laugardagur, október 16

Kristján Albertsson 2

H?fundurVið birtum nú annað brot úr bókinni Kristján Albertsson - Margs er að minnast.
-----
Ég átti ekki eftir að hitta Einar Benediktsson framar og þegar ég hugsa til þessara síðustu orða sem ég heyrði hann segja finnst mér að þau hefðu mátt verða hans andlátsorð. Hvað lá honum mest á hjarta þegar hann gamall maður spyr fornvin sinn Árna Pálsson í trúnaði og nærri barnslegri einlægni hvort hann hafi haft sóma af því sem hann hefur ort? Hann þurfti síst að bera kvíðboga fyrir dvínandi lofgjörð manna um kvæði sín en hefur aðeins fundið til óvissu um sinn eigin dóm, hvort verk sitt hefði lánast eins vel og hann hafði viljað. Sá efi hlaut að vera eðlilegur skáldi sem alltaf hafði gert ströngustu kröfur til listar sinnar í einu og öllu. Ég heyrði hann eitt sinn tala um nauðsyn skálda á kröfuhörku við sjálfa sig og segja:
„Fátt í skáldskap er nógu gott og ekkert getur nokkru sinni orðið of gott.“
Einar Benediktsson átti sér veröld ofan mannheimum þar sem hann var einn og vildi vera einn og varðaði ekki um neitt nema aðeins almáttugan Guð - og sjálfan sig. Veröld:
þar sem andinn rís í himinhvelfing,
hafinn yfir sorpsins smán og skelfing,
aleinn liðs, en eilífur og sterkur.
Hann er í þeirri veröld þegar hann yrkir í kvæði sínu Fjallaloft:
- Að lifa sér, að vera alls sá eini,
er ódauðlegi viljinn mikli hreini.
Ég veit, hvað er að fagna í fjallsins geim,
og finn þar leggja ilm af hverjum steini.
Sú dýpsta sjón, hún sýnist aldrei tveim. -
Ég sakna ekki neins um víðan heim.
Einar Benediktsson er mesta guðstrúarskáld á vorri öld. Ekkert annað skáld hefur ort af svo djúpri trúarvitund og lotningu fyrir guðdómi æðsta máttarvalds allífs og tilveru. Hann orti fátt sem kallast geti trúarljóð í venjulegum skilningi en trú hans er sem heitur undirstraumur í nær öllum af hans mestu ljóðum. Stundum nægja honum örfáar hendingar eða aðeins ein til að lyfta augliti sínu til Guðs. Þannig er fegusta bæn sem hann orti aðeins ein hending í löngu kvæði:
- Guð verndi list vors máls og Íslands heiður.
Hve hátt sé stefnt í óskadraumum æðstu stundar kemur hvergi fram með opinskárra móti en í þessum orðum í kvæði Einars Öldulíf:
Mín innsta hugsun, hún á ekkert mál,
en ósk og bæn, sem hverfur mér sjálfum, -
að senda hátt yfir heimsins sól
hljómkast af annarrar veraldar orðum,
- að standa upp fyrir alveldis stól,
þar eilífðar hirðin situr yfir borðum.
Stórlátari ósk hefur aldrei orðið til í brjósti íslensk skálds.
-----