miðvikudagur, október 27

Hin líðandi stund

HöfundurÁgúst H. Bjarnason, prófessor, (f. 1875, d. 1952) lét eftirfarandi spöku orð falla í fyrirlestri árið 1940:

Ekki höfum við nein tök á því liðna því að það er horfið og kemur aldrei aftur. Ekki höfum vér heldur nein tök á framtíðinni því að hún er enn ókomin og meira að segja óvíst hvort hvort vér lifum hana. Hvað er þá á valdi voru? Hin líðandi stund og ekkert annað. Hún er í raun réttri aleiga vor og að þessu leyti erum vér allir jafn-ríkir og jafn-fátækir. En hún getur þá líka orðið oss til ævarandi heilla eða þá til falls og niðurdreps.

Hvað er þá þessi líðandi stund, þetta augnablik sem kemur og fer? Það er hinn lifandi hlekkur í perlufesti tímans, sem enn er óharðnaður og ekki horfinn í gleymskunnar djúp. Það er uppgönguauga alls, móðurskaut það sem allt sprettur úr, illt og gott. Augnablikið getur orðið hvort heldur sem er upphaf að upphefð vorri eða niðurlagningu, láni eða óláni. Ef vér förum illa með það getur það orðið oss til böls og tjóns í bráð og lengd; en notum vér það vel og dyggilega verður það oss til heilla.