miðvikudagur, desember 1

Hvað hrjáir Þráin Bertelsson?

Kári TuliniusÁgúst Borgþór Sverrisson, smásagnahöfundur, heldur úti bloggi, og er talsvert frægari fyrir það en smásögur sínar. Nýverið var hann fenginn til að tjá sig í Silfri Egils um nýútkomna bók Þráins Bertelssonar, Dauðans óvissi tími. Ég horfði á þáttinn, en satt að segja man ég sáralítið eftir umræðunni, þess þá heldur því sem Ágúst Borgþór hafði sérstaklega fram að færa. Mig grunar að ég hafi dottað yfir Silfrinu, sem gerist æ oftar eftir því sem ég eldist. En nóg um það. Hins vegar þá var Ágúst fenginn til að fjalla um nokkrar jólabækur fyrir kistuna.is. Hann ákvað að fjalla fyrst um bók Þráins, þar sem hann var búinn að lesa hana. Svo birti hann kistugreinina einnig á bloggi sínu. Mat Ágústs á bókinni er ljóst strax í titli gagnrýninnar, Slarkfær reyfari. Ekki góður dómur, sem sagt. Nú jæja, ekki mjög stórar fréttir kannski, minniháttar rithöfundur gefur bók metsöluhöfundar slæma einkunn. Varla miklar fréttir það. En öllum þeim til happs sem hafa gaman að því að sjá fólk æla á peysuna sína á almannafæri þá fréttir Þráinn Bertelsson af þessu og ákveður að svara. Hefst þá gamanið.

Ekki ætla ég að birta allan svarpistilinn, en ef maður ætti að draga út helstu atriði þá eru þau eftirfarandi (allur texti innan gæsalappa í þessari grein er úr umræðu Ágústs og Þráins):

  • Ágúst Borgþór er með bók Þráins á heilanum og talar um hana út í eitt

  • Þeir sem gefa bók Þráins lélega dóma eru „að reyna að koma sér í mjúkinn hjá voldugum aðilum með því að taka að sér að skvetta úr koppnum þeirra“.

  • Rithöfundum er leyfilegt og „jafnvel beinlínis skylt að fjalla um allt milli himins og jarðar“.

  • „þar með talið að velja sér jafnóspennandi viðfangsefni og vesaling minn“ (ég vona innilega að hann meini sína eigin persónu, en ekki, umm... þið vitið, vesalinginn hans).

  • „enginn rithöfundur í veröldinni getur skrifað aukatekið orð án þess að það eigi sér upptök í hans innsta eðli“.

  • Ágúst Borgþór getur kannski raðað orðum saman svo að úr verði setningar, en hann er ekki rithöfundur fyrir fimm aura.

  • Ull á þig!

Ágúst svarar pent fyrir sig, útskýrir fyrir Þránni afhverju hann hafi verið að tjá sig um bókina, biður svo honum að njóta velgengni sinnar sem og þakkar fyrir fyrri bók Þráins, Einhvers konar ég, sem Ágústi hafi vel líkað. Svarar þá Þráinn aftur.

  • Ávarpar Ágúst Borgþór sem „Ágúst Þór“, sem verður að teljast nokkuð hart.

  • Vitið þið hvað, svarið er svo hnitmiðuð fullkomnun að ekkert má missa sín, svo ég birti það bara í heild sinni:

  • „Það sem þú virðist ekki skilja er þetta:
    Fyrir rithöfund sem er með bók á jólabókamarkaðnum er heldur ósmekklegt að nota hvert tækifæri til að brigsla keppinaut sinn opinberlega um kjaftasögur, vinnusvik og dylgjur. Það ber vott um fullkomið siðleysi - eða fádæma heimsku.
    Nema hvort tveggja sé.“

Ég viðurkenni að ég táraðist af gleði þegar ég las þetta tilsvar. Hvílík snilld! Sjaldan séð jafn mikla heift í svo stuttum texta. Ágúst Borgþór svarar svo fyrir sig með því að benda á að hann sé lítt þekktur, sem er vissulega rétt, og að ef Þráinn ætli að gefa út bók sem sé svo „eldfim“, þá ætti hann að koma sér upp aðeins þykkari skráp. Ágúst sér sko ekki eftir neinu! Hann segir líka eitthvað um þöggun og sjálfsritskoðun. Svar Þráins er jafn hnitmiðað, en kannski ekki í sama gæðaklassa og hið fyrra.

