laugardagur, janúar 22

„Þá er ég líka skáldsaga.“ Um Skáldsögu Íslands eftir Pétur Gunnarsson

HöfundurFyrir síðustu jól kom út bókin Vélar tímans sem er þriðja bindið í Skáldsögu Íslands, bókaflokki Péturs Gunnarssonar. Af því tilefni er gluggað hér í fyrri bindin tvö, Myndina af heiminum og Leiðina til Rómar, og reynt að rýna í eiginleika þeirrar frásagnaraðferðar sem höfundurinn kýs að nota.

Nafnið Skáldsaga Íslands gefur bersýnilega til kynna að hér sé um skáldverk að ræða, en þar með er ekki öll sagan sögð. Það þarf ekki að lesa lengi í Myndinni af heiminum eða Leiðinni til Rómar til að sjá að þar eru ekkei hefðbundin skáldverk á ferð, þótt skilgreiningin „skáldsaga“ sé nokkuð almennt viðurkennd á þeim í bókabúðum og á bókasöfnum, kannski ekki síst vegna fjölskyldusögunnar af Mána sem er tvinnuð saman við frásögnina. Skáldsaga Íslands býður upp á margvíslegar vangaveltur um það hvar mörk sagnfræðinnar liggja: Hvenær hættir sagnfræði að vera sagnfræði og byrjar að vera skáldskapur? Undirritaður ætlar sér ekki þá dul að veita svör við stórum spurningum eins og þessari. En rétt eins og hægt er að skoða Skáldsögu Íslands sem skáldsögu er sömuleiðis hægt að líta á hana sem sagnfræðilegt verk. Sú staðreynd að íslenskur rithöfundur á 21. öld skuli ákveða að feta sig eftir brautum íslenskrar miðaldasögu í skáldverki hlýtur að kveikja þá hugmynd hjá lesandanum að tilgangurinn sé að efla áhuga lesenda sinna á fræðunum – að „vekja hungur“. Er Skáldsaga Íslands kannski e.k. hungurvaka fyrir nútímaíslendinginn?

Sagnfræðin flæðir óneitanlega um allan textann í Skáldsögu Íslands, höfundur vísar víða í heimildir sínar, tilgreinir ártöl og „tjáir hið almenna“ (svo notað sé orðalag úr skáldskaparfræði Aristótelesar). Mikið er um staðhæfingar sem í hugum flestra lesenda tilheyra sagnfræðiritum og kennslubókum. Sú aðferð höfundarins að beita 1. persónu frásögn í fleirtölu á stöku stað myndar líka hugrenningatengsl við kennslubækur.

En skáldskapur sem kennslutæki er alls ekki ný hugmynd. Dídaktískur skáldskapur hefur verið tíðkaður í ýmsum myndum allt frá því að Hesíódos skrifaði Störf og daga um 700 f. Kr. Það sem hins vegar skilur bókaflokk Péturs Gunnarssonar frá hefðbundnum dídaktískum verkum er það hversu órætt viðfangsefni Péturs er. Störf og dagar Hesíódosar og Atli og Arnbjörg eftir Björn Halldórsson í Sauðlauksdal eru leiðbeiningarit fyrir bændur og búalið. Markhópurinn er skýr og viðfangsefnið áþreifanlegt. Fyrirbæri eins og Íslandssaga eru hins vegar óáþreifanleg, ópraktísk, og forgengileg að því leyti að þau eru andlegt fóður. Sögukennsla í skólum hefur oft verið umdeild og áhugi nemenda á efninu jafnan takmarkaður. Það má því segja að Pétur Gunnarsson leggi höfundum sögukennslubóka lið með hinum nýja bókaflokki sínum þar sem eitt hans helsta hugðarefni virðist vera að auka áhuga lesenda sinna á því að fræðast frekar um efnið sem hann fjallar um.

