mánudagur, janúar 3

Það var vínarkruss, vals og ræll, cha-cha-cha, þetta ár: Um skaupið 2004

Höfundur
Þegar skaupið fór af stað huggaði ég mig við þá tilhugsun að það var útlendingur staddur með mér fyrir framan sjónvarpið, þannig að ef skaupið yrði lélegt gæti ég að minnsta kosti skemmt mér við að horfa á furðusvipinn á honum. Ég hafði ekki beinlínis hoppað hæð mína af gleði þegar ég frétti nokkrum vikum fyrr að Spaugstofumenn ættu að sjá um skaupið, enda má þátturinn þeirra svo sannarlega muna sinn fífil fegurri.

En áramótaskaup eru mjög sérstakur miðill vegna þess að þau eru sjaldnast öðru vísi en þau sýnast í fyrstu. Maður sér það venjulega á allra fyrstu mínútunum hvort það verður gott eða vont. Og þegar Hljómar „opnuðu“ skaupið að þessu sinni hafði ég strax látið sannfærast – þetta lofaði svo sannarlega góðu. Það hafði sem sagt verið ákveðið að hafa Þjóðminjasafnið sem grundvöll, sem var ekki verri hugmynd en hver önnur. Það kom líka fljótt í ljós að það voru margir leikarar í spilinu, sem er alltaf jákvætt, því þá dreifast hlutverkin og minni hætta skapast á mjög vondum eftirlíkingum eins og tíðkast svo oft í spaugstofuþáttunum (sáuði t.d. Örn Árnason að leika Sollu Pé? Fyndið í u.þ.b. tvær sekúndur). Nú var m.a.s. bætt um betur og nokkur fjöldi fólks fenginn til að leika sjálft sig: Ómar, kastljósfólkið, Samúel Örn, Bjarni Fel, Frikki Sóf, Geirjón o.fl. Úrræði sem var notað jafnt og þétt allan tímann, en þeirri aðferð hefur aldrei verið beitt í áramótaskaupi áður.

Ragna Fossberg vann sitt starf af mikilli hind eins og fyrri daginn, þarna voru bæði gömul og góð gervi og líka ný og fersk, t.d. uppfærð útgáfa af Kristjáni Jóhannssyni og Dóri Gylfa að leika Árna Magnússon, sem virkaði þrælvel. Eitt frumlegasta einkennið við þetta áramótaskaup var hvernig vísað var í eldra grín. Stundum var það gert óbeint, t.d. í atriðinu þar sem Kristján í Kastljósinu tók bullviðtal við Þorgerði Katrínu og það var klippt saman við raunveruleg svör úr viðtali við hana. Þetta var mikið gert í skaupinu '85 (sem Siggi Sigurjóns leikstýrði líka) og þáttunum Spaug til einhvers frá 1987, en var síðar masterað í Ekkifréttum á Rás tvö (þætti sem allir sannir grínunnendur syrgja enn í dag). Afdalabræðurnir Magnús og Eyjólfur voru líka óbein vísun í skaupið '85, þar sem þeir komu (fyrst?) fram. En vísanirnar voru líka beinni, og á ég þar einkum við atriðið þar sem Jónsi syngur saknaðarsöng til Davíðs Oddssonar og sýnd eru brot úr atriðum þar sem er hermt eftir honum í gömlum áramótaskaupum. Hugmyndin um skaup sem sjálfhverfan miðil fær hér byr undir báða vængi.

Atriðið með Jónsa er atriði af því tagi sem var helsti styrkurinn við skaupið í ár. Þetta eru atriði þar sem tvær flugur eru slegnar í einu höggi, gert er grín að tveimur (óskyldum) hlutum sem kallast á að einhverju leyti. Í dæminu með Jónsa (sem, meðal annarra orða, var eiginlega besti „alvöruleikarinn“ í ár) felst tengingin í brotthvarfi Davíðs úr forsætisráðherrastóli og efni júróvisjónlagsins, sem er saknaðarsöngur í alvöru. Önnur dæmi af þessum toga eru t.d. auglýsing Framsóknarflokksins um að útrýma kvenráðherrum, sem tengist Siv Friðleifsdóttur að því er varðar efni, en auglýsingu frá tryggingafélagi (hvers nafni ég hef nú gleymt) að því er varðar form. Tengingin var annars konar, eða rökleg, í atriðinu þar sem handboltalandsliðið getur ekki æft sig fyrir Ólympíuleikana út af öllum tónleikunum í Laugardalshöll, en þar voru líka afgreiddir tveir hlutir í einu. Bensín-kókauglýsingin og atriðið þar sem Alfreð Þorsteinsson keppir á Ólympíuleikunum í peningakasti siðblindra virkuðu á sama hátt.

