mánudagur, janúar 10

Umfjöllun um fyrsta hluta Æviþátta Bob Dylans

HöfundurÁ síðasta ári kom út í Bandaríkjunum og Bretlandi fyrsti hluti æviþátta bandaríska tónlistarmannsins Bob Dylan, Chronicles. Útgefandi er bókaforlagið Simon & Schuster. Útgáfan hlaut gríðarlega athygli um allan heim enda hafði verið beðið eftir henni í um þrjú ár, en þá náðust samningar við tónlistarmanninn um skrifin. Ástæður athyglinnar liggja ekki síst í þeirri staðreynd að Bob Dylan gefur sjaldan færi á ýtarlegum viðtölum við sig og auk þess hefur hann nánast aldrei rætt um einkalíf sitt á opinberum vettvangi. Það hefur þó ekki stoppað fjölda höfunda í að skrifa langar og miklar ævisögur um hann. Auk þess hefur tónlist fárra listamanna verið stúderuð jafn nákvæmlega í ræðu og riti og tónlist Bob Dylans.

Margir voru þegar búnir að fordæma Æviþættina vel fyrir útgáfu þeirra. Bob Dylan hefur ekki mikla reynslu af bókaskrifum. Um miðjan 7. áratuginn asnaðist hann til að gera samning um útgáfu bókar sem vegna mikilla samningarlegra deilna kom ekki út fyrr en árið 1971 en þá höfðu þegar margir lesið hana í ólöglegum útgáfum. Bókin sem bar nafnið Tarantula var sundurlaust safn súrrealískra prósa sem hefðu eflaust gengið vel ofan í almenning hefði hún komið út strax eftir að hún var skrifuð, árið 1966. Bókin fékk slæma dóma, enda var í raun um einskæra sölumennsku að ræða, allt sem hafði Bob Dylan á kápunni seldist vel. Einstaka eilífa-bítnikkar hrósuðu henni þó hástemmt og er hana eflaust að finna í bókahillum flestra harðkjarna Bob Dylan aðdáenda. Árið 1985 kom svo út heildarsafn allra texta listamannsins ásamt teikningum eftir hann. Í samhengi við útgáfu Æviþáttanna kom út uppfærð útgáfa af textunum á síðasta ári.

Þessi litla reynsla Bob Dylan af bókaskrifum hindraði þó ekki fjölmarga virta háskólaprófessora til að taka sig saman fyrir nokkrum árum og tilnefna skáldið til Nóbelsverðlauna í bókmenntum. Hann hlaut ekki verðlaunin, en tilnefningin ein og sér hlaut mikla athygli og vakti upp hina gömlu umræðu um það hvort að tónlistarmenn gætu í raun talist skáld vegna textagerðar sinnar. Sú umræða leiðir okkur svo hinsvegar að stóru umfjöllunarefni hinnar nýju bókar. Bob er tíðrætt um það í Æviþáttunum hversu þrálátlega hann hafi verið misskildur í gegnum tíðina. Hann segir fólk hafa gert óraunhæfar kröfur til sín, kallað hann spámann eða jafnvel messías og viljað að hann yrði einhverskonar leiðtogi hinnar nýju frjálsu kynslóðar 7. áratugarins. Þetta fór fyrir brjóstið á Bob sem segist ekki vera neitt meira en samviskusamur laga- og textahöfundur sem vilji starfa í friði. Hann afneitar skáldatitli sínum þó aldrei og ekki virðist hann vera hissa á velgegni sinni, enda hefur sjálfstraustið oftast verið á sínum stað hjá manninum sem sagði einu sinni: “I’m a poet, I know it, I hope I don’t blow it”.