Þótt orðræðan í Skáldsögu Íslands minni á kennslubækur, eins og sýnt var hér að ofan, eru aðferðirnar sem höfundur notar við að miðla sagnfræði sinni þó að mestu leyti óhefðbundnar, enda af ætt skáldskaparins. Gunnar Karlsson, einn reyndasti sögukennslubókahöfundur Íslendinga, hefur lýst muninum á sagnfræði og skáldskap með þessum orðum:
…[S]aga er, eða á samkvæmt reglunni að vera, búin til úr raunverulegum, sögulegum staðreyndum eingöngu. Af því leiðir svo að hvert nýtt fróðleiksatriði í sögu þarf að vera samrýmanlegt öllum sögulegum fróðleik sem vitaður er fyrir, eða hafna honum. Sá sem segir: Kristnitakan á Íslandi fór fram árið 999, hann er þar með að mótmæla öllum sem hafa tímasett hana árið 1000. Skáldskapur gerir þar enga slíka kröfu. Þegar Halldór Laxness kýs að kalla konu Magnúsar Sigurðssonar júnkæra í Bræðratúngu Snæfríði en ekki Þórdísi, eins og hún hét í raun og veru, þá er hann ekki að andmæla því sem segir í Sögu Íslendinga VI, s. 82. (Gunnar Karlsson: „Að læra af sögunni“)
Pétur Gunnarsson fer bil beggja í bókaflokki sínum. Líklega dettur engum í hug að atyrða hann fyrir að vera óljós, ónákvæmur, eða einhliða í vali sínu á þeim atburðum sem lýst er, hvað þá fyrir að tilgreina ekki nákvæma heimildaskrá. Myndin af heiminum og Leiðin til Rómar eru ekki fullnægjandi lýsing á öllu tímabilinu sem frásögnin spannar enda eiga þær ekki að vera það. Snorri Sturluson, Þórður kakali, Gissur Þorvaldsson og fleiri stórmenni sem tilheyra sögutímanum eru víðs fjarri. Pétur velur sjálfur fáeinar persónur og atburði þeim tengda sem hafa almennt ekki hlotið mikið pláss í sögukennslubókum, t.d. Hall Teitsson, Gissur Hallsson og Einar Hafliðason. Með þessari aðferð græðir hann bæði sem rithöfundur og sögukennari. Annars vegar eykst rýmið sem hann hefur fyrir eigin skáldskap, hið listræna frelsi er meira því eyðurnar sem þarf að skálda upp í eru fleiri. Hins vegar beinir hann sjónum lesenda að mönnum og málefnum sem þeir þekkja lítið sem ekkert. Sagan gæðir lífi fólk sem í flestra hugum hefur aðeins verið dauðir stafir á bók í áraraðir og þannig má líta á hana sem tilraun til þess að víkka hinn sagnfræðilega sjóndeildarhring lesandans.

Helsta einkennið á list og mælsku Skáldsögu Íslands er sú mikla áhersla sem lögð er á samruna fortíðar og nútíðar. Söguskoðun Péturs Gunnarssonar eins og hún birtist í bókunum einkennist umfram allt af þeirri hugmynd að öll mannkynssaga sé samfelldur tími. Raunveruleiki nútímans er á sama plani og fortíðin vegna þess að á vissan hátt er allur tími fortíð, öll skoðun hluta er í raun skoðun á fortíðinni. Leiðin frá viðfanginu um upplýsingamiðilinn til viðtakandans hlýtur að taka tíma og því skoðum við raunveruleikann alltaf eins og hann var, ekki eins og hann er. Í fortíðarlýsingunum eru hvarvetna viðlíkingar við samtímann þar sem líkindi eða mismunur aðstæðna er dreginn fram. Oftast nær er vísað í almennt ástand, daglegt líf, viðteknar hugmyndir eða skoðanir nútímamanna:
En ferðalög eru Íslendingum skeinuhætt á miðöldum, þeir eru ekki komnir með fulla aðild að sóttkveikjusambandi álfunnar og því berskjaldaðir fyrir pestum meginlandsins. (Leiðin, bls. 10)
Samkvæmt kokkabókum kirkjunnar er Hallur á Saga Class til himnaríkis. (Leiðin, bls. 25)
Einnig er vísað í einstaka atburði eða fólk úr nútímanum:
Svo líður tíminn, átta hundruð og fimmtíu ár, og það þarf að tyggja tíðindin ofan í háttvirta áheyrendur: Tvíburaturnar? Alkaída? Ússama bin hvað?
Þegar George Bush 2. hélt herhvöt sína þar sem hann boðaði til krossferðar í Afganistan var engu líkara en hann hefði stigið ofan á líkþorn í löndum múslima. (Leiðin, bls. 28–9)
Eins og sjá má er víða stutt í húmorinn. Sögumaðurinn endursegir fornar heimildir á gamansaman hátt, bæði með því að nota eigið orðalag og einnig með því að koma með beinar tilvitnanir og skýringar fyrir framan eða aftan. Stundum eru heimildirnar jafnvel gerðar hjákátlegar með gildismati sögumanns á eftir tilvitnunum í þær, t.a.m þar sem sýnt er hvernig höfundur Jóns sögu helga ber í bætifláka fyrir þau tvö hjónabönd sem Jón Ögmundsson var í. Málfarskenndar athugasemdir eins og „obb–obb–obb!“ og „Hvernig læt ég.“ hjálpa enn fremur til við að grafa undan heilagleikanum sem einkennir fornrit á borð við Jóns sögu helga. Textinn snýst hér upp í kennslu í gagnrýnum vinnubrögðum. Sögumaðurinn tekur sér stöðu við hlið lesandans og í sameiningu gera þeir góðlátlegt grín að hinum nafnlausu miðaldahöfundum. Jafnalvarlegri bókmenntategund og biskupasögum er kippt niður á annað plan sem stendur lesandanum nær. Þrátt fyrir allt fjalla biskupasögurnar um menn og eru skráðar af mönnum.
Sögumaðurinn er sjálfur lesandi og allvíða ber hann upp spurningar fyrir hönd viðmælenda sinna, rétt eins og vandvirkur höfundur sögukennslubóka ætti að gera. Alþýðlegt málfar og slettur eru svo enn einn þátturinn í aðferð höfundarins við að höfða til lesenda sinna. Þetta er hluti af samrunanum á milli nútíðar og fortíðar sem er svo víða áberandi. Orð eins og „brillera“ og „by the way“ sóma sér ekki vel í akademískum sagnfræðiritum – þau tilheyra annars konar stíl. Með því að tjá athafnir miðaldamanna á svo nútímalegu máli er fræðunum miðlað til fólks sem annars hefði líklega farið á mis við þau.

