Spáð í tilnefningarnar II
Síðari hluti: Skáldverk
Skáldverkalistinn sem tilnefndur er til íslensku bókmenntaverðlaunanna í ár hefur vakið athygli og jafnvel furðu. Hér er vöngum velt yfir þeim skáldverkum sem eru á listanum og reynt að koma með eina útgáfu af svari við þeirri spurningu sem allflest bókmenntafólk landsins glímir við um þessar mundir: Hvað er í gangi?
Andræði eftir Sigfús Bjartmarsson
Það þykir jafnan „dipló“ að tilnefna eina ljóðabók. Sigfús hefur tekist á við allmörg verkefni á bókmenntasviðinu í áranna rás, og verið brautryðjandi á sumum sviðum: Hann hefur skrifað smáprósa sem ekki er hægt um vik að skilgreina hvort teljast ljóð eða sögur (Speglabúð í bænum, Vargatal), skrásett íslenskar þjóðsögur í nútímabúningi (m.a. hina þekktu „Móðir mín í blokk, blokk“), þýtt Carver, Borges og Octavio Paz, en að þessu sinni er viðfangsefnið kunnuglegt. Andræði er safn e.k. heimsósómakvæða. Besta leiðin til að fá tilnefningu til bókmenntaverðlauna er þá kannski að fást við form og inntak sem kemur fólki kunnuglega fyrir sjónir. Hitt er annað mál að þar sem Andræði mun vera hvöss ádeila á ýmis konar ófögnuð nútímans, sýndarmennsku, auglýsingaskrum, ótakmarkaðan hressileika, plebbisma og alræði markaðarins, þá hlýtur það að vera það versta sem gæti komið fyrir þessa bók að hljóta íslensku bókmenntaverðlaunin.
Bítlaávarpið eftir Einar Má Guðmundsson
Einar Már er einn af áskrifendunum að tilnefningum til íslensku bókmenntaverðlaunanna – hann hefur nú fengið fjórar. Bítlaávarpið er sú bók hans sem hefur fengið hvað blendnastar viðtökur í seinni tíð, gagnrýnendur annað hvort hampa henni sem enn einu listaverkinu eða barma sér yfir því hvað hún sé ómerkileg. Sjálfur hef ég bara lesið upphafskaflana sem eru óneitanlega bráðfyndnir, og ekki spillir að í formálanum er m.a.s. daðrað við metafiction. Þessi er mjög vænleg til vinnnings.
Fólkið í kjallaranum eftir Auði Jónsdóttur
Í fyrra voru engir kvenrithöfundar tilnefndir í skáldverkaflokknum og voru ófáir hneykslaðir yfir því. Þótt Fólkið í kjallaranum sé örugglega allra góðra gjalda verð er ekki laust við því að sú hugmynd kvikni að hún sé meðal annars tilnefnd til að jafna kynjakvótann í ár. Auður hefur þó fengið fína dóma fyrir þessa bók, enda er hún nú búin að vera í bransanum í dágóðan tíma. Í bókinni er glímt við hugsjónir tveggja kynslóða, '68-kynslóðarinnar og X-kynslóðarinnar. Hugmyndin virðist a.m.k. góð. Einnig má nefna að Auður fyllir þann fámenna hóp fólks sem er bæði rithöfundar og bloggarar, eins og sjá má hér.
Kleifarvatn eftir Arnald Indriðason
Nú hljóta að renna tvær grímur á bókmenntasnobbara þessa lands. Hvað segir það okkur um þessi verðlaun að nýjasta skáldsagan hans Arnaldar sé tilnefnd, en ekki t.a.m. bækur eftir Braga Ólafsson, Gerði Kristnýju, Guðberg Bergsson eða Kristínu Ómarsdóttur? Vinsældir og almennt umtal hljóta að skipta einhverju máli, a.m.k. ekki minna máli en fagurfræðin. Íslenskir glæpasagnalesendur (sem eru margfalt fleiri en fólkið sem les Kristínu Ómars og Guðberg) gleðjast eflaust yfir þessari tilnefningu. Mér finnst það samt klisja að segja að þetta sé til vitnis um að mörkin milli hámenningar og lágmenningar að þurrkast út, því þau mörk eru útþurrkuð fyrir löngu.
Öðruvísi fjölskylda eftir Guðrúnu Helgadóttur
Af þessari tilnefningu má ráða tvennt: 1) Hugmynd valnefndarinnar var að reyna að fá sem mesta breidd í listann, og 2) Fyrri verk höfundar skipta líka máli. Enginn efast um hæfileika Guðrúnar Helgadóttur sem rithöfundar. Samt er eitthvað skrýtið að sjá hana á þessum lista. Ég legg til að á næsta ári verði byrjað að hafa tilnefningarnar þematengdar, og fyrsta þemað verði barnabækur. Þannig er hægt að útmá umræðuna um það hvort sumar bókmenntir eigi heima í flokk með öðrum, og einbeita sér að því sem máli skiptir: Bókunum sjálfum.
