þriðjudagur, nóvember 16

Kæri rekkjunautur

HöfundurHvað er í raun og veru og hvað er ekki? Efinn er vafinn óvissu. Hvað sýnist okkur og hvað sjáum við? Efablandin óvissa Hamlets er enn til staðar. Hvað er okkur gert að sjá og hvað er falið fyrir okkur? Við komumst tæpast að sannleikanum fyrr en hann er hættur að skipta máli. Því oft þarf að reyna hvort tveggja, það sem er rétt og það sem er rangt, uns fullvissa fæst um hvað er og hvað er ekki. Hver er sá sem hann læst vera, hver stendur við það sem hann segir - um slíkt er í raun ógerningur að skera úr um. Enginn er fullkominn. Allir geta gefið misvísandi bendingar sem hægt er að skilja á ýmsan máta.

Kæri rekkjunautur, hvernig vilt þú að ég beiti mér?

Hver, ef frá er talinn eftirlætis stjórnmálamaður, skáld eða blaðamaður hvers og eins, segir í raun það sem hann meinar alltaf hreint? Þingmaður nokkur fyrir suðurlandskjördæmi, sagðist á síðasta kjörtímabili ekki hafa sagt allan sannleikan. Pétur neitaði Jesú Kristi. Er ekki hægt að draga þann sannleik af Villiönd Henriks Ibsen að eins oft megi satt kyrrt liggja. Þó að sannleikurinn muni beina mönnum annað en þögnin, þó það sé ef til vill óþægilegri aðstæður, eru allir betur settir með sannleikan sér við hlið. Hávamál kenna okkur að við verðum ekkert betur sett með að vita eigin örlög – „Meðal vitur skili manna hver.“

Okkur var sýnt fram á að heimsmarkaðsverð réði eldsneytisverði á Íslandi annað er að koma á daginn. Upplifði almenningur í raun ánægju vegna þriggja stafa einsatkvæðisorðs ÓRG í júní síðastliðinn, eða voru það fáir einstaklingar sem glöddust í raun. Endurheimti þjóðin eitthvað sem hafði áður glatast. Ætlaði Ingibjörg sér að vera borgarstjóri í fjögur ár. Er „vort lýðræði allt [...] leikhús“ eins og Steinn Steinar komst að orði eða mætti fela tilveru okkar alla í einu leikverki. Með smækkun má sjálfsagt reyna það svona eins og meginmál Íslendingasagnanna var dregið saman í: Bændur börðust.

Vita „meira í dag en í gær“.

Ég ólst upp við að það væri heitt í öðrum löndum en Íslandi, þess vegna voru þau uppnefnd „heitulöndin“. Svo var ég einu sinni á Ítalíu í rigningu og þá fréttist að það væri hlýrra á Vopnafirði en á baðströndinni. Þótti mönnum það súrt í broti að hafa reitt af hendi háar fjárhæðir fyrir sólarlandaferð, þegar hægt hefði verið að fylla bensíntankinn, taka tjaldið með og aka austur á Vopnafjörð. Sá lærir sem lifir nógu lengi til að læra um lífið. Svo lærir lengi sem lifir. Vonandi lærum við að lifa með þeim sem hafa eitt sinn blekkt okkur. Sem dæmi um góð viðbrögð má nefna það að ekki var um setuverkfall hjá ferðalöngunum að ræða í ljósi yfirverðs á Celsius-gráðunum ítölsku, miðað við þær vopnfirsku.

Við eflumst almennt séð af þekkingu og þrótti dag frá degi, þótt sumt gleymist og sumir þreytist. Nú vitum við hvað átti sér stað. Menn þarf ekki að gruna neitt þegar þeir vita. Ég hef ekki lesið skýrslu Samkeppnisstofnunar. Það sem drepur mann ekki herðir mann. Þjóðin ætti að vera þróttmeiri fyrir vikið, nú þegar samráðið hristist af baki hennar. Orðaflaumurinn fylgir í kjölfarið. Þegar refsigleðin er runnin af fólki og hiti augnabliksins hefur kólnað í þátíðinni þá má ef til vill spyrja náungann, landann, hvern sem er þegar út í það er farið. Í þessu tilviki eins og svo mörgum fleirum.

Kæri rekkjunautur, hafðir þú einhverja ánægju eða yndisauka af öllu tilstandinu?

Fúkyrðaflaumur skrýddur andstyggð og öfund brýst oftar en ekki af stað í umræðu stjórnmála sem og annarra mála á Íslandi. Fyrirgefning syndanna er gjarnan jafn vonlítil og miðlunartillaga ríkissáttasemjara í kjaradeilukennara og sveitarfélaga. Íslendingar segja sig stundum siðaða þjóð og sumir þeirra telja merki um það vera afnám dauðarefsinga fyrir rúmum sjö tugum ára. Í stað þess að sjá blóðið spýtast úr dæmdum sakamönnum höfum við annað veifið vaska og vakandi menn sem gera út af við mannorð einstaklinga með meiðandi ummælum. Sá sem er til umræðu hverju sinni skal afhöfðaður með örðum. En þar sem afhöfðunin er ekki eiginleg þarf almenningur síðar að umgangast þann mannorðslátna.

Kæri rekkjunautur, heldur þú að þú hafir það betra eftir að hafaríinu er lokið?