föstudagur, nóvember 5

Um mikilvægi Parísar

HöfundurMestu listamenn vestrænnar menningar hafa séð hana í draumum sínum, málað hana á trönum sínum, ort um hana í ljóðum sínum, sungið um hana frá hjörtum sínum og eignað henni líkama sinn í dauða sínum. Hvort heldur sem er að vori, sumri, hausti, vetri, nóttu, degi, í rigningu, í sólskini, á tímum friða eða skálma hefur hún þótt allra mest gefandi og innblásandi. Það fyrirfinnst ekki sá hugsandi maður á jarðríki sem ekki hefur orðið snortinn af einhverju því listaverki eða hugsun sem hún hefur gefið lífsneistann. París. Borg rómantíkurinnar hvort heldur sem tón-, mynd-, matargerðar-, dans-, byggingar-, hernaðar-, eða nokkur önnur list á í hlut.

Það skiptir engu máli hvaða mynd við fáum upp í höfuðið: Djöflarnir sem hanga utan á Notre Dame og horfa yfir vinstri bakkann, Picasso með alpahúfu að reykja vindla á útikaffihúsi í Montmartre, japanskir túristar að taka myndir af Monu Lisu inni í Louvre, Jean-Paul Sartre með hrokasvip að stíga út úr leigubíl, leiðtogar Parísarkommúnunnar með sígarettustubba í munnvikinu bíðandi eftir að teknir af lífi af aftökusveit í Père Lachaise, Chopin með sultardropa í nefinu spilandi á flygil í röku þakherbergi, Sid Vicious að pissa utan í Eiffel-turninn, ungt par með trefla á skautum fyrir framan Hôtel de Ville, Serge Gainsburg að klípa í rassinn á ungri ljóshærðri konu þar sem þau leiðast niður Boulevard St. Michel, maður sjálfur að borða ís með mömmu sinni og pabba í þröngri götu með háum húsum. Það skiptir engu máli hver myndin er sem maður fær í höfuðið, hún mun alveg örugglega vera óraunveruleg, mjög oft kjánaleg, og ekki vekja upp neina sterka tilfinningu hjá manni. París er manni óraunveruleg. Maður veit af henni og þekkir mikilvægi hennar en hún er ekki sönn fyrir manni.

Í þessari stuttu grein verður því leitað svara við tveimur spurningum. Sú fyrri er hvort að París sé mikilvæg. Til að svara því verður einmitt að kafa dýpra heldur en í skyggnimyndir meðvitundarinnar og skoða stöðu hennar í veraldarsögunni hlutlægum augum. Síðari spurningunni verður svo svarað eftir því sem svarið við hinni fyrri gefur tilefni til. Síðari spurningin er hvers vegna París sé mikilvæg og hvað það sé sem laði fólk sífellt til hennar, og jafnframt hvort að tími Parísar sem mikilvægustu listaborgar heims sé liðinn.

Það fyrsta sem skiptir máli varðandi París er að hún er stærsta og mesta borg landsvæðis sem hefur kynþáttar- og hugmyndafræðilega greint sig frá öðrum landsvæðum síðan á tímum þjóðflutninga miklu í Evrópu fyrir um tæpum 1600 árum síðan: Frakklands. Frakkland dregur nafn sitt af germönskum þjóðflokki sem hefur búið afar lengi á þessu landssvæði, Frönkum, en þó er yfirleitt talið að það séu ekki Frankar sem verðskuldi mestu athyglina þegar kemur að því að kryfja franska menningu niður til fósturvísis. Þeir þjóðflokkar sem eiga hvað mest í Frökkum eru án efa keltar, fyrst og fremst sá hluti þeirra sem nefnast Gallar, en þeir bjuggu á þessu landsvæði þegar Rómverjar réðust þangað fyrst inn á 1. öld f. kr. og hafa í raun aldrei farið burtu. Talið er að uppruni kelta sé þó nær Mið-Evrópu og hafa mörg þúsund ára gamlar leifar af menningu þeirra fundist bæði í fjalladölum Austurríkis og Sviss. Eins og allir vita þá er stór uppistaða hinnar bresku þjóðar einnig keltneskir þjóðflokkar en það á þó einkum við um Skota og Íra. Hjá frönskum keltum sem og þeim sem bjuggu á Bretlandseyjum var menning komin á mun hærra stig heldur en hjá germönskum þjóðflokkum þótt þeir síðarnefndu séu alla jafna taldir hafa verið betri í hernaði. Þriðja mikilvæga elementið sem hefur haft áhrif á franska menningu oftar en einu sinni er svo það rómverska. Hér komum við að okkar fyrsta pósti. Frönsk tunga er rómönsk. Talið er að hið rómverska setulið hafi ekki skilið mikið af blóði eftir sig, en einhverra hluta vegna þá gáfu þeir Frökkum tungumál sitt. Vegna landfræðilegrar stöðu sinnar og fjölbreytts uppruna hefur hin franska þjóð þó tungumál sem hefur mun fjölbreyttari eiginleika heldur en hin kalda latína sem hún í upphafi var.

