þriðjudagur, febrúar 1

The Great Pianists

HöfundurHarold Schonberg heitinn var virtur tónlistargagnrýnandi hjá New York Times og er líklega einn afar fárra sem hafa orðið sérstaklega frægir fyrir þá iðju. Hann skrifaði einnig bækur, þ.á.m. knappa ævisögu píanistans Vladimir Horowitz og 'The Great Conductors.' Hér fjallar hann þó um athygliverðustu stök í mengi þeirra einstaklinga sem hafa leikið á píanó, og ber bókin einmitt heitið 'The Great Pianists.'

Fjallað er um viðfangsefnin í tímaröð allt frá Johann Sebastian Bach. Í umfjöllun sinni styðst Schonberg við tónverk píanóleikaranna, ef til eru, og lýsingar samtíðarmanna á leik þeirra. Og í tilviki þeirra sem lifðu á 20. öldinni er að sjálfsögðu hægt að styðjast við upptökur. Höfundinum tekst út frá þessum upplýsingum að draga fram einkenni viðfangsefna sinna á sérlega ljósan og skemmtilegan hátt. Lesandinn fær líka mjög góða tilfinningu fyrir þróun píanóleiks, hvernig viðhorfin breyttust með tímanum. Þannig þótti undirrituðum sérstaklega skemmtilegt að fræðast um þá menn sem nutu þeirrar ógæfu að vera á hátindi ferilsins þegar hin klassísku áhrif voru að fjara út og hin rómantísku að taka við. Það eru menn eins og Friedrich Kalkbrenner, Carl Czerny, Johan Hummel og fleiri. Með tímanum hafa þeir nokkurn veginn fallið í gleymsku og eru það helst kollegar þeirra, píanóleikarar, sem þekkja þá nú til dags. Talsverður hluti bókarinnar er þó helgaður þeim og, að mínu mati, færð sannfærandi rök fyrir því að tónlist þeirra sé vel hlustunarinnar virði. Hún er e.t.v. ekki eins 'djúp' og mestu meistaraverk tónbókmenntanna en það er eitthvað heillandi við þau.

Af og til er minnst á tónleikaformið sem slíkt, og vakin athygli á að það hafi ekki ætíð verið eins og við þekkjum það í dag. Til dæmis tíðkaðist það mikið að spila einstaka kafla úr sónötum, en slíkt gerist ekki í dag og væri líklega illa séð af flestum. Spuni var mun algengari fyrr á öldum en hefur nánast lagst af meðal klassískra tónlistarmanna nú. Sum verk hafa bæst við tónleikadagskrár og önnur dottið út. H-moll sónatan eftir Franz Liszt þótti allt of þung og tormelt fyrir eyru tónleikagesta áður fyrr en er nú nánast skylduverkefni fyrir alla sem vilja láta taka sig alvarlega sem píanóleikara. Á hinn bóginn spilar svo til enginn f-moll píanókonsertinn eftir Adolf von Henselt en á 19. öld var hann afar vinsæll. Það er e.t.v. ástæða til að benda á það, að berserkurinn Marc-André Hamelin hefur hljóðritað þann konsert fyrir Hyperion Records og ég get staðfest að þessi konsert er bráðskemmtilegur.

Þegar maður les bókina er augljóst að af þeim píanóleikurum sem hafa skilið eftir sig hljóðritanir er hann hrifnastur af þeim sem voru starfandi á fyrri hluta 20. aldar. Það eru menn eins og Josef Hofmann, Sergei Rachmaninov og Benno Moiseiwitsch. Sá er þetta skrifar getur a.m.k. að einhverju leyti tekið undir það enda voru upptökur þá ekki á hverju strái og ekki eins auðvelt fyrir menn að herma eftir öðrum, þ.e. án þess að sjá þá í eigin persónu. Nú til dags er komin einhvers konar gaussísk dreifing á píanóleikarana þar sem áberandi flestir hljóma nokkurn veginn eins en einhverjir utar í dreifingunni skera sig úr og hafa meiri persónuleika í leik sínum. En Schonberg bendir á að í byrjun 20. aldar voru hin hárómantísku áhrif farin að dala allverulega, svo menn geta þá rétt ímyndað sér hvernig menn hafa leikið um miðja 19. öld. Sennilega myndu margir nútímamenn klóra sér í höfðinu ef þeir fengju að heyra það. Reyndar er mjög gaman að sjá að Schonberg er laus við blinda aðdáun og gagnrýnir menn hiklaust ef hann sér ástæðu til. Sem dæmi má nefna Vladimir de Pachmann sem taldi að besta leiðin til að halda fingrunum í æfingu væri að mjólka kýr.

Ef ég neyddist til að segja eitthvað neikvætt um þessa bók yrði það að hvergi er minnst einu orði á mann sem hét György Cziffra. Hann er að vísu ekki mjög þekktur og sumir sem verða snobbi að bráð líta örlítið niður á hann vegna spilamennsku sem stundum gat orðið örlítið óöguð. En að mínu mati á hann alveg heima í hópi þeirra manna sem hér er fjallað um. Hugsanlegt er að Schonberg hafi lítið þekkt til hans, enda bjó hann lengst af í Frakklandi og spilaði langmest þar og sjadan utan Evrópu.

Hver sem hefur gaman af því að hlusta á píanóleik ætti að lesa þessa bók. Hún er tiltölulega löng, eitthvað um 500 síður minnir mig. En textinn er afar aðgengilegur og skemmtilega skrifaður svo lesandinn verður lítið var við lengdina.