sunnudagur, október 31

Í dag eru liðin 140 ár frá fæðingu Einars Benediktssonar

HöfundurÍ dag eru liðin 140 ár frá fæðingu Einars Benediktssonar. Af því tilefni skrifuðu tveir meðlimir Skýjaborga, Ásgeir Jóhannesson og Hjalti Snær Ægison, grein í Morgunblaðið. Greinin, sem birtist í blaðinu í dag, er nú birt hér.

Sá deyr ei, sem heimi gaf lífvænt ljóð
Einar Benediktsson, skáld, fæddist 31. október 1864 og eru því 140 ár liðin frá fæðingu hans. Hann lést þann 12. janúar 1940. Þótt Einar hafi verið mikill heimsborgari átti Ísland hug hans allan. Hann varði ævinni í að magna líf, tungu og list þjóðarinnar. Þess vegna er ástæða til að heiðra minningu hans í dag.

Einar var lögfræðingur að mennt og gegndi ýmsum störfum um ævina; embættismaður, lögmaður, fasteignasali, kaupsýslumaður og ritstjóri. Hann stofnaði fyrsta dagblað landsins, Dagskrá, árið 1896, og skrifaði alla tíð mikið um stjórnmál, sögu og menningu. Ástríða Einars var samt skáldskapur og birtist hann í fimm bókum; Sögum og kvæðum, Hafbliki, Hrönnum, Vogum og Hvömmum. Hann þýddi einnig leikritið Pétur Gaut eftir Henrik Ibsen. Kvæði Einars Benediktssonar eru full af djúpri speki, sterkum tilfinningum og stórbrotnum náttúrulýsingum. Málfarið er meitlað og mergjað. Algyðistrú setur svip á mörg kvæði Einars og gefur þeim aukna dýpt. Kristján Albertssonar hefur látið hafa eftir sér að „[e]kkert annað skáld [hafi] ort af svo djúpri trúarvitund og lotningu fyrir guðdómi æðsta máttarvalds allífs og tilveru.“

Mikið hefur verið skrifað um ævi og kvæði Einars Benediktssonar. Valgerður Benediktsson (eiginkona Einars til margra ára), Steingrímur J. Þorsteinsson, Sigurður Nordal, Jónas Jónsson, Björn Th. Björnsson, Gils Guðmundsson og síðast en ekki síst Guðjón Friðriksson hafa, auk nokkurra erlendra höfunda, skrifað bækur um Einar. Einnig hafa margir skrifað greinar og ritgerðir um Einar, þar á meðal þeir Kristján Albertsson, Kristján Karlsson og Þorvaldur Gylfason.

Steingrímur, sem var bókmenntafræðingur og prófessor, lét eftirfarandi orð falla: „Einar Benediktsson er vafalaust einhver merkilegasti maður, sem fæðst hefur á Íslandi, og einn þeirra örfáu samtímamanna okkar, sem munaður verður og metinn eftir þúsund ár, ef nokkur veit þá deili á íslenskum mönnum og menntum.“

Á Einar erindi við nútíma Íslendinga?
Franski fræðimaðurinn dr. Patrick Guelpa, sem hefur einsett sér að kynna Einar fyrir Frökkum, sagði í viðtali: „Prúðmennskan og andríkið, nánd við alþýðu manna, örlæti og margt fleira einkenndi líf Einars og störf. Hann fer ekki troðnar slóðir í skáldskap sínum, og það er einmitt eitt mesta sérkenni hans. Einar klæddi hugmyndir sínar og tilfinningar óvenjulegum táknmyndum. Þetta þótti mér bestu ástæðurnar fyrir því að kynna hann Frökkum. Það er ómaksins vert að koma Einari Benediktssyni til vegs hér í Frakklandi.“ Guelpa telur Einar eiga erindi við Frakka og vill að þeir átti sig á hversu stórt skáld hann var.

En hvað með Íslendinga? Er Einar vel kynntur fyrir þeim? Þrátt fyrir að mikið hafi verið skrifað um hann er sannleikurinn sá að þekking fólks á kveðskap Einars ristir almennt ekki djúpt. Oft er vitnað í hann á hátíðlegum samkomum, en segja má að þekking fólks á kveðskap Einars sé oft jafn yfirborðskennd og slíkar samkomur. Íslendingar virðast vera mun betur að sér varðandi verk ýmissa annarra rithöfunda og skálda.

Ástæðan er ef til vill sú að Einar Benediktsson er nánast útskúfaður úr grunn- og framhaldsskólum. Nemandi sem lokið hefur stúdentsprófi hefur þurft að lesa þrjár til fjórar bækur eftir Halldór Laxness, en aðeins brot úr einu ljóði eftir Einar (Einræður starkaðar).

Er Einari nægur sómi sýndur?
Einari Benediktssyni var sýndur mikill sómi eftir andlát sitt, þegar hann var fyrstur manna lagður í heiðursgrafreit á Þingvöllum, þar sem hann hvílir nú ásamt Jónasi Hallgrímssyni. Því miður er ekki hægt að segja það sama um þau 64 ár sem liðin eru frá andláti hans.

Styttan, sem reist var af Einari á Miklatúni í Reykjavík, er illa staðsett, ómerkt og borginni til skammar. Engu safni um Einar hefur verið komið á fót, þó að upplagt hefði verið að hafa slíkt safn í Höfða, þar sem hann bjó lengi, eða í Herdísarvík, þar sem hann bjó síðustu æviárin. Minningu Einars er ekki haldið nægjanlega á lofti.

Skýjaborgir
Vefritið Skýjaborgir.com hóf göngu sína 30. september síðastliðinn. Þar munu birtast greinar um menningu, listir og hugvísindi, viðtöl við lista- og fræðimenn, listagagnrýni, kvæði, brot úr bókum og fleira. Ritið er helgað Einari Benediktssyni og reglulega verður fjallað um hann og hans kveðskap.

Tilgangur Skýjaborga er að fjalla um menningu, listir og fræði á þann hátt sem okkur líkar. Vonandi verður eitthvað sem birtist á ritinu einhverjum innblástur og örvun til sköpunar.

Það er við hæfi að láta afmælisbarnið eiga síðasta orðið. Tvö síðustu erindin í kvæðinu Krossgötur hljóða þannig:

Þetta eitt hef ég lært – ég stend einn, með vilja,
útlagi, frjáls, þar sem götur skilja;
og tælinn í ástum og tvímáll í svörum
ég tryggðaeið finn mér brenna á vörum.

Ég á mér nú trú og efa til hálfs,
mín ást er án vonar, mitt ljóð er án máls. –
Og þó sver ég ástum og óði án tafar
mína æfi frá þessum degi til grafar.