þriðjudagur, október 12

List undir gróðurhúsaáhrifum - „We have a substance-abuse problem with carbon dioxide“

Kári TuliniusVeistu hvað Wexelblat-hamfarir eru? En óviljagarður?

Það kemur þér kannski ekkert á óvart að ég var að þýða þess hugtök úr ensku, Wexelblat-disaster og involuntary park, en þetta eru meðal þeirra hugtaka sem Viridian hreyfingin hefur búið til eða tekið upp á sína arma. Viridian hreyfingin er listastefna sem hefur örar breytingar í lofthjúp jarðar og önnur stórfelld áhrif mannsins á náttúruna sem frumforsendu sína.

Wexelblat-hamfarir eru nefndar eftir Alan Wexelblat, sem er sérfræðingur í samverkun náttúrunnar og manngerðrar tækni. Hamfarir þær sem hann skilgreindi fyrstur manna verða þegar öfgaveður setur eitthvert manngert kerfi úr jafnvægi þannig að stórslys hlýst af. Fellibylurinn Mitch fór yfir Tegucigalpa, höfuðborg Hondúras, í október 1998. Það í sjálfu sér olli miklum hamförum, en eru ekki Wexelblat-hamfarir í sjálfu sér. Hins vegar stíflaðist holræsakerfið sem varð þess valdandi að íbúar borgarinnar þurftu að vaða hland og saur sem flæddi upp úr holræsunum.

Mér kemur ekki til hugar neitt slíkt sem hefur gerst hér á landi. Vinur minn benti mér á að um seinustu eða þarseinustu áramót fylltust holræsi upp á Granda þannig að rotturnar sem þar lifðu flutu upp og æddu um göturnar og inn í hús og önnur lokuð svæði. En það myndi varla teljast miklar Wexelblat-hamfarir. Ef einhver lesandi getur sagt mér frá einhverju slíku þá er hægt að senda mér tölvupóst með því að smella á nafn mitt efst á síðunni. Ég man óljóst eftir einhverju sem gerðist í áburðarverksmiðjunni á Gufunesi á seinni hluta níunda áratugarins, en fann engar heimildir.

Óviljagarður er svæði þar sem lífríkið fær að vera í friði út af því að það er of mengað til að fólk geti lifað þar. Frægasti óviljagarðurinn er án efa Tsjernóbyl-svæðið. Þar býr ekki sála og engum er hleypt þar inn. Því hafa dýr og plöntur fjölgað sér og ýmsar dýrategundir sem eru í útrýmingarhættu annars staðar lifa þar góðu lífi. Frægastir eru Przewalski-hestakynið, sem talið er vera eina dæmið um hestakyn sem enn lítur út og hegðar sér eins og þeir hestar sem fyrst voru tamdir í árdaga. Fjölmörg önnur dæmi eru um slík svæði.

En hvað hefur þetta að gera með menningu? Nú, þessi hugtök hafa verið búin til og breidd út af hópi fólks sem kallar sig Viridians. Hreyfing þessi var stofnuð af rithöfundinum Bruce Sterling undir lok síðustu aldar. Hann skrifar vísindaskáldsögur og var einn af helstu hugmyndafræðingum cyberpönks. En árið 1998 flutti hann ræðu þar sem hann lýsti því yfir að hann ætlaði að hanna listhreyfingu.

Orðið viridian merkir ákveðið litbrigði af grænum lit. Ekki ætti því að koma neinum á óvart að hreyfingin er „græn” pólitískt. En hún er einnig fagurfræðilega græn. Ein af helstu stefnumiðum hennar er að list og hönnun sé umhverfisvæn, noti efnivið sem mengi ekki umhverfið og sé auðvelt að endurvinna. Eins og Bruce Sterling lýsti yfir í ræðunni 1998: „My art movement is about the Greenhouse Effect“. Varast skyldi þó að draga þá ályktun að Viridian hreyfingin sé hippahreyfing. Því fer fjærri lagi. Hið mystíska og andlega er ekki velkomið. Hið áþreifanlega og vísindalega er haft í hávegum. Það mætti slá því fram að þetta væri verkfræðileg listhreyfing.

Sterling svarar spurningunni hvernig Gróðurhúsaáhrifin séu fagurfræðilegt vandamál á eftirfarandi hátt: „Well, because it’s a severe breach of taste to bake and sweat half to death in your own trash, that’s why. To boil and roast the entire physical world just so you can pursue your cheap addiction to carbon dioxide. [...] What a cramp of our style. It’s all very foul and aesthetically regrettable.“

Fagurfræðihefð viridianisma má lýsa í hnotskurn með enska heitinu biomorphic, sem þýðir að eitthvað líkist lífverum eða gefur form og útlit þeirra í skyn. Sá listamaður sem Viridianar líta hvað mest upp til er Andy Goldsworthy sem býr til listaverk úr náttúrulegum efnum, stundum í galleríum, en oftast úti í náttúrunni sem hann síðan tekur myndir af. Viridiönsk list leitast þó við að sameina tækni náttúrunni eða öfugt. Hreyfingin er það ung að fá dæmi finnast enn um hreina Viridianska list. Hún leggur einmitt mikla áherslu á framtíðina og möguleika lista í framtíðinni. En þó eru ýmsir listamenn sem vinna á mjög svipuðum nótum. Helstan má nefna Eduardo Kac, sem frægastur er fyrir að hafa erfðabreytt kanínu svo hún glói græn.

En Viridian hreyfingin er enn ung að árum, sex ára gömul. Þó verður að minnast á það að Bruce Sterling hefur lýst yfir að henni verði hætt árið 2012. Búið, finis, kapút. Einn af hornsteinum Viridianismans er að allt hafi ákveðinn endapunkt. En þangað til mun hreyfingin starfa áfram.



Fyrri greinar eftir höfund
Af hverju ritmenning er ekki í hættu – amatör hagfræðiskýring