miðvikudagur, nóvember 3

Hending

HöfundurPaul Auster segist hafa byrjað að skrifa eftir að hann rakst á þekktan hafnarboltakappa á förnum vegi og var ekki með skriffæri á sér til að geta fengið eiginhandaráritun. Eftir þetta atvik ákvað hann að bera alltaf penna á sér og segir í athyglisverðu verki sínu Why write (1996): „If you always have a pencil with you, pretty soon you'll start to use it.“ Þannig segir Auster að atburður sem hann, á sínum tíma, leit á sem ferlega óheppni, hafi í raun leitt til þess að hann byrjaði að stunda skriftir sem seinna urðu að lífsviðurværi hans. Slíkir atburðir, aðstæður og afleiðingar þeirra, eru Auster hugleiknir og kemur það greinilega fram í verkum hans.

Paul Auster er einn af þekktustu rithöfundum Bandaríkjanna í dag, búsettur í New York, og fékk sviðsljós bókmenntanna til að skína á sig eftir útgáfu svokallaðs New York-þríleiks, sem kom út í Bandaríkjunnum á árunum 1985-87 og í íslenskri þýðingu undir titlunum; Glerborgin (1993), Draugar (1994) og Lokað herbergi (1995). Síðan þá hefur Auster verið erilsamur við skrifin. Eftir hann liggja fjölmargar sjálfsævisögur, skáldsögur, ljóðabækur ásamt athyglisverðum bókum sem erfitt er að segja hvers eðlis eru, en þær innihalda smásögur, hugleiðingar, uppköst o.fl. allt í bland. Einnig hefur hann skrifað kvikmyndahandrit og ættu flestir að kannast við myndina Smoke (1995), en einnig myndirnar Blue in the Face (1995), Lulu on the Bridge (1998) sem og The Music of Chance (1993). Auster skrifaði reyndar ekki handritið að þeirri síðastnefndu, en hún er byggð á skáldsögu eftir hann sem Bjartur gaf út á íslensku undir titlinum Hending (1998) í þýðingu Snæbjörns Arngrímssonar, og er hér til umfjöllunnar.
Á þeysireið sinni um Bandaríkin þver og endilöng rekst Nashe fyrir tilviljun á ungan mann, pókerspilarann Pozzi. Báðir eru þeir félitlir og féþurfi. Þeir heimsækja tvo sérvitra miljarðamæringa í afskekkt óðalssetur í Pennsylvaníu með það fyrir augum að vinna af þeim peninga í póker. En leiðangur sem upphaflega var lagt í til að bjarga fjárhagnum verður á endanum háskaför þar sem líf þeirra eru að veði.
Svo segir um skáldsöguna aftan á kápu bókarinnar og lýsir sögunni ágætlega án þess að segja of mikið um framvindu hennar. Sagan er athyglisverð. Líkt og áður sagði er söguþráðurinn tilviljanakenndir atburðir og afleiðingar þeirra. Andstæður eru áberandi og byggist sagan að miklum hluta á þeim, t.d. persónuleikar Nashes og Pozzi, miljarðamæringarnir, ríkidæmi og snauð. Einnig er innsta eðli mannverunnar skoðað og sýnt frá bæði kómísku sem og hrottafengnu sjónarhorni. Sjálf sagan er frábærlega skrifuð og atburðarásin vel samsett. Er þetta spennusaga? Ég get ekki alveg gert upp hug minn. Spennan er samt svo sannarlega til staðar og það er aðdáunarvert hvernig Auster tekst til við að fylla lesendan eftirvæntingu og löngun til að halda lestrinum áfram. Eftir að hafa lesið nokkrar blaðsíður var ég orðin fangi og þræll sögunnar fram að lokum.

Ég get ekki kvartað yfir þýðingunni neitt sérstaklega, hún er vel unnin og virðist skila sögunni vel frá sér. Ekki varð ég var við að grundvallaratriðum væri hnikrað til vegna hugsanlegra þýðingarvandræða eða einhvers slíks. Get ég alveg mælt með að fólk lesi íslensku þýðinguna, sem er meira að segja ódýrari (í Neon ritröð Bjarts) en enska útgáfan.

Vert er að minnast á að sögur Braga Ólafssonar Hvíldardagar (1999) og Gæludýrin (2001) sem eru af sams konar meiði og Hending. En Bragi þýddi einmitt Glerborgina (1993) eftir Auster. Ef fólk hafði gaman af sögum Braga er Hending örugg ánægju lesning.

Hending er vel skrifuð saga sem fjallar á átakanlegan, en einnig kómískan hátt, um hvernig gjörðir okkar geta leitt undarlegustu atburði af sér. Skemmtileg og athyglisverð lesning sem skilur mikið eftir sig og heldur lesandanum fullkomlega vakandi við efnið. Bók sem allir ættu að getað haft ánægju af; ungir sem aldnir, við náttborðið eða á notalegri kvöldstund.

Hér er aðgengileg heimasíða um Paul Auster og verk hans.