Æviþættirnir í þessu fyrsta bindi eru samtals fimm og ekki er mikið samhengi á milli þeirra. Í raun má segja að samhengið sé svo lítið að það verði að teljast einhverskonar brandari að bókin heiti í raun “Chronicles” sem myndi samkvæmt flestum túlkunum vísa til þess að þættirnir ættu að vera í tímalegu samhengi. Þrír þáttanna fjalla um tímann sem að Bob Dylan varði í Minneapolis og New York sem ungur maður áður en hann varð frægur. Inn í þá sögu fléttast æskuminningar frá Minnesota og auk þess er helstu tónlistarlegu áhrifavöldum gerð nokkuð rækileg skil. Í allt má segja að þessi frásögn sé afar athyglisverð og kemur þar margt fram sem jafnvel hörðustu Bob Dylan aðdáendur vissu líklega ekki um. Hann lýsir t.d. nokkuð ýtarlega vinasambandi sínu við þjóðlagatónlistarmanninn Woddy Guthrie, en áður hafði nokkuð margt verið á huldu með eðli þess. Jafnframt eyðir hann talsverðum tíma í að kynna lesandann fyrir öllum þeim helstu bókmenntaverkum sem höfðu áhrif á hann. Nefnir hann þar m.a. Don Juan eftir skáldið og lávarðinn Byron og Furstann eftir Machiavelli. Jafnframt upplýsir hann að setningin “Je est un autre” eftir franska geðsjúklingaskáldið Rimbaud hafi líklega haft meiri áhrif á sig heldur en flest annað.

Hinir tveir þættir bókarinnar eru í raun talsvert frábrugðnir. Í öðrum þeirra lýsir hann ævi sinni árið 1970 og aðdraganda útkomu plötunnar New Morning. Það er í þessum kafla sem flest styggðaryrði hans gagnvart frægðinni er að finna. Bob Dylan hefur löngum verið í hópi þeirra dægurmenningarstjarna sem hefur andstyggð á frægð sinni og hefur eytt mikilli orku í gegnum tíðina í að berjast gegn ágengum aðdáendum og blaðamönnum. Til að vera alveg hreinskilinn verð ég að segja að mér hefur ávallt leiðst slík hugðarefni. Ekkert finnst mér jafn óspennandi og niðurdrepandi og yfirlýsingar frægs fólks um að það vilji í raun bara vera venjulegt. Á endanum eru slíkar yfirlýsingar innantómt píp þegar skoðað er hversu djarflega hið sama fólk hefur gengið fram í að öðlast frægð sína. Enda er það yfirleitt tilfellið að stjörnurnar byrja ekki að kvarta undan frægð sinni fyrr en sköpunarmátturinn er tekinn að þverra. Í tilfelli Bob Dylans er þó að finna marga áhugaverða punkta, hann virðist oft og tíðum hafa verið hundeltur af geðsjúklingum en þó oftar hreinum fávitum. Frásögn hans af áreitinu er heldur í léttari kantinum án þess þó að verða nokkurn tíma fyndin. Í reynd má skynja eilítin biturleika. Í allt leyfi ég mér að segja að þessar hugleiðingar séu ekki sérlega áhugaverðar þó margt annað í kaflanum sé vel lestrarins virði.

Þá er ógetið þess þáttar sem stærsta spurningamerkið má setja við. Áttatíu blaðsíðum bókarinnar er varið í útlistun á upptökum og aðdraganda plötunnar Oh Mercy sem kom út árið 1989. Hér er Bob Dylan staddur í New Orleans og rekur oft nokkuð nákvæmlega hvernig hann keyrir um á mótorhjóli sínu og stoppar á veitingastöðum og upplýsir stundum hvaða rétti hann pantaði sér. Auk þess er drjúgum tíma varið í að lýsa ástandinu í upptökuverinu og hversu erfiðlega gekk að taka upp einstök lög. Þrátt fyrir að Oh Mercy hafi verið vel tekið af gagnrýnendum er hún líklega ein af þeim plötum Bob Dylans sem einna síst yrði talin skyldueign enda hefur hún alls ekki selst vel. Maður fær því jafnvel á tilfinninguna að um ákveðið markaðstrikk sé að ræða, að hugmyndin sé sú að eftir lestur kaflans muni Bob-aðdáendur um víða veröld stökkva út í búð til að kaupa Oh Mercy til að fá hlutina í betra samhengi. Það eitt er víst að heldur fáir lesendur bókarinnar munu kannast við lögin sem Bob eyðir miklum tíma í að útskýra í þessum þætti. Þó verður ekki framhjá því litið að kaflinn hittir á vissan hátt í mark. Það má segja að Bob sé staddur á lágmarki ferils síns sem skapandi listamaður er við hittum hann fyrst fyrir árið 1987. Hann talar af mikilli einlægni um það hvernig hann geti ekki lengur sungið lögin sín og hvernig hann beinlínis kvíði fyrir tónleikum og æfingum. Hæfileiki hans til að semja ný lög er að sama skapi algerlega blokkeraður. Í gegnum kaflann fylgjumst við svo með honum ná sér á strik og í heildina er umfjöllunarefnið býsna áhugavert.

