fimmtudagur, nóvember 18

Blikkkóngarnir

HöfundurÁrið 2001 sendi Magnus Mills frá sér sína þriðju skáldsögu, Blikkkóngana (e. Three to see the King). Ferill Mills hófst með skáldsögunni Taumhald á skepnum (e. The Restraint of Beasts) sem hann skrifaði samhliða því að aka strætisvagni. Sú bók var mjög vinsæl og var höfundur tilnefndur til Booker- og Whitbread verðlauna fyrir hana. Gagnrýnendur lofuðu bókina í hástert, fannst hún vera ferskur andblær og frábærlega vel skrifuð. Þeir höfðu þó af því áhyggjur hvort Mills væri einnar bókar undur, menntunarlaus bílstjóri sem hafði verið heppinn að ramba á eina góða hugmynd. Til allrar lukku, bæði fyrir Mills og lestrarþyrstan almenning, hefur hann haldið áfram að skrifa og gert það vel. Hann hefur einkum verið lofaður fyrir einfaldan og einstakan stíl sinn, svartan, lúmskan húmor og fókus á hinn hversdagslega mann. Honum hefur hins vegar verði legið að hálsi fyrir að skrifa bækur þar sem lítið gerist og fyrir líkindi milli bóka. Blikkkóngarnir sýnir þó að Mills er fær um að breyta til, en þar færir hann sig frá verkamannastéttinni og umhverfi hennar sem hefur verið honum hugleikinn í fyrri verkum.

Í skáldsögunum Taumhald á skepnum og Quiet on the Orient Express (sem ekki hefur verið þýdd á íslensku) hélt Mills sig innan verkamannastéttarinnar, sem er honum vel kunn af eigin raun, og sérkennilegra, lítilla dreifbýlissamfélaga. Sögupersónur unnu mikið, fóru í sígarettupásur og skruppu stundum á hverfisbarinn eftir vinnu. Þetta var samfélag sem almenningur þekkir af eigin raun, en þó undarlegt og á einhvern hátt öðruvísi og óhugnalegri en maður á að venjast. Í Blikkkóngunum er launuð vinna, sem skiptir svo miklu máli í fyrri bókum Mills, hins vegar víðs fjarri. Engin sögupersóna Blikkkónganna stundar launaða vinnu. Að sögn höfundar er ástæðan sú að hann vildi losna við allar hömlur – kærði sig ekki um sagnfræðilegar, landfræðilegar eða efnahagslegar tilvísanir af neinu tagi. Auk þess hefur áferð nútímasamfélagsins verið afmáð – hefðir og sambönd eru jafn berskjölduð og víðáttumikið tómt, landslag bókarinnar. Mills hefur því að mestu leyti hreinan flöt til að byggja sögu sína á, sem reynist jafnvel undarlegri, strjálli, einangraðri og djarfari en þær sem hann hefur áður skrifað.

Sagan gerist á ónefndum stað, á óvissum tíma. Nafnlaus sögumaður býr í tveggja hæða blikkhúsi með fátt í kringum sig nema rauðan sand og vindinn. Hann hafði fyrir tilviljun fundið þetta hús og sest þar að, og virðist vera fullkomlega sáttur með tilveru sína, jafnvel stoltur yfir því að hafa rambað á svona heppilegt hús og geta verið fjarri öðru fólki, samfélagi og menningu. En skyndilega er rútínubundin tilvera sögumannsins rofin með komur Mary Perie, sem var vinur einhvers vinar, ólíklegasta manneskjan til að birtast svona allt í einu. En hana virtist langa til að skoða sig um, svo svo hann býður henni inn. Innan skammst takast með þeim ástir og er samdráttur þeirra með því skemmtilegra í sögunni, hann er svo raunverulegur og lýst með svo hárbeittum húmor að unun er af.

Sögumaður á þrjá nágranna, Steve, Philip og Simon, sem búa í þægilegri fjarlægð frá honum – ekki of nálægt og ekki of langt í burtu. Tilbreytingasnauð tilvera sögumann flækist enn frekar þegar þeir segja honum af Michael Hawkins, manni sem býr enn legnra úti á auðninni en nokkur þeirra og er að þeirra sögn afbragð annarra manna. Michael þessi er að gera eitthvað stórkostlegt, svo stórkostlegt að Steve, Philip og Simon pakka saman blikkhúsunum sínum og fara til hans. Kyrrðin er rofin enn frekar þegar sögumaður og Mary fara að koma auga á sífellt fleira göngufólk sem skilur eftir fótspor í rauðum sandinum – og allt er þetta fólk á leið til Michael Hawkins. Að lokum ber forvitnin sögumann ofurliði, og þrátt fyrir að vera á móti þessum Michael heldur hann af stað til að sjá hvað um er að vera. Þegar hann kemur á áfangastað sér hann fjölda blikkhúsa, svipuðu sínu eigin, og fjölda fólks sem allt vinnur að sameiginlegu markmiði undir stjórn Hawkins – að byggja eins konar útópíu, eða fyrirmyndarsamfélag, ofan í gljúfri. Þetta gengur að sjálfsögðu ekki þrautalaust fyrir sig, svo ekki sé fastar að orði kveðið til að skemma ekki bókina fyrir væntanlegum lesendum.

Blikkkóngarnir er auðveld aflestrar, skrifuð á einfaldan hátt og sagan rennur vel áfram. Þrátt fyrir fjarstæðukennda tilveru sögupersóna og undarlegan söguþráð var ég fljótlega sokkin ofan í bókina. Þó svo að sagan fjalli um fólk, alveg eins og mig og þig, lýtur hún sínum eigin samfélagsreglum og þegar lesandi hefur áttað sig á því þarf hann ekki lengur að bera hana saman við sýna eigin tilveru. Endir bókarinnar hefur vafist fyrir allnokkrum gagnrýnendum, þeim þótt hann í lakara lagi og svolítið út í bláinn. En lokin eru eins og svo margt annað í sögunni – eitthvað sem lesandi verður sjálfur að túlka og mynda sér sjálfur skoðun á. Og það er aldrei verra þegar bækur krefjast þess að lesendur hugsi sjálfstætt.