þriðjudagur, nóvember 2

Marlene og Rússarnir á Hótel Tindastól

HöfundurHugleiðingar helgarinnar:
Ég átti erindi á Sauðárkrók um helgina og gisti eina nótt á Hótel Tindastóli, sem er elsta hótel Íslands, stofnað árið 1884. Herbergið, sem mér var úthlutað, er frægt fyrir þær sakir að þar gisti engin önnur en söngkonan Marlene Dietrich, þegar hún kom hingað til lands árið 1941. Myndir af henni skreyta herbergið. Þar sem ég sá fram á næði til lesturs tók ég með mér bækur, sem ég las þó ekki, því að í Skagfirðingabúð rakst ég á bókina Rússland og Rússar eftir Árna Bergmann. Hún vakti áhuga minn og ég keypti hana.

Eftir að hafa opnað bókina við arineld og kertaljós í notalegum kjallaranum á Hótel Tindastóli gat ég ómögulega lagt hana frá mér. Þrátt fyrir lítinn svefn sólarhringana á undan hírðist ég um nóttina uppi á herbergi eins og nemandi að læra nóttina fyrir próf, með yfirstrikunarpenna að vopni, og drakk í mig þann fróðleik, sem bókin hafði að geyma. Mér fannst bókin vera viss uppljómun og ég get aldrei farið að sofa eftir þannig reynslu. Þurfti að klára skrudduna, sem tókst reyndar ekki alveg, þar sem augnlokin titruðu og rúmið hennar Marlene togaði, með betri helminginn minn innanborðs.

Ég kláraði bókina í Reykjavík. Hún fjallar um rússneska þjóð, sögu hennar og menningu, en kenndi mér mikið meira en efnið bar með sér. Um leið og bókin krauf rússneska „þjóðarsál“ gaf hún mér innsýn í launhelgar mannkynssögunnar. Eftir lestur hennar skil ég betur þau orð Winstons Churchills að sagan geymi leyndardóm stjórnmálanna.

Bókin er ekki löng, en hún er mjög fróðleg og vekur upp áhuga á að kynnast nánar „aðalleikurunum“ í rússneskri sögu; Valdimari knjas í Kænugarði, Ívani grimma, Pétri mikla, Tolstoj, Dostojevskij, Lenín, Gorkí, Raspútín, Stalín, Eisenstein, Sakharov, Solzhenytsin og fleirum.

Árni Bergmann á hrós skilið fyrir þessa bók og vonandi á hann eftir að skrifa fleiri bækur í þessum stíl.