En samruninn sem Skáldsaga Íslands leitast við að skapa tekur ekki aðeins til tíma heldur líka staða. Atriði úr íslandssögu og mannkynssögu eru spiluð á víxl og er sannsögulegum atburðum úr ólíkum áttum þannig slegið saman í eitt. Dæmi um þetta er ferð Einars Hafliðasonar til Avignon. Hann hittir ítalska skáldið Petrarca sem bjó þar á 14. öld. Engar heimildir segja frá því að fundum þessara tveggja manna hafi nokkru sinni borið saman. En það er vitað að Einar Hafliðason fór til Avignon skömmu fyrir miðja 14. öld – á þeim tíma sem Petrarca bjó þar. Svona samspil milli persóna í skáldskap og sögulegra persóna er ekki með öllu óþekkt. Nefna má t.d. bandarísku ævintýrahetjuna Indiana Jones sem er aðalpersónan í ófáum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Á ferðum sínum hefur Jones hitt nokkra af þekktustu mönnum 20. aldarinnar, t.a.m. Sigmund Freud og Adolf Hitler. Kennslufræðilegt gildi aðferðarinnar er augljóst í Skáldsögu Íslands. Með henni tekst höfundi að samstilla sögu Íslands og umheimsins, og virkjar hann þannig lesandann til þess að tengja saman tvær (eða fleiri) atburðarásir. Íslandssagan heldur áfram út í mannkynssöguna.

Af framansögðu sést að Skáldsaga Íslands er ekki bara kennslubók í sögu. Hún er líka tilraun til þess að afsanna þá hugmynd að fornar bókmenntir séu alltaf óhæfari til að fullnægja kröfum nútímamannsins heldur en bókmenntir sem eru miðaðar sérstaklega við þarfir hans. Heiti bókaflokksins er í sjálfu sér ákveðin yfirlýsing um stefnu höfundarins. Líkt og miðaldahöfundar gerir hann engan greinarmun á sögu sem bókmenntaverki og sögu sem vísindagrein. Skáldskapur og raunveruleiki eru eitt og hið sama, rétt eins og fortíð og nútíð:
En eins og jafnan er um þá sem eru allir er gervöll ævi þeirra undir á sérhverju andartaki. Sem að vísu gildir um alla menn, við sem drögum andann núna erum í senn fortíð okkar og framtíð – við erum það sem er í vændum – einungis á það eftir að verða. (Leiðin, bls. 51)
Þessu verður vart betur lýst en með tilsvari bátsmannsins í Myndinni af heiminum þegar Máni heldur því fram að Njála sé skáldsaga:
Þetta er nú víst bara skáldsaga.
Skáldsaga! hváði bátsmaðurinn í þilfarstón og hallaði sér út yfir kojuna svo öfugt andlitið gein við mér, ábyggilega ekki frýnilegra en Skarphéðins í brennunni.
Þá er ég líka skáldsaga, sagði hann um leið og hann rétti sig upp og ég heyrði hann bylta sér og bölva alltof stuttu teppi. (Myndin, bls. 147)


Helstu heimildir:
Brynhildur Ingvarsdóttir. 1998. „Hverjum þjónar sagnfræðin?“ Íslenska söguþingið 28.–31. maí 1997: Ráðstefnurit II, bls. 68–74. Ritstjórar Guðmundur J. Guðmundsson og Eiríkur K. Björnsson. Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands og Sagnfræðingafélag Íslands, Reykjavík.
Gunnar Karlsson. 1992. „Að læra af sögunni.“ Að læra af sögu: Greinasafn um sögunám, bls. 95–100. Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, Reykjavík.
Pétur Gunnarsson. 2002. Leiðin til Rómar. Mál og menning, Reykjavík.
Pétur Gunnarsson. 2000. Myndin af heiminum. Mál og menning, Reykjavík.
Steblin-Kamenskij, M.I. 1981. Heimur Íslendingasagna. Helgi Haraldsson þýddi. Iðunn, Reykjavík.