laugardagur, október 30

Fagna og syng, móðir Rússland! Á landi voru skulu engir fjendur lifa!

HöfundurÞann 1. desember 1938 var frumsýnd rússnesk kvikmynd sem vakti meiri fagnaðarlæti en dæmi voru til um í rússneskri kvikmyndasögu fram að því. Þetta var myndin Alexander Nevskíj eftir Sergei Eisenstein.

Alexander Nevskíj byggir á rússneskri sögn um hinn mikla Alexander (1220-1263), prins af Novgorod, sem hlaut viðurnefnið „Nevskíj“ eftir að hann sigraði sænskt innrásarlið á bökkum ánnar Nevu. Kvikmyndin lýsir atburðum sem gerðust 1242 þegar Alexander varðist tevtónskum innrásarher í daglangri og blóðugri orustu á svelli stöðuvatnsins Tsjúd. Myndin var fyrsta hljóðmynd Eisensteins, en þær urðu aðeins þrjár. Hún er talandi dæmi um snilli hans og þá tækni sem hann þróaði með listsköpun sinni. Eisenstein er einn kunnasti fulltrúi formalíska skólans í kvikmyndagerð heimsins, en kenningakerfi formalistanna snerist fyrst og fremst um áhrif klippitækninnar og samspils myndskeiða. Markmið Eisensteins var að mynda syntesu með því að flétta saman tvær atburðarásir og láta þær varpa nýju ljósi hvorri á aðra. Þannig myndaðist nýtt merkingarlag við áhorfið, en Eisenstein ætlaði áhorfendum sínum að vera virkir í merkingarsköpun mynda sinna. Hann batt töluverðar vonir við áhrifamátt kvikmyndalistarinnar og öll skrif hans um kvikmyndir einkennast af miklum framfarahug.

Þessi bjartsýni á möguleika kvikmyndalistarinnar var ekki sjaldgæf meðal samtímamanna Eisensteins, og margir töldu að hér væri komið e.k. altækt listform. Í þeim hópi var t.a.m. tónskáldið sem samdi tónlistina við Alexander Nevskíj, en sá hét Sergej Prokofiev. Tónlistin í myndinni á ekki lítinn hlut í mikilfengleik hennar, og ekki eru mörg dæmi um jafnfrjóa samvinnu tónskálds og leikstjóra í sögu kvikmyndalistarinnar til þessa. Prokofiev áleit það að semja kvikmyndatónlist ekkert síður göfugt en að semja balletta eða óperur. Allt væru þetta greinar af sama meiði, tónlist samin fyrir dramatísk verk. En Prokofiev ætlaði sinni kvikmyndatónlist annað og meira hlutverk en að vera eingöngu bakgrunnur fyrir atburði myndarinnar. Tónlistin var hugsuð sem virkt afl í dramanu, hún átti að mynda tilfinningalega harmóníu með atburðum sögunnar. Mynd og hljóði var ætlað að styrkja hvort annað og skapa óviðjafnanleg hughrif hjá áhorfandanum. Prokofiev fylgdist náið með allri hljóðupptöku og hljóðtæknivinnu kvikmyndarinnar því honum var mjög umhugað um að rétta sándið skilaði sér. Tónlist myndarinnar byggir á notkun leiðarstefja og til þess að tryggja að tevtónski lúðraþyturinn yrði sem óljúfastur hinu rússneska eyra lét Prokofiev blásturshljóðfæraleikarana þenja hljóðfæri sín beint í hljóðnemann.

Þær miklu vinsældir sem myndin naut meðal rússneskra bíógesta má skýra með fleiri en einni ástæðu. Umfram allt var myndin sannkallað stórvirki, tímamótaverk og virkaði eins og bensín á eld í málflutningi þeirra manna sem heitast trúðu á hlutverk hreyfimyndalistarinnar. Þó var annað atriði sem eflaust var ekki léttvægara. Árið 1938 höfðu nasistar verið við völd um nokkurra ára skeið, og þótti Sovétmönnum sem þeim stafaði nokkur ógn af herskáum fyrirætlunum þýsku stjórnarinnar. Alexander Nevskíj var strax túlkuð sem hvatning til samtímans með skírskotun í sögu rússnesku þjóðarinnar, óbein ádeila á Þjóðverja og endurspeglun á hugsanlegu ástandi sem svo varð að veruleika þegar herlið nasista réðst inn í Rússland í júní 1941. Þegar Rússar og Þjóðverjar gerðu friðarsamkomulag í ágúst 1939 var kvikmyndin tekin af dagskrá kvikmyndahúsa af ótta við að hún kynni að raska stöðugleikanum milli ríkjanna tveggja. Samkomulagið var þó meira í orði en á borði og eftir að innrás Þjóðverja hófst var myndin tekin aftur til sýninga.

Alexander Nevskíj verður sýnd í Bæjarbíói 2. nóvember kl. 20:00 og 6. nóvember kl. 16:00.