaklinga.

Niðurstaða

Íslenska þjóðveldisskipulagið var viðkvæmt skipulag því að í því var ekkert miðstýrt framkvæmdavald og framkvæmdavald goðanna var veikt. Af þeim sökum má líkja þjóðveldinu við dýr sem deyr út vegna þess að það getur ekki varist árásum eða aðlagað sig breyttum aðstæðum. En það eitt að það var viðkvæmt var vitaskuld ekki ástæða þess að það leið undir lok, þó að það hafi vissulega skipt sköpum.

Eftir að goðaveldið hafði riðlast varð upplausn í samfélaginu og valdabarátta, sem Noregskonungur nýtti sér til að ná yfirráðum. Innanlandsófriðurinn sem ríkti hér á landi var ekki ástæðan fyrir falli þjóðveldisins, heldur afleiðing af falli þess. Íslendingar féllust á yfirráð Noregskonungs aðallega vegna þeirrar trúar að hann gæti komið á friði. Á hinn bóginn er það ekkert launungarmál að norska konungsvaldið var mun sterkara stjórnmálaafl en íslenska þjóðveldið og ásælni konungs og undirhyggja höfðu áhrif á að það féll. Við upphaflega skipun þjóðveldisins var gengið að því vísu að einangrunin tryggði það fyrir erlendri ásælni. Vitsmunir Íslendinga beindust aldrei að ráðagerðum um utanríkismál, hvernig þjóðveldið ætti að bregðast sem eitt ríki við öðrum ríkjum.

Endalok þjóðveldisins átti sér tvær megin rætur. Í fyrsta lagi rýtingsstungan, sem fólst í þeirri reglu að það væru lög sem á skrám stæði – og olli riðlun venjuréttar. Í öðru lagi eiturtakan, sem fólst í upptöku tíundarskattsins – og olli riðlun valdajafnvægis. Eins og áður hefur komið fram er vafi á því hvort þjóðveldið hafi verið „með lífsmarki“ þegar Noregskonungur hjó á háls þess með hjálp Gissurar jarls og samþykki Íslendinga. Ef til vill hafði konungur illan ásetning þegar hann gerði Gamla sáttmála og talið sig vera að fremja kaldrifjað „morð“ á þjóðveldinu. En í huga Gissurar og annarra Íslendinga var hins vegar sennilega ekki um „morð“ að ræða, heldur „líknardauða“ þess eftir erfiða „banalegu“ – og loforð um ríkulegan arf frá böðlinum, Noregskonungi.

Þjóðveldisskipulagið var úrelt í huga margra samtímamanna skipulagsins og það ætti í raun enginn að undrast fall þess. Straumur tímans lá einfaldlega allur í átt til aukins ríkisvalds og miðstýringar.

Var þjóðveldið gott skipulag?

Íslenska þjóðveldið er dæmi um lög án ríkis og að sjálfsögðu er endalaust hægt að þræta um gæði þjóðveldisskipulagsins, þó fullyrða megi að það sé gott í augum þeirra sem óbeit hafa á ríkisvaldi og miðstýringu. Venjurétturinn, sem blómstrar í þjóðfélagsskipulagi eins og íslenska þjóðveldinu, er einnig líklegri en settur réttur til að vernda einstaklingsfrelsið.
Þau mál, sem lögð eru fyrir dómstóla og skorið úr með tilvísun til venju eða fordæmis, snúast jafnan um árekstur tveggja eða fleiri einstaklinga. Reglur venjuréttarins myndast til að leysa úr málum, þar sem athafnir eins manns hafa óæskilegar afleiðingar fyrir annan, að því er sá telur. Slík lög verða til af ákveðnu tilefni og af frumkvæði einstaklinga úti í þjóðfélaginu, þegar þeir halda, að gildandi lög skeri ekki á fullnægjandi hátt úr ágreiningsmálum þeirra. Slík lög eru sett í því skyni að bregðast við aðkallandi og afmörkuðum vanda, ekki til þess að fella allt þjóðlífið í hugmyndafræðilegar skorður.(20)
Hins vegar er óumdeilt, óháð öllum stjórnmálaskoðunum, að skipulagið er áhugavert frá sjónarhóli stjórnmálaheimspekinnar og var einstakt í heiminum öfugt við höfðingjaveldið sem við tók.

Einnig er vert að nefna nokkra kosti sem allir geta verið sammála um að venjuréttur hafi umfram settan rétt. Settur réttur virðist áreiðanlegri, þar sem ganga má að einstökum lögum skjalfestum og enginn þarf að fara í grafgötur hver lögin eru. En málið er ekki svo einfalt.
Í fyrsta lagi geta ýmsir smíðagallar verið á hinum settu lögum, eins og Lon Fuller bendir á, svo að þau eru ekki áreiðanleg eða skýr. En í annan stað, og það sem skiptir mestu máli í þessu viðfangi, myndast settur réttur ekki smám saman við tilraunir dómara til að leysa úr árekstrum einstaklinga með því að finna almennar reglur, heldur verður hann til í samningum ýmissa hagsmunahópa á löggjafarþingum nútímans: „Við kjósum með ykkur í þessu máli, ef þið kjósið með okkur í hinu“.(21)
Reglur setts réttar eru áreiðanlegar, þegar til skamms tíma er litið, þar sem þær eru skjalfestar og flestar sæmilega skýrar. Reglur venjuréttarins eru hins vegar áreiðanlegri, þegar til lengri tíma er litið, því að þær breytast hægar og auðveldara er að að spá fyrir um hverjar þær verða eftir nokkur ár.

