miðvikudagur, október 20

Hugleiðingar um heimildarmyndir

H?fundurÞessa dagana stendur yfir heimildar- myndahátíð í Háskóla- bíói. Einungis fjórar myndir eru á boð- stólnum, en hátíðin er síst síðri þótt myndir- nar séu ekki fleiri. Hin sívaxandi hátíðavæðing óháðra kvikmynda er oft til ama, því framboðið verður gjarnan óhóflega mikið miðað við þann litla tíma sem hátíðin stendur yfir. Venjulegt fólk hefur öðrum hnöppum að hneppa en að hanga í bíói mörg kvöld í röð, og því viðbúið að stundum geti maður ekki séð allar myndirnar sem mann langar til að sjá.

Myndirnar fjórar á hátíðinni höggva allar í sama knérunn, þær eru ádeila á spillingu, rotið siðferði og stofnanavæddan þankagang. Ég er búinn að sjá tvær þessara mynda: Bush’s Brain og The Corporation. Þótt umfjöllunarefni myndanna tveggja sé svipað eru efnistök og framsetningarmáti gerólík.

Bush’s Brain fjallar um mann að nafni Karl Rove sem er helsti ráðgjafi Bandaríkjaforseta. Rove hefur frá æsku verið þekktur fyrir rökfastan og sannfærandi málflutning. Hann drakk í sig stefnuskrá Repúblikanaflokksins með móðurmjólkinni og hengdi upp auglýsingaplaköt fyrir flokkinn í herberginu sínu sem unglingur, þegar jafnaldrar hans hengdu upp myndir af Hendrix og Eagles. Í myndinni eru leidd sterk rök að því að Rove sé meira en bara venjulegur ráðgjafi forsetans, hann sé beinlínis maðurinn sem stjórnar í gegnum forsetann, strengjameistarinn sem stýrir brúðunni.

Í Bush’s Brain eru tekin viðtöl við ýmsa fyrrum samstarfsmenn Roves og eru þeir flestir jakkafataklæddir bjúrókratar. Áhorfandanum til hægðarauka eru nöfn mannanna alltaf birt neðst á skjánum, jafnvel þótt viðmælandinn sé ekki að birtast í fyrsta sinn. Viðfangsefni myndarinnar er skýrt afmarkað og hún er ekki nema 80 mínútur að lengd. Myndin er byggð á samnefndri bók og er iðulega talað opinskátt um hana í myndinni. Tveir viðmælenda eru titlaðir sem höfundar bókarinnar (talandi um tilvísunargildi!). Afleiðingin verður sú að myndin stendur ekki nægilega traustum fótum sem sjálfstætt verk. Hún játar það fúslega að vera ekkert annað en kvikmyndaútgáfa af bókinni, og þótt ýmsar sjokkerandi staðreyndir séu tíundaðar í myndinni er framsetningarmátinn engan veginn nógu áhugaverður. Á hitt ber þó að líta að e.t.v. er þessi hófstilling með ráðum gerð. Yfirgengilegur og glannalegur stíll að hætti Michaels Moores höfðar svo sannarlega ekki til allra, og vera má að Bush’s Brain sé fyrst og fremst ætlað að höfða til annars áhorfendahóps en Fahrenheit 9/11.

Kvikmyndin The Corporation er mun yfirgripsmeiri og lengri en Bush’s Brain, eða rúmlega tveir og hálfur tími. Í henni er rakin saga viðskiptasamsteypunnar frá því á 18. öld, og tekin ýmis svæsin dæmi um þær öfgar sem viðgangast í heimi nútímakapítalisma. Líkindi eru dregin fram með viðskiptasamsteypum nútímans og ráðandi stofnunum annarra tímabila, kirkjunni á miðöldum og Kommúnistaflokknum í Sovétríkjunum. Meginþráður myndarinnar byggist á þeirri staðreynd að í Bandaríkjunum hafa fyrirtæki sömu réttarstöðu og manneskjur. Höfundar myndarinnar vinna út frá þessari líkingu og greina persónueinkenni nokkurra fyrirtækja eins og um manneskju væri að ræða. Niðurstaðan er sú að flestar viðskiptasamsteypur samtímans hlytu að vera geðsjúklingar ef þær væru manneskjur í raun.

The Corporation er byggð á bók, eins og Bush’s Brain, en þess er ekki getið fyrr en í lokin. Umfjöllunarefnið spannar vítt svið: Umhverfisspjöll, mútur, vinnuþrælkun, ofbeldi gagnvart dýrum, svik, lygar o.fl. Áhrif myndarinnar á áhorfandann eru veruleg ef hann horfir með opnum huga. Myndinni lýkur svo á áskorun til hans um að gera sitt til að breyta ríkjandi kerfi og bæta ástand heimsins, hvernig svo sem hann vill fara að því. Með kreditlistanum birtist fjöldinn allur af vefsíðum sem hægt er að heimsækja til þess að leggja sitt af mörkum. Hápólitísk mynd, sem sagt, og vekur mann til umhugsunar. Ég vona að hún verði sýnd í sjónvarpinu áður en langt um líður. Ekki bara til þess að útbreiða boðskapinn, heldur sem áminning til íslenskra fjölmiðlamanna um að láta af hálfvelgju sinni og tileinka sér almennileg vinnubrögð.