  • Þráinn ávarpar Ágúst bara sem „Ágúst“, honum finnst greinilega ekki taka því lengur að eyða tveimur nöfnum í manninn.

  • „Þetta svar þitt staðfestir minn versta grun. Það er hvort tveggja sem amar að.
    Læt svo þetta útrætt af minni hálfu.
    Vegni þér vel.“

Síðan skellir sér einhver nafnlaus inn í samræðuna, en við skulum ekkert pæla í því sem hann segir heldur hoppa beint í lokainnlegg Ágústar. Hann bendir á að rithöfundum sé leyfilegt að fjalla um bókmenntir og að það sé hálf hlægilegt að hugsa sér Þráinn og Ágúst sem keppinauta, slíkur sé munurinn á sölunni. Bæði satt og rétt.

En nóg af endursögn, snúum okkur að kjarna málsins. Hvað fær Þráinn Bertelsson, sem hefur hlotnast meiri heiður og velgengni en langflestum núlifandi íslenskum listamönnum, til að bregðast svo harkalega við gagnrýni frá smáblómi í íslenska ritjurtagarðinum?

Það er vel þekkt að margir listamenn líti svo á að öll slæm gagnrýni á sköpunarverkum sínum jafngildi persónulegum árásum á höfundinn, gott ef ekki að slíkt séu andlegar morðtilraunir í hugum sumra. Þrátt fyrir þetta eru ákaflega fáir höfundar sem eyða tíma sínum og orku í það að svara fyrir sig. Nær allir vita að það kemur gagnrýni eftir þessa gagnrýni, og það sem maður segir þegar manni er heitt í hamsi er oftast eitthvað sem betur væri ósagt. Ég efast ekki um það að Þráinn er jafn kunnugt um þetta og mér. Hvað fær hann þá til að ráðast svona harkalega á Ágúst Borgþór?

Það fyrsta sem ber að athuga í því samhengi er að Þráinn er greinilega búinn að ákveða það að allir sem gagnrýni Dauðans óvissa tíma séu „að reyna að koma sér í mjúkinn hjá voldugum aðilum“. Enginn sem setur eitthvað út á bók hans gerir það af því að eitthvað féll ekki fagurfræðilega í kramið, heldur af því að Þráinn Bertelsson ætlar sér að kýla stóru kallana kalda, og þess vegna munu ýmsir finna sig knúna til að gerast handbendi hinna sterku og hindra Þráinn í ætlunarverki sínu. Það er gaman að fyrrum kvikmyndaleikstjóri upplifi sig eins og hetjuna í Schwarzenegger-ræmu. Áður en hann getur tekist á við stóra vonda óvininn þarf hann fyrst að verjast árásum fjölda smáfjenda.

En það sem er kannski áhugaverðast við þetta er að með þessu þarf Þráinn aldrei að efast um gæði eigin verks. Öll slæm gagnrýni getur verið afgreidd sem afurð annarlegra hvata. Það finnst engum bókin hans léleg eða miðlungs í alvörunni, fólk er bara að reyna að ganga í augun á „voldugum aðilum“. Það sem er svo sniðugt við þetta samsæri gegn Þránni er að það er sjálfsprottið. Engar skipanir eru gefnar, þessir „heilmargir“ sem taka að sér að gagnrýna bókina fyrir hönd stóru, vondu kallana gera það „meira að segja í sjálfboðavinnu“.