Venjuréttur felur einnig í sér meiri hagnýta þekkingu en settur réttur. Það skiptir ekki máli hve duglegir þingmenn eru að safna upplýsingum um síbreytilegar aðstæður í þjóðfélaginu. Þeir geta aldrei safnað nógu mikilli þekkingu til þess að geta fundið þær reglur sem eru heppilegastar til að auðvelda gagnkvæma aðlögun margra ólíkra einstaklinga. Venjuréttur geymir hins vegar í sér reynslu miklu fleiri einstaklinga en þingmenn geta náð til, með því að „myndast við aðferð happa og glappa, óteljandi tilraunir fólks til að laga sig að síbreytilegum aðstæðum“. Þessi rök fyrir venjuréttinum eru í samræmi við það sem Kató hinn gamli brýndi fyrir Rómverjum:
Ríki vort er á hinn bóginn ekki sköpunarverk neins eins manns, heldur margra. Það er ekki stofnað á einni mannsævi, heldur hefur það vaxið upp og þróast á mörgum mannsöldrum. [. . .] Það hefur aldrei verið uppi sá snillingur, að hann hafi séð allt fyrir. Jafnvel þótt vér gætum safnað allri þekkingu saman í huga eins manns, væri honum ókleift að sjá við öllu, því að hann hefði ekki þá hagnýtu kunnáttu til að bera, sem myndast smám saman við reynslu manna í langri sögu.(22)
Að lokum ber að minnast á það að lagahugtak hins setta réttar er valdboð óháð siðareglum, skynsemi, réttlæti og hagkvæmni, öfugt við venjuréttinn, sem hefur að geyma reynsluvit kynslóðanna og er hreinlega ofinn úr siðareglum, skynsemi, réttlæti og hagkvæmni fyrir langa þróun. Nátengt þessu er að venjurétturinn takmarkast af sjálfum sér, eins og áður segir, en sá annmarki er á hinum setta rétti að hann gerir það ekki.

Lokaorð

Íslenska goðaveldið stóð óslitið í um það bil tvö hundruð ár og þjóðveldisöldin í rúm þrjú hundruð ár. Það er langur tími í stjórnmálasögunni og til samanburðar má nefna að líftími Sovétríkjana var aðeins um það bil 70 ár.

Þjóðveldisöldin á Íslandi var mikið menningarlegt blómaskeið. Þá voru skapaðar bókmenntir sem teljast til mestu listaverka mannsandans og eru lesnar um allan heim. Vegna þeirra mun sagan aldrei gleyma þeim 50-70 þúsund manna hópi sem byggði landið á þjóðveldisöld.

Hver þjóð á sína gullöld. Gullöld Grikkja var á 5. öld fyrir Krist, gullöld Frakka var á 17. öld, gullöld Dana var á fyrri helmingi 19. aldar, gullöld Norðmanna var á síðari helmingi 19. aldar, en þjóðveldisöldin var gullöld Íslendinga. Í því ljósi ætti hver Íslendingur að skilja trega Sigurðar Nordals þegar hann lætur eftirfarandi orð falla:
Auðvitað gátu Íslendingar ekki um 1260 séð fyrir, hversu miklar afleiðingar og illar friðkaupin við Hákon gamla mundu hafa á næstu öldum. En þau voru eigi að síður frá sjónarhorni samtímans ósamboðin þjóð, sem var frá fornu fari stórlát og harðfeng og hafði lengi búið að fullu sjálfstæði og merkilegri menningu. Talið er, að á tímabilinu frá 1208-1260 hafi um 350 menn fallið í bardögum eða verið teknir af lífi á Íslandi. Ófriðurinn var ekki mannskæðari en svo. Að vísu urðu menn fyrir ýmsum ófarnaði af honum, limlestingum, sárum, misþyrmingum, ránum, erfiði og kostnaði, og framar öllu hefur þeim verið leið óvissan um, hvað einatt gæti borið að höndum. En þungar voru þessar hörmungar ekki í samanburði við það, sem margar þjóðir fyrr og síðar hafa verið fúsar til að þola til varnar sjálfsforræði sínu. Sé þess gætt, að talsverðar róstur mundu hafa verið í landinu án tilverknaðar konungs, engum hinum hörðustu ráðum hafði verið beitt, hernaði á landið eða farbönnum af hálfu konungs né bannlýsingu landsins af kirkjunnar hálfu, – verður ekki með sanni sagt, að Íslendingar hafi verið dýrseldir á frelsið. Sigraðri þjóð væri ekki láandi, þótt hún hefði orðið að sætta sig við jafnlélega kosti sem að fela friðgæzluna því valdi, sem undanfarna áratugi hafði haft úti allar klær til að spilla friðnum. En Íslendingum hefði verið vorkunnarlaust að þrauka enn um skeið og láta skeika að sköpuðu, hvort þeir gætu ekki staðið af sér harðara él, ef yfir skylli.(23)
Í hugleiðingum sínum um þjóðveldið segir Sigurður einnig:
Líklega farnast hverjum manni svo best, að hann telji sig gæfumann og eina af brýnustu skyldum að una hlutskipti sínu, landi, þjóð og samtíð, þótt hann reyni að bæta um það allt.(24)
Við erum ekki uppi á þjóðveldisöld, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Þó að Íslendingum hafi tekist að lifa og starfa án ríkisvalds, meðal annars vegna þess að óveruleg hætta var á innrás í landið, er ekki víst að nútíma Íslendingar geti sinnt réttarvörslu án ríkisvalds og í raun mjög ólíklegt. Ríkið er staðreynd, sem við verðum að una, þótt við reynum að bæta það og takmarka vald þess til að ráðskast með borgarana.

