miðvikudagur, október 13

Kristján Albertsson

H?fundurBókin Kristján Albertsson - Margs er að minnast kom út árið 1986. Bókin er byggð á samtali Jakobs Ásgeirssonar við Kristján Albertsson. Skýjaborgir hafa fengið leyfi höfundar til að birta nokkur brot úr bókinni og birtist það fyrsta núna (feitletrun er Skýjaborga).
-----
Stefán Jóh. Stefánsson var samtíða Kristjáni í skóla og á einum stað í endurminningum hans frá þeim árum segir svo: „Þar var og Kristján Albertsson, alltaf gagntekinn af bestu sögunni og fegursta kvæðinu, sem hann hafði þá nýlega lesið, en stundum líka af fegurstu stúlkunni, sem hann hafði þá hitt og séð. Hann var hlaðinn kynngi, djarfur og áhugasamur og ekki í vafa um það, hver væri köllun hans í lífinu, sem sé sú, að verða rithöfundur.“

- Það er víst nokkuð til í því sem minn gamli vinur og skólafélagi segir að ég hafi verið í meira lagi hrifgjarn á þessum árum. Ef við höldum okkur við „bestu sögurnar og fegustu kvæðin“ þá var ég víst ævinlega mjög uppnuminn af öllu sem mér fannst gott í bókmenntum. En eitt var að láta sig dreyma í ljúfum fögnuði eftir að hafa lesið til dæmis sumar sögur Björnsons og Jónasar Lie og annað að kynnast skáldskap sem sveif á hugann eins og vín svo að heimurinn varð allt annað en verið hafði, dögum og vikum saman. Þetta gerðist í fyrsta sinn þegar ég, rétt upp úr fermingu, las skáldsögur Hamsuns frá yngri árum, Mysterier, Pan og Viktoríu. Hvergi fannst mér ástin milli manns og konu verða að jafn undursamlegu lifandi magni eins og í þessum bókum.

Næsti útlendi höfundur sem ég fékk mikla ást á var Turgenjef sem ég las í danskri þýðingu. Mér hefur alla tíð fundist hann vera mestur formsnillingur hinna miklu rússnesku skáldsagnahöfunda og lýsing hans á sorgbitinni ást hans til þjóðar sinnar hafði djúp áhrif á mig.

Ég las auðvitað sum helstu leikrit Ibsens og Björnsons á skólaárum mínum en sérstaklega þótti mér vænt um þegar ég sá þau leikin. Sumar eftir sumar kom þá danskur leikflokkur til Íslands og lagði undir sig Iðnó í nokkrar vikur: sýndi ágætlega nokkur leikrit og varð af þessu mikil upplyfting fyrir borgarbúa.

Mér fannst náttúrlega mikið til um allar bestu Íslendingasögurnar og ekki hvað síst um sjálfa tunguna eða stílinn. Og alla tíð hef ég ekki þurft annað en að grípa niður í svo til hvaða sögu sem væri og lesa nokkrar blaðsíður til að finnast ég hafa orðið fyrir einhverju svipuðu og hressandi sundspretti í hæfilega köldu og undursamlega fersku vatni. Ég get ekki lesið fornar bókmenntir með svokallaðri nútímastafsetningu. Sú sem áður tíðkaðist, hin svokallaða normalíseraða stafsetning, varðveitir miklu betur forneskjulegan og tígulegan blæ málsins - og skiptir í því sambandi engu þótt ágætir danskir málvísindamenn hafi átt sinn þátt í að móta þá stafsetningu. Mér finnst „Þat mælti mín móðir“ vera fallegra en „Það mælti mín móðir“ og fara nær því sem ég held að verið hafi tungutak Egils Skallagrímssonar. Mér hefur aldrei getað fundist útgáfa fornbókmennta með nútímaréttritun vera annað en skemmdarverk - og að halda því fram að fyrri tíðar stafsetning á Íslendingasögum torveldi skilning á efni þeirra, einkum í augum æskunnar, er eins og hver önnur endemis fjarstæða sem ekki er eyðandi orðum að.

Loks er að nefna að á skólaárum mínum varð Einar Benediktsson auðvitað með því forvitnilegasta í íslenskum ljóðaskáldskap. Þó að kvæði hans ættu ekki jafn vel við smekk eldri kynslóðar held ég að æskan hafi talið hann öðrum fremur sitt skáld. Við vorum allir hugfangnir af hans stórfenglega og mergjaða málfari, hugarflugi og mannviti. Þorsteinn Erlingsson yrkir:
Það er líkt og ylur í
ómi sumra braga.
Mér finnst oft mikilfenglegri ómur í ljóðum Einars Benediktssonar en í nokkru öðru sem ort hefur verið á íslensku.

-----