sunnudagur, nóvember 14

Gísli Magnússon, píanó

HöfundurÍ haust kom út tvöfaldur geisladiskur með leik Gísla Magnússonar, píanóleikara, sem lést árið 2001. Elstu hljóðritanirnar eru frá 1955, þegar Gísli var 26 ára, og sú yngsta frá árinu 1988. Of langt mál væri að fjalla ítarlega um hvert verk á efnisskránni, en rétt er að benda á það áhugaverðasta sem leynist á diskunum.

Í fyrsta lagi ber að nefna verk Páls Ísólfssonar, Glettur, op.1 og Þrjú píanóstykki op. 5, sem Páll samdi á árunum 1918 og 1920, þá 25 og 27 ára gamall. Stíll verkanna er í anda þýskrar síðrómantíkur og munu seint teljast framúrstefnuleg. Engu að síður eru þau grípandi og sýna ágæt tök Páls á píanóinu. Sérstaklega heillandi er stykki númer tvö, Intermezzo, í op. 5 flokknum; fallegt, ljóðrænt stykki sem hljómar afar fallega í höndum Gísla. Þessi verk Páls eru fyllilega þess virði að hlusta á og væri gaman að sjá fleiri íslenska píanóleikara spila þau opinberlega.

Margir píanóleikarar spila verk Bachs eins og þeir væru að reyna að láta þau hljóma sem þau væru spiluð á sembal (sem þau voru reyndar samin fyrir). Það á þó ekki við hér þar sem þýður, fallegur tónn er einkennið. Þó forðast Gísli að spila verkin í rómantískum stíl og ekkert bólar á pedalnotkun. Hún er þó eflaust til staðar, en einn vandinn í Bach spilun er að kunna að nota pedalinn án þess að hlustandinn í rauninni átti sig á því. Hörku er hvergi að finna í flutningi Gísla og í 24. prelúdíunni og fúgunni (í h-moll) tekst fullkomlega að ná fram þeim dáleiðandi áhrifum sem má svo oft finna í tónlist Bachs.

Verkin eftir Beethoven og Brahms voru hljóðrituð árið 1988 þegar Gísli var tæplega sextugur. Sónata Beethovens op. 110 virðist vera sniðin að stíl Gísla við píanóið. Allir mestu píanósnillingar heims hafa glímt við þessa sónötu og flestir þeirra hljóðritað hana. Það eru engar ýkjur að segja að þessi upptaka stenst þeim bestu fyllilega samanburð. Leikurinn er íhugandi og alveg laus við yfirborð- og sýndarmennsku.

Händel tilbrigðin eftir Brahms eru eitt stærsta píanóverk meistarans ásamt sónötunum þremur. Gísli hefur e.t.v. ekki þá tæknilegu fullkomnun sem menn eins og Benno Moiseiwitsch og Egon Petri hafa, og er því á stundum örlítið varkárri í hraðavali í hinum snúnustu tilbrigðum en þeir miklu snillingar. Hann bætir það þó fullkomlega upp með blæbrigðaríkum leik og þykkum, safaríkun tón sem hæfir vel verkum Brahms. Auk þess er leifturhraði alls ekkert skilyrði fyrir ahrifamiklum flutningi sem þessi svo sannarlega er.

Útgáfa þessa disks er mikið og gott framtak. Undirritaður veltir fyrir sér hvaða fleiri upptökur með íslenskum píanóleikurum leynast þarna úti sem á eftir að koma á geislaplötur. Til dæmis kom á níunda áratugnum út plata þar sem Halldór Haraldsson leikur verk eftir Chopin og Liszt. Undirritaður hefði mikinn áhuga á að sjá þær upptökur endurútgefnar enda er um gæðaflutning að ræða.

Diskurinn með Gísla Magnússyni fæst í Skífunni, Laugavegi.

Diskur I:

Páll Ísólfsson
- Glettur, op. 1
- Þrjú píanóstykki, op. 5

Sveinbjörn Sveinbjörnsson
- Vikivaki
- Idyll

Johann Sebastian Bach
- Ensk svíta nr. 6 í d-moll

Franz Schubert
- Moments musicaux, op. 94 nr. 3 & 4
- Ländler, op.171

Domenico Scarlatti
- Sónata í C-dúr, K.132
- Sónata í E-dúr, K.20

Béla Bartók
- Dans svínahirðisins
- Allegro barbaro

Diskur II:

Johann Sebastian Bach
- Prelúdíur og fúgur nr. 1, 2, 23 & 24 úr Das wohltemperierte Klavier I

Ludwig van Beethoven
- Sónata í As-dúr, op. 110

Johannes Brahms
- Tilbrigði og fúga um stef eftir Händel