Gæfan var ekki hliðholl þjóðinni eftir lok þjóðveldisaldar. Þegar að Íslendingar endurheimtu fullveldi sitt og sjálfstæði sköpuðust skilyrði fyrir endurreisn og gæfan gekk í lið með þeim á ný eftir að frjálslyndum stjórnmálaviðhorfum óx ásmegin á síðasta áratug tuttugustu aldar. Íslendingar eru um þessar mundir komnir í allra fremstu röð meðal þjóða heims og framtíðin er björt ef vel er haldið á spilunum. Ný gullöld er hafin.

Neðanmálsgreinar

(1) Sigurður Líndal: Lög og lagasetning í íslenzka þjóðveldinu, bls. 149
(2) Hannes H. Gissurarson: Stjórnmálaheimspeki, bls. 93
(3) Sigurður Líndal: Lög og lagasetning í íslenzka þjóðveldinu, bls. 150
(4) Sigurður Líndal: Lög og lagasetning í íslenska þjóðveldinu, bls. 150
(5) Hannes H. Gissurarson: Stjórnmálaheimspeki, bls. 105
(6) Íslenska alfræðiorðabókin H-O, bls. 170
(7) Kenningin um áhrif tíundar er aðallega sótt úr doktorsritgerð Birgis Þ. Runólfssonar, hagfræðings: „Institutional Evolution in the Icelandic Commonwealth“.
(8) Hannes H. Gissurarson: Hádegisverðurinn er aldrei ókeypis, bls. 362-363.
(9) Sigurður Nordal: Íslensk menning, bls. 340
(10) Sigurður Nordal: Íslensk menning, bls. 336-337
(11) Sigurður Nordal: Íslensk menning, bls. 337
(12) Sigurður Nordal: Íslensk menning, bls. 340
(13) Stuðst við kafla eftir Gunnar Karlsson í Sögu Íslands II
(14) Stuðst er við kafla eftir Gunnar Karlsson í Sögu Íslands II
(15) Sigurður Nordal: Íslensk menning, bls. 338
(16) Stuðst er við kafla eftir Gunnar Karlsson í Sögu Íslands II
(17) Gunnar Karlsson: Saga Íslands II, bls. 51
(18) Gunnar Karlsson: Saga Íslands II, bls. 51-52
(19) Björn Þorsteinsson og Sigurður Líndal: Saga Íslands III, bls. 39
(20) Hannes H. Gissurarson: Stjórnmálaheimspeki, bls. 97
(21) Hannes H. Gissurarson: Stjórnmálaheimspeki, bls. 100
(22) Hannes H. Gissurarson: Stjórnmálaheimspeki, bls. 102
(23) Sigurður Nordal: Íslensk menning, bls. 340-341
(24) Sigurður Nordal: Íslensk menning í Fornum menntum I, bls. 173-174

Heimildaskrá

Birgir Þór Runólfsson. 1993. „Institutional Evolution in the Icelandic Commonwealth“. Constitutionnal Political Economy.

Björn Þorsteinsson og Bergsteinn Jónsson. 1991. Íslands saga til okkar daga. Sögufélag, Reykjavík.

Björn Þorsteinsson og Sigurður Líndal. 1978. Saga Íslands III. Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík.

Gunnar Karlsson. 1975. Saga Íslands II. Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík.

Hannes H. Gissurarson. 1997. Hádegisverðurinn er aldrei ókeypis. Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík.

Hannes H. Gissurarson. 1999. Stjórnmálaheimspeki. Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík.

Íslenska alfræðiorðabókin H-O. 1990. „Ísland“. Örn og Örlygur, Reykjavík.

Sigurður Líndal. 1984. „Lög og lagasetning í íslenska þjóðveldinu.“ Skírnir. Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík.

Sigurður Nordal. 1942. Íslensk menning. Mál og menning, Reykjavík.