Mitt val: Bítlaávarpið eftir Einar Má Guðmundsson
Skáldverkalistinn sem tilnefndur er til íslensku bókmenntaverðlaunanna í ár hefur vakið athygli og jafnvel furðu. Hér er vöngum velt yfir þeim skáldverkum sem eru á listanum og reynt að koma með eina útgáfu af svari við þeirri spurningu sem allflest bókmenntafólk landsins glímir við um þessar mundir: Hvað er í gangi?
Andræði eftir Sigfús Bjartmarsson
Það þykir jafnan „dipló“ að tilnefna eina ljóðabók. Sigfús hefur tekist á við allmörg verkefni á bókmenntasviðinu í áranna rás, og verið brautryðjandi á sumum sviðum: Hann hefur skrifað smáprósa sem ekki er hægt um vik að skilgreina hvort teljast ljóð eða sögur (Speglabúð í bænum, Vargatal), skrásett íslenskar þjóðsögur í nútímabúningi (m.a. hina þekktu „Móðir mín í blokk, blokk“), þýtt Carver, Borges og Octavio Paz, en að þessu sinni er viðfangsefnið kunnuglegt. Andræði er safn e.k. heimsósómakvæða. Besta leiðin til að fá tilnefningu til bókmenntaverðlauna er þá kannski að fást við form og inntak sem kemur fólki kunnuglega fyrir sjónir. Hitt er annað mál að þar sem Andræði mun vera hvöss ádeila á ýmis konar ófögnuð nútímans, sýndarmennsku, auglýsingaskrum, ótakmarkaðan hressileika, plebbisma og alræði markaðarins, þá hlýtur það að vera það versta sem gæti komið fyrir þessa bók að hljóta íslensku bókmenntaverðlaunin.
Bítlaávarpið eftir Einar Má Guðmundsson
Einar Már er einn af áskrifendunum að tilnefningum til íslensku bókmenntaverðlaunanna – hann hefur nú fengið fjórar. Bítlaávarpið er sú bók hans sem hefur fengið hvað blendnastar viðtökur í seinni tíð, gagnrýnendur annað hvort hampa henni sem enn einu listaverkinu eða barma sér yfir því hvað hún sé ómerkileg. Sjálfur hef ég bara lesið upphafskaflana sem eru óneitanlega bráðfyndnir, og ekki spillir að í formálanum er m.a.s. daðrað við metafiction. Þessi er mjög vænleg til vinnnings.
Fólkið í kjallaranum eftir Auði Jónsdóttur
Í fyrra voru engir kvenrithöfundar tilnefndir í skáldverkaflokknum og voru ófáir hneykslaðir yfir því. Þótt Fólkið í kjallaranum sé örugglega allra góðra gjalda verð er ekki laust við því að sú hugmynd kvikni að hún sé meðal annars tilnefnd til að jafna kynjakvótann í ár. Auður hefur þó fengið fína dóma fyrir þessa bók, enda er hún nú búin að vera í bransanum í dágóðan tíma. Í bókinni er glímt við hugsjónir tveggja kynslóða, '68-kynslóðarinnar og X-kynslóðarinnar. Hugmyndin virðist a.m.k. góð. Einnig má nefna að Auður fyllir þann fámenna hóp fólks sem er bæði rithöfundar og bloggarar, eins og sjá má hér.
Kleifarvatn eftir Arnald Indriðason
Nú hljóta að renna tvær grímur á bókmenntasnobbara þessa lands. Hvað segir það okkur um þessi verðlaun að nýjasta skáldsagan hans Arnaldar sé tilnefnd, en ekki t.a.m. bækur eftir Braga Ólafsson, Gerði Kristnýju, Guðberg Bergsson eða Kristínu Ómarsdóttur? Vinsældir og almennt umtal hljóta að skipta einhverju máli, a.m.k. ekki minna máli en fagurfræðin. Íslenskir glæpasagnalesendur (sem eru margfalt fleiri en fólkið sem les Kristínu Ómars og Guðberg) gleðjast eflaust yfir þessari tilnefningu. Mér finnst það samt klisja að segja að þetta sé til vitnis um að mörkin milli hámenningar og lágmenningar að þurrkast út, því þau mörk eru útþurrkuð fyrir löngu.
Öðruvísi fjölskylda eftir Guðrúnu Helgadóttur
Af þessari tilnefningu má ráða tvennt: 1) Hugmynd valnefndarinnar var að reyna að fá sem mesta breidd í listann, og 2) Fyrri verk höfundar skipta líka máli. Enginn efast um hæfileika Guðrúnar Helgadóttur sem rithöfundar. Samt er eitthvað skrýtið að sjá hana á þessum lista. Ég legg til að á næsta ári verði byrjað að hafa tilnefningarnar þematengdar, og fyrsta þemað verði barnabækur. Þannig er hægt að útmá umræðuna um það hvort sumar bókmenntir eigi heima í flokk með öðrum, og einbeita sér að því sem máli skiptir: Bókunum sjálfum.
Mitt val: Bítlaávarpið eftir Einar Má Guðmundsson
<< Til baka | Senda athugasemd til ritstjórnar