Með mikilli einföldun má því segja að hið öfugsnúna eðli Frakka, það er dyggð gagnvart bæði list og hernaði, komi til vegna hinnar sérstöku samsetningar þjóðarinnar og mikilvægri landfræðilegri stöðu hennar. Enda kom hið skrítna eðli strax í ljós. Eftir fall Rómarveldis gerði hinn franski Karla-Magnús strax tilraun til að stofna nýtt ríki, rómverskt Evrópuríki og var það ekki í síðasta sinn sem Frakkar stormuðu til austurs inn í Evrópu með rómverskan aga að vopni í von um að drottna yfir henni allri. Það mikilmennskubrjálæði var þó skammvinnt og áður en varði var Evrópa öll í heljargreipum kaþólsku kirkjunnar sem þó leyfði þjóðlöndum að dafna og konungum að sækja sinn skatt. Á þessum tíma, hámiðöldum, varð hið þjóðernisafmarkaða Frakkland til í fyrsta skipti og hið fyrsta verk var að reka víkinga úr landinu og gætir áhrifa þeirra því ekki mikið. Með hinu rómverska eðli sínu greindi Frakkland sig frá öðrum Evrópulöndum í einu atriði sem skiptir mjög miklu máli í þessari litlu ritgerð. Frakkland var strax á hámiðöldum býsna miðstýrt land í anda Rómarveldis. Í höfuðborginni sat konungur í höll sinni og sótti skatta frá gríðarlegu landsvæði sem þó átti eftir að stækka og verða enn centralíseraðra síðar meir. Það, ásamt hinu miðstýrða skipulagi kaþólsku kirkjunnar, gerði París að stærstu borg miðalda með nokkur hundruð þúsund íbúa. Til að sýna völd sín og áhrif reistu Parísarbúar Notre Dame kirkjuna í frumgotneskum stíl en hún varð síðar fyrirmynd slíkra bygginga um alla álfuna. Þetta er annar póstur. Strax á 12. öld var París í fararbroddi í evrópskri menningu þó að sú menning hafi verið þung og dimm á þeim tíma.

Eftir landafundina og endurreisnina, sem þó eru hvorugt fyrirbæri sem rekja má beint til Frakka, lifnaði yfir menningunni. Málverk urðu dýpri og bókmenntir hispurslausari. Evrópubúar drottnuðu yfir úthöfunum og eignuðust nýlendur og miðaldaupprunin stéttaskipting þegnanna gerði konungsríkin að vel smurðum verslunar-, viðskipta-, og menningarframleiðsluvélum. Það var í slíku ástandi, í miklu ríkidæmi og auðæfum hins menntaða einveldis, sem Frakkar létu fyrsta vitsmunahögg sitt dynja á heiminum. Upplýsingaöldin rann í hlað með allri sinni heimspeki og þjóðskipulagshugmyndum. Tími hinna myrku alda var liðinn og Frakkar voru í fararbroddi. Enn var ríkið miðstýrt og París varð að þungamiðju heimsins. En Frakkland er eins og áður var lýst í grunninn ein stór hugmyndatogstreita auðmjúkra og skapandi afla annarsvegar og drottnandi og eyðileggjandi hinsvegar. Í upplýstum þankagangi sínum átti hin franska þjóð eftir að fá hina miklu eldskírn. Vissulega hafði hún undirgengist mikil stríð við önnur lönd vegna landsvæða og auðæfa, einnig hafði öll Evrópa logað í ófriði á tímum trúarbragðastyrjaldanna, en nú áttu eftir að gerast atburðir sem nísta hvað mest inn að beini vestrænnar sjálfsvitundar; milljónir mannslífa áttu eftir að glatast á grundvelli hreinnar hugmyndafræðilegrar þjóðskipulagsdeilu. Á 17. og 18. öld voru skrifaðar svo mikilvægar bækur og svo mikilvægar ræður fluttar á franskri tungu að heimurinn hefur ekki enn náð að melta það allt. Niðurstaða hinna miklu hugsuða var að konungurinn yrði að fara. En því fór fjarri að allir væru sammála um hvernig ætti að stjórna landinu. Það fór því svo á endanum að hið grimma, miskunnarlausa og agaða eðli þeirra reis upp úr rjúkandi rústum hins ídeólógíska hamfaraskipualags, sem var ef til vill lógískt en alveg örugglega ekki praktískt. Napóleon mikli, einn tveggja ofurmenna veraldarsögunnar samkvæmt Nietzche (hinn er Goethe), Sesar endurfæddur enda úr ítölsku legi runninn, með stóra og metnaðarfulla þjóð á bak við sig hreinlega svipti Evrópu allri til sín með annarri hendinni. Þetta var leiftursókn sem tók fljótt enda. Enn þann dag í dag hyllir hin mótsagnarkennda en mjög svo heillandi franska þjóð sinn mikla einræðisherra jafnvegis hinum miklu hugsuðum upplýsingaaldarinnar; og minnisverki alls þessa er að finna í höfuðborginni París.