Mörgum þótti sem Bob Dylan hefði ekki verið nógu duglegur við að upplýsa óljósa hluti í bókinni. Á margan hátt má taka undir þetta sjónarmið. Ævi Bob Dylans er ekki einu snifsi minna dulúðleg eftir lestur bókarinnar, frekar að hitt sé heldur upp á teningnum. Þó vil ég geta tveggja atriða sem eru e.t.v. með þeim bitastæðustu í bókinni. Að mér vitandi hefur Bob Dylan aldrei viljað gefa upp um uppruna sviðnafns síns en hann hét upprunalega eins og flestir vita Robert Zimmerman. Í bókinni rekur hann hinsvegar samviskusamlega ástæður þess hvernig Robert Zimmerman varð Bob Dylan og viðurkennir í raun að velska ógæfuskáldið Dylan Thomas hafi þar spilað stóra rullu eins og flestir hafa haldið fram til þessa. Jafnframt talar hann nokkuð frjálslega um samband sitt við hina mystísku Suze Rotolo en fyrir þá sem ekki vita það, þá er hún ljóshærða stúlkan sem heldur utan um hann á plötuumslagi tímamótaverksins The Freewheelin’ Bob Dylan. Til frekari glöggvunar þá er engum vafa undirorpið að hún er megin yrkisefni laganna Don’t Look Twice It’s Allright, Boots of Spanish Leather og Ballad in Plain D sem öll eru meðal þekktari verka listamannsins.

Fram að þessu hefur þessi litla ritgerð að mestu miðast við að útlýsa efnislegt inntak Æviþáttanna sem er að mínu mati oft og tíðum vafasamt. Þó vil ég fá að hnykkja út með því að helsti galli bókarinnar, efnislega séð, er einfaldlega hversu stutt hún er. Að sjálfssögðu er aðeins um fyrsta hluta af þremur að ræða en það kemur ekki í veg fyrir að maður er skilinn eftir eins og maður hafi e.t.v. ekki lesið heila bók heldur aðeins úrdrætti. Frásagnarstíl Bobs get ég hinsvegar borið einstaklega gott vitni. Áður er á það minnst hvernig hann virðist ná að kynna sjálfan sig á einlægan hátt lausan við flest það yfirlæti sem einkennir fólk sem hefur fjörutíu ára langa reynslu af óeðlilegri athygli og já-kveðandi samstarfsmönnum. Það er ljóst að hugur hans er bljúgur og viðhorf til lífsins einstaklega heilbrigð enda grundvölluð á virðingu og miskunnsemi frá fyrstu tíð. Hann talar af fágun um samferðarmenn sína og virðist hafa einstaklega góðan skilning á stöðu sinni í heiminum, þá og nú. Í reynd tel ég að það skipti í raun minnstu máli nákvæmlega um hvað þessi bók er. Enda er það svo að við nákvæma skoðun geta allir hlutir reynst áhugaverðir og gefandi. Jafnvel þegar Bob Dylan talar um skjaldbökusúpuna sem hann fékk sér í New Orleans en hafði svo ekki lyst á þegar á hólminn var komið þá er bókin áhugaverð. Bob hefur yfir að búa kímnigáfu sem ólíkt því sem við eigum að venjast byggist ekki á kaldhæðni. Í stað þess að snúa út úr hlutunum og taka fjarstæðukennd dæmi til útskýringar tekst hann á við viðfangsefni sín með því að grandskoða þau með hógværu auga, og við slíka skoðun kemur oftar en ekki ýmislegt spaugilegt í ljós.

Æviþættir I eftir Bob Dylan er skemmtileg lesning þó hún sé langt í frá tæmandi. Jafnframt því að vera ljúf viðkynning á hinum of-stóra Bob Dylan þá er hún einnig skemmtileg söguskoðun, bæði fyrir þá sem upplifðu tímana sem um er rætt og einnig fyrir þá sem fæddir eru síðar. Óhætt er að fullyrða að flestir þeir sem hafa lesið þessa bók bíði spenntir eftir framhaldinu.