Það rennur örugglega mörgum í grun að Þráinn hrjái mikilmennskubrjálæði. Þar get ég ekki verið alveg sammála. Hinn sanni mikilmennskubrjálæðingur lætur smáblóm ritjurtagarðsins sig litlu skipta. Nei, einhver önnur ástæða hlýtur að vera nærtækari. Fyrir utan heiftina og bræðina eru líka mikil sárindi í þessum pistlum Þráins, sérstaklega þeim fyrsta. Hann talar um sjálfan sig sem „vesaling“ og um bókin er „þessi skræða“. Og þó að hugmyndin sem hann setur fram um að rithöfundar geti ekki „skrifað aukatekið orð án þess að það eigi upptök sín í hans innsta eðli“ verði honum að lokum tæki til að skjóta á Ágúst þá er þessi hugmynd mjög falleg og talsvert á skjön við afganginn af pistlinum. Þráinn er þarna að skilgreina það hvað sé að vera „alvörurithöfundur“ út frá sjálfum sér. Hann virðist þarna vera í raun að segja:

Sjáðu mig, ég er alvörurithöfundur!

Sem er náttúrulega eitthvað sem fólk sem eru visst í sinni sök um að vera „alvörurithöfundar“ gera ekki. Ég skynja þarna þrá til þess að verða metinn sem mikill listamaður. Ógæfa Þráins sem listamanns er að hans elskuðustu og dáðustu listaverk, Nýtt líf, Dalalíf og Löggulíf eru grínmyndir og í því samfélagi sem við lifum í eru grín, glens og gaman ekki talin eiga heima í alvöruþrungnum listaverkum. Ég þarf ekki annað en að benda á það húllumhæ sem varð þegar Þráinn var skipaður í heiðurslaunaflokk íslenskra listamanna.

Þráinn er listamaður á efri árum. Þó að hann sé nýsprunginn út sem rithöfundur þá rennur mér í grun að hann þrái viðurkenningu sem „alvörurithöfundur“. Einhver mér vitrari sagði fyrir margt löngu að það væru tvær leiðir til að vera hærri en aðrir í kringum sig, önnur væri að vera rísa upp úr fjöldanum, hin að berja keppinautana niður.

Það er frekar hlægilegt að keppinauturinn sem Þráinn kýs að ráðast á er Ágúst Borgþór, sem er það umkomulausasta af öllu umkomulausu á ritleikvellinum, smásagnahöfundur. Fyrir Þráinn Bertelsson að ráðast á Ágúst er eins og þegar stór strákur í elsta bekknum hryndir yngri strák, sem þarf að ganga við hækju, ofan í drullupoll. Hraplegur ofleikur af nokkrum sem vill láta taka sig alvarlega eins og Þráinn svo augljóslega þyrstir í.

Hver er þá sjúkdómsgreiningin? Hvert er svarið við spurningunni sem spurt er í titli þessarar greinar, hvað hrjáir Þráinn Bertelsson?

Ég myndi halda að það myndi blasa nokkuð augljóslega við. Minnimáttarkennd í bland við þá vissu Þráins að hann sé mikill listamaður. Hann þolir ekki gagnrýni, og áður en nokkur hefur verið sett fram ákveður hann að öll sú sem hann fái sé sett fram af vafasömum ástæðum. Það ber ekki vott um mikið sjálfstraust. Þvert á móti, hann virtist búast við henni, og áður en hann fær hana kemur hann sér upp varnarmúr.

Svo þar hafið þið það, það sem rekur Þráinn Bertelsson til að ráðast á Ágúst Borgþór, það sem hrjáir Þráinn, er þrá eftir viðurkenningu sem hann er ekki viss um að aðrir telji hann verðskulda.

Eða það held ég alla veganna. Ef þú hefur aðrar kenningar þá endilega sendu mér ímeil á ritstjorn@skyjaborgir.com Til að skoða færslu Ágústar og komment Þráins þá smellið hér. Njótið vel.