föstudagur, október 29

Frelsi

HöfundurKvæðið Frelsi eftir Einar Benediktsson birtist í Vogum, sem kom út árið 1921.

Frelsisins eilífa, eggjandi von,
sem ættlöndin reisir og skipar þeim vörð,
þú blessar við arininn son eftir son,
þú sættir hjartað við þessa jörð.
Víkjandi blika þíns fyrirheits foldir,
fjallbláar, hátt yfir allar moldir -
og fagnandi lýð gegnum lífið og stríðið,
þú leiðir undir hinn græna svörð.

Oss ljómar í hyllingum frjálsara Frón
- það fylkir oss, knýr oss á eina lund,
sem friðarbogans blessaða sjón
í bernsku oss dró eftir óskastund.
Þar eigum vér mið fyrir hendur og hugi,
sem hámarkið lyftir skeytisins flugi -
því ekkert skín fegur, né fastar dregur,
en framtíðin yfir niðjagrund.

Hve verður sú orka öreigasnauð,
sem aldrei af trú er til dáðar kvödd.
Ef ódáinsvonin er visin og dauð,
hve verður þá auðlegðin hróplega stödd.
Vænglausu hugirnir heftast og bindast.
Oft kostaði gæfuna kynslóðar æfi
að kalsa við brjóstsins innstu rödd.

Í hæsta dómi um vilja og verk
þar verður jafnað um stórt og smátt.
Ef hvötin er aðeins há og sterk
hinnst, og að réttu, þú sigur átt.
Þá torrek vors stríðs er talið að kveldi
er trúin málmgildið brennt af þess eldi.
Til þess er hvert tap og tjón, sem oss skapast,
að treysta til þrautar vorn fórnandi mátt.

Ljós yfir vegum hvers lýðs og manns,
vér leggjum með þér út á tímans straum.
Þú beitir í strenginn, en stefnir til lands
þótt stríkki og dýpki og vöð séu naum.
Og skriki fótur og falli yfir
í fjarlægð, í hæðum minningin lifir.
Merkið vort bjarta, þig heimtar hvert hjarta,
því hvað er vort líf, ef það á engan draum.

Frelsi - vor eflandi, yngjandi von
sem Ísland skal reisa og skipa því vörð,
þú blessar í átthögum son eftir son,
þú signir vorn trúnað á dal vorn og fjörð.
Bliki þíns háa fyrirheits foldir
fjallbláar, út yfir brim og moldir.
Helgist þér lýður, í lífi og stríði,
svo langt sem kennist vor gnoð og hjörð.