mánudagur, nóvember 1

Ég er ekki hræddur

HöfundurBókaútgáfan Bjartur hefur nýlega gefið út bókina Ég er ekki hræddur eftir Niccoló Ammaniti og er bókin hluti af Neon útgáfunni. Bókin kom fyrst út á Ítalíu árið 2002 og hefur trónað efst á ítölskum metsölulista samfellt síðan. Bókin hefur verið þýdd á meira en þrjátíu tungumál. Aftan á bókarkápunni stendur:

„Sumarið 1978 komst í sögubækurnar á Ítalíu sem eitt það heitasta á öldinni. Michele Amitrano minnist þess þó fyrst og fremst sem sumarsins þegar hann fann barnið í holunni. Ævintýrið byrjaði reyndar nógu sakleysislega. Michele og fleiri börn úr smáþorpi á Suður-Ítalíu gengu fram á gamalt, hálfhrunið hús. En fyrr en varði voru þau flækt inn í óreiðukenndan draum hinna lánlausu um betra líf fyrir norðan.“

Ég er ekki hræddur er að mörgu leyti athyglisverð glæpa/spennusaga. Sögusviðið er rólegt smáþorp á suðurhluta Ítalíu þar sem fólkið býr við kröpp kjör, mun krappari en almenningur á norður Ítalíu. Aðalsögupersónan, Michele, hefur þó ekki skilning á því enda er hann aðeins níu ára gamall. Áhyggjur hans snúast mest um það hvaða refsingu hann þarf að þola fyrir að koma of seint heim í mat. Fullorðna fólkið hefur hins vegar töluverðar áhyggjur af ástandinu og hvað til bragðs skal taka.

Sagan er öll sögð frá sjónarhóli hins níu ára gamla Michele sem uppgötvar að framinn hefur verið glæpur – barnið í holunni. Í tilraunum hans til að skilja hvað gerst hefur og til að koma vitneskjunni frá sér kemst hann á snoðir um ráðagerð sem hinn litli drengur getur varla komið í veg fyrir. Á sama tíma birtast óvenjulegir gestir í þorpinu, sem og fyrrum íbúar þess sem engum geðjast að.

Ég er ekki hræddur
er fyrst og fremst spennusaga en veitir einnig skemmtilega innsýn í hugarheim unga drengsins sem skilur ekki allt sem gerist í atburðarásinni. Sagan er uppfull af skemmtilegum persónum sem lífga söguna töluvert. Paolo Turchi þýddi verkið yfir á afbragðs íslensku. Heilt á litið er þetta spennandi bók sem óhætt er að mæla með.