Það er alltaf gæðamerki þegar upplýsingaflæðið er svo þétt að maður nær ekki að grípa alla brandarana við fyrsta áhorf, en því var til að dreifa í þessu skaupi (hjá mér, þ.e.a.s.). Ég get ekki stillt mig um að nefna nokkur smáatriði sem voru ansi vel falin, ef ske kynni að aðrir en ég skyldu hafa misst af þeim við fyrsta áhorf:

* Árni Magnússon signir sig áður en hann fer á rjúpu.
* Ólafur Stefánsson kallar Deep Purple dópista og aumingja.
* Þegar Dorrit lætur Ólaf Ragnar sverja forsetaeiðinn segir hún: „Óla-Fur, lofar þú að vera besti forseti í heimi?“ Hann svarar: „Já, ég ætla að vera æðislegur!“
* Óperan sem Kristján Jóhansson syngur nokkrar aríur úr (Norðlendingurinn ljúgandi) er eftir Johnny Cash.
* Diskurinn hans Kristjáns Jóhanssonar heitir Pagame Mucho, sem er ítalska og þýðir „Borgaðu mér mikið.“

Það má enn fremur telja þessu skaupi til tekna að inn á milli komu atriði til að létta stemmninguna, fimmaurabrandarar sem hvert barn getur hlegið að en áttu sér enga sérstaka fyrirmynd í atburðum ársins. Þetta voru t.d. atriðið með No Name-stúlkuna sem var stoppuð af löggunni, grímuverðlaunaafhendingin þar sem sigurvegarinn er sviptur verðlaununum þegar hann fellur á lyfjaprófi (það þótti grunsamlegt hvað hann lék vel), svo og öll stuttu atriðin með Sveppa þar sem hann hljóp með ólympíueldinn. Sveppi var reyndar e.k. þungamiðja skaupsins, hann var tákn fyrir gamla árið sem breytist í hið nýja – keppendanúmerið hans stækkar alltaf í hverju nýju atriði, fyrst er hann númer 2, svo 20, þá 200, síðan 2004 og þegar hann kemst loksins á Þjóðminjasafnið er hann númer 2005.

En svo komu vondu brandararnir og þau atriði, er þú segir um: Mér líka þau ekki. Hannes Hólmsteinn á Gljúfrasteini og Vala Matt með blinda manninum voru frekar slöpp, og atriðin með jökulinn í París og talningamanninn uppi á Héraðsdómi voru allt of löng. Foreldrarnir sem kynna börnin sín fyrir áfengismenningunni á menningarnótt var gamall brandari og atriðið með karlmennina tvo sem kepptu í samhæfðu listsundi mun vera stolið úr Saturday Night Live. Ég fékk aulahroll þegar Magnús stakk ljósleiðaranum upp í rassinn á sér og hrópaði: „Ég er onlæn! Ekki trufla mig, ég er að dánlóda!“ Senan með Kristjáni Jóhannssyni í Kastljósinu var á mörkunum, Örn var jú góður en atriðið var fulllangt í annan endann og brandarinn með rauðu brjóstin var tekinn aðeins of oft.

Heildaráferðin var þó fín, og tökumenn og klipparar Sjónvarpsins sýndu nokkur glæsileg trikk, t.d. þegar Alfreð Þorsteinsson keyrir um í hitabylgjunni og bíllinn hans sést í gegnum tíbrá á veginum. Áferðin á atriðinu með gamaldags bankastjóranum sem hefur viðskiptavinina undir hælnum var sömuleiðis glæsileg. Söngatriðin voru líka flest skemmtileg, sem er alls ekki sjálfgefið. Textarnir (sem eru að öllum líkindum eftir Karl Ágúst Úlfsson) voru smellnir og pössuðu jafnvel beint við það sem var sýnt á því augnabliki, eins og í upphafsatriðinu þar sem Hljómar syngja: „Það var með tómat og hráum og steiktum lauk þetta ár,“ og sýnd er mynd af pylsu og servíettu sem Clinton hefur áritað. Því sem gert er grín að var stundum veitt inn í farveg upprunalegra texta laganna, t.d. þar sem sungið er um olíusamráðið: „Græddir þú / græddi ég / við saman.“ Auk þess var því loksins komið í verk sem við höfum öll beðið eftir svo lengi: Að láta „Dorrit“ ríma við „forrit.“

Þetta var gott skaup, eiginlega frábært. Besta skaupið í þrjú ár. Ég þakka kærlega fyrir mig. Strákarnir í Spaugstofunni sýndu og sönnuðu að þeir kunna þetta enn þá, bara ef þeir fá svolítinn tíma til að undirbúa sig.