Konstrúkt lífsins
Á dögunum kom út bókin Snöggir blettir eftir Sigurð Gylfa Magnússon, og hefur hún að geyma safn gamalla ljósmynda. Myndirnar eiga það sameiginlegt að vera flestar af fólki sem fór ótroðnar slóðir í lífi sínu, og við hverja mynd er stuttur texti eða hugleiðing. Þessi bók er e.k. leikur með samspil myndar og texta, en um aðferð sína segir höfundurinn í formála:
„Ég hef ekki áhuga á að steypa fólkinu á ljósmyndunum í ákveðna kví, að halda einhvers konar fríksjó á hópi fólks sem hafði af einhverjum ástæðum orðið útundan í lífinu. Ég vil miklu frekar bera kennsl á kosti þessara einstaklinga eins og þeir blasa við mér – sem skyndimyndir af vettvangi dagsins. Til þess að það megi takast reyni ég að horfa á lífið án þess að styðjast við þekkt viðmið.“ (bls. 8)
Um leið og þessi orð sýna að höfundurinn vill umgangast viðfangsefni sitt með virðingu vekja þau upp spurningar: Er hann að ætla sér hið ómögulega? Hvernig í ósköpunum á það að vera mögulegt að horfa á lífið án þess að styðjast við þekkt viðmið? Sigurður Gylfi lýsir þessu ekki nánar, og líklega er auðsótt mál að sanna að þetta sé óraunhæf hugmynd. Það er þó greinilegt að textarnir í Snöggum blettum eiga fátt skylt við hefðbundna myndatexta. Þeim má gróflega skipta í fimm flokka (sumar myndirnar falla í fleiri en einn):
1) Textar þar sem manneskjum á mynd er lýst út frá myndinni sjálfri („Konungur vallanna“ bls. 30).
2) Textar þar sem manneskjum á mynd er lýst með sögu eða gildismati sem tengist myndinni sjálfri ekki („Fögnuður“ bls. 66).
3) Textar sem fjalla um einhvern tiltekinn eiginleika myndarinnar en fjalla ekki beint um manneskjuna á myndinni („Að horfa“ bls. 46).
4) Samanburður á myndefni og einhverju sem er því fjarlægt, þar sem dregnar eru fram hliðstæður eða andstæður fyrirbæranna tveggja („Staður í landslagi“ bls. 62).
5) Textar þar sem hvorki er minnst á manneskjuna á myndinni né neitt sem tengist ljósmyndinni sjálfri, heldur reynt að skapa hughrif í samspilinu („Gleði“ bls. 50).
Sigurður Gylfi sækir margt í samanburðinum við eigið líf, ekki síst æskuna og er bókin að nokkru leyti sjálfsævisögulegt verk. Myndirnar í bókinni eru úr fórum Helga Magnússonar, afa Sigurðar, sem gaf syni sínum þær, Magnúsi Helgasyni föður Sigurðar Gylfa. Bókin er opin í endann því hún endar á bréfi Sigurðar Gylfa til barna sinna og þannig setur hann viðfangsefnið í náið samband við gang kynslóðanna.
Snöggir blettir eru um leið óbeinn óður til ljósmyndarinnar, miðilsins sem gerir augnablikið eilíft. Sigurði Gylfa tekst dável að útfæra klassíska hugmynd á nýstárlegan hátt, þ.e. hugmyndina um varanleika ljósmyndarinnar. Enn fremur er bókin sniðug kennslubók í því að lesa ljósmyndir og setja þær í víðara samhengi en hefðbundin hugsun gerir ráð fyrir. Snöggir blettir er frumlegt og einlægt verk, myndabók en líka hugvekja um myndræna eiginleika orðsins.
„Ég hef ekki áhuga á að steypa fólkinu á ljósmyndunum í ákveðna kví, að halda einhvers konar fríksjó á hópi fólks sem hafði af einhverjum ástæðum orðið útundan í lífinu. Ég vil miklu frekar bera kennsl á kosti þessara einstaklinga eins og þeir blasa við mér – sem skyndimyndir af vettvangi dagsins. Til þess að það megi takast reyni ég að horfa á lífið án þess að styðjast við þekkt viðmið.“ (bls. 8)
Um leið og þessi orð sýna að höfundurinn vill umgangast viðfangsefni sitt með virðingu vekja þau upp spurningar: Er hann að ætla sér hið ómögulega? Hvernig í ósköpunum á það að vera mögulegt að horfa á lífið án þess að styðjast við þekkt viðmið? Sigurður Gylfi lýsir þessu ekki nánar, og líklega er auðsótt mál að sanna að þetta sé óraunhæf hugmynd. Það er þó greinilegt að textarnir í Snöggum blettum eiga fátt skylt við hefðbundna myndatexta. Þeim má gróflega skipta í fimm flokka (sumar myndirnar falla í fleiri en einn):
1) Textar þar sem manneskjum á mynd er lýst út frá myndinni sjálfri („Konungur vallanna“ bls. 30).
2) Textar þar sem manneskjum á mynd er lýst með sögu eða gildismati sem tengist myndinni sjálfri ekki („Fögnuður“ bls. 66).
3) Textar sem fjalla um einhvern tiltekinn eiginleika myndarinnar en fjalla ekki beint um manneskjuna á myndinni („Að horfa“ bls. 46).
4) Samanburður á myndefni og einhverju sem er því fjarlægt, þar sem dregnar eru fram hliðstæður eða andstæður fyrirbæranna tveggja („Staður í landslagi“ bls. 62).
5) Textar þar sem hvorki er minnst á manneskjuna á myndinni né neitt sem tengist ljósmyndinni sjálfri, heldur reynt að skapa hughrif í samspilinu („Gleði“ bls. 50).
Sigurður Gylfi sækir margt í samanburðinum við eigið líf, ekki síst æskuna og er bókin að nokkru leyti sjálfsævisögulegt verk. Myndirnar í bókinni eru úr fórum Helga Magnússonar, afa Sigurðar, sem gaf syni sínum þær, Magnúsi Helgasyni föður Sigurðar Gylfa. Bókin er opin í endann því hún endar á bréfi Sigurðar Gylfa til barna sinna og þannig setur hann viðfangsefnið í náið samband við gang kynslóðanna.
Snöggir blettir eru um leið óbeinn óður til ljósmyndarinnar, miðilsins sem gerir augnablikið eilíft. Sigurði Gylfa tekst dável að útfæra klassíska hugmynd á nýstárlegan hátt, þ.e. hugmyndina um varanleika ljósmyndarinnar. Enn fremur er bókin sniðug kennslubók í því að lesa ljósmyndir og setja þær í víðara samhengi en hefðbundin hugsun gerir ráð fyrir. Snöggir blettir er frumlegt og einlægt verk, myndabók en líka hugvekja um myndræna eiginleika orðsins.
<< Til baka | Senda athugasemd til ritstjórnar