fimmtudagur, október 21

Magnús Magnússon Stormur

HöfundurÍ tilefni þess að veturinn virðist vera kominn, þó að dagatalið segi annað, til borgarinnar með tilheyrandi kulda og vosbúð þótti mér rétt að rifja upp brot úr bók Magnúsar Magnússonar Storms. Þar er sagt frá frostavetrinum mikla 1918 og birtist í einni af hans mögnuðu sjálfsævisögum, Syndugur maður segir frá, sem kom út árið 1969. Manni finnst nefnilega kuldinn vera svo mikill þegar sumarið er svona nýliðið hjá.

Magnús segir svo frá eftir að hafa lýst miklum frosthörkum og jafnvel svo miklum að hann sá sig knúinn til að flytja frá Bergstaðastrætinu niður á Amtmannsstíg:

,,Þórbergur Þórðarson rithöfundur, sem þá var ekki orðinn eins frægur og nú, vandi allmikið komur sínar til mín þenna vetur og var erindið löngum það að biðja mig að segja sér drauga- og fyrirbærasögur. Eitt sinn er ég hafði sagt honum mjög magnaða draugasögu – mig minnir að það væri sú, er ég flaugst á við drauginn í Klömbrum, varð Þórbergur svo myrkfælinn, að hann þorði ekki heim til sín einn, og var þó albjört vornótt, varð ég að klæða mig og fylgja honum vestur á Bræðraborgarstíg, en þar átti Þórbergur heima. Hann sagði mér, að ef hann færi Túngötuna, þá kæmu þeir sem dáið hefðu á Landakotsspítala á móti sér, en ef hann færi Vesturgötu mætti hann þeim sem drukknað hefðu í höfninni.

Mér varð bölvanlega við þetta, því aldrei hef ég sporviljugur verið. Hugsaði ég mér nú að leika á Þórberg, er hann kæmi næst og þess var ekki lengi að bíða. Ég bjó á kvisti á efstu hæð og nokkrum kveldum seinna heyrði ég þramm Þórbergs í stiganum. Þá lagðist ég á dívaninn, tætti í sundur á mér hárlubbann, sem var geysimikill, ranghvolfdi augunum og horfði undir dívaninn. Þórbergur drap á dyr og gekk svo inn. Þá hvessti ég á hann tryllingsleg augun, en leit svo aftur undir dívaninn. Þórbergur rak upp óp mikið, hentist niður stigann og út. Hann hljóp niður Austurstræti, hitti þar Kristján Albertsson og sagði honum að annað hvort væri Magnús Magnússon orðinn brjálaður eða andskotinn væri undir dívaninum hjá honum. – Eftir þetta kom Þórbergur aldrei til mín.”