sunnudagur, desember 5

Englar og djöflar eftir Dan Brown

HöfundurÆtli það sé nokkuð hægt að fjalla um Engla og Djöfla eftir Dan Brown án þess að minnast á Da Vinci lykilinn eftir sama höfund? Þá er því lokið og við getum snúið okkur að verkinu sem er til umfjöllunar. Englar og djöflar kom út árið 2000 á enskri tungu, en Bjartur var nýlega að gefa út íslenska þýðingu Karls Emils Gunnarssonar. Þegar Dan Brown útskrifaðist úr háskóla fór hann að kenna ensku í smá tíma. Hann þraukaði ekki lengi sem kennari og fór fljótlega að snúa sér að skriftum þar sem hann tók sérstaklega fyrir áhuga sinn á dulmálskrukki og samsæriskenningum um ríkisstjórnir. Hann er sonur margverðlaunaðs stærðfræðiprófessors og trúarlegs tónlistamanns. Það voru þessar andstæður vísindanna og trúarlegra skoðanna í uppeldi Brown sem voru kveikjan að verkinu Angels and Demons. Hr. Bjartur segir eftirfarandi um söguna:
Robert Langdon, prófessor í táknfræði við Harvard-háskóla, er boðaður til Sviss með skömmum fyrirvara og falið að rannsaka vettvang óhugnanlegs morðs á þekktum vísindamanni. Fyrr en varir er hann flæktur inn í aldalangar erjur kaþólsku kirkjunnar og leynifélagsins Illuminati sem hefur í hyggju að valda usla í sjálfum Páfagarði í Róm.
Þetta er ágætt, en það mætti fylgja með að strax í upphafi –kafla sem kallaður er formáli- er framið morð. Spennan er bókstaflega látin stökkva fram og grípa lesandan á upphafsíðum bókarinnar, og meira að segja áður en sagan sjálf hefst. Slíku útspili fylgir mikil áhætta, því að nú má lesandinn ekki missa áhugan og verður verkið því að halda sama eða svipuðum þræði allt til enda. Merkilegt nok! Þá tekst það glæsilega hjá Brown. Frásagnirnar í sögunni er vel fléttaðar saman til þess að spennan haldist í allri byggingu verksins. Flestir kannast eflaust við áhrifin sem fylgja góðri byggingu í spennusögu. Maður getur ekki hætt að lesa fyrir nokkra muni, einmitt það sem kom fyrir mig.

Kaþólskri trú er stillt upp á móti vísindahyggju nútímans. Höfuðstöðvar hvors fyrir sig eru Páfagarður annars vegar og rannsóknastofan CERN hinsvegar. Þessir máttarstólpar hafa látið hvorn annan í friði þangað til að fornt leynibræðralag sem kallar sig Illuminati, eða hinir upplýstu, kemur upp á yfirborðið. Mitt á milli eru táknfræðimaðurinn Rober Langdon og náttúrufræðikonan Victoria Vetra. Mér fannst smá kaldhæðni liggja í því að láta páfagarð þurfa að leita hjálpar vísindamanna til að leysa gátur óvinarins. Þannig eru það í raun tveir upplýstir pólar sem berjast um tilveru trúarinnar en ekki trúin á móti vísindum. Einhvern veginn er eins og undir niðri liggi spurningin: á Guð að vera til?

Það er eins og Brown skrifi að einhverju leyti undir áhrifum kvikmynda. Það þarf ekki endilega að vera slæmur hlutur þar sem lesendur eru óneitanlega flestir undir slíkum áhrifum. Þannig held ég að bókin nái ótrúlega auðveldlega að kalla fram þær myndir í huga lesanda sem ætlast er til. Persónurnar eru flestar skemmtilegar og vel úr garði gerðar. Aðalpersónan, Langdon breytist úr fræði- og bókabéus í Indiana Jones. Með öðrum orðum þá verður Robert Langdon það sem alla fræðimenn dreymir um að verða.

Ég get lítið tjáð mig um íslenska þýðingu verksins þar sem ég las hana á ensku. En ég efast ekki um að Karl Emil hefur staði sig vel við þýðinguna, líkt og áður.

Kannski tóku sumir eftir því hér í byrjun að bókin Englar og djöflar kom út á undan Da Vinci lyklinum. Hún er fyrsta bókin um Langdon og ef marka má sögusagnir, þá er von á fleirum bókum frá Dan Brown um táknfræðinginn. Ég vona að bækurnar verði fleiri því að bókin fangaði mig gjörsamlega og er einhver allra besta spennufrásögn, sem ég hef komist í, síðan ég sá Indiana Jones.

Vefur Bjarts um bókina.

Vefur Dans Browns
.