þriðjudagur, desember 7

Spáð í tilnefningarnar I

HöfundurFyrri hluti: Fræðibækur og bækur almenns efnis
Tilnefningar til íslensku bókmenntaverðlaunanna 2004 voru opinberaðar fyrir skemmstu. Hér er litið yfir listann og reynt að velta vöngum yfir því hverjir séu heitir og hverjir afleitir.

Halldór Laxness eftir Halldór Guðmundsson

Sú bók sem kom minnst á óvart að þessu sinni. Án efa þrælgott verk, hafi maður áhuga á ævi Halldórs Laxness. Undanfarin misseri hafa hins vegar verið gerðar svo margar bækur, blaðagreinar og sjónvarpsmyndir um ævi skáldsins að ég efast um að ég nenni að lesa þessa bók fyrr en eftir svona 5-6 ár. Vonandi kemur senn sú tíð að fólk byrjar að skrifa bækur um skáldverk nóbelsskáldsins, en ekki höfundinn sjálfan, því þar er mikið starf óunnið. Í fyrra var Hannes Hólmsteinn tilnefndur fyrir sína bók, þannig að það hefur varla komið annað til greina en að tilnefna þessa líka, svona til að gera þessi verðlaun ekki hlægileg í sögulegu samhengi.

Íslendingar eftir Sigurgeir Sigurjónsson og Unni Jökulsdóttur
Ákaflega fín og flott bók. Texti Unnar er léttur og hlýlegur, en veigamestar eru auðvitað ljósmyndir Sigurgeirs, sem eru svo skemmtilegar að maður getur horft á þær tímunum saman. Í sumar voru þær til sýnis á Austurvelli með enskum og íslenskum texta, og hefur mörgum erlendum ferðamanninum vísast þótt það dágóð sárabót fyrir þær fúlgur fjár sem hann var flettur í hingaðför sinni. Íslendingar er eins og rökrétt framhald af Stikluþáttum Ómars Ragnarssonar frá því fyrir rúmum tuttugu árum, því megináherslan er á fólk sem er ekki alveg í samræmi við vísitölur.

Íslensk spendýr, ritstjóri Páll Hersteinsson
Fermingargjafabækur sem innihalda orðin „íslenskur“ eða „Ísland“ slæðast reglulega inn á tilnefningalistann (Íslenskar eldstöðvar 2001, Hálendið í náttúru Íslands 2000, Undraveröld hafdjúpanna við Ísland 1996, Hraunhellar á Íslandi 1990). Þetta eru stórar og þungar bækur sem kosta um og yfir tíuþúsundkallinn, bækur sem eru yfirleitt aldrei lesnar frá fyrstu síðu til þeirrar seinustu (ef þær eru þá lesnar yfirleitt) og bæta venjulega engu nýju við þekkingarsamfélagið. Þessar bækur öðlast mikilvægi sitt fremur sem uppflettirit, og eru örugglega flestar fínar sem slíkar. Íslensk spendýr er líka merkileg fyrir þær sakir að fyrsta opinbera verk forseta Íslands eftir að hafa beitt synjunarvaldinu í sumar var að veita viðtöku fyrsta eintakinu af þessari bók.

Ólöf eskimói eftir Ingu Dóru Björnsdóttur

Um Ólöfu þessa Sölvadóttur hef ég aldrei neitt heyrt né lesið, enda hefur fátt verið skrifað um hana mér vitanlega, að undanskildum 36 bls. bæklingi eftir Sigurð Nordal sem var prentaður í 650 eintökum árið 1945. Inga Dóra hefur það því óneitanlega umfram Halldór Guðmundsson að hún er ekki að hjakka í sama farinu og hundruð manna áður. Söguþráðurinn í bók Ingu Dóru minnir nokkuð á bókina Catch Me If You Can eftir Frank W. Abagnale. Inga Dóra hefur skrifað ýmislegt um kvenkennda þætti í mótun íslenskrar þjóðernisvitundar, auk greinar um Leif Eiríksson, þannig að hún virðist vera rétta manneskjan í þetta verk.

Saga Íslands, 6. og 7. bindi, aðalhöfundur Helgi Þorláksson

Fyrsta bindið í bókaflokki þeim sem nefnist Saga Íslands kom út fyrir þrjátíu árum, og þar af leiðandi fimmtán árum áður en nokkur maður tók að sér að búa til fyrirbæri sem kalla mætti „Íslensku bókmenntaverðlaunin“. Ég held að Sigurði Líndal gæti ekki verið meira sama um þessi verðlaun. Sú staðreynd að hér eru tilnefnd tvö bindi vekur mann líka til umhugsunar: Er þetta frekar hugsað sem virðingarvottur við bókaflokkinn í heild? Ef svo er ekki, af hverju var þá ekki bara 6. bindið tilnefnt? Eða bara 7. bindið? Mér finnst að einhver önnur bók hefði mátt koma í staðinn fyrir þessi tvö bindi, það er svo mikil skylduræknislykt af þessu einhvern veginn.

Mitt val: Íslendingar eftir Sigurgeir Sigurjónsson og Unni Jökulsdóttur