Eftir Napóleonstyrjaldirnar var Evrópa kominn í miklar hugmyndafræðilegar ógöngur. Það var búið að sanna að allt væri rangt en þó viðgekkst það enn. Enn voru konungar í höllum þó að búið væri að sanna að þeir væru úreltir, nýlenduverslun var í blóma sínum þó búið væri að sanna að hún væri siðferðislega röng, borgaramenningin náði hápunkti sínum þó búið væri að sýna fram á að stéttaskipting væri óréttlát. Með nagandi samviskubit og móðursýkisglampa í augum leið Evrópa í gegnum 19. öldina með rútínubundnum styrjöldum og byltingum. Febrúarbyltingin sýndi nýrri kynslóð Frakka hvernig það væri að horfa á mannshöfuð rúlla niður Concorde-torg. Napóelon III. lét enn eina rómverska holskeflu ríða yfir Frakkland og ekki síst París en hann lét nánast reisa hana frá grunni og alla í nýklassískum rómverskum stíl. Parísarkommúnan, einskonar minimalísk útgáfa af byltingum allra byltinga kom og fór á tveimur mánuðum og fær sagnfræðinga enn til að klóra sér í hausnum. Það átti aðeins eftir að stíga síðasta dansinn. Forleikurinn var þó hið óútskýranlega menningarævintýri la belle epoque þar sem öll siðferðislögmál fengu að fjúka fyrir fegurðarþránni. Konungshöll ævintýrisins? París að sjálfssögðu.

Með mikilli skáldlegri einföldun má segja að heimstyrjöldin fyrri hafi loksins bundið enda á það sem í framtíðinni mun nefnast „evrópsk menning“. Við vitum öll hvað gerðist. Þó að Þjóðverjar hafi átt fyrsta leikinn þá báru allar þjóðir þá þrá í brjósti að losa sig við alla sína vondu samvisku í eitt skipti fyrir öll. Nýlendufylleríið var á enda og Ameríka löngu orðin sjálfstæð og miklu stærri og ríkari en öll Evrópa samanlögð. Sjálfsmorð Evrópu hafði verið fyrirsjáanlegt í langan tíma og kom loks í framkvæmd með stríðinu sem átti að binda enda á allar styrjaldir. Í þessari styrjöld dóu margir menn, en þeir dóu þó flestir á vígvöllum fjarri hinum mikilfenglegu borgum álfunnar, þær stóðu óhaggaðar. Það sem dó var hin evrópska hugsun. Í rúm þúsund ár höfðu íbúar þessarar álfu gjört einn stóran hugmyndafræðilegan sólmyrkva með menningu sinni. Það sem eftir stóð var raunveruleiki sem var svo óraunverulegur að hann var ósannur. Það átti að skipta Evrópu upp eftir kynþáttum; ein þjóð fyrir eitt ríki, lýðræði og friður. Það hafði engin þor í sér til að berjast lengur. Stríð voru orðin óraunveruleg. Það voru ekki lengur hetjur sem stofnuðu til styrjalda. Það voru engar hetjur til lengur. Það var tómarúm í hjörtum mannanna.

París setti síðasta spilið á borðið. Eftir heimstyrjöldina fyrri flykktist fólk til borgarinnar. Materíalísk skýring er sú að fylla þurfti upp í störfin sem hinir föllnu hermenn höfðu gegnt. Raunveruleg skýring var sú að fólk fann frið í París, höfuðstaður vestrænnar menningar hlyti að vera óhultur fyrir hinum óraunverulega raunveruleika. Borgin fylltist af listamönnum, ekki síst gyðingum sem flúðu frá Austur-Evrópu. Þetta útspil hefur oft verið nefnt Parísarskólinn þó að ekkert sameini listamennina annað en það að þeir bjuggu allir í París á millistríðsárunum. List þeirra var furðuleg: kúbismi, dadaismi, súrrealismi. Raunveruleikinn var ekki lengur sannur þannig að það var nauðsynlegt að gera eitthvað fjarri honum, eitthvað óháð, abstrakt, til að túlka sannleikann. Og þannig fjaraði evrópskri menningu út, ef til vill á sama stað og hún hófst þúsund árum áður. Henni blæddi út.

Þeir sem halda að ég hafi fjarlægst upprunalegt markmið þessarar greinar ættu að nema staðar núna og taka sér góðan tíma í að velta fyrir sér þessari öfugsnúnu yfirferð yfir Evrópusöguna. Ágripið hefur ef til vill einna minnst fjallað um París en við skulum muna hvernig þessi grein hófst. Hún hófst með skyggnimyndasýningu af París: Eiffel-turninn, Chopin, fólk með trefla á skautum. Þetta eru óraunverulegar myndir. Það hefur stundum enga þýðingu að ná tökum á viðfangsefni öðruvísi en með því að horfa sífellt framhjá því og reyna að ímynda sér heiminn án þess.

Og hvers vegna er París mikilvæg? Vegna þess að hún er besta minning þess sem ég hef kallað evrópska menningu. Ég hefði getað eytt allri þessari grein í að útlista nöfn þeirra mikilvægu listaverka sem hanga á veggjum La Louvre eða Musée D’Orsey en það myndi aðeins fylla huga ykkar af japönskum túristum með myndavélar og jakkafataklæddum safnvörðum og biðröðum og tilfinningunni um að vera mál að pissa. Það sem er hinsvegar mikilvægt er að þessi listaverk eru þarna. Að ganga niður vel valda breiðgötu í París er þeysireið í gegnum alla hugmyndafræðilega sögu Evrópu. Að standa á Ítalíutorginu og horfa yfir fimmta hverfið þegar sólin sest er eins og að standa inni í málverki eftir Monet. En það tekur einfaldlega mikinn viljastyrk og mikinn aga til að fá ekki kjánahroll yfir því. Það kostar einstaklega mikinn skilning og þolinmæði að sætta sig við það að Frakkar eru hrokafullir vegna þess að þeir eru afsprengi elsta centralíseraða skólakerfis heimsins sem hefur sífellt heilaþvegið þá um mikilvægi sitt. En það svíkur jafnvel enn meira réttlætiskennd manns að mikilvægi þeirra er staðreynd og mikilvægi Parísar er og verður staðreynd.

Þá stendur aðeins ein spurning eftir. Er París ennþá mikilvæg? Svarið hefur þegar komið fram. Hún veröldinni mikilvæg eins og foreldrar eru mikilvægir stálpuðum börnum sínum. Hún er eins og fullorðin manneskja sem sífellt þroskast og styrkir persónuleika sinn en er búin að taka út framkvæmdaræði æsku sinnar. Það má enn sjá tvískinnunginn í París nútímans. Það má sjá hina gríðarlegu þörf fyrir að gera hvort tveggja í senn, eitthvað fallegt og smátt en þó drottnandi og ögrandi. Slíka tilburði má til dæmis sjá í skrifstofuhverfinu La Défense sem var reist í últra-módernískum stíl á 6. til 10. áratugi 20. aldar. En það verður ekki annar Napóleon eða annar Voltaire. Tími þeirra er liðinn. Tíminn þegar veröldin var enn að fikra sig áfram út úr myrkrinu er liðinn. Nú er tími ofbirtunnar hafinn þar sem hetjurnar munu varpa skuggum á oflýsta fleti til að sýna raunverulegan vöxt þeirra. Þeim er mikil vinna fyrir höndum.

Af eins mikilli einlægni og brjóst mitt leyfir vil ég þó enda þessa grein á vinsamlegum tilmælum sem eru einskonar hnotuskurn yfir siðferði hennar. Þú kæri lesandi sem hefur ferðast til nokkurra Evrópulanda með lest eða rútu og borðað McDonald’s í 25 mismunandi borgum og séð nokkrar dómkirkjur, ekki halda að þú